Þú átt kvótann – ekki þeir

Punktar

Stjórnarskráin segir skýrt, að þjóðin eigi auðlind hafsins. Kvótalögin segja líka: „Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“ Kvótagreifar eiga því ekkert í óveiddum fiski, ekki baun. Sem handhafar aflaheimilda hafa þeir engin lögbundin atvinnuréttindi umfram þig. Fyrir hönd okkar borgaranna úthlutar ríkið kvótanum árlega. Næsta ár má úthluta honum á allt annan hátt eða hafa alveg annan og ólíkan hátt á veiðunum. Lagatæknar kvótagreifa hafa lagt hart að sér og munu leggja nótt við dag við að snúa út úr þessum sannleika.

Vont og það versnar

Punktar

Ég hef enga trú á, að Íslendingar geti komið stjórnmálunum í lag. Jafnvel þótt Fylkisflokkurinn hafi rækilega bent á muninn á skynsömum Noregi og útúrdópuðu Íslandi. Margir fávitar deyja úr elli, en það gerist hægt. Grunnur fáfræðinnar og liðshyggjurnar er breiður. Sjálfstæðisflokkurinn fer ekki niður fyrir 25% fylgi og Framsókn ekki niður fyrir 10% fylgi. Komist þeir í vanda með glæpina, kalla þeir bara Bjarta framtíð inn í meirihlutann. Ég sé ekki, að komið verði eðlilegri auðlindarentu á útgerð og stóriðju og auðlegðarskatti á ræningjana. Auðlindirnar verða áfram gagnslausar blóðmjólkaðri þjóð. Flýið, þið sem getið.

Snarbrengluð forgangsröð

Punktar

Hálf þjóðin hefur það gott og mun áfram hafa það gott, hvað sem á dynur. Hálf þjóðin á í erfiðleikum. Þetta er að vísu slumpareikningur með stóru fráviki. Í síðari flokknum eru margir, sem eiga varla til hnífs og skeiðar. Safna skuldum, fara í biðröð hjá hjálparstofnunum, neita sér um læknisþjónustu og lyf. Þarna eru gamlingjar og öryrkjar, einstæðar mæður og börn. Skrítnast er, að þarna er líka láglaunafólk, sem er á fullum launum í starfi, kennarar, sjúkraliðar og fleiri. Þessi hópur fátækra stækkar ört, en ríkisstjórnin gaukar samt tugum milljarða að kvótagreifum og öðrum auðgreifum. Forgangsröðin er snarbrengluð.

Siðmenningin er samevrópsk

Punktar

Er enn og aftur að skoða fræga þætti Kenneth Clark á BBC um siðmenningu Evrópu frá upphafi miðalda til nútímans. Þættirnir sýna skýrt, að evrópsk siðmenning var og er samevrópsk, ekki brezk eða þýzk, frönsk eða íslenzk. Í einn pakka dregur Clark saman myndir, tóna, texta, heimspeki. Höfundar siðmenningar fóru hikstalaust yfir landamæri. Þegar hitnaði undir þeim í einu landi, fóru þeir bara annað. Nýir straumar fóru kruss og þvers um álfuna. Fyrst fyrir hundrað árum fóru valdhafar að reyna að loka landamærum. Fyndið, að enn reyna útnesja- og afdalakarlar á Íslandi að loka landinu og innrækta séríslenzka siðblindu.

(Civilisation – Complete BBC Series – Kenneth Clark – amazon.co.uk)

Eitt í gær – annað í dag

Punktar

Bjarni Benediktsson segir ekki af sér frekar en Jóhanna Sigurðardóttir sagði af sér við sama fylgisleysi. Samt þarf að benda á, hvernig hann skiptir þvert um skoðun. Einn daginn stendur hann eins og Robespierre í þinginu og gargar: „Skilaðu lyklunum, Jóhanna“. Hinn daginn neitar hann að skila lyklunum. Þetta endurspeglar svo vel botnlaust ógeð siðblindunnar, sem einkennir fimmta klassa íslenzka pólitíkusa. Bjarni er svartur blettur á þjóðinni eins og raunar öll ríkisstjórn Sigmundar Davíðs. Þetta er samsafn frekar heimskra og mjög gráðugra siðblindingja. Á þeirra vegum er lygi og fals orðið að hornsteini stjórnmála.

Íslenzka Nixons-ferlið

Punktar

Ferlið varð heimsfrægt í varnarstríði Nixons forseta í Watergate. Eftir hverja uppljóstrun féll hann frá fyrri lygi og bjó til aðra vægari. Þannig hrökklaðist hann milli lyga í meira en ár, úr einni lyginni í aðra. Við horfðum á svipað ferli hjá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Það er þó flóknara, því hún skáldar alltaf nýjar sögur. Þannig eru margir pólitíkusar á Íslandi, hafa lygina að sínu helzta vopni. Verra er, að flestir embættismenn eru svona líka, ljúga út og suður. Sjáið til dæmis ríkislögreglustjóra og forstjóra landhelgisgæzlunnar. Flýja úr einni lyginni í aðra annan hvern dag. En er fyrirmunað að segja satt.

Ísland er ekki DoHop

Fjölmiðlun

Kjarninn reynir í fyrirsögn að telja þér trú um, að 82% Íslendinga hafi ferðast til útlanda árið 2014. Samt er langt í frá, að notendur DoHop samsvari þjóðinni almennt. Þetta er ekki sama mengi. Þótt notendur DoHop fari mikið til útlanda, segir það ekkert um Íslendinga almennt. Fyrirsögnin var bara þetta venjulega hugsunarleysi, sem í allt of miklum mæli einkennir fjölmiðla okkar. Ég hefði samt frekar búist við þessu í einhverjum öðrum fjölmiðli. En við þurfum alltaf að gæta okkar. Fullyrðingar í fjölmiðlum eru oft vafasamar og stundum rangar, ættaðar frá almannatenglum. Og því miður eru þær stundum viljandi falsaðar.

Jón Gnarr forseti

Punktar

Get vel hugsað mér að kjósa Jón Gnarr sem forseta Íslands. Væri fráhvarf frá langvinnri hertöku pólitísks bófa. Jón Gnarr yrði viðurkenning heimskrar þjóðar á, að hún hafði rangt fyrir sér um Ólaf Ragnar. Jón Gnarr hafnar valdastreitu og fínimannsleik. Hann lendir ekki heldur í klóm Pútíns eða Xi Jinping, semsagt feilreiknar ekki.  Hlaut yfirgnæfandi fylgi þeirra fáu, sem gátu ákveðið sig í skoðanakönnun Fréttablaðsins. Það er góðs viti. En kannski hringir drottinn allsherjar aftur í Ólaf Ragnar og biður hann bjarga þjóðinni enn einu sinni. Þá verður fjandinn laus og þjóðin fylgir frelsara sínum. Enn er langt til stefnu.

Sameinaðir bófar sækja fram

Punktar

Sameinuð eru tvö valdamestu samtökin, útvegsmenn, öðru nafni kvótagreifar, og svo vinnslugreifar. Hafa stýrt flutningi fjármagns frá sjávarútvegi og þjóð til greifa. Kvótagreifar eiga tvo stjórnmálaflokka með húð og hári og hafa ítök í öðrum flokkum alþingis, nema pírötum. Með sameiningu kvóta- og vinnslugreifa næst meiri slagkraftur til að ná fram lagabreytingum. Þær felast í að vatna út ákvæði stjórnarskrár og kvótalaga um þjóðareign á auðlindinni. Greifarnir vilja fá hefðarrétt. Munu tefla fram Sigurði Líndal orðhenglafræðingi, sem vill ekki skilja orðið Þjóðareign. Nú má þjóðin vara sig, sameinaðir bófar sækja fram.

Engum er að treysta

Fjölmiðlun, Punktar

Allt frá tíma Kosovo-stríðsins trúi ég engu, sem Nató fullyrðir. Því vantreysti ég sögum þess um brot rússneskra herflugvéla á lofthelgi landa í Austur-Evrópu. Pútín er að vísu til alls vís, en ég þarf traustari heimild en Nató. Mikilvægt er þó að vara sig á Pútín. Hann er geðbilaður heimsvaldasinni. Það þýðir líka, að auðvelt er að ljúga upp á hann. Og ég veit ekki um neinn, sem lýgur jafn grimmt og Nató. Raunar er vont, að ekki skuli vera til neinn aðili, sem hægt er að treysta. Við þekkjum það vonda ástand vel á Íslandi. Hér ljúga nærri allir pólitíkusar án þess að svitna á efri vör og embættismennirnir engu síður.

Ítrekað að snapa fæting

Punktar

Vegagerðin er orðin undarleg stofnun undir stjórn Hreins Haraldssonar. Getur ekki haldið við helztu þjóðvegum landsins, sem eru að grotna niður. Gefur sér samt tíma og fé til að hanna þjóðveg yfir lítt snortin víðerni Sprengisands. Hyggst kasta milljörðum í upphleyptan veg um sandinn, jafnvel malbikaðan. Samt veit vegamálastjóri, að þetta er algerri andstöðu við vilja mikils fjölda. Hann kastar ítrekað blautri tusku í andlit okkar til þess eins að koma illu af stað. Hefur áður komið fram í ofstæki hans út af vegum um Gálgahraun og um Teigaskóg. Það er löstur á embættismanni að vera ítrekað að snapa fæting við almenning.

Ofstækismaður rassskelltur

Punktar

Gott var, að Benedikt Erlingsson rassskellti Illuga Gunnarsson menningarbana á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Innantómir ofstækismenn í einkavinavæðingu halda sig geta mætt í fínimannsboð í útlandinu út á að vera ráðherrar í landi hinna heimsku kjósenda. Geti jafnvel fengið mállausan kortérsformann Framsóknar kosinn sem forseta Norðurlandaráðs án þess að það kosti neitt. Bara af því að röðin var komin að landi hinna heimsku. Íslenzkir pólitíkusar hafa ekki riðið feitum hesti frá útlandinu. Þar flissa menn enn út af Davíð Oddssyni, sem hélt sig vera séní. Hann hefur síðan hatað útlandið eins og sannur framsóknarmaður.

18. Egyptaland – Aswan – Abu Simbel

Borgarrölt
Abu Simbel, Aswan 2

Risastyttur af Ramesses II framan við Abu Simbel

Abu Simbel

Hof Ramsesses II og Nefertari eru syðst í Egyptalandi, 230 km fyrir sunnan Aswan. Þau voru upphaflega höggvin í klett á 13. öld f.Kr. Þegar Aswan-stíflan var reist, voru hofin færð á þann stað, sem þau eru nú. Klettarnir voru sagaðir sundur, fluttir á nýja staðinn og settir þar saman.

Ramesses II lét reisa þessi hof til að frægja orrustu hans við Hittíta í Kadesh, sem raunar lauk ekki með sigri hans, heldur hálfgerðum ósigri eða pattstöðu.

Framan við hofin eru fjórar heimsfrægar risastyttur af Ramesses II, 20 metra háar. Framan við hof Nefertari eru líka fjórar styttur, 10 metra háar, af Ramesses og Nefertari.

Bak við stytturnar eru hofin höggvin í berg.

Abu Simbel, Aswan

Inni í Abu Simbel

Við hverfum aftur til Aswan og tökum flugið til baka til Cairó. Notalegt er að taka fljótabát þessa leið niður Níl og teyga í sig landslagið beggja vegna fljótsins, sem gefur landinu líf.

Abu Simbel, Aswan 3

Forhlið Abu Simbel hofsins

17. Egyptaland – Aswan – Philae

Borgarrölt
Philae, Aswan 2

Philae hofið

Philae

Philae Aswan

Forhlað Philae hofsins

Þetta fræga musterissvæði á eyju í Níl var fært til, þegar Aswan stíflan var reist, og flutt til eyjarinnar Agilkia í nágrenninu. Þeim flutningi lauk 1970.

Musterið var helgað guðinum Osiris og varð mjög vinsælt upp úr 322 f.Kr., þegar Grikkir tóku völd í landinu. Í kjölfarið varð mikil uppbygging, svo að núverandi minjar eru einkum frá þessu gríska skeiði.

Næstu skref

16. Egyptaland – Aswan

Borgarrölt

 

Old Cataract hótel Aswan 2

Horft frá Old Cataract Hotel yfir Níl. Grafhýsi Aga Khan er efst handan árinnar

Old Cataract hótel, Aswan 4

Horft frá Old Cataract Hotel yfir Níl

 

 

 

 

 

 

 

Aswan

Við tökum flug frá Luxor til Aswan.

Aswan er einkum þekkt fyrir stífluna miklu í Níl, reist 1960-1970 að tilhlutan Nassers forseta. Hún framleiðir rafmagn fyrir Egyptaland og jafnar flóðin í Níl, svo að þau margfalda ræktun án þess að skapa hættu á ofurflóði.

Í nágrenni stíflunnar eru minnisvarðar úr fortíðinni. Við heimsækjum Philae og síðan eitt frægasta hof Egyptalands, Abu Simbel.

Í borginni Aswan er hótelið Old Cataract Hotel á bökkum Nílar, frægt úr sögu eftir Agötu Christie. Andspænis hótelinu handan fljótsins er grafhýsi Aga Khan. Þangað kemur flugvél daglega frá Amsterdam með nýjar blómaskreytingar.

Næstu skref