Óðinn og Mammon

Punktar

Ég er ekki andvígur trú, allra sízt kristinni. Hún er partur af fortíðinni, að vísu lítill partur, en samt mikilvægur. Hef aldrei fundið til þeirrar óbeitar, sem einkennir marga trúleysingja. Fremur mótast afstaða mín af efa. Af efa um allt, sem reglumeistarar þjóða hafa fyrir satt. Veit satt að segja ekki, hvort guð sé til. Segi bara pass við guðshugmyndinni. Þannig guðleysi kallast frekar agnosticismi, heldur en atheismi. Jól mín eru frekar veraldleg en kristin. Þau felast í gjöfum og áti, gætu flokkast undir dýrkun Óðins eða Mammons. Þannig held ég að séu jól margra, sem þykjast kristnir. Mest fagna ég hækkandi sól.

Risaeðlur paradísar

Punktar

Eitt af því fáa, sem skilur mann frá dýri, er skilningur góðs og ills. Adam og Eva hröktust úr paradís dýranna, því þau átu epli af skilningstré góðs og ills. Samt skilja margir ekki muninn. Siðblindir vaða fram í tillitsleysi í mannlegum samskiptum. Alveg eins og risaeðlurnar gerðu, er þær voru í okkar stöðu. Raunar stunda siðblindingjar ekki mannleg samskipti. Reyna að drottna, stela, ljúga, svíkja skatt, stunda umboðssvik og kennitöluflakk. Algengust er siðblindan í pólitík. Menn fara í pólitík til að drottna. Gerast aðstoðarmenn ráðherra til að ljúga. Á Íslandi eru víða leifar af siðblindu dýri paradísar.
Gleðileg jól.

Sólin og hvítskeggur

Punktar

Eingyðistrú á langa og skrykkjótta sögu. Fyrir rúmum þrjúþúsund og þrjúhundruð árum varð trú á sólina um skeið að ríkistrú í Egyptalandi. Sólartrú var víða í rómönsku Ameríku, þegar Spánverjar komu þangað. Trú á hvítskegg hófst á tíma biblíunnar og einkennir gyðingdóm, íslam og kristni. Frá þeim tíma hefur þess háttar trú breiðst út um allan heim. Sumir líta á guð sem eins konar reginafl í umheiminum frekar en hvítskeggjaðan karl. Sólin er nærtækur guð í sólkerfinu, en dugar skammt fyrir alheiminn. Tilgangslaust er að búa til snertiflöt milli vísinda og trúar. Vísindi byggjast á athugunum, tilraunum og tilgátum en trú er einfaldlega trú.

Vonbrigði með veltu

Punktar

Samtök verzlunar og þjónustu segja jólaverzlunina hafa staðið í stað milli ára. Er í samræmi við útreikninga Hagstofunnar á hagvexti ársins, það er að segja viðskiptaveltu. Hann reyndist ekki vera neinn, öfugt við spár seðlabanka og ríkisstjórnar, sem gerðu ráð fyrir miklum hagvexti. Fýldur Már seðlabankastjóri kvartaði yfir hagstofunni og sagði útreikningana koma sér á óvart. En nú hefur jólaverzlunin staðfest hrakspána. Eins og ég hef áður sagt stafar skortur á kaupgleði af ótta fólks við framtíðina. Menn reikna með frekari árásum þjóna auðgreifanna á lífskjör fólks í framhaldi af fjárlögum firrtra silfurskeiðunga.

Sjálfhverfa sögumanns

Ferðir, Fjölmiðlun

Vænti þess, að sjónvarpsþættir um fjarlæga staði í nútíð eða fortíð snúist um þá, en ekki um sjálfhverfan þáttarstjórnanda. Í þætti um Róm vil ég sjá Róm og Rómverja, en ekki Michael Palin eða Ian Smith. Þegar ríkissjónvarpið gerir út þáttaröð um Færeyjar, vænti ég Færeyja og Færeyinga. Hef hins vegar engan áhuga á Andra. Vil ekki, að hann fylli út myndflötinn. Vil ekki sjá Andra á kendiríi. Vil ekki sjá hann keyra bíl. Vil ekki heyra fimmaurabrandara hans á ensku í Færeyjum. Fráleitt er, að dýrir þættir snúist um sjálfhverfu fáfróðs sögumanns. Má þó sjást í mynd, ef hann er gamlingi, heitir Attenborough og veit bara allt.

Skjól útigangshrossa

Punktar

Útigangshross þurfa að hafa aðgang að skjóli. Þarf ekki að vera hús, því hross vilja ekki vera inni. Sé gefið inni, fara þau inn til að éta, en fara svo út um leið og þau eru södd, hvernig sem viðrar. Víða veitir landslag skjól eða gaflar útihúsa. Að öðrum kosti eru reistir veggir, oftast í formi Y, þar sem hross skýla sér fyrir hvaða vindátt sem er. Víða á láglendi hafa útigangshross engan aðgang að skjóli, til dæmis í þurrkuðum mýrum  á Suðurlandi. Hörmulegt slys á Álftanesi gefur tilefni til átaks í skjólveggjum fyrir útigangshross. Enginn vandi er að láta útigangshross koma glansandi betur undan vetri en hross á húsi.

Rústuðu fornminjum

Punktar

Fornleifafræðingar bera ábyrgð á fornminjum, sem þeir grafa upp og ofurselja náttúruöflunum. Sé ekki hægt að ganga sómasamlega frá minjum, á að láta þær í friði til betri tíma. Á Gufuskálum á Snæfellsnesi voru nýlega opnaðar minjar í jörð frá fyrri öldum. Þær voru síðan skildar eftir í reiðileysi og urðu fyrir ágangi sjávar. Betra hefði verið að láta þær liggja óhreyfðar. Þegar leyfður er uppgröftur, ætti að skylda fornleifafræðinga til að undirrita loforð um verndun minjanna. Mér sýnist á Gufuskálum hafa verið unnið meira af kappi en forsjá. Látum þetta verða okkur víti til varnaðar. Ekki hleypa æðikollum í uppgröft.

Jól stéttaskiptingar

Punktar

Stóra pólitíkin snýst um aukna stéttaskiptingu og aukið bil milli stétta, aukna fátækt. Sjálfsfróun forsætis og fjármála megnar ekki að slá ryki í augu fólks. Við sjáum venjulegt láglaunafólk fara á sósíalinn eða fá aðstoð samtaka, sem sinna velferð. Við sjáum þá óheppnu, er slösuðust, lentu í örorku, langvinnum sjúkdómum, svo og einstæðinga og barnafólk. Alla velferð slíkra sker ríkið niður til að geta gefið auðgreifum tugi milljarða á ári. Við búum við hættulega ríkisstjórn og fáráðan stjórnarmeirihluta, sem vilja ekki sjá veruleikann. Þess í stað láta afleitu bófaflokkarnir foringjana ljúga Undralandi upp á ástandið.

Ríkiskontórar á Króknum

Punktar

Byggðastofnun hefur reiknað skiptingu ríkisstarfsmanna á kjördæmi. Þar kemur í ljós, að Reykjavík einokar alls ekki slík störf. Miklu frekar er það kjördæmið síkvartandi, Norðurland vestra, sem hefur of marga ríkisstarfsmenn. Þar eru 427 störf á vegum ríkisins, en ættu að vera 385, ef jafnræðis væri gætt. Þess vegna er engin ástæða til að flytja Landhelgisgæzluna og Rarik til Skagafjarðar. Miklu nær væri að flytja Byggðastofnun frá Króknum til Reykjavíkur til að ná jafnvægi í byggð ríkisstarfsmanna. Stefán Vagn Stefánsson framsóknarfrekja og  Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri ættu því að finna sér annað umkvörtunarefni.

Hundheiðin jól

Punktar

Á jólum heilsuðu ásatrúarmenn hækkandi sól. Nafnið er frá þeim tíma. Enn í dag eru jólin að mestu heiðin. Að vísu hefur Mammon tekið við af Óðni sem verndari jólanna. Kaupmenn gerðu hátíðina að keppni í sukki. Þannig eru jólin hundheiðin eins og þau voru fyrir innreið kristni. Fátt er kristið við jól, helzt sálmar og helgileikir. Jólasveinarnir eru hundheiðnir eins og jólatréð, þótt þeir hafi komið sér upp rauðri húfu. Grýla og Leppalúði hafa vinningin yfir jesúbarnið í jötunni. Kristnir reyndu að smeygja sér inn í þjóðarsálina með því að yfirtaka jólin. Þau urðu hér samt aldrei neitt „Christ-mass“. Eru enn og verða „jól“.

Góð Amazon viðskipti

Punktar

Venjulega dettur mér skyndilega í hug að lesa bók hér og nú. Sé það erlend bók, panta ég stafræna útgáfu á Amazon. Tekur hálfa mínútu. Sé hún innlend, er hún oftast ekki til stafræn. Útgefendur eru hér tregir til nýrra viðskiptahátta. En ég get farið niður í bæ og keypt bókina. Tekur kortér, sem er alveg þolanlegt. Erlendis og utanbæjar væri málið flóknara, því þar eru bókabúðir ekki á hverju strái. Kaupi líka sjónvarpsþætti á Amazon. Mér finnst verð á Amazon þolanlegt. Tel hins vegar höfunda eiga að fá hærri prósentu. Íslenzkir bókaútgefendur eru nízkir og bulla um ofurkostnað við útgáfu rafbóka. Sá kostnaður er sáralítill.

Uggur í fólki

Punktar

Útsölur eru hafnar í jólaösinni. Margir kaupmenn sitja uppi með alltof dýran lager, því fólk kaupir ekki. Er hætt að taka þátt í „hagvextinum“. Ýmist sparar það peningana eða á ekki peningana. Svokallaður hagvöxtur hefur enginn verið á árinu, þvert ofan í fullyrðingar ríkisstjórnar og seðlabanka. Enda mælir hann bara viðskiptaveltu, sem er undir væntingum. Of margir vita, að góðærið er bara venjuleg ímyndun forsætisráðherra. Fólk vill ekki sitja auralaust undir næstu hremmingum. Nú eru læknar að segja upp á Landspítalanum og engir nýir koma í staðinn. Það er þungur uggur í fólki og hann kemur niður á jólakaupmönnum.

Þrjózkur braskari

Punktar

Eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarinnar var að skipa fjárglæfrakonuna Höllu Sigrúnu Hjartardóttur formann Fjármálaeftirlitsins. Var hún þó í kræfu braski fyrir og eftir skipunina. Braskið komst í hámæli og Halla lofaði að segja af sér formennsku á stjórnarfundi 3. desember. Notaði það til að neita að mæta á fund efnahags- og viðskiptanefndar alþingis til að svara spurningum. Svo kom 3. desember og Halla stóð ekki við loforðið. Þóttist vera upptekin allan mánuðinn. Enn hefur hún ekki verið rekin og stjórnar enn eftirlitinu með fjármálum banka. Þar hæfir vissulega skel kjafti, enda gerir ríkisstjórnin ekkert í máli hennar.

Kvalræði Evrópu

Punktar

Hataða Evrópusambandið kvelur okkur. Neyðir okkur til að taka upp ljósaperur, sem nota tæpan helming rafmagnsins, sem við notuðum áður Neyðir okkur til að fá skaðabætur, þegar áætlunarflugi seinkar. Neyðir okkur til að nota kæliskápa, sem nota fjórðung rafmagnsins, sem við notuðum áður. Neyðir okkur til að hætta notkun ýmissa stórhættulegra eiturefna, sem okkur þótti svo vænt um. Neyðir snyrtivörugerðir til að hætta notkun eiturefna. Bannar bændum að nota vinsælt eitur af ýmsu tagi. Svo ekki sé talað um ryksugurnar og svo framvegis. Þetta vonda Evrópusamband abbast upp á okkar fullvalda þjóð. Sjá grein í GUARDIAN.

Hlutverkaruglingur

Punktar

Ýmis ruglingur verður í hlutverkum, þegar gerræði leysir verkferla af hólmi. Lögreglan tekur við af alþingi í setningu laga. Alþingi ákveður, hver lög skuli vera, en löggan tekur ekkert mark á því. Hún gengur hart fram í sumum lögum og sinnir öðrum ekki. Húseigandi getur til dæmis framið húsbrot á leigjanda sínum, rekið starfsfólk og haldið eftir eigum þess og leigjandans, þar á meðal tekjum af viðskiptum hans. Samanber Caruso. Fangelsismálastjóri tekur við dómsvaldinu í uppkvaðningu dóma. Hann ákveður, hversu mikið er slegið af lengd fangelsunar, hvaða dómar séu notaðir og hverja hann skuli úrskurða upp á nýtt. Skrítin þjóð.