Hagspekin hrynur

Punktar

Smám saman molnar brauðmolahagspekin. Þekktir fræðingar ganga af trúnni, einnig fjölþjóðastofnanir á sviði hagstjórnar. Vara við misrétti og volæði. Fátækir við Miðjarðarhafið eru að bylta spilltum pólitíkusum stefnunnar úr sessi. Núna sést, að brauðmolahagspekin eflir stéttaskiptingu, eykur fátækt, sundrar heilum þjóðum. Græðgi hinna allra ríkustu er óseðjandi og felur í sér sjálfseyðingu. Meðan stefnan siglir þöndum seglum á heimsku Íslandi Framsóknar og Sjálfstæðis, er hún að fjara út um alla Evrópu. Evrópusambandið daðrar þó enn við auðhringa gegn almenningi, en var rasskellt í Grikklandi, vonandi senn á Spáni og víðar.

Pólitík fátækra

Punktar

Krataflokkar færðust yfir í miðlægan yfirstéttar Blairisma. Verkalýðsvinstrið í Frakklandi og Bretlandi flutti sig þá í hægriöfga National Front og UKIP. Var svo snúið frá hægri til ný-vinstri í Grikklandi og á Spáni. Nýir flokkar reistu merki fátækra í stað kratanna í PASOK og PSOE. Svipað gerist hér. Samfylkingin varð Blairisma að bráð og Alþýðusambandið útibú atvinnurekenda. Vinstri grænir svara helzt þörfum græningja, síður verkafólks. Hér vantar enn flokk fátækra, eins og Syriza í Grikklandi og Podemos á Spáni. Vantar byltingu gegn gjaldþrota brauðmolaspeki. Græðgisliðið sleppir engri klófestu, því verður bara bylt.

Trúgjarnir pamfílar

Punktar

Skondið, að hver pamfíllinn á fætur öðrum skuli hafa trúað grískum skuldurum eins og nýju neti. Grikkir mjólkuðu Evrópusambandið, Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og fræga banka í Þýzkalandi og einkum þó í Frakklandi. Allar tölur, sem Grikkir sýndu, voru skáldskapur frá grunni. Gátu þessir hálærðu pamfílar þó sagt sér, að töluverða aðgæzlu þyrfti í viðskiptum við frægustu viðskiptarefi heimsins. En þeir létu fallerast hver um annan þveran. Þeir geta núna ekki ætlast til, að grískir skattgreiðendur borgi fyrir fávísi evrópskra pamfíla. Bankar, sjóðir og samtök, sem fjármögnuðu gríska ruglið, verða að sætta sig við horfinn hlut.

Tröllatrú á banksterum

Punktar

Nýjasta hringferðin á gömlum kenningum Víglundar Þorsteinssonar sýnir ekki fram á nein lögbrot stjórnvalda. Hins vegar voru siðferðileg mistök að gefa bönkum sjálfdæmi um meðferð skuldunauta. Enda kom í ljós, að bankarnir töpuðu öllum dómsmálum, sem skuldunautar sóttu gegn þeim. Þannig náðu lög og réttur fram að ganga með eftirgangsmunum. Ríkisstjórn Jóhönnu átti að skipta út banksterum og fá siðað fólk til að stjórna bönkunum. Einhverra hluta vegna hafa pólitíkusar tröllatrú á rekstrargetu siðblindingja. Sama er að segja um verkalýðsrekendur, sem ráða bófa í lífeyrissjóðina. Það er út af fyrir sig kjörið rannsóknarefni.

Þrauthannað matarhús

Veitingar

Apótek er enn eitt þrauthannað veitingahús í miðbænum (Austurstræti 16) til að þjóna túristum að kvöldi og í hádegi kontóristum, er fá sér hamborgara í flottu umhverfi. Móttakan horfði í aðgerðalausri þolinmæði á mig reyna að finna fatahengi. Fékk kvöldseðla á borð, þótt hádegisseðlar hefði hentað betur í hádeginu. Salurinn er flott hannaður, þótt ég sakni hinna frábæru innréttinga gamla tímans, sem hefðu sómt sér vel á barsvæðinu. Þjónustan góð og verðlag með sóma. Blálanga var fullkomlega elduð, studd byggi og spínati. Andarlæri var rétt eldað, stutt maltsósu og sykurbrenndum eplum á vöfflu. Faglegt og gott.

Hógvær launakrafa

Punktar

Krafan um 300.000 króna mánaðarlaun er einkennilega hógvær. Hún felur í sér, að fólk fær 225.000 krónur í vasann eftir skatta og skyldur. Það dugar ekki fyrir framfærslu, munar alveg húsnæðiskostnaði. Í gamla daga átti láglaunafólk fyrir mat og húsnæði, ef það var í fullri vinnu. Nú á láglaunafólk ekki fyrir mat og húsnæði, þótt það sé í fullri vinnu. Og það á ekki fyrir mat og húsnæði, þótt kröfur verkalýðsfélaga nái fram að ganga. Samtök atvinnurekenda ættu að fagna þessum hógværu kröfum í stað þess að hafa allt á hornum sér. Forstjórar, sem margfölduðu eigin tekjur, geta ekki staðið gegn þessari hækkun lægstu launa.

Móðgelsi er ekki val

Fjölmiðlun

Um skeið gátu menn valið að móðgast yfir miðluðu efni hér á landi, fengu dæmdar bætur fyrir meiðyrði. Slíkt stríðir samt gegn tjáningarfrelsi. Sjáið Charlie Hebdo. Tímaritið birti teikningar og múslimar völdu að móðgast. Aðrir söfnuðir velja að móðgast ekki, þótt þeir sæti sams konar háði. Ekki getur verið nein sjálftekt móðgaðra, þannig að sumir velji að móðgast sí og æ. Róbert Wessmann rak fáránlegt mál af þessu tagi og tapaði í héraði. Vonandi er það merki um, að íslenzkir dómstólar hætti að taka mark á væli um móðgelsi. Það er grunnmúraður hluti lýðræðis, að pamfílar sæti því að geta ekki valið, hvort þeir móðgast.

Þeir borga aldrei

Punktar

Grikkir eiga fátt gott skilið. Allt þjóðarbókhaldið var skáldað frá A til Ö í hagstofunni. Menn nenntu ekki að vinna og fóru 55 ára á eftirlaun. Reikningur fyrir sukkinu var sendur þjóðinni allri og hún getur ekki borgað. Það er löngu ljóst. Og nú neita Grikkir að reyna að borga. Lánardrottnar verða þá að líta á mannlega þáttinn. Það geta þeir ekki, banksterar sjá aldrei fólk. Það stríðir gegn góðu fjármálaviti að gefa eftir skuldir. En kemur nokkuð annað til greina í dæmi Grikklands? Á Íslandi hafa skuldir allra flottustu bófa landsins verið afskrifaðar. Lánardrottnar og skattgreiðendur blæða. Það er bara svoleiðis.

Davos-bandalagið molnar

Punktar

Fólk er að byrja að sjá ljósið víða í Evrópu. Grikkir gáfust upp á þjóðníðingum og byrja í dag með hreint borð. Veltu um borðum víxlaranna, ráku út þjóna bófa og bankstera. Grikkir neita einfaldlega að borga. Voru ekki svo firrtir að fela ígildi Framsóknar að framkvæma frelsun sína. Þeir fengu nýtt fólk, en ekkert Kögunarbarn. Spánverjar eru að undirbúa svipaða valdatöku almennings síðar á árinu. Í kjölfar þessa verður vonandi strikuð út brauðmola-hagspekin, sem hefur tröllriðið vestrænum ríkjum. Stöðvaður dauðadans Evrópusambandsins að Davos-bandalagi við alþjóðlegra auðhringa. Kaflaskil urðu í gær í Evrópusögunni.

Það sýður á byltingunni

Punktar

Syriza, vinstri flokkur Alexis Tsipras, fékk helming þingsæta í þingkosningunum í gær. Vill semja við Evrópu um helmings lækkun ríkisskulda Grikklands. Sigri Podemos, vinstri flokkur Pablo Iglesias, í þingkosningum Spánar síðar á árinu, hefur orðið bylting í evrópskri pólitík. Fátæklingar við Miðjarðarhafið neita að borga skuldir spilltra pólitíkusa og fjárglæframanna. Svipað gerðist raunar á Íslandi, þegar kjósendur neituðu að ábyrgjast Icesave. Munurinn er þó sá, að Íslendingar voru svo firrtir að fela Framsókn að framkvæma frelsun sína. Sitja því uppi með fávísa bófa, sem þjónusta bankstera og greifa. Grikkir vita betur.

Google ræðst á Kristin

Fjölmiðlun

Don´t be evil var lengi kjörorð Google. Fyrirtækið er á flótta undan kjörorði sínu. Upplýsti í dag, að það hafi fyrir þremur árum orðið við kröfu bandarískra yfirvalda um að afhenda öll samskipti Kristins Hrafnssonar á netinu. Afhending nær til skjala þriggja blaðamanna Wikileaks, Kristins, Sarah Harrison og Joseph Farrel. Þau þrjú eru talin ógna öryggi Bandaríkjanna vegna vinnu sinnar fyrir Wikileaks. Enn eitt dæmið um breytingu Bandaríkjanna í alræðisríki að hætti skáldsögunnar 1984 eftir George Orwell. Fengu líka kortafyrirtæki til að stinga undan greiðslum til Wikileaks. Mál gegn Valitor vegna þess er nú rekið hér.

KJARNINN

U-beygja siðblindingjans

Punktar

Hanna Birna játaði loks lýsingu lögreglustjóra á samskiptum þeirra og bað hann afsökunar á framferði sínu. Það gerði hún til að milda niðurstöðu umboðsmanns alþingis. Degi síðar sagðist hún alls ekkert hafa pönkast á lögreglustjóra og enn síður hafa viðurkennt það. Alger siðblinda varaformanns Sjálfstæðisflokks stingur í augu. Fólk hélt, að málinu væri lokið, en svo er aldeilis ekki. Það endar með, að tuddinn ryðst inn á alþingi og í ríkisstjórn. Siðferði pólitíkusa þessa flokks er í sama frostmarki og þeirra tugþúsunda kjósenda, sem enn styðja sjálfa orsök móðuharðinda nútímans. Ógæfuliðið rótast tryllt í siðblindu sinni.

Hagvöxtur er fúsk

Punktar

Kíkjum á ýmis atriði, sem auka „hagvöxt“. Eyðsla, sukk og sóun eykur hagvöxt. Slys og glæpir auka hagvöxt. Jarðskjálftar, eldgos og aðrar hamfarir auka hagvöxt. Umferðarteppur, drykkjuskapur og fjárhættuspil auka hagvöxt. Af þessu má sjá, hversu fáránlegt er að nota „hagvöxt“ sem mælikvarða á bættan efnahag. Ef fólk hjálpar hvert öðru með skiptivinnu, dregur það úr hagvexti. Á ótal sviðum er meira varið í að minnka hagvöxt eða hætta honum heldur en að auka hann. Þetta er skýrasta dæmið um, að hagfræði nútímans er að mestu glórulaust fúsk. Meðan svona hugtök eru hornsteinar hagfræðinnar er hún einskis virði.

Öldruð og alkunn frétt

Punktar

Fylgdist vel með pólitík, þegar eignir gömlu bankanna voru seldar nýjum bönkum. Þá kom skýrt fram, að þær voru seldar með miklum afföllum. Gylfi Magnússon og Steingrímur J. Sigfússon lýstu því ítrekað. Ennfremur, að misjafnt mundi koma út úr þessum eignum. Sumar mundu skila sér að fullu, aðrar ekki og enn aðrar með afskriftum, miklum eða litlum. Deila má um, hversu réttlátt eða skynsamt þetta var, en aðferðin var aldrei leyndó. Sá þáttur í „uppljóstrun“ Víglundar Þorsteinssonar er því gömul frétt. Vonlítið er að sýna fram á, að einhver hafi brotið lög með þessari aðferð. Enginn var þá kærður eða hefur enn verið kærður.

Farand-sveitarfélög

Punktar

Einu sinni voru farandverkamenn. Áttu ekkert og flæktust milli útgerðarstaða og virkjana. Nú eru komin til sögunnar farand-sveitarfélög. Djúpivogur flyzt til Grindavíkur og Grímsey flyzt kannski til barnavina. Örfáir kvótagreifar eiga afkomu fólks við alla sjávarsíðuna. Forstjóri Samherja sendir skipverja til að hleypa upp útifundi fátæklinga við alþingishúsið. Rekur áhöfnina, ef hún stendur sig ekki í óeirðunum. Það er Ísland í dag, lénsveldi kvótagreifa, sem soga til sín allan auð. Smám saman verða krummaskuðin lögð niður og flutt í blokkir fyrir sunnan. Þetta hef ég lengi vitað, en þorpsbúarnir fatta fátt.