Þrauthannað matarhús

Veitingar

Apótek er enn eitt þrauthannað veitingahús í miðbænum (Austurstræti 16) til að þjóna túristum að kvöldi og í hádegi kontóristum, er fá sér hamborgara í flottu umhverfi. Móttakan horfði í aðgerðalausri þolinmæði á mig reyna að finna fatahengi. Fékk kvöldseðla á borð, þótt hádegisseðlar hefði hentað betur í hádeginu. Salurinn er flott hannaður, þótt ég sakni hinna frábæru innréttinga gamla tímans, sem hefðu sómt sér vel á barsvæðinu. Þjónustan góð og verðlag með sóma. Blálanga var fullkomlega elduð, studd byggi og spínati. Andarlæri var rétt eldað, stutt maltsósu og sykurbrenndum eplum á vöfflu. Faglegt og gott.