Pressan er óvinurinn

Punktar

Bandaríska hernámsstjórnin í Írak hefur loksins fundið óvininn. Það er hvorki Saddam Hussein, sem hefur ekki fundist enn í Írak, né Osama bin Laden, sem er annað hvort í Pakistan eða Afganistan. Óvinurinn er hinn hefðbundna frjálsa pressa, sem segir fréttir af öngþveiti hernámsstjórnarinnar. Bremer hernámsstjóri, Powell utanríkisráðherra og Rumsfeld stríðsmálaráðherra eru sammála um þetta. Pamela Hess segir í UPI frá þessum gamla og nýja óvini valdhafanna. Skemmtileg er lýsing hennar á fílabeinsturni Bremers.

Höfin súrna

Punktar

Fræðimenn hafa komizt að raun um, að úthafið er að súrna vegna útblásturs koltvísýrings. Súrnunin er mest við yfirborð hafsins, þar sem lífríki þess er öflugast. Richard Black segir frá því í BBC, að ekki sé ljóst, hver langtímaáhrifin verði. Gera megi ráð fyrir, að þau verði ekki góð, ef mannkynið nær ekki tökum á gróðurhúsalofttegundum.

Þrisvar svartnætti

Punktar

Rafmagnið fór af miklum hluta Ítalíu í nótt, þar á meðal í Róm. 23. september fór rafmagnið af Skáni í Svíþjóð og Sjálandi í Danmörku, þar á meðal í Kaupmannahöfn. 14. ágúst fór rafmagnið af stórum svæðum á austurströnd Bandaríkjanna, þar á meðal í New York, í miðríkjum Bandaríkjanna, þar á meðal í Cleveland og Detroit, og í Kanada, þar á meðal í Toronto og Ottawa. Skýringar hafa verið af skornum skammti og almenns eðlis í öllum tilvikum. Hvert rafmagnsleysi út af fyrir sig getur hafa stafað af tilviljun eða vanhæfni. En hvað um þrjú langvinn tilvik í röð?

Bush er í einangrun

Punktar

New York Times segir í leiðara, að höndlarar George W. Bush Bandaríkjaforseta sjái um, að hann verði ekki var við andstæðar skoðanir. Til dæmis megi menn með mótmælaspjöld ekki vera nær leið hans en 700 metrar, svo að hann geti ekki lesið spjöldin. Blaðið segir, að hann lesi ekki, heyri ekki og sjái ekki neina fjölmiðla. Ráðgjafarnir Condoleezza Rice og Andrew Card segi honum hvað sé í fréttum. Blaðið segir alvarlegt, að forsetinn skuli vera fangelsaður í fílabeinsturni.

Náttúruhamfarir

Punktar

Andrew C. Revkin segir í New York Times, að hrun 3000 ára gamallar og 350 ferkílómetra stórrar ísþekju fyrir norðan Kanada á síðustu tveimur árum sé gott dæmi um snöggar breytingar eða hamfarir, sem geti fylgt hækkun hitastigs vegna útblásturs gróðurhúsalofttegunda. Hann vitnar í grein í Geophysical Research Letters, þar sem segir, að þekjan hafi byrjað að minnka fyrir alvöru á sjöunda áratug síðustu aldar.

Óligarkar og innherjar

Punktar

Fullyrt er, að menn hafi hag af hlutabréfaeign til óralangs tíma, þótt sveiflur séu miklar á einstökum tímabilum. Allan þennan meinta gróða og meira til taka til sín óligarkar og innherjar. Hinir fyrrnefndu fara á leynifundi til að éta fyrirtæki og gubba þeim án tillits til hagsmuna almennra hluthafa. Hinir síðarnefndu vita fyrr um mataræði óligarkanna en almenningur og geta hagnazt á innvígðri þekkingu. Þetta er núllmiðjað zero-sum dæmi, þar sem almennir hluthafar sitja eftir með tapið. Almenningur tapar á hlutabréfaeign jafnt í lengd sem bráð.

Pólitísk gervivísindi

Punktar

Ef hvalir éta eins mikinn fisk og hin hápólitíska Hafrannsóknastofnun telur okkur trú um, má spyrja, hve mikinn fisk hvalir átu fyrir nokkrum öldum, áður en hvalveiðar hófust og meðan sjórinn var fullur af hval og fiski. Af hverju gátu menn mokað upp fiski um leið og þeir fengu stórvirk tæki til rányrkju? Var ekki einmitt nógur fiskur í sjónum, þegar hvalir voru í hámarki? Er það ekki langvinn og vaxandi ofveiði mannsins, sem hefur stjórnað hnignun fiskistofna við Ísland? Með aðstoð Hafrannsóknastofnunar.

Innflutt hugmyndafræði

Punktar

Kringlan er meðal annars vinsæl, af því að fólk getur farið milli bíls og verzlunar undir þaki. Íslendingar eru minna fyrir útivist á borgarstéttum en aðrar þjóðir, meðal annars vegna hryssingslegrar veðráttu. Fangar innfluttrar hugmyndafræði gegn einkabílisma þurfa að gera sér og öðrum grein fyrir, hvernig þeir geti fengið önnum kafna borgarbúa ofan af einkabílisma, sem er þeim eðlilegur. Að engu gagni koma tilraunir til að troða bílafólki í strætó með því að draga úr hömlu að reisa mislæg gatnamót, bílastæðahús og önnur samgöngumannvirki.

Sjaldséð tillitssemi

Punktar

Ánægjulegt er að sjá, að hönnuðir útisundlaugar við Sundhöll Reykjavíkur taka fullt tillit til hinnar sögufrægu byggingar. Því miður hefur svo ekki alltaf verið í byggingarsögu Reykjavíkur. Má þar næstfrægasta nefna viðbygginguna við Landsbankann og frægasta nefna Landspítalalóðina, þar sem hver stíllinn er við hlið annars, því yngri því verri. Það er álíka fráleitt og þegar nýmóðins leikstjórar eru að afbaka Shakespeare, af því að þeir þykjast geta endurbætt það, sem var fullkomið fyrir.

Hafna erfðabreyttum mat

Punktar

John Vidal og Ian Sample segja í Guardian frá brezkri skoðanakönnun, sem sýnir, að fimm af hverjum sex íbúum landsins eru andvígir erfðabreyttum matvælum. Aðeins 2% þjóðarinnar studdu erfðabreytt matvæli skilyrðislaust. Þetta er mikið áfall fyrir þá, sem vilja verða við kröfum Bandaríkjanna um, að lönd Evrópusambandsins flytji inn erfðabreytt matvæli, án þess að þess sé sérstaklega getið á umbúðunum. Jafnframt styrkir þetta stöðu þeirra, sem vilja hreinlega banna erfðabreytt matvæli í Evrópu.

Vaxandi stéttaskipting

Punktar

Lynnley Browning segir í New York Times frá nýjum upplýsingum hagstofu bandaríska fjármálaráðuneytisins, sem sýna, að hinir fátæku verða fátækari og hinir ríku ríkari þar í landi. Árið 1979 þénaði ríkasta 1% þjóðarinnar helming á við fátækustu 40% hennar, þegar skattar höfðu verið dregnir frá. Árið 2000 höfðu hlutföllin breytzt þannig, að ríkasta 1% þjóðarinnar þénaði jafn mikið og fátækustu 40% hennar. Hlutdeild hinna ríkustu í þjóðarkökunni hefur tvöfaldazt og er í sögulegu hámarki.

Þora ekki í kosningu

Punktar

George W. Bush Bandaríkjaforseta tókst hvorki að afla neinna peninga né neinna hermanna til aðstoðar við hernám Íraks, þegar hann heimsótti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í vikunni. Andstaða landsfeðra gegn utanríkisstefnu hans hefur aukizt í öllum heimshlutum. Dana Milbank og Colum Lynch segja í Washington Post, að atkvæðagreiðsla í öryggisráðinu um óbeinan stuðning við hernám Íraks, sem Bandaríkin vildu fá í þessum mánuði, verði ekki fyrr en í lok næsta mánaðar. Bandarískur embættismaður bætti við, að svo kynni að fara, að mánuðir liðu áður en Bandaríkjastjórn treysti sér til að fara með málið fyrir öryggisráðið, jafnvel þótt Frakkland, Kína og Rússland efni loforð um að beita ekki neitunarvaldi.

Íslenzkur sovétostur

Punktar

Dæmalaust er íslenzkur ostur hallærislegur. Stolið er nöfnum frægra osta í útlöndum og reynt að stæla þá, án þess að það takist nokkru sinni. Þetta vita allir, sem borða osta í útlöndum. Íslenzkur ostur er einnig misjafn frá einni sendingu til annarrar, stundum sæmilegur og stundum óætur, jafnvel svo hversdagslegur ostur sem Brauðostur. Líklega koma sumar tegundir frá fleiri en einni ostagerð og Osta- og smjörsalan reynir að hilma yfir með skussunum á kostnað hinna, sem eitthvað geta. Sovézka hagkerfið er enn í fullu gildi í framleiðslu og sölu íslenzkra osta.

Gegn öllum heiminum

Punktar

Erfitt hlýtur að vera fyrir forsætis- og utanríkisráðherra Íslands að bera utanríkisstefnu Bandaríkjanna um þessar mundir. Hætta á hryðjuverkum magnast, Al Kaída þenst út og Osama bin Laden er ofsakátur í fullu fjöri, en rústað hefur verið Írak, sem hvorki studdi hryðjuverk á Vesturlöndum, né bjó yfir ógnarvopnum. Lögmál laga og réttar í alþjóðlegum samskiptum hefur vikið fyrir bandarískum hagsmunum og ofstæki. Flestir landsfeður, sem hafa stutt George W. Bush Bandaríkjaforseta, hafa tapað á því, mest þó Tony Blair í Bretlandi, sem hefði vafalaust getað leynt eðli sínu fyrir kjósendum, ef hann hefði ekki lent í þessari ógæfu. Baráttan í heiminum um þessar mundir er milli hirðar Bush annars vegar og alls heimsins hins vegar. Davíð og Halldór eru öfugu megin gaddavírsins.

Sýndarveröld forsetans

Punktar

Í ræðunni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna gerði George W. Bush Bandaríkjaforseti enga tilraun til að selja ríkjum heims aðild að hernámi Íraks. Hann hélt sér við gömlu geðveikisrulluna: Heimurinn er svart-hvítur, ég einn ræð því, hvað flokkast sem svart, áskil mér rétt til að ráðast á það, og þeir sem ekki eru með mér, eru á móti mér.