Schwarzenegger-passi

Punktar

Stjórnmálamaður í Austurríki, Peter Pilz, hefur hafið lögfræðilega kröfu um, að Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri Kaliforníu, verði sviptur austurrískum ríkisborgararétti fyrir að hafa samþykkt dauðarefsingu síðastliðinn miðvikudag. Pilz segir, að Schwarzenegger sé þekktasti Austurríkismaður í heiminum um þessar mundir og valdi Austurríki álitshnekki með aðgerð þessari. Dauðarefsing sé óheimil í Austurríki. Enginn Austurríkismaður og raunar enginn Evrópumaður megi taka þátt í slíku. Hún sé því næg ástæða fyrir sviptingu ríkisborgararéttar. BBC segir frá.

Perlan hrífur ekki

Veitingar

Perlan

***

Perlan er ekki alveg í klassa með Holti og Vox og sýnu lakari en Grillið og Humarhúsið, enda er hér seld byggingarlist og hringrás fremur en matur og þjónusta. Í verði er Perlan samt á svipuðu róli og aðrir klassískir fínistaðir borgarinnar, 6700 krónur þríréttað.

Þjónustan var sæmileg, en í nokkrum atriðum undir lakari aga en í öðrum húsum af þessu tagi. Á borðið kom matur ætlaður öðru borði, tvisvar var reynt að taka við pöntun á eftirrétti, okkur var ekki hjálpað í yfirhafnir. Margt smátt gefur þann svip, að hér megi taka til hendinni.

Matur var einnig góður, en í nokkrum atriðum ekki eins vandaður og í öðrum húsum af þessu tagi og þjónustan á köflum ekki eins fær um að útskýra matargerðarlistina. Ég hafði á tilfinningunni, að listin væri ekki í forgangi hér og væri þar að auki í fráhvarfi frá nútímanum.

Carême hefði hugsanlega fyrir frönsku byltinguna haft beikonbragð af kartöflum með skötusel, en mér er ekki ljós tilgangurinn með slíku í fiskrétti í nútímanum. Beikon er fyrst og fremst róttæk aðferð við að leyna fiskbragði, enda tókst það alveg í þessu tilviki.

Ég skildi heldur ekki rosalegan haug af annars mildu og bragðgóðu kúskús undir sandhverfu, sem var sjálf fínlega elduð og frambærileg. Mér fannst líka vafasamt að hafa mikið hlaup af matarlími á mörkum andalifrar og reykilax í mótuðum og niðursneiddum rétti, sem kallaður var mósaík.

Loks náði ég ekki, hver var fídusinn í að setja Bounty súkkulaði í karamellufrauð, af hverju ekki meira kakó og minni sykur. Var verið að auglýsa hversdagslegt vörumerki í matseðli, sem þykist vera fínni en gengur og gerist?

Margt var gott við Perluna, humarsúpan var mild og fín með hæfilega vægum keim af Madeira. Kryddlegin tígrisrækja var fín, sömuleiðis kryddjurtasalat með reyktum sætukartöflum, sem fylgdi henni.

Matseðillinn var stuttur, aðeins fjórir forréttir, þrír fiskréttir, þrír kjötréttir og þrír eftirréttir. Ekki var hann spennandi lesning. Þetta var eins og gamalt og gróið ervrópskt miðbæjarhótel, sem býður það allra nauðsynlegasta.

Jónas Kristjánsson

DV

Lýðræðisbyssur

Punktar

Brezki sagnfræðingurinn, Eric Hobsbawn, sem ritaði Öld öfganna, segir í Guardian í dag, að krossferð George W. Bush í Írak sé hættuleg tálsýn. Lýðræði verði ekki dreift um heiminn með byssum og sprengjum. Fólk verði ekki frelsað með því að drepa það. Hvert land hafi sína sögu og siði og muni hér eftir sem hingað til hafna innflutningi pólitískra áhrifa frá þrautvopnuðu hernámsliði. Saga 20. aldar sýni, að ofbeldi í nafni lýðræðis og frelsis sé ekki til þess fallið að breiða lýðræði og frelsi um heiminn. Innsetningarræða Bush sé að þessu leyti furðuleg og stórhættuleg í senn.

Orkuveitan

Punktar

Fróður maður sagði mér í gær, að söluverðmæti Orkuveitu Reykjavíkur væri komið upp í 120 milljarða, meira en skuldir Reykjavíkurborgar, sem á fyrirtækið. Orkuveitan hefur með Hitaveitu Suðurnesja skákað Landsvirkjun sem framleiðandi orku til stóriðju, tiltölulega vistvænnar orku. Orkuveitan er stöðugt að kaupa litlar hitaveitur, nú síðast austur í Rangárvallasýslu. Sumt hefur mistekizt af tilraunum hennar, en í stórum dráttum er komið til sögunnar moldríkt fyrirtæki með framtíðarsýn. Það má hafa til marks um eymd Framsóknar, að Alfreð Þorsteinsson fer í taugar flokksforustunnar.

Sjálfsánægja

Punktar

Frakkar eru ánægðir með sig, finnst allt bezt í Frakklandi, til dæmis betra en í Bandaríkjunum. Ef við líkjum Frökkum við Íslendinga að þessu leyti, skulum við minnast þess, að engum Frakka dettur í hug að segja við útlending: “How do you like France'”. Hann þarf ekki staðfestingu útlendinga á fordómum sínum. Að baki sjálfsánægjunni er sterk sjálfsmynd, sem hvílir föstum grunni á innri styrk þeirra sem þjóðar. Íslendingar eru hins vegar svo nagaðir af kvíða um stöðu sína, hafa svo veika sjálfsmynd, að þeir sækja staðfestingu fordóma sinna í spurninguna: “How do you like Iceland?”

Frjósöm og langlíf

Greinar

DeCode Genetics hefur náð þeim merka áfanga, að sérfræðileg tímarit eru farin að birta greinar starfsmanna. Nature Genetics hefur birt grein um víxlun erfðavísa á litningum Evrópubúa, þar á meðal Íslendinga. Af viðbrögðum erlendis má ráða, að þessi grein þyki fela í sér merkilega uppgötvun.

Birting í sérfræðiriti er annað en að kalla á íslenzka blaðamenn og segja þeim, að deCode hafi unnið vísindalegt afrek. Sérfræðiritin bera greinar undir nefndir sérfræðinga, sem meta, hvort vísindi og röksemdir að baki greinanna séu í lagi, og gera oftast tillögur um endurbætur á greinunum.

Þannig hafa greinar, sem birtast í þekktum sérfræðiritum meira vægi en greinar eða fréttatilkynningar, sem fást birtar athugasemdalaust. Því þrengri, sem síur ritsins eru, þeim mun hærra er ritið metið í sérfræðiheiminum. Loflegar greinar í fjölmiðlum Íslands hafa vægið núll á þessum skala.

Hingað til hefur deCode nokkrum sinnum leikið þann leik að hóa saman blaðamönnum og tjá þeim, að merkileg uppgötvun hafi verið gerð í fyrirtækinu. Síðan höfum við séð þetta, heyrt eða lesið í fjölmiðlum og yppt öxlum, því að slík vísindi hafa ekkert vægi. Nú er öldin orðin önnur og betri.

Umrædd rannsókn deCode bendir til, að ákveðin röskun hafi orðið á röð erfðavísa á 17. litningi fyrir þremur milljónum ára, sem hlýtur að teljast hafa verið í árdaga mannkyns. Þegar á því frumstigi hefur orðið stökkbreyting í erfðum Evrópubúa, en að litlu leyti í Afríku og alls ekki í Asíu.

Einn af hverjum fimm Evrópubúum og þar á meðal einn af hverjum fimm Íslendingum býr við þessa röskun á röð erfðavísa á 17. litningi, sem fer saman við meiri barneignir kvenna og meira langlífi fólks. Röskunin virðist semsagt leiða til aukinna barneigna og aukins langlífis fólks.

Þetta felur raunar í sér ókeypis hádegisverðinn, sem ein tegund hagfræði segir ekki vera til. Hingað til hefur verið talið, að annað hvort erfist aukin frjósemi til að vega á móti miklu skammlífi, eða aukið langlífi erfist til að bæta upp litla frjósemi. Þarna hafa menn kökuna og éta hana.

Miðað við mikla þjóðflutninga í heiminum í þrjár milljónir ára, kemur óneitanlega ó óvart, að svona mikill munur sé á Evrópu og Asíu, sem liggja saman. Einnig kemur á óvart, að mannkynið var talið runnið frá einum milljón ára gömlum einstaklingi, en röskunin er þriggja milljón ára gömul.

Þannig virka vísindin. Gerðar eru uppgötvanir, sem raska fyrra samhengi. Þá setjast menn niður við að reyna að finna skýringar með frekari tilraunum. DeCode tekur þátt í þessu.

Jónas Kristjánsson

DV

Undirmálsmenn

Punktar

Brezka konungsfjölskyldan er kennslubók um, að erfðafesta úreldist í stétt þjóðhöfðingja. Þar hafa í hálfa öld geisað undirmálsmenn, fyrst hertoginn af Edinborg með fúla brandara um þriðja heiminn. Síðan kom sonur hans, prinsinn af Wales, sem er svo ruglaður, að hann sendir undarlegar leiðbeiningar til ritstjóra brezkra dagblaða. Loks er þriðja kynslóð tossa komin í gang í fjölskyldunni með greindarskertum prins, sem stundar ljúfa lífið án þess að skilja neitt í þjóðfélaginu og án þess að skilja, að þjóðin er að borga þessu pakki kaup fyrir að vera öðrum fyrirmynd. Þessari ætt verður sparkað.

Karlmenni

Punktar

Barnett og Rivers segja í Boston Globe, að karlmenn séu hafðir fyrir rangri sök. Mismunur meðalvinnutíma, að heimilisstörfum meðtöldum, hjá kynjunum hafi minnkað úr hálfum þriðja tíma niður í einn. Þær segja rannsóknir sýna einnig, að strákar geti bæði talað og skrifað, karlmenn geti fóstrað börn, þeir gefi góð ráð í sama mæli og konur og séu alls ekki frá náttúrunnar hendi þannig gerðir, að þeir leiti upp í rúm hjá næstu konu. Það sé bara rugl, sem bíómyndir og sjónvarpsþættir frá Ameríku hefur komið inn hjá almenningi. Trygglyndi karla í sambúð mælist raunar 78% og kvenna 85%.

Óttaslegnir

Punktar

Samkvæmt umfangsmikilli skoðanakönnun á heimsvísu er mannkyn almennt hrætt við George W. Bush Bandaríkjaforseta og telur hann ógnun við heimsfriðinn. Samkvæmt könnuninni, sem birt var í gær í BBC, hefur þessi eindregni meirihluti stækkað eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum fyrr í vetur. Þá varð einnig sú breyting, að Bandaríkjamenn sem persónur eru litnir meira hornauga en áður, enda hafa þeir staðfest gerðir forsetans. Prósentutölur voru háar í öllum spurningum könnunarinnar. Til dæmis eru 64% Breta alveg andvígir þeirri skoðun, að Bandaríkin hafi jákvæð áhrif í samfélagi ríkja.

Fíladelfían

Punktar

Fíladelfía stjórnar ekki Framsóknarflokknum, heldur stjórnar Framsóknarflokkurinn Fíladelfíu til að ofsækja Alfreð Þorsteinsson. Lengi hefur verið siður framapotara á þeim bæ að sölsa undir sig saklaus félög úti í bæ til að auka styrk sinn í flokknum, en það afl er að mestu ímyndað. Árásin á Afreð, sem er að gera fína hluti í Orkuveitunni, er liður í tilraun gæludýra formannsins til að halda aga á flokknum, sérstaklega á Alfreð, Guðna, Sólveigu og Kristni. Þetta er til að rýma fyrir gæludýrunum og gert með samþykki formanns, sem sjálfur gæti ekki haldið aga á skólabekk í heilan tíma.

Sjálfsmyndin

Punktar

Umræða fjölmiðla eftir sýningu stuttmyndar Kristínar Ólafsdóttur staðfestir það, sem löngu áður var vitað, að Íslendingar hafa lélega sjálfsmynd og sækja hana að utan með spurningunni: “How do you like Iceland.”. Menn vissu áður, að Íslendingar reyna að losna úr sjálfum sér með því að drekka frá sér ráð og rænu. Nú hefur bætzt við fyrri skelfingu, að Íslendingar búi í ljótum skúrum og skrítin lykt sé af þeim og vatninu þeirra. Engin þjóð í heiminum er eins upptekin af áliti utanaðkomandi fólks. Nú þarf að fara að kenna Dale Carnegie í barnaskólum til að laga þetta.

Staðfestan

Punktar

Staðföstum fækkar stöðugt í stríðinu gegn Írak. Nú hefur nýfrjáls Úkraína ákveðið að kalla herlið sitt heim. Áður höfðu Spánn, Holland, Ungverjaland, Tékkóslóvakía, Litáen, Filippseyjar og Taíland gert slíkt hið sama og Pólverjar eru að minnka herlið sitt í Írak og undirbúa ákvörðun um brottför. Sumpart gera þau þetta til að bæta sambúðina við Frakkland og Þýzkaland. Eftir í hópi hinna staðföstu ríkja eru auðvitað Bretland, Ítalía og Danmörk, svo og ýmis viljalítil eyríki í Kyrrahafi og Karabíahafi, ennfremur eitt eyríki í Atlantshafi, sem kallast Davíð & Halldór.

100.000 manns

Greinar

Talan 100.000 manns um mannfall óbreyttra í Írak er fengin frá Johns Hopkins Bloomberg School of Public Health læknaskólanum í Baltimore. Rannsóknin var birt í Lancet, einu þekktasta læknatímariti heims, þar sem greinar eru ekki birtar fyrr en eftir gaumgæfilega skoðun tilkvaddra dómara.

Ekki var hægt að telja hina látnu, af því að hernámslið Bandaríkjanna í Írak telur ekki sjálft: “We dont do body counts”, sagði Tommy Franks herstjóri. Ennfremur leggur það sig fram um að hindra aðra í að telja. Einkum hefur hefur verið reynt að hindra lækna á bráðadeildum í að koma upplýsingum á framfæri, jafnvel með því að drepa þá.

Þegar Bandaríkjaher réðist inn í Falluja, voru bráðadeildir sjúkrahúsanna fyrstu skotmörkin. Ráðizt var strax á þau, læknar drepnir og gemsar teknir af öðrum. Eftir fyrsta dag árásarinnar var enginn bráðalæknir eftir í borginni. Einnig var ráðizt á blaðamenn, sem reyndu að lýsa ástandinu.

Í erfiðri stöðu fóru vísindamenn Johns Hopkins skólans sömu leið og almennt er farin í læknavísindum. Þeir fundu hverfi víða um Írak, töluðu við íbúana og mátu, hversu margir hefðu verið drepnir í fjölskyldum þeirra. Með því að framlengja tölurnar fyrir allt landið, mátu þeir heildarstöðuna.

Það varpar engum skugga á þessa viðurkenndu og árangursríku aðferð læknavísindanna, að íslenzkir þrætubókarmenn á borð við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra vefengi hana. Almennt er viðurkennt um allan heim, nema í sóðakreðsum Davíðs & Halldórs, að 100.000 óbreyttir borgarar hafi verið myrtir.

Almennt er viðurkennt um heim allan, að Bandaríkjaher hafi farið fram með miklu offorsi og brotum á alþjóðalögum gegn óbreyttum borgurum í Írak, meðal annars jafnað Falljua við jörðu, ekki til þess að ná skæruliðum, sem voru nærri allir farnir, heldur til að reyna að segja öðrum Írökum, að svona geti farið fyrir þeim, ef þeir hagi sér ekki almennilega.

Allt hefur þetta haft þveröfug áhrif. Bandaríkin komu að ríki, sem átti engin mikilvæg vopn og var engin ógnun við önnur ríki og þar sem friður ríkti yfirleitt á götum úti. Það eru Bandaríkin, sem hafa breytt gömlu menningarríki í sláturhús til að þóknast róttækum trúarofstækismönnum.

Um allan heim er fullt af ógeðfelldum harðstjórum, sem flestir stjórna í skjóli Bandaríkjanna. Þau komu raunar Saddam Hussein á fót fyrir nokkrum áratugum og létu hann þá hafa efnavopn til að myrða nágranna sína í Íran. Öll samskipti Bandaríkjanna við þetta hrjáða land eru hluti af vitfirringu heimsveldis, sem þekkir sér engin takmörk.

Í einkasamsæri Davíðs & Halldórs voru Íslendingar gerðir að siðferðilegum ábyrgðaraðila þessa viðurstyggilega stríðs, þar sem 100.000 óbreyttir borgarar hafa verið myrtir.

Jónas Kristjánsson

DV

Hrukkuhræðsla

Punktar

Rannsóknir sýna, að fólk er hrætt við aldraða, vill losna við þá úr augsýn og er hrætt við langvinnaa reynslu þeirra. Annalisa Barbieri segir í Guardian frá ritstjórn, þar sem hún vann og þar sem nýr ritstjóri losaði sig við 65 ára gamlan alvitring, sem hægt var að fletta upp í. Hann var kominn á internetið áður en það varð formlega til og gat fundið þar allt. Það var samanburðurinn, sem skelfdi reynslulausa ritstjórann. Barbiere rekur nokkur dæmi þess, að fólk sé upp á sitt bezta um áttrætt eða jafnvel 96 ára gamalt. Við munum svo sem eftir Churchill og Adenauer.

Microsoft

Punktar

Í viðleitni sinni til heimsyfirráða í tölvubransanum hefur einokunarfyrirtækið Microsoft rekið sig á Evrópusambandið. Svo er raunar pólsku ríkisstjórninni fyrir það þakka, því að hún beitti neitunarbanni gegn einkaleyfum Microsoft í Evrópu. Fyrirtækið hefur lagt fram umsóknir um 1500 einkaleyfi í Bandaríkjunum, sumar hverjar fáránlegar. Microsoft vill þrengja að opnum hugbúnaði á borð við Linux og OpenOffice, sem hafa gert fátækum kleift að feta sig áfram á tölvuöld. Þúsundir forritara berjast gegn einokun með því að forrita ókeypis fyrir frjálsa hugbúnaðinn.