Brezki sagnfræðingurinn, Eric Hobsbawn, sem ritaði Öld öfganna, segir í Guardian í dag, að krossferð George W. Bush í Írak sé hættuleg tálsýn. Lýðræði verði ekki dreift um heiminn með byssum og sprengjum. Fólk verði ekki frelsað með því að drepa það. Hvert land hafi sína sögu og siði og muni hér eftir sem hingað til hafna innflutningi pólitískra áhrifa frá þrautvopnuðu hernámsliði. Saga 20. aldar sýni, að ofbeldi í nafni lýðræðis og frelsis sé ekki til þess fallið að breiða lýðræði og frelsi um heiminn. Innsetningarræða Bush sé að þessu leyti furðuleg og stórhættuleg í senn.