Rebekka ritskoðuð

Punktar

Umræðan um stuld Only-Dreemin á ljósmyndum Rebekku Guðleifsdóttir hefur verið þurrkuð út hjá Flickr, dótturfyrirtæki Yahoo. Þar voru myndirnar til sýnis. Stuldurinn hafði vakið mikla athygli og reiði meðal netverja. Mörg hundruð manns fordæmdu stuldinn á vefnum. Nú hefur Flickr sett upp gleraugu ritskoðunar og eytt umræðunni. Þetta hefur síðan vakið mikla umræðu á Digg, þar sem allir fordæma ritskoðun Flickr-Yahoo. Vefurinn er ekki eins frjáls og margir halda. Stórfyrirtækin gleypa minni fyrirtæki og taka upp harðari hagsmunagæzlu. Microsoft er t.d. í samsæri með Kínastjórn gegn netverjum.

Passa þarf gæludýrin

Punktar

Höskuldur Þór Þórhallsson hitti naglann á höfuðið um útkomu kosninganna. Hinn nýi þingmaður Framsóknar sagði nú skipta höfuðmáli að komast í stjórn. Engu máli skipti, hvort það væri hægri eða vinstri stjórn. Framsókn fremur stórvirkjanir í hægri stjórn og stöðvar þær í vinstri stjórn. Framsókn er ekki í stjórn til að hafa pólitísk áhrif, heldur til að útvega vinnu. Þegar fylgið hrynur af hefðbundnum flokkum, sleikja þeir sárin í stjórnarandstöðu eitt kjörtímabil. En Framsókn er ekki flokkur, heldur vinnumiðlun. Hún þarf að passa gæludýrin. Hún má ekki missa út neitt kjörtímabil.

Fjórir sólkonungar

Punktar

Tony Blair, George W. Bush, Anders Fogh Rasmussen og John Howard í Ástralíu eiga eitt sameiginlegt. Allir þessir þjóðarleiðtogar fela sig bak við guð. Þeir telja sig hafa vald sitt frá guði eins og sólkonungurinn í Frakklandi, en ekki frá kjósendum. Þegar vanda ber að höndum, leysa þeir hann ekki, heldur biðja til guðs. Þeir tala við guð, Bush gerir það daglega og Blair næstum daglega. Þeir eru vissir um, að þeir séu guðs útvaldir leiðtogar. Þeir hafa því anað áfram í blindni og eru væntanlega allir komnir á enda ferilsins. Það er firring, þegar þjóðarleiðtogar taka guð fram yfir fólk.

Veffréttir prentmiðla

Punktar

Heimildir á vefnum eru fyrst og fremst hefðbundnir fjölmiðlar. Nokkrir miðlar eru fjölþjóðlegir hliðverðir vefsins. Þegar ég leita frétta, verða alltaf sömu prentmiðlarnir fyrir valinu. Það eru Guardian, International Herald Tribune, Spiegel, New York Times, Washington Post, New Yorker. Skúbbum fjölgar samt í frjálsu bloggi. Þar sem meirihluti skúbba á vefnum er rangur, þurfum við enn hefðbundna hliðverði til að segja okkur, hvað séu fréttir og hvað ekki. Þótt allir segi fréttir á vefnum, eru marktækar fréttir þar ennþá frá hefðbundnum, ritstýrðum prentmiðlum.

Zero Framsókn

Punktar

Geir Haarde forsætis segir Framsókn geta áfram verið hækja ríkisstjórnar hans. Eins og hún er hækja meirihlutans í Reykjavík með sex prósent fylgi. Framsókn virðist vera sátt við ummæli Geirs. Þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar ráðamanna í flokknum um, að nú sé kominn tími til að sleikja sárin. Hversu langt má fylgi flokksins hrapa, án þess að forustu hans finnist kominn tími til að hlusta á fólk? Til þess að finna út úr því verða kjósendur næst að koma henni alveg út af þingi og alveg út úr borgarstjórn. Framsókn er nefnilega vinnumiðlun, sem skilur ekki bless. Bara zero Framsókn dugar.

DHL opnar atkvæði

Punktar

DHL áskilur sér rétt til að opna atkvæðaseðla í pósti frá útlöndum eins og annan póst, sem fyrirtækið höndlar. Varið ykkur, Íslendingar í útlöndum. Þegar þið kjósið, skulið þið ekki senda atkvæðið með DHL. Það opnar og ógildir atkvæðið, þegar því þóknast. Í yfirlýsingu þess út af ógildingu er frekjan svo mikil, að það segist geta séð um kosningar fyrir Íslendinga í útlöndum. Sem væri betra mál, heldur en að fá atkvæði sitt ógilt. Ekki kemur til mála, að íslenzka ríkið geri einkafyrirtæki að kjörstað. Sendið atkvæði ykkar framvegis með FedEx, UPS eða TNT, sem rífa ekki kjaft.

Prentmiðlar og bloggið

Fjölmiðlun

Erlendis minnkar lestur dagblaða árlega og raunar einnig notkun annarra fréttamiðla. Það spillir fjárreiðum dagblaða, veldur uppsögnum á ritstjórn og rýrir þjónustuna. Það er dæmigerður vítahringur. Skúbbin flytjast á vefinn og miðlungs prentmiðlar hafa ekki ráð á rannsóknablaðamennsku. Það er samt ekki bloggið, sem drepur hefðbundna miðla. Dagblöð drepast einkum af því, að fólk venst því úr sjónvarpi og af vefnum, að fréttir séu ókeypis. Eina vörnin gegn því er, að prentmiðlar verði líka ókeypis. Prentmiðlar í áskrift eru orðnir tímaskekkja. Því miður, þeir voru góðir.

Kjósendur tapa núna

Punktar

Þegar búið var að telja upp úr kössunum, missti fólkið völd og traust. Forstjórar stjórnmálaflokkanna gripu aftur máttinn og dýrðina. Þeir passa að láta kjósendur ekki vita um efni brallsins, sem hófst í kjölfar kosninganna. Fjölmiðlar komust að fundi Geirs og Jóns og fundi Ingibjargar og Steingríms. En ekkert lekur um, hver hyggst vinna með hverjum í næstu ríkisstjórn. Geir gefur í skyn, að hann muni vinna með Jóni, þótt þjóðin hafi hafnað Jóni. Hvað sem pólitískir stjórar segja um ágæti kjósenda fyrir kosningar, eru þeir sammála um að hunza þá, þegar búið er að telja.

Allir með Spörtu

Punktar

Baldur Bjarnason kenndi okkur sagnfræði eitt ár í gaggó. Hann sagði okkur frá Aþenu og Spörtu og spurði síðan, hvar við vildum hafa búið. Mér er það minnisstætt. Allir réttu upp hendur með Spörtu. Nema ég, vildi heldur hafa búið í Aþenu. Augljóst var, að útkoman féll Baldri ekki í geð, enda hafði hann sjálfur komizt í tæri við fasismann. Þarna áttaði ég mig strax á sem unglingur, að skel samfélagsins er þunn. Undir niðri eru flestir Íslendingar fasistar og mundu drepa mann og annan, ef þeir sæju sér færi. Nú eru þeir í bíó að sjá lygasögu um ágæti Spartverja hinna fornu.

Hilton tekin í nefið

Punktar

Af þeim, sem eru frægir fyrir að vera frægir, er París Hilton frægust. Hún hefur margar vitleysurnar framið á stuttri ævi, enda virðast þær vera eins konar markmið hennar. Nú hefur hún verið dæmd í 45 daga fangelsi fyrir að keyra án ökuskírteinis. Það hafði hún áður misst vegna ölvunar við akstur. Hún er sáróánægð með þessa þróun mála og á erfitt með að hugsa sér svo langa fangavist. Margt hefur hressilegt verið sagt um þessa konu, sem sögð er athyglissjúkust allra kvenna. Lengst gekk Jessica Coen í Guardian á laugardaginn. Fyrirsögn greinar hennar er: “Fake, vain, vapid, vulgar”.

Vinnumiðlunin tapaði

Punktar

Vinnumiðlunin tapaði kosningunum í gær, hrapaði úr tólf þingmönnum niður í sjö. Eftir er bara sá tíundi hluti kjósenda, sem hefur notið góðs af sértækri gjafmildi flokksins. Ofan á spillinguna bættist, að vinstri grænir náðu græna kantinum af Framsókn fyrir nokkrum árum. Vinnumiðlunin málaði sig út í horn sem svartur flokkur stóriðju, undir forustu nýs formanns með úrelta hagfræði Alþjóðabankans að leiðarljósi. Vægar líkur eru á, að Framsókn hafi næstu árin aðstöðu til að veita gæludýrum sértækar fyrirgreiðslur. Kjósendur sögðu: Engin spilling, algert stopp.

Kaffibandalagið tapaði

Punktar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir myndar ekki ríkisstjórn kaffibandalagsins með stjórnarandstöðunni. 31 þingmenn eru einum færri en meirihluti. Vinstri grænir unnu að vísu fjóra þingmenn, en Samfylkingin tapaði tveimur. Ráðamenn hennar túlka það sem sigur á grunni gamalla kannana fyrir nokkrum vikum. En það er samt ósigur, því að miða verður við síðustu kosningar og breyttan fjölda þingmanna. Samfylkingin tapaði ekki eins hart og Framsókn og Íslandshreyfingin, en tapaði samt. Hún er dæmd til að taka hlutverk Framsóknar sem hækja í stjórn hjá Geir Haarde.

Hrammur Murdochs

Fjölmiðlun

Murdoch mun eyðileggja Wall Street Journal, ef hann nær eignarhaldi. Hann eyðilagði Times, eins og lesa má í bók Harold Evans ritstjóra, Good Times – Bad Times. Murdoch kaupir ekki fjölmiðla til að bæta blaðamennsku, heldur til að gæta hagsmuna. Hann passar, að Kína sé ekki gagnrýnt í fjölmiðlum sínum. Hann lét forlagið Harper Collins stöðva útgáfu bókar eftir Chris Patten, landstjóra Bretlands í Hong Kong. Hann keypti líka New York Post og eyðilagði það á fjórum dögum. Núna hafa sextíu blaðamenn Wall Street Journal skrifað undir mótmæli gegn Murdoch. Þar verður atgervisflótti.

Netsamband við útlönd

Punktar

Eitt mesta þjóðþrifamálið er að efla tölvusamskipti við útlönd. Við erum tæpast á heimskortinu vegna ótrausts kapalsambands um höfin. Því flýja innlend tölvufyrirtæki land og erlend þora ekki að festa hér rætur. Nú hefur tölvurisinn Yahoo spurzt fyrir um bætt netsamband, því að hann hefur áhuga á að setja hér upp netþjónabú. Stjórnvöldum ber að taka vel í þetta, reyna að haga tölvusambandi við útlönd þannig, að það sé hratt og öruggt, bili alls ekki. Það er brýnna en að ábyrgjast skuldir orkuvera og að niðurgreiða rafmagn til stóriðju, sem er gamaldags bisness.

Hún er ær af frekju

Punktar

Engin væntanleg tengdamóðir fær aðra eins fyrirgreiðslu og Jónína Bjartmarz. Aðrar tengdamæður þurfa að sætta sig við langa biðlista, meðan ráðherrann fær forgang. Hún er ekki ein um svindlið, fékk liðsinni formanns allsherjarnefndar, Bjarna Benediktssonar. Svindlið var framið í þágu Jónínu. Samt er hún hin hortugasta, heimtar afsökunarbeiðni sjónvarpsins fyrir að fjalla um það. Ella hótar hún að kæra til siðanefndar blaðamanna. Sú nefnd er að vísu aumasta nefnd landsins. En tekur þó tæpast þátt í að magna yfirgengilegan hroka ráðherra, sem eru orðnir ærir af frekju.