Veitingar

Betri díll á Aski

Veitingar

Iðnaðarmennirnir á Aski fá betri díl á hádegishlaðborði en bankabörnin á Vox. Súpur, salat og forréttir voru þó betri á Vox en hefðbundna salatborðið á Aski. Á Vox var sushi og gott skelfisksalat í boði. Heitir aðalréttir voru fleiri á Aski en á Vox, þar á meðal fjórir fiskréttir. Þar var smáþorskur, nokkuð góður, en kjötréttir vondir. Engir heitir réttir á Vox voru girnilegir. Melóna og appelsína á Aski áttu lítið erindi í samanburð við æfingar Vox í girnilegum eftirréttum. Í heildina jafntefli staðanna í framboði og gæðum. Á Aski kostar hlaðborðið 2690 krónur, en 3500 krónur á Vox. Vegna verðsins hafði Askur betur.

Hlaðborðsplús og -mínus

Veitingar

Vox hefur kosti og galla hádegishlaðborðs. Þú þarft ekki að borða annað en það, sem þú kærir þig um. En þú þarft þá líka að vita, hvað er gott, svo að þú eyðir ekki plássinu í prufur. Forðastu súpu og brauð og einkum þó heitan fiskrétt og kjötrétt á hitabökkum. Fáðu þér frekar kryddleginn skelfisk og reyktan lax í forrétt. Kaldar nautakjötsþynnur, kartöflur og hrásalat í aðalrétt. Passaðu að hafa pláss fyrir eftirrétti, því að þeir eru tromp staðarins. Bezt er frönsk súkkulaðiterta og ferskir ávextir sneiddir, með miklum rjóma. Espresso á eftir er lapþunnt, bara fyrir ameríkana. Þetta kostar frambærilegar 3.500 krónur.

Nýliði í verbúðunum

Veitingar

Nýliðinn í verbúðunum við Geirsgötu er Verbúð 11 og keppir við Kopar, Höfnina, Tapashúsið og Sægreifann og handan götunnar við tvö fish&chips hús. Þessi hefur þann meginkost að hafa eigin dagróðrabát, sem kemur inn að morgni. Karfi dagsins var fínn, sömuleiðis rjómuð blómkálssúpa dagsins. Eftirréttir voru enn betri, einkum bláberjaskyr, en einnig eplakaka með rifsberjum og þeyttum rjóma. Matsalurinn er einfaldur í sniðum, hóflega grófur, með aðstöðu fyrir hópa uppi á lofti. Þetta er fjölskyldufyrirtæki, sem einnig rekur Sindrafisk í næstu verbúð fyrir neðan. Gunnar Ingi Elvarsson er yfirkokkur staðarins.

Bara fyrir sérfræðinga

Veitingar

Fyrst er hér aðvörun: Matarhúsið Teni er alvaran, fyrir sérfræðinga. Þarna eru ekki gafflar eða skeiðar. Í staðinn er matnum að hætti Eþiópíu skóflað upp með súrdeigsflatbrauði, sem þarna er tæpast nógu þétt til slíks. Mundu að nota bara hægri hönd, þá hreinu. Viljirðu borga 2000 kr fyrir hádegismat, er betra að fara í venjulegt veitingahús. Hér færðu bara kryddsterka grauta, nautagrauta, lambagrauta, kjúklingagraut og grænmetisgrauta, alla með sama bragðinu. Kaffið frá Eþiópíu er samt gott, afgreitt í leirpotti, sem sveiflað er, svo að þú finnir ilminn góða. Hér voru áður Kryddlegin hjörtu, er fluttust á Hverfisgötu.

Ýkjur um kokkakeppni

Veitingar

Þreytandi eru ýkjur stuðningsaðila Bocuse d´Or matreiðslukeppninnar. Þetta er ekki „óformleg heimsmeistarakeppni“ í eldamennsku. Enda taka heimsfrægir kokkar aldrei þátt í henni. Fyrst og fremst er keppnin auglýsing fyrir unga kokka og Paul Bocuse, mesta auglýsingamann allra kokka. Hann er óvenjulega hrifinn af sjálfum sér. Lét mála margra mannhæða málverk af sér utan á veitingahús sitt í Collonges, nálægt Lyon.  Allir málsaðilar keppninnar eru samt ágætir kokkar og eiga allt gott skilið. En eitthvert hóf verður samt að hafa á upphafningu út af nánast engu. Þetta er eins og vínsmakkið, þegar hvert einasta vín fær verðlaun.

Þrauthannað matarhús

Veitingar

Apótek er enn eitt þrauthannað veitingahús í miðbænum (Austurstræti 16) til að þjóna túristum að kvöldi og í hádegi kontóristum, er fá sér hamborgara í flottu umhverfi. Móttakan horfði í aðgerðalausri þolinmæði á mig reyna að finna fatahengi. Fékk kvöldseðla á borð, þótt hádegisseðlar hefði hentað betur í hádeginu. Salurinn er flott hannaður, þótt ég sakni hinna frábæru innréttinga gamla tímans, sem hefðu sómt sér vel á barsvæðinu. Þjónustan góð og verðlag með sóma. Blálanga var fullkomlega elduð, studd byggi og spínati. Andarlæri var rétt eldað, stutt maltsósu og sykurbrenndum eplum á vöfflu. Faglegt og gott.

Efnilegur nýliði

Veitingar

Góð eldamennska einkennir Resto, þar sem áður var Madonna við Rauðarárstíg. Þar fékk ég í hádegi þykka tómatsúpu dagsins með vægt elduðum grænmetiskubbum og lax dagsins með risotto og blaðsalati. Hvort tveggja var aldeilis gott, minnti á Rúnar Marvinsson, sem kenndi Jóhanni Helga Jóhannssyni á sínum tíma. Þjónusta var vingjarnleg, en óskóluð („Viltu fá súpuna á undan fiskinum?“). Innréttingar minna á fyrra veitingahúsið. Nærri öll borð eru í föstum básum, þar sem of þröngt er milli sætisbaks og borðplötu. Verðlagið var hóflegt miðað við gæði eldhússins, fiskur á 1800 krónur, með súpu dagsins samtals á 2200 krónur.

Gústav fullkominn séffi

Veitingar

Sama hvað ég reyni, mér tekst aldrei að elda fisk eins vel og kokkarnir gera á Sjávargrillinu. Um árin hafa margir komið við sögu í eldhúsinu, en Gústav Axel Gunnlaugsson hefur frá upphafi verið þar séffi. Ég hef sjálfsagt borðað þarna hundrað sinnum og aldrei hefur fiskurinn mistekizt. Tímasetning ætíð fullkomin, flögurnar losna hver frá annarri, þegar þær eru snertar. Þetta er frábær tækni og list, sem er mér ofviða. Næstum eins flott er matreiðslan á Friðriki V og í Fiskfélaginu, allir í 2000 króna flokknum í hádeginu. Takist mér einhvern tíma að flýja undan volaðri þjóð, mun ég sjá meira eftir þessum stöðum en hestunum.

Eyður í innflutningi

Veitingar

Hér hafa um skeið fengizt ágætar döðlur frá Íran í ýmsum pakkningum. Eins og þær, sem seldar eru þar eystra. Einnig fást hér gullnar rúsínur frá Chile og gráfíkjur frá Spáni. Allt fyrirtaks vörur á sanngjörnu verði. Ég skil því ekki, af hverju pistasíur eru svona daufar hér. Kom heim með glás af pistasíum frá Íran og þær bragðast enn sem glænýjar. Slík vara getur því ekki verið erfið í flutningi. Auglýsi því eftir innflytjanda, sem vill bregðast við áunninni fíkn minni. Þar eystra fást líka grænar rúsínur, sem eru frábærar og hljóta að vera auðveldar í flutningi. Tyrkneskar súltönur eru líka bragðgóðar. Hér er bisness!

Íslenzkur „Coq au vin“

Veitingar

Kjúklingur, jafnvel Holtakjúklingur, verður aldrei Coq au vin, Hani í víni. Til þess þarf að ala hanann í 9 vikur. Síðan er hann matreiddur í Búrgundarvíni í heilan sólarhring til að gera hann meyran og bragðmikinn. Eini staðurinn hér á landi, sem býður ekta Coq au Vin er Friðrik V, sem kaupir alla framleiðslu af hönum hjá Bjarna Eiríki Sigurðssyni á Torfastöðum, þeim fræga hestaferðamanni. Gott dæmi um, að „beint frá bónda“ er tilefni ótrúlegrar fjölbreytni matseðla þeirra veitingastaða, sem gæla við hráefni með skilgreindum uppruna. Þannig hafa ýmsir bændur orðið kunnir af frábærum sérleiðum í ræktun og húsdýrahaldi.

Skyndibiti í matarmusterum

Veitingar

Skyndibiti byggist á efnafræði. Í stað kjöts kemur „hakkefni“, sem getur verið flókinn samsetningur. Minnir á Vals tómatsósuna. Þar voru engir tómatar, bara ýmis bragðefni og fyllingarefni. Efnafræði kemur víðar við en í skyndibitanum. „Matarmusteri“ á borð við Fat Duck í Bretlandi og El Bulli á Spáni matreiða að hætti Nathan Myhrvold, fyrrum Microsoft-stjóra. Hann skrifaði doðrant í fimm bindum um „cuisine moderniste“. Þar er kennt að búa til sogrör úr fljótandi ediki og kennd snöggfrysting með köfnunarefni. Ekki er að átta sig á hráefnum. Þessi eldun gervimatar var í tízku í bólunni upp úr aldamótum, nú á undanhaldi.

Vinsæll Grillmarkaður

Veitingar

Grillmarkaðurinn á vinsældirnar skilið. Mjög smart staður með faglega og fína þjónustu og skrautlegan mat á hagstæðu verði. Sogar því að sér ungt fólk, sem pantar hamborgara á hádegi. Samt dalar eldhúsið ekki. Það heldur fyrri reisn, sem jaðrar við landsins beztu matarhús. Eini gallinn er stöðluð matreiðsla. Mér sýnist matseðillinn hafa verið óbreyttur frá upphafi. (Af hverju breyta því, sem virkar?) Fólki virðist ekki leiðast matseðillinn, því á hádegi í dag var staðurinn fullur af fólki, nánast öllu undir þrítugu. Andarsalat (heil máltíð) á 2000 krónur, lax á 2100 krónur, crème brulée á 1300 krónur, takk.

Ferðamenn eru sáttir

Ferðir, Veitingar

Ferðamenn eru almennt sáttir við matreiðslu og gistingu á Íslandi. Í þúsundum ummæla á TripAdvisor er leitun að óánægju. Helzt eru það gistiheimili, sem fá á baukinn, einkum Tunguvegur, Travel Inn og Adam í Reykjavík. Veitingastaðir þykja almennt góðir og sumir frábærir, sérstaklega í Reykjavík. Ferðabransinn laðar fólk að landinu. Það sækist eftir vingjarnlegu viðmóti umfram annað og af því er nóg hér á landi. Fólk er almennt opið gagnvart náunganum og nýtur þess að umgangast útlendinga. Í nánast öllum plássum landsins er í boði matur og gisting, sem ferðamenn hrífast af. Ferðabransinn stendur sig í stykkinu.

Flýið þjóðveg eitt

Veitingar

Skrítið er, að þjóðvegur eitt fælir frá sér góða matstaði. Þar eru illræmdu benzínstöðvarnar, sem valda martröð. Góðan mat er hægt að fá, ef menn víkja af þjóðvegi eitt. Til dæmis eru Narfeyrarstofa og Sjávarpakkhúsið í Stykkishólmi, Tjöruhúsið á Ísafirði, Geitafell norðan Hvammstanga á Vatnsnesi og Lónkot við Hofsós í Skagafirði. Á leið eitt til Akureyrar er hins vegar hvergi ætan bita að hafa við þjóðveg eitt. Ekki einu sinni á Blönduósi, sem er miðja vega. Á Akureyri er svo hægt að jafna sig á Rub23 eða Nóa. Hinn nothæfi viðkomustaður hringvegarins er Höfn í Hornafirði með Humarhöfnina og Pakkhúsið. Góða ferð.

Bakpokafólk í espresso

Veitingar

Í gamla daga var Hótel Akureyri í Hafnarstræti gististaður allra í höfuðstað Norðurlands, sögufrægur í bókmenntum. Nú er þar gistiheimili bakpokafólks með bezta kaffihúsi Akureyrar á götuhæðinni. Á ferðum um Akureyri reyni ég helzt að koma við í espresso á Akureyri Backpackers. Þar er netsamband einna bezt í göngugötustúfnum Hafnarstræti, þar sem kaffihúsin eru í röðum. Að minnsta kosti heldur betra en í Bláu könnunni, svo ekki sé talað um Eymundsson, þar sem sambandið sveiflaðist. Kaffi og gulrótarterta með rjóma frískar okkur upp á Backpackers fyrir ferð um Víkurskarð. Á kaffihúsinu situr líka forvitnilegt ferðafólk.