Suður-Þingeyjarsýsla

Hellur

Frá Hafralækjarbungu um Hellur að þjóðvegi 85 í Aðaldal.

Byrjum á þjóðvegi 85 við norðurenda Hafralækjarbungu í Aðaldal. Förum norðvestur til Hellnasel. Þangað er leið norðan um Sandsbæi. Frá Hellnaseli förum við beint austur á þjóðveg 85 norðan við Tjörn í Aðaldal.

6,6 km
Þingeyjarsýslur

Nálægar leiðir: Sandsbæir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hellugnúpur

Frá Hellugnúpsskarði að Hlíðarenda og Eyjardalsá í Bárðardal.

Á Sörlastöðum hafa hestamenn á Akureyri aðstöðu fyrir hestamenn. Þetta er kjörinn áningarstaður á ferðalögum milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslna. Hellugnúpsskarð er nokkuð bratt, einkum að vestanverðu, en stutt og auðratað, því að reiðliðin er greinileg. Samhliða reiðleiðinni er línuvegur, sem er torfær jeppum.

Förum af leiðinni frá Sörlastöðum um Hellugnúpsskarð í 600 metra hæð. Fylgjum línuveginum, sem þverbeygir til norðausturs og síðan til norðurs um Eyjadal niður í Bárðardal milli Hlíðarenda og Eyjadalsár.

9,5 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Sörlastaðir: N65 33.420 W17 40.400.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Bíldsárskarð, Fnjóskadalur, Hellugnúpsskarð.
Nálægar leiðir: Gönguskarð vestra, Gásasandur, Bleiksmýrardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hellugnúpsskarð

Frá Sörlastöðum í Fnjóskadal að Stóru-Völlum í Bárðardal.

Hellugnúpsskarð er nokkuð bratt, einkum að vestanverðu, en stutt og auðratað, því að reiðliðin er greinileg. Samhliða reiðleiðinni er línuvegur, sem er torfær jeppum. Þegar þeim vegi sleppir og við nálgumst brún Bárðardals, verður sums staðar að gæta þess að tapa ekki slóðinni í mýrum og missa ekki af vörðunum tveimur, sem sýna leiðina niður í dal að Stóru-Völlum.

Á Sörlastöðum hafa hestamenn á Akureyri aðstöðu fyrir hestamenn. Þetta er kjörinn áningarstaður á ferðalögum milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslna.

Förum frá Sörlastöðum í 240 metra hæð suður um einn kílómetra og þaðan upp sneiðinga austur í Hellugnúpsskarð. Fylgjum línuveginum upp úr gróðrinum og beygjum svo fljótlega til vinstri inn á reiðslóðina. Bæjarfjall er norðan skarðsins og Hellugnúpur sunnan þess. Skarðið fer í 600 metra hæð. Við förum yfir línuveginn á reiðslóð suðaustur á fjallsbrún ofan við Hliðskóga í Bárðardal. Þar á brúninni er slóðin merkt með tveimur vörðum. Við förum skáhallt niður hlíðina að Stóru-Völlum í Bárðardal, sem eru í 200 metra hæð.

14,5 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Sörlastaðir: N65 33.420 W17 40.400.
Kiðagil: N65 30.117 W17 27.375.

Nálægir ferlar: Fnjóskadalur, Bíldsárskarð, Víðiker, Engidalur.
Nálægar leiðir: Gönguskarð vestra, Hellugnúpur, Hörgsdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Heilagsdalur

Frá Hverfjalli í Mývatnssveit umhverfis Bláfjall að Grænavatni í Mývatnssveit.

Heilagsdalur var fjölfarin leið á tímum brennisteinstöku í Fremri-Námum í Ketildyngju. Enn sjást margar samsíða reiðgötur og vörðubrot sums staðar milli Heilagsdalsfjalls og Bláfjallsfjallgarðs. Dalurinn er gróinn háfjallagróðri að vestanverðu með lækjum og lindum, en að austanverðu er sandblásið hraun. Frá fjallaskálanum í Heilagsdal er hægt að fara til austurs með suðurjaðri Skjaldböku að brennisteinsnámunum.

Byrjum á mótum þjóðvegar 1 við Vogaflóa við Mývatn og vegar að Hverfjalli. Förum austur að Hverfjalli austan Grjótagjár. Förum suður að Bláfjallsfjallgarði. Suðaustur brekkurnar á fjallgarðinn og suður í Heilagsdal. Suður með Bláfjalli að austanverðu og suður fyrir Bláfjallshala. Þar snertum við Biskupaleið yfir Ódáðahraun. Við höldum áfram norðvestur að Sellandafjalli austanverðu og förum norður fyrir fjallið. Þaðan beint norður á jeppaslóð sunnan úr Suðurárbotnum og að Randarskarði, þar sem við mætum leið austan úr Bláhvammi. Áfram norðnorðaustur að Grænavatni.

55,3 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Heilagsdalur: N65 27.334 W16 47.484.

Nálægir ferlar: Krákárbotnar.
Nálægar leiðir: Hverfjall, Almannavegur, Bláhvammur, Biskupaleið, Kerlingardyngja.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Heiðarsel

Frá Jaðri í Reykjadal um Heiðarseli að Gullveginum eða Akureyrarvegi á Fljótsheiði.

Förum frá Jaðri suður Kvígindisdal, suður um Skógarsel og Narfastaðasel, og Heiðarsel á Akureyrarveg eða Gullveg á Fljótsheiði milli Mývatns og Skjálfandafljóts.

17,4 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Nafarvað, Vatnshlíð, Hvammsheiði, Gullvegurinn, Engidalur.
Nálægar leiðir: Máskot, Fljótsheiði, Kinnarfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Háöldur

Frá hestagerði í Háumýrum á Sprengisandi að fjallaskálanum í Laugafelli.

Vestari leiðin um Sprengisand, austari leiðin liggur hjá fjallakofanum í Nýjadal.
Eldra nafn á Sprengisandi er Gásasandur, sem margir telja að hefjist norðan Háumýra, efsta gróðurlendis á Holtamannaafrétti.

Á Sturlungaöld var oft farinn Sandur, sem kallað var. Leiðin yfir Sprengisand er forn, þótt þar hafi ætíð verið færri á ferð en yfir Kjöl og Kaldadal. Það er vegna þess að mun lengra er á milli áfangastaða. Vegalengdin milli byggða á Norður- og Suðurlandi er líka lengri á Sprengisandi. Sprengir er talinn vera suðvestan Fjórðungsvatns, þar sem hestar sprungu á reiðinni, þegar fólk reið eins hratt og það gat til að komast hjá því að hitta illar vættir, útilegumenn, drauga eða álfa. Í Háumýrum er hestagerði og heysala, sem styttir þessa löngu reiðleið.

Norðarlega í Háöldum villtist Kristinn Jónsson í göngum 1898, fór yfir vatnaskil og hélt suður með Þjórsá. Hann kom fimmtán dögum síðar fram í Búrfelli í Þjórsárdal og hafði verið matarlaus allan tímann. Allar tær hans kól á báðum fótum.

Háöldur eru melöldur, sem ber hæst á sandinum.

Byrjum við hestagerði í Háumýrum, í 620 metra hæð, norðan við Hreysislón. Förum til norðurs og komum við að stíflunni við Þjórsárlón. Þar liggur Arnarfellsvegur vestur að Arnarfelli og Þjórsárverum. Við förum norður með austurjaðri Þjórsárlóns. Við förum norðaustur um Háölduhraun á Sprengisand. Sunnan við Vegamótavatn förum við af leiðinni og förum beint í norður, unz við komum á jeppaleið til Laugafells. Hæst fer leiðin þar í 780 metra hæð fyrir austan Kvíslarhæð. Við höldum áfram um Háöldur og norður milli Laugafells að austan og Laugafellshnjúk að vestan og komum brátt að fjallaskálunum Hjörvarsskála og Laugafelli í 750 metra hæð.

51,7 km
Rangárvallasýsla, Eyjafjörður

Skálar:
Háumýrar: N64 40.017 W18 27.859
Laugafell : N65 01.703 W18 19.934.
Hjörvarsskáli: N65 01.636 W18 19.926.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Háumýrar, Hofsafrétt.
Nálægar leiðir: Arnarfell, Gásasandur, Miðleið, Eystripollar, Laugafell, Kiðagil.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hafralækjarskarð

Frá Rauðuskriðu við Skjálfandafljót að Hraungerði við Hafralækjarskóla í Aðaldal.

Byrjum hjá brú á Skjálfandafljóti við Rauðuskriðu.Förum norðaustur yfir Fljótsheiði milli Hafralækjarbungu og Skollahnjúks og síðan norður og niður að Hraungerði við Hafralækjarskóla í Aðaldal.

5,0 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Hvammsheiði.
Nálægar leiðir: Kinnarfell, Fosselsskógur, Sandsbæir, Árnes.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Gönguskarð vestra

Frá Akureyrarflugvelli um Gönguskarð að Sörlastöðum í Fnjóskadal.

Förum frá Akureyrarflugvelli austur yfir gömlu brýrnar á Eyjafjarðará og síðan suður með ánni að austan. Svo suðaustur með Þverá og yfir Þverá suðaustur í Garðsárdal, inn dalinn að Gönguskarði til austurs. förum austur, suður og aftur austur um Gönguskarð yfir í Bleiksmýrardal. Þaðan norður dalinn og síðan norður fyrir Tunguöxl, austsuðaustur að Sörlastöðum.

38,5 km
Eyjafjörður, Þingeyjarsýslur

Skálar:
Sörlastaðir: N65 33.420 W17 40.400.

Nálægir ferlar: Bíldsárskarð, Fnjóskadalur.
Nálægar leiðir: Gásasandur, Bleiksmýrardalur, Melgerðismelar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Gönguskarð

Frá Torfunesi í Köldukinn að Þverárrétt í Fnjóskadal.

Gönguskarð er vel gróinn eyðidalur í 400 metra hæð, sem einu sinni var samgönguleið milli Kinnar og Fnjóskadals, en hefur orðið að víkja fyrir Ljósavatnsskarði, sem er nokkru sunnar í fjallgarðinum og miklu lægra. Fyrir bragðið er mikil kyrrð í Gönguskarði. Það er ákjósanleg leið fyrir þá, sem ekki vilja verða fyrir áreiti. Gott er að eiga kost á slíkum leiðum á ferðum milli sýslna og landshluta. Skarðið er hluti af leyndum heimi þriggja dala úr augsýn frá byggð, Gönguskarðs, Seljadals og Finnsstaðadals. Á nítjándu öld fóru menn með skreiðarlestir um Gönguskarð á hverju hausti. Leiðin er vörðuð og sjást sumar vörðurnar enn. Skarðið er vel gróið og var heyjað fyrr á öldum, en getur orðið illviðrasamt að vetrarlagi.

Byrjum við Torfunes í Köldukinn. Einnig er hægt að fara upp í skarðið frá öðrum nálægum bæjum í Kinn. Förum upp og norður fyrir girðingu, sem er ofan við Háls. Komum þar á dráttarvélaslóð frá Hálsi og fylgjum henni upp í skarðið milli Staðarfjalls í norðri og Hrappsstaðaaxlar í suðri. Við erum þar í 400 metra hæð. Förum síðan beint vestur í hið eiginlega Gönguskarð sunnan undir Skollahnjúki, þar sem við náum 420 metra hæð. Við förum skarðið að sunnanverðu, sunnan við tjarnir í Tjarnhverfi. Skarðið liggur síðan norðan við Grænahnjúk og Gönguskarðsöxl og sunnan við Engjafjall. Síðan förum við úr skarðinu niður í Selland eftir dráttarvélaslóð. Förum upp að Garðsfelli og síðan sunnan við fellið, um Háls og niður brekkurnar að þjóðvegi 835, þar sem hann mætir jeppavegi upp á Flateyjardalsheiði. Við förum yfir þjóðveginn austan Þverár að Þverárrétt / Lokastaðarétt á bakka Fnjóskár.

20,7 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Hvammsheiði, Skuggabjörg.
Nálægar leiðir: Kinnarfell, Sandsbæir, Finnstaðadalur, Uxaskarð, Flateyjardalsheiði, Draflastaðafjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Gæsavötn

Farið frá krossgötum Bárðargötu og Nýjadalsleiðar sunnan Trölladyngju um Gæsavötn til Öskju.

Gæsavötn eru tvö grunn vötn í 920 metra hæð með háfjallagróðri umhverfis, vin í melöldum. Skammt austur af þeim fundust kofarústir í 1214 metra hæð. Steinþór Sigurðsson lýsir þeim svo: “Kofinn er hlaðinn upp úr móbergi, hringlagaður, rúmlega 2 metrar í þvermál að neðan, en hefur verið hlaðinn upp í strýtu. Þakið er fallið niður og kofinn auk þess hálffullur af sandi. Dyrnar snúa að vötnunum og er gott útsýni úr þeim yfir alla sléttuna.” Svo hrjóstrugt er þarna, að tæplega hefur þetta verið vistarvera útilegumanna. Hugsanlega hafa ferðamenn á Vatnajökulsvegi hlaðið þetta til að hafa skjól á langri og kuldalegri leið. Trölladyngja er stærsta gosdynja landsins, rís 500-600 metra yfir umhverfið. Víðáttumikil hraun hafa runnið frá henni. Í Urðarhálsi er gífurlega víður gígur, 1100 og 800 metrar að þvermáli og 170 metra djúpur.

Byrjum á krossgötum Bárðargötu og Nýjadalsleiðar. Förum suðaustur Gæsavatnaleið og síðan til austur milli Trölladyngju að norðanverðu og Dyngjujökuls að sunnanverðu. Förum til austurs sunnan við Dyngjuháls, um fjallaskálann í Kistufelli og sunnan við Urðarháls, austur í Flæður Jökulsár á Fjöllum. Förum þaðan norðaustur að Dyngjufjöllum, þar sem við komum að leiðinni úr Dyngjufjalladal austur í Öskju.

49,3 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Gæsavötn: N64 46.723 W17 30.792.
Kistufell: N64 48.663 W17 13.992.

Jeppafært
Athugið gosið í Holuhrauni.

Nálægir ferlar: Öxnadalsdrög, Vonarskarð.
Nálægar leiðir: Kambsfell, Ódáðahraun, Dyngjufjalladalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Gullvegurinn

Frá Helluvaði að Arndísarstöðum.

Sýnishorn af hinum frægu þingeysku heiðum. Hluti gamallar þjóðleiðar frá Mývatnssveit til Akureyrar. Leiðin er sæmilega þurr, liggur um móa og þéttar mýrar milli rústa eyðibýla á Fljótsheiði. Hét upprunalega Akureyrarvegur, en er oftast kölluð Gullvegur, því að umboðsmaður John Coghill sauðakaupmanns glataði hér gullpeningasjóði, sem ekki hefur fundizt. Eða þóttist glata honum. Víða hefur vegurinn verið upphlaðinn og er með steinhleðslum í ræsum. Á þessari leið eiga engir bílar að geta verið á ferð. Jeppamenn hafa þó farið hér og eyðilagt forn ræsi með því að pressa þau saman.

Byrjum á afleggjara af þjóðvegi 1 til Stangar í Mývatnssveit rétt áður en komið er niður að Laxá. Um 500 metra frá þjóðvegi 1 beygjum við frá Stangar-afleggjaranum beint til vesturs eftir greinilegri reiðslóð upp hlíðina. Þessari slóð fylgjum við alla leið í Arndísarstaði í Bárðardal, að mestu í 300 metra hæð. Á vegi okkar verða nokkur eyðibýli og þverslóðir sem liggja norður og suður. Við eyðibýlin Laugasel og Stafnsholt förum við yfir lækjargróf. Við förum um tún í Stafnsholti og síðan um Holtsmóa, rétt norðan við eyðibýlið Brenniás. Við Kálfborgarás förum við um mýrar milli Kálfatjarna og sveigjum síðan til norðurs eftir Kálfborgarási. Þegar við komum norður að Arndísarstaðabungu, sveigjum við til vesturs undir bungunni og förum um sneiðinga niður í Bárðardal sunnan við Arndísarstaði.

24,1 km Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Sandvatn, Engidalur
Nálægar leiðir: Heiðarsel, Fljótsheiði, Fosselsskógur, Kinnarfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Herforingjaráðskort

Gásasandur

Frá Illugastöðum í Fnjóskadal að Þjórsá við Sóleyjarhöfða.

Bleiksmýrardalur er ófær jeppum. Bílvegurinn liggur austan Mjóadals, nær Skjálfandafljóti.

Sprengisandur var kallaður Gásasandur í Sturlungu. 1242 kom Þórður kakali út í Eyjafirði. Reið skjótt um Vaðlaheiði, suður Fnjóskadal og Bleiksmýrardal á flótta undan Kolbeini unga Arnórssyni. Fór suður Sprengisand til Rangárvalla að leita liðveizlu hjá Hálfdáni Sæmundarsyni á Keldum og systur sinni Steinvöru Sighvatsdóttur. Fallnir voru bræður hans og faðir í Örlygsstaðabardaga. Þórður kom félaus og vopnlítill úr Noregi og án fylgismanna. Ferðin suður Sprengisand var upphafið að linnulausum herferðum og blóðugum átökum, þar sem Þórður sigraði að lokum. Oftast var farið aðeins austar upp á Sprengisand, upp úr Bárðardal um Mjóadal og í Kiðagilsdrög.

Förum frá Illugastöðum í Fnjóskadal suður með þjóðvegi 833 vestan Fnjóskár að Reykjum og þaðan suður þröngan Bleiksmýrardal. Við eyðibýlið Skarðssel suðaustan undir Hágöngum kemur hér inn slóð um Gönguskarð úr Eyjafirði. Áfram höldum við Bleiksmýrardal um fjallaskálann Bleik og alveg upp úr suðurenda dalsins, þar sem við komum á Sprengisand. Þar komum við á jeppaslóð, sem liggur á Sprengisandsveg. Þeim vegi fylgjum við um Kiðagilsdrög og förum vestur fyrir Fjórðungsvatn að fjallaskálanum í Nýjadal vestan undir Tungnafellsjökli. Þaðan förum við vestur jeppaslóð, sem kallast Styttingur og liggur að stíflu í Háumýrum við Þjórsárlón. Þar getum við farið Arnarfellsleið yfir Þjórsá og síðan um Arnarfellsmúla, Nauthaga og Tjarnarver að fjallaskálanum í Tjarnarverum. Líklegri og almennari leið frá Háumýrum er austan Þjórsár um Eyvindarver, Biskupsþúfu og Ferðamannaöldu að vaðinu á Þjórsá við Sóleyjarhöfða. Þaðan er stutt að áðurnefndum fjallaskála í Tjarnarverum. Þaðan liggur vörðuð slóð suður afrétt Gnúpverja um fjallaskálana Bjarnalækjarbotna, Gljúfurleit og Hólaskóg niður í Þjórsárdal, þar sem brátt eru vöð á Þjórsá yfir á Land og Rangárvelli.

69,2 km
Þingeyjarsýslur, Rangárvallasýsla

Skálar:
Bleikur: N65 24.320 W17 46.405.
Bleiksbúð: N65 07.954 W17 52.103.
Sandbúðir: N64 55.920 W17 59.239.
Nýidalur: N64 44.103 W18 04.323.

Nálægir ferlar: Fnjóskadalur, Bíldsárskarð, Hellugnúpsskarð, Fjórðungsalda, Háöldur.
Nálægar leiðir: Bleiksmýrardalur, Gönguskarð vestra, Kiðagil, Miðleið, Kambsfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sturlunga

Gautlönd

Frá Laxárdalsafleggjara 848 í Mývatnssveit um Gautlönd að Hörgsdal á Fljótsheiði.

Þetta er gamla reiðleiðin.

Gautlönd eru gamalgróið menningarsetur. Jón Sigurðsson á Gautlöndum var lengi alþingismaður og forustumaður í samvinnuhreyfingunni á upphafsárum hennar. Sonur hans, Sigurður Jónsson var einnig þingmaður og forustumaður í samvinnuhreyfingunni.

Byrjum á þjóðvegi 1 í Mývatnssveit við þjóðveg 848 norður Laxárdal. Förum beint suður um Arnarvatn að Gautlöndum í Mývatnssveit. Þaðan beint vestur að eyðibýlinu Hörgsdal á Fljótsheiði.

11,1 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Mývatnsheiði, Engidalur, Sandvatn, Mývatnsrif, Krákárbotnar.
Nálægar leiðir: Hörgsdalur, Sandfell, Hrísheimar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Fosselsskógur

Frá Rauðuskriðu í Aðaldal með Skjálfandafljóti að Fosshóli í Bárðardal.

Gatan getur verið tæp við Skjálfandafljót vegna ágangs fljótsins.

Byrjum á þjóðvegi 85 við brúna á Skjálfandafljóti hjá Rauðuskriðu. Förum þjóðveg suður með Skjálfandafljóti að austanverðu að Vaði og síðan reiðslóð suður með fljótinu um Glaumbæjarsel og Fljótsbakka að Ingjaldsstöðum. Þaðan suður að Fosshóli í Bárðardal.

17,8 km
Þingeyjarsýslur

Ekki fyrir hesta

Nálægir ferlar: Gullvegurinn, Hvammsheiði.
Nálægar leiðir: Kinnarfell, Fossel, Fljótsheiði, Hafralækjarskarð, Sandsbæir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Fossel

Frá Vaði við Skjálfandafljót um Fosselsskóg að gamla þjóðveginum yfir Fljótsheiði.

Athugið, að þetta er viðurkennd reiðleið, þótt sumarhúsaeigendur við Vað reyni að amast við hestum.

Förum frá Vaði suður með fljótinu og síðan dráttarvélagötu á ská um skóginn upp á Fljótsheiði. Fylgjum þeirri slóð áfram uppi á heiði, unz við komum að gamla þjóðveginum um Fljótsheiði.

7,2 km
Þingeyjarsýslur

Nálægar leiðir: Kinnarfell, Fosselsskógur, Fljótsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson