Gullvegurinn

Frá Helluvaði að Arndísarstöðum.

Sýnishorn af hinum frægu þingeysku heiðum. Hluti gamallar þjóðleiðar frá Mývatnssveit til Akureyrar. Leiðin er sæmilega þurr, liggur um móa og þéttar mýrar milli rústa eyðibýla á Fljótsheiði. Hét upprunalega Akureyrarvegur, en er oftast kölluð Gullvegur, því að umboðsmaður John Coghill sauðakaupmanns glataði hér gullpeningasjóði, sem ekki hefur fundizt. Eða þóttist glata honum. Víða hefur vegurinn verið upphlaðinn og er með steinhleðslum í ræsum. Á þessari leið eiga engir bílar að geta verið á ferð. Jeppamenn hafa þó farið hér og eyðilagt forn ræsi með því að pressa þau saman.

Byrjum á afleggjara af þjóðvegi 1 til Stangar í Mývatnssveit rétt áður en komið er niður að Laxá. Um 500 metra frá þjóðvegi 1 beygjum við frá Stangar-afleggjaranum beint til vesturs eftir greinilegri reiðslóð upp hlíðina. Þessari slóð fylgjum við alla leið í Arndísarstaði í Bárðardal, að mestu í 300 metra hæð. Á vegi okkar verða nokkur eyðibýli og þverslóðir sem liggja norður og suður. Við eyðibýlin Laugasel og Stafnsholt förum við yfir lækjargróf. Við förum um tún í Stafnsholti og síðan um Holtsmóa, rétt norðan við eyðibýlið Brenniás. Við Kálfborgarás förum við um mýrar milli Kálfatjarna og sveigjum síðan til norðurs eftir Kálfborgarási. Þegar við komum norður að Arndísarstaðabungu, sveigjum við til vesturs undir bungunni og förum um sneiðinga niður í Bárðardal sunnan við Arndísarstaði.

24,1 km Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Sandvatn, Engidalur
Nálægar leiðir: Heiðarsel, Fljótsheiði, Fosselsskógur, Kinnarfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Herforingjaráðskort