Gásasandur

Frá Illugastöðum í Fnjóskadal að Þjórsá við Sóleyjarhöfða.

Bleiksmýrardalur er ófær jeppum. Bílvegurinn liggur austan Mjóadals, nær Skjálfandafljóti.

Sprengisandur var kallaður Gásasandur í Sturlungu. 1242 kom Þórður kakali út í Eyjafirði. Reið skjótt um Vaðlaheiði, suður Fnjóskadal og Bleiksmýrardal á flótta undan Kolbeini unga Arnórssyni. Fór suður Sprengisand til Rangárvalla að leita liðveizlu hjá Hálfdáni Sæmundarsyni á Keldum og systur sinni Steinvöru Sighvatsdóttur. Fallnir voru bræður hans og faðir í Örlygsstaðabardaga. Þórður kom félaus og vopnlítill úr Noregi og án fylgismanna. Ferðin suður Sprengisand var upphafið að linnulausum herferðum og blóðugum átökum, þar sem Þórður sigraði að lokum. Oftast var farið aðeins austar upp á Sprengisand, upp úr Bárðardal um Mjóadal og í Kiðagilsdrög.

Förum frá Illugastöðum í Fnjóskadal suður með þjóðvegi 833 vestan Fnjóskár að Reykjum og þaðan suður þröngan Bleiksmýrardal. Við eyðibýlið Skarðssel suðaustan undir Hágöngum kemur hér inn slóð um Gönguskarð úr Eyjafirði. Áfram höldum við Bleiksmýrardal um fjallaskálann Bleik og alveg upp úr suðurenda dalsins, þar sem við komum á Sprengisand. Þar komum við á jeppaslóð, sem liggur á Sprengisandsveg. Þeim vegi fylgjum við um Kiðagilsdrög og förum vestur fyrir Fjórðungsvatn að fjallaskálanum í Nýjadal vestan undir Tungnafellsjökli. Þaðan förum við vestur jeppaslóð, sem kallast Styttingur og liggur að stíflu í Háumýrum við Þjórsárlón. Þar getum við farið Arnarfellsleið yfir Þjórsá og síðan um Arnarfellsmúla, Nauthaga og Tjarnarver að fjallaskálanum í Tjarnarverum. Líklegri og almennari leið frá Háumýrum er austan Þjórsár um Eyvindarver, Biskupsþúfu og Ferðamannaöldu að vaðinu á Þjórsá við Sóleyjarhöfða. Þaðan er stutt að áðurnefndum fjallaskála í Tjarnarverum. Þaðan liggur vörðuð slóð suður afrétt Gnúpverja um fjallaskálana Bjarnalækjarbotna, Gljúfurleit og Hólaskóg niður í Þjórsárdal, þar sem brátt eru vöð á Þjórsá yfir á Land og Rangárvelli.

69,2 km
Þingeyjarsýslur, Rangárvallasýsla

Skálar:
Bleikur: N65 24.320 W17 46.405.
Bleiksbúð: N65 07.954 W17 52.103.
Sandbúðir: N64 55.920 W17 59.239.
Nýidalur: N64 44.103 W18 04.323.

Nálægir ferlar: Fnjóskadalur, Bíldsárskarð, Hellugnúpsskarð, Fjórðungsalda, Háöldur.
Nálægar leiðir: Bleiksmýrardalur, Gönguskarð vestra, Kiðagil, Miðleið, Kambsfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sturlunga