Suður-Þingeyjarsýsla

Naustavík

Frá Nípá í Köldukinn til Naustavíkur.

Þetta er lengri leiðin til Naustavíkur, en traustari en fjöruleiðin um Ágúlshelli, sem ekki er fær hestum.

Förum frá Nípá vestur og upp með Karlsá í Kotaskarð. Norðnorðvestur um skarðið í 460 metra hæð. Síðan norður og niður með Skarðsá og Purká í Kotadal til Naustavíkur.

10,2 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Naustavík: N66 00.475 W17 40.597.

Nálægar leiðir: Skjálfandi, Uxaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Nafarvað

Frá Geitafelli í Reykjahverfi til Einarsstaða í Reykjadal.

Þetta er mjúk leið um efri hluta gróðursælla dala Þingeyjarsýslu, nokkuð brött með köflum, þegar hún steypir sér niður í Laxárdal og Reykjadal. Laxárdalur er rómaður fyrir fegurð og Reykjadalur fyrir gróðursæld. Um heiðar og dali liggja moldargötur, sem fara notalega með hófa ferðahesta. Þetta er dæmigerð leið um Þingeyjarsýslu og á henni eiga engir jeppar að geta verið á ferð.

Förum frá eyðibýlinu Geitafelli suður með þjóðvegi 87 meðfram Geitafellshnjúk. Förum um hlið frá veginum og eftir reiðslóð beint til suðurs að Kringluvatni. Förum vestan vatnsins til suðvesturs eftir slóð niður hlíðarnar að Árhvammi í Laxárdal. Förum ofan túns og um rennu niður að þjóðvegi 856. Síðan um 200 metra leið með þjóðveginum og beygjum síðan eftir slóð að Nafarvaði að Laxá. Förum yfir vaðið og síðan eftir slóð að Þverá í Laxárdal. Þar förum við ofan garða á slóð, sem liggur þaðan yfir heiðina til Reykjadals. Slóðin liggur fyrst til suðvesturs og síðan til vesturs undir Hvítafelli í 320 metra hæð og loks til norðvesturs um brekkur niður að Stóru-Laugum í Reykjadal. Þar komum við á þjóðveg 846 og fylgjum honum tæpa tvo kílómetra til norðurs, unz við komum að vaði á Reykjadalsá andspænis Einarsstöðum. Fylgjum þar reiðslóð um sléttlendið að bæ á Einarsstöðum.

18,7 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Geitafell : N65 47.938 W17 14.659.

Nálægir ferlar: Hamrahlíð, Vatnshlíð, Hvammsheiði.
Nálægar leiðir: Hrossanúpar, Máskot, Ljótsstaðir, Þegjandadalur, Máskot, Fljótsheiði, Kinnarfell, Heiðarsel.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Mývatnsrif

Frá Álftagerði við Mývatn um Haganes og síðan um Rifið yfir Mývatn.

Rifið er raunar mörkin milli Mývatns og Laxár, þótt stórir flóar séu neðan þess. Þessi leið var áður farin með brennistein úr Fremri-Námum í Ketildyngju til Húsavíkur, þegar kóngurinn í Kaupmannahöfn þurfti að fara í stríð. Þegar þeir flutningar lögðust af, týndist þetta vað á Mývatni. Arngrímur Geirsson á Skútustöðum og fleiri hestamenn við Mývatn fundu vaðið aftur og hafa síðan hjálpað hestamönnum yfir það. Vaðið er 300 metra langt, traust og hvergi sund, en vel í síðu. Önnur vöð eru neðar, svo sem Brautarsteinsvað, Sauðavað, Gunnlaugsvað, Helluvað og Geirastaðavað. Mest notuð voru Brotavöð, þar sem farið var yfir Laxá í fjórum kvíslum um Brotahólma og Hrútey, hálfum kílómetra norðan við bæinn á Helluvaði.

Förum frá Álftagerði hálfan kílómetra vestur með þjóðvegi 1 að hliði á afleggjara að Haganesi. Fylgjum heimreiðinni í Haganes og þaðan eftir reiðslóð norður í Fjárborg og síðan vestur á Rifshöfða í norðvesturhorni Haganess. Einnig er hægt að fara vestur og norður fyrir Blátjörn út í Rifshöfða. Þar förum við vestur yfir Mývatn á Rifinu norðan við Ytri-Breiðu, 300 metra langt vað. Komum í land undir Rifsborgum rétt við þjóðveg 848 norðan Mývatns, í Geirastaðahrauni milli Vagnbrekku og Geirastaða. Síðan sömu leið til baka aftur. Þessa leið má aðeins fara með kunnugum manni, því að djúpt er beggja vegna rifsins. Arngrímur Geirsson á Skútustöðum hefur hjálpað mönnum yfir vaðið.

7,0 km
Þingeyjarsýslur

Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Skútustaðir: N65 34.050 W17 02.200.

Nálægir ferlar: Krákárbotnar.
Nálægar leiðir: Sandfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Mývatnsheiði

Sportleið frá Gautlöndum í Mývatnssveit á Stóraás og til baka að Stöng í Mývatnssveit.

Gautlönd eru gamalgróið menningarsetur. Jón Sigurðsson á Gautlöndum var lengi alþingismaður og forustumaður í samvinnuhreyfingunni á upphafsárum hennar. Sonur hans, Sigurður Jónsson var einnig þingmaður og forustumaður í samvinnuhreyfingunni. Stöng er gamalgróið ferðaþjónustubýli, sem býður fjölbreytta gistingu. Stóriás er langur og lágur ás, sem liggur frá Sandfelli langleiðina suður að Víðikeri. Í ásnum er lyng, í lægðunum umhverfis er mýragróður og þar á milli er víðir af ýmsu tegundum.

Byrjum á brúnni yfir Gautlandalæk við Gautlönd. Förum með leyfi landeiganda vestur um bæjarhlað og síðan suður um tún að hliði í efsta horni hliðsins. Förum um hliðið inn á jeppaslóð á Mývatnsheiði. Sláum okkar fljótlega meira til vesturs og komum sunnan við Sandfell að jeppaslóð milli fellsins og Sandvatns. Sú slóð kemur inn á slóð frá Engidal, sem liggur um Sandfell til Stangar. Við förum suður veginn í átt að Engidal. Þegar vegurinn víkur til vesturs frá vatninu, förum við reiðslóð til suðurs meðfram girðingu frá eyðibýlinu Stóraási. Við förum austan við Bjarnapoll og á Stóraás svo langt sem okkur lystir. Leiðin endar við Grjótá, sem leiðir okkur að Víðikeri í Bárðardal. Við förum sömu leið til baka að Sandfelli. Þar förum við með veginum yfir fellið að Stöng. Þaðan liggur Gullvegur vestur um Fljótsheiði.

20,6 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Engidalur.
Nálægar leiðir: Gautlönd, Sandfell, Hrísheimar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Miðleið

Frá Galtabóli sunnan Bleiksmýrardals að Háölduleið vestan Nýjadals.

Hér kölluð Miðleið til aðgreiningar frá vestari leið um Sprengisand norðan frá Laugafelli og austari leið norðan úr Bárðardal. Þessi leið er í beinu framhaldi af leið norðan úr Bleiksmýrardal. Fjórðungsvatn er stærsta vatn á Sprengisandi, fimm kílómetrar að lengd, í 760 metra hæð.

Byrjum á krossgötum vestan Galtabóls. Við förum jeppaslóð suður Sprengisand að Fjórðungsvatni, þar sem við komum á höfuðleiðina yfir Sprengisand sunnan úr Nýjadal. Hún liggur norður að suðurenda Fjórðungsvatns. En við förum til suðvesturs frá vesturhlið Fjórðungsvatns eftir jeppaslóð austan og sunnan Vegamótavatns að leiðinni um Háöldur. Sú leið liggur milli Laugafells í norðri og Háumýra í suðri.

27,8 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Galtaból: N65 01.654 W18 03.243.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fjórðungsalda, Háöldur.
Nálægar leiðir: Hólafjall, Kiðagil, Gásasandur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Máskot

Frá Einarsstöðum í Reykjadal um Máskot að Þverá í Laxárdal.

Unnur Benediktsdóttir frá Auðnum ritaði sögur undir rithöfundarnafninu Hulda.

Förum frá Einarsstöðum austur yfir Reykjadalsá og suður veginn að Hjalla. Síðan suður á fellið, austan við Brún, að Máskoti. Þaðan vegarslóða norðaustur að Ljótsstöðum í Laxárdal. Norður veg um Laxárdal að Auðnum og Þverá.

22,5 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Nafarvað, Vatnshlíð, Hvammsheiði.
Nálægar leiðir: Þegjandadalur, Ljótsstaðir, Kinnarfell, Fljótsheiði, Heiðarsel.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Ljótsstaðir

Frá Birningsstöðum í Laxárdal um Ljótsstaði að Másvatni í Reykjadal.

Förum frá Birningsstöðum suður Laxárdal vestan ár um Þverá og Auðnir að Ljótsstöðum. Við förum vestur yfir Ljótsstaðahall á þjóðveg 1 við Máskot við Másvatn.

17,0 km
Þingeyjarsýslur

Jeppafært

Nálægir ferlar: Nafarvað.
Nálægar leiðir: Þegjandadalur, Hrossanúpar, Pennaflötur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Ljósavatnsskarð

Frá Hallgilsstöðum um Ljósavatnsskarð að Ljósavatni.

Sigríðarstaðaskógur er nánast ósnortinn náttúruskógur.

Förum frá Hallgilsstöðum suðaustur um Ljósavatnsskarð að norðanverðu. Undir Fornastaðafjalli og um Sigríðarstaðaskóg, að Ljósavatni við þjóðveg 1 í Ljósavatnsskarði.

11,6 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Fnjóskadalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Látraströnd

Frá Grenivík um Látraströnd að Látri.

Í Árbók FÍ 1992 segir m.a.: “Látraströnd er sæbrött og víða hamrar eða drangar með sjónum en afdrep á milli. Þar eru malarfjörur og nokkuð um rekavið. Hlíðarnar eru sundurskornar af lækjum, sem víða falla um djúp gil til sjávar. Gróður er víða fagur og verður einstaklega glæsilegur í lægðum og lautum er utar dregur. Utan við Sker, allt norður að Fossárdal, er gróður hvað þrifalegastur á skaganum; berjalyng, fjalldrapi og birkikjarr.”

Förum frá Grenivík norður ströndina til Láturs.

21,0 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Látur: N66 06.987 W18 18.972.

Nálægar leiðir: Blæja, Fjörður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Laufrönd

Hringleið um Laufrönd frá jeppaslóðamótum leiðar um Öxnadalsdrög og leiðar þvert yfir Ódáðahraun.

Laufrönd er gróðurlendi með lækjum og lindum í Ódáðahrauni austan Skjálfandafljóts. Þar vex loðvíðir og þar verpir snæugla í Laufrandarhrauni.

Byrjum rétt norðan jeppaslóðamóta leiðar um Öxnadalsdrög og leiðar þvert yfir Ódáðahraun. Förum eftir jeppaslóð hringleið um Laufrönd og komum hingað til baka aftur. Förum fyrst norðvestur í skálann Slakka í mynni Hraunárdals, rétt hjá Skjálfandafljóti og Kiðagili. Höldum síðan suður Hraunárdal í Laufrönd og að Hitulaug. Að lokum norðaustur að upphafspunkti ferðarinnar.

42,6 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Slakki: N65 03.317 W17 37.044.

Jeppafært

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Krákárbotnar

Frá Stóru-Flesju í Suðurárbotnum til Álftagerðis við Mývatn.

Þetta er falleg reiðleið með mikilúðlegt Sellandafjall að austanverðu og Kráká að vestanverðu. Fyrst er farið um mikið foksvæði, sem reynt hefur verið að græða upp með girðingum og sáningu. Að sunnan berst foksandur frá Ódáða- og Suðurárhrauni og eyðir mólendi við upptök Krákár. Uppgræðslusvæðin eru Katlar, Hrútatorfur og Kolatorfur og liggja þau á víðáttumiklu mólendi þar sem uppblástur hefur verið verulegur. Grassáningar á mela hafa skilað góðum árangri og auðveldað landnám plantna eins og víðis, krækilyngs og annarra mólendistegunda. Gróður eykst smám saman og er orðinn hlýlegur, þegar komið er vestur yfir Kráká í Hrútavíðisel.

Förum frá Stóru-Flesju í 400 metra hæð hálfan kílómetra upp með Suðurá að vegarslóða til norðurs frá ánni. Við fylgjum þeim slóða norðaustur um Botnaflesju, unz við komum að hliðarslóða norðaustur á Biskupaleið yfir Ódáðahraun. Við fylgjum meginleiðinni norðvestur í Krákárbotna og síðan norður með Sellandafjalli að vestan. Við höldum beint áfram um Stórhólsmýri og Sellandagróf, síðan um Sellönd og Sellandaás. Skömmu áður en slóðin beygir til austurs förum við í vestur yfir Kráká að eyðibýlinu Hrútavíðiseli og síðan áfram um Baldursheimsheiði að Baldursheimi. Förum þar stuttan kafla með þjóðvegi 849 og síðan til norðurs með Kráká að Litlu-Strönd. Þar förum við á göngubrú yfir Kráká og síðan norður með ánni að austanverðu alla leið að þjóðvegi 1 við Mývatn, rétt austan Álftagerðis.

34,9 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Stóra-Flesja: N65 18.407 W17 08.804.
Skútustaðir: N65 34.050 W17 02.200.

Nálægir ferlar: Suðurá, Suðurárbotnar.
Nálægar leiðir: Sandfell, Hrísheimar, Kráká, Biskupaleið, Kerlingardyngja, Suðurárhraun, Íshólsvatn, Dyngjufjalladalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Kráká

Frá Baldursheimi í Mývatnssveit meðfram Kráká að Svartárkoti í Bárðardal.

Jeppaslóðin úr Suðurárbotnum liggur austan Krákár, en þessi leið er vestan árinnar.

Förum frá Baldursheimi suður með Kráka vestanverðri, um Hrútavíðasel, Langaás, Bakkarönd, austan Hvannamós og Bræðra. Komum að jeppaslóð suðvestur fyrir Svartárvatn að Svartárkoti.

20,9 km
Þingeyjarsýslur

Jeppafært

Nálægir ferlar: Suðurá, Krákárbotnar.
Nálægar leiðir: Dyngjufjalladalur, Sandfell, Hrísheimar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Kleifarsund

Frá Lundarbrekku í Bárðardal um Kleifarsund að Engidal á Fljótsheiði.

Förum frá Lundarbrekku austur í Kleifarsund sunnan við Kálfborgarárfell og síðan norðaustur um Vatnsmýri að Engidal.

5,6 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Víðiker, Engidalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Kinnarfell

Frá Fosshóli við Skjálfandafljót norður með fljótinu og um Fljótsheiði að Einarsstöðum í Reykjadal.

Sumarhúsafólk og bóndinn á Vaði segja þessa leið bannaða og torfæra, en hvort tveggja er rangt, þetta er hefðbundin og viðurkennd reiðleið.

Eigandi Barnafells í Kinnarfelli hefur byggt sumarhús ofan í þjóðleiðinni og girt umhverfis það. Flestir hestamenn fara niður fyrir girðinguna, en þar er torleiði á kafla vegna bleytu.

Förum frá Fosshóli vestur yfir brúna á fljótinu og norður um hlað í Hriflu. Síðan norður með Kinnarfelli vestanverðu, um Fellsskóg, gamlan veg norður með fljótinu. Austur yfir nyrðri brúna á Skjálfandafljóti og suður með fljótinu, um Vað og suður í Fossel. Síðan upp Fosselsskóg um slóða upp heiðina og suður heiðina og vestur gamlan veg um Fljótsheiði. Og loks niður að Einarsstöðum í Reykjadal.

35,1 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Gullvegurinn, Gönguskarð, Hvammsheiði, Nafarvað, Vatnshlíð.
Nálægar leiðir: Fosselsskógur, Fossel, Sandsbæir, Hafralækjarskarð, Heiðarsel, Máskot.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Kiðagilshnjúkur

Frá Laugafelli í Kiðagil um norðurbrún Sprengisands.

Jeppaslóðin liggur fyrir sunnan Kiðagil og sést ekki af veginum til gilsins. Gamla þjóðleiðin lá norðan gilsins niður í Dældir og síðan niður með Skjálfandafljóti vestanverðu norðvestur í Kvíar, þar sem farið var austur yfir fljótið. Áningarstaður biskupa og annarra ferðamanna var í Dældum.

Farin er jeppaslóðin úr Laugafelli yfir á jeppaslóðina á Sprengisandi. Hér er farið um eyðisanda, grasleysi og vatnsleysi, unz við nálgumst Kiðagil, sem frægt er af kvæði Gríms Thomsen, þar sem segir meðal annars: “Ríðum, ríðum, rekum yfir sandinn, / rökkrið er að síga á Herðubreið, / álfadrottning er að beisla gandinn, / ekki er gott að verða á hennar leið; / vænsta klárinn vildi ég gefa til / að vera kominn ofan í Kiðagil.” Enn í dag eru margir fegnir á þessari leið, þegar landið fer að lækka niður að Bárðardal. Þvert yfir þessa leið reið Þórður kakali Sighvatsson úr Bleiksmýrardal suður á Sprengisand.

Förum frá Laugafelli í 740 metra hæð og fyrst eftir Eyjafjarðarleið til norðausturs, beygjum síðan af henni á Dragaleið til austurs og komumst þar í 900 metra hæð. Leiðin liggur síðan meira til suðurs af austri, nálægt skálanum í Galtabóli, og síðan aftur til austurs unz hún mætir jeppaveginum yfir Sprengisand. Þeim vegi fylgjum við til norðausturs um Kiðagilsdrög, förum vestan við Kiðagilshnjúk og síðan um Fossgilsmosa. Að lokum förum við eftir afleggjara í 660 metra hæð niður að Skjálfandafljóti, þar sem heitir Kvíahraun í 420 metra hæð. Þar tekur við Biskupavegur yfir Ódáðahraun.

21,1 km
Eyjafjörður, Þingeyjarsýslur

Skálar:
Laugafell : N65 01.703 W18 19.934.
Hjörvarsskáli: N65 01.636 W18 19.926.
Galtaból: N65 01.654 W18 03.243.
Fossgilsmosar : N65 05.864 W17 36.452.
Kvíakofi: N65 06.739 W17 31.179.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Háöldur, Hofsafrétt, Fjórðungsalda.
Nálægar leiðir: Eystripollar, Laugafell, Hólafjall, Miðleið, Gásasandur, Biskupaleið, Suðurárhraun, Bleiksmýrardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort