Péturskirkja

Frá Reykjahlíð við Mývatn til Grímsstaða á Fjöllum.

Eldri þjóðleið er Almannavegur frá Ferjufjalli við Jökulsá á Fjöllum.

Þetta er hin gamla þjóðleið milli Norðurlands og Austurlands, oftast kölluð Mývatnsöræfi. Fyrst liggur leiðin um Námaskarð og síðan um lyngvaxið gróðurflæði á Austaraselsheiði. Loks um sandorpið helluhraun með útsýni suður til Herðubreiðar. Péturskirkja er þekktur áningarstaður á þessari leið, kennd við Pétur Jónsson í Reynihlíð. Sunnan leiðarinnar breiðir úr sér Búrfellshraun, mikið flæmi með ótal gjótum, hellum og hraukum og birkikjarri í skjóli. Á þessum slóðum var Fjalla-Bensi í fjárleitum, svo sem lýst er í Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson. Reiðleiðin liggur mestan part langt utan þjóðvegarins, lengst af norðan hans. Leiðin er vel vörðuð og hefur Birkir Fanndal endurreist margar af vörðunum.

Förum frá flugvellinum í Reykjahlíð við Mývatn í 300 metra hæð og förum suður með Melum undir fjallsrótum ofan byggðar í Reykjahlíðarhverfi og áfram beint austur. Upp á þjóðveg 1 við afleggjara að Jarðbaðshólum og förum með þjóðveginum um Námaskarð, í 420 metra hæð. Þegar við komum niður handan skarðsins beygjum við eftir þjóðvegi 863 til norðurs um 500 metra og síðan eftir reiðslóð til austurs um Sandfell og Nautarandir. Förum yfir gamla slóð til Kelduhverfis í 460 metra hæð norðan eyðibýlisins Austarasels. Þaðan förum við austur um Austaraselsheiði og Amtmannsás niður að þjóðvegi 1. Meðfram honum um Skeiðflöt, yfir gamla jeppaveginn að Dettifossi og síðan áfram austur með þjóðvegi 1, stundum sunnan hans og stundum norðan. Leiðin er að mestu leyti enn vörðuð. Komum við í fjallakofanum Péturskirkju og förum síðan áfram framhjá afleggjara að Herðubreið og síðan yfir Jökulsá á Fjöllum um brú hjá Grímsstöðum á Fjöllum. Handan brúar förum við nyrðri þjóðveginn, númer 864, að Grímstungu, í 400 metra hæð.

44,6 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Péturskirkja : N65 38.495 W16 21.949.
Grímsstaðir: N65 38.615 W16 07.050.

Nálægir ferlar: Sandvatn, Hólsfjöll, Öskjuleið.
Nálægar leiðir: Pennaflötur, Hrossanúpar, Draugagrund, Jörundur & Eilífur, Dettifoss, Dettifossvegur, Dimmifjallgarður, Heljardalur.

Skrásetjari: Sæmundur Eiríksson
Heimild: Sæmundur Eiríksson