Haukadalsskarð

Frá Stóra-Vatnshorni í Haukadal að Stað í Hrútafirði.

Leiðin um Haukadalsskarð hefur frá fyrstu tíð verið fjölfarin milli Dala og Norðurlands. Hennar er getið í Njáls sögu og Sturlungu. Í Sturlungu segir: “En er Sturla Þórðarson spurði, að Brandur var kominn í Miðfjörð með flokk og ætlaði vestur í sveitir, þá dró hann þegar lið saman. Kom þá til liðs við hann Þorgils skarði Böðvarsson og Vigfús Gunnsteinsson. Riðu þeir þá norður yfir Haukadalsskarð og höfðu nær tvö hundruð manna; tóku þeir þá áfanga fyrir norðan skarðið. Komu þá aftur njósnamenn þeirra Sturlu og segja, að Brandur var í Miðfirði og fór heldur óvarlega.” Þetta var 1244. Sama ár eftir Flóabardaga riðu Sturla Þórðarson og Þórður kakali norður skarðið í misheppnaðri aðför að Kolbeini unga.

Förum frá Stóra-Vatnshorni austur dalinn norðan Haukadalsár um Eiríksstaði, Leikskála, Núp, Smyrlahól og Giljaland, inn fyrir beygjuna á dalnum og suður fyrir eyðibýlin Kross og Skarð. Skammt sunnan Skarðs förum við jeppaveg til austurs milli Geldingafells í norðri og Klambrafells í suðri upp í Haukadalsskarð. Við förum í austur og síðan í norðaustur, komumst í 280 metra hæð. Síðan um brekkurnar norðaustur af heiðinni niður með Ormsá að Melum í Hrútafirði. Við förum niður að Hrútafjarðará og fylgjum henni til norðurs, unz við erum komin andspænis gamla Staðarskála. Þá förum við þvert yfir ána og upp brekkurnar, yfir þjóðveg 1 að Stað í Hrútafirði.

32,5 km
Snæfellsnes-Dalir, Húnavatnssýslur

Jeppafært

Nálægir ferlar: Sópandaskarð, Saurstaðaháls, Tröllháls, Húnaþing.
Nálægar leiðir: Prestagötur, Villingadalur, Krossbrún, Haukadalsá, Jörfamúli, Holtavörðuheiði, Sölvamannagötur.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Steingrímur Kristinsson