Álftaversleið

Frá Höfðabrekku í Mýrdal um Álftaversleið að Herjólfsstöðum í Álftaveri.

Leiðin er vörðuð að hluta, einkum austan til.

Lítið er um landslag á leiðinni, bara grár sandurinn, en í fjarlægð sést til fjalla. Ef eitthvað er að veðri, er þetta skyldureið, en ekki sportreið. Í sólskini og hita villa hillingar um fyrir fólki, sem heldur, að styttra sé í áfangastað en raun ber síðan vitni um. Þetta er alvöru eyðimörk. Álftaver var áður fjölmennari byggð, en Kötlugos hafa sneitt af sveitinni. Margar jarðir eru horfnar undir hraun. Álftavershólar veita byggðina samt nokkra vörn.

Förum frá Múlakvísl og fylgjum slóð norður í átt að Hafursey, unz við erum komin á móts við Núpakamb, þar sem leiðir lágu fyrri aldir út á Mýrdalssand. Þaðan förum við austur, lengst af norðan núverandi þjóðvegar, en sunnan við hann, þegar við nálgumst Álftaver. Leiðin liggur miðja vega milli Hafurseyjar og Hjörleifshöfða, um Háöldukvísl og Blautukvísl, síðan um Dýralækjarsker á miðjum sandi og Herjólfsstaðabót og loks yfir Kælira og Hrafnasker. Komum til byggða í Álftaveri hjá Herjólfsstöðum.

20,4 km
Skaftafellssýslur

Nálægar leiðir: Skaftártunguleið, Mýrdalssandur, Kúðafljót.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins