Breiðbakur

Frá Fjallabaksleið nyrðri um Langasjó og Breiðbak í Jökulheima.

Ein stórfenglegasta eyðimerkurleið landsins framhjá fegursta stöðuvatni landsins og með einu víðfeðmasta útsýni landsins af tindi Breiðbaks.

Byrjum á Fjallabaksleið nyrðri milli Skuggafjalla og Herðubreiðar í 620 metra hæð. Förum meðfram Skuggafjallakvísl og norðvestan við Ljónstind og Gjátind í Norðari-Ófæru og áfram vestan við Blautulón, sem eru undir fjallinu Gretti. Norðvestan við okkur er Grænifjallgarður. Við förum áfram milli hans og Hellnafjalls að suðaustan. Þar komum við að suðurendanum á Langasjó í 660 metra hæð. Við beygjum yfir skarðið til norðurs vestan við Hrútabjörg og förum þar eftir dalverpi til norðausturs. Í dalbotninum sækir slóðin á brattann upp að tindi Breiðbaks í 1020 metra hæð. Áfram förum við norðaustur og niður af fjallinu, þar sem við mætum aftur slóðinni sem liggur í fjörunni. Frá vegamótum liggur slóðin meira til norðurs niður úr fjöllunum í Botnaver. Þar rennur Tungnaá á kvíslum og heita þar fyrst Launfit og Fit. Handan árinnar komum við að fjallaskálanum í Jökulheimum í 670 metra hæð.

32,1 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Langisjór: N64 07.151 W18 25.698.
Jökulheimar: N64 18.632 W18 14.304.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Landmannaleið, Fjallabak nyrðra, Skælingar, Langisjór, Fljótsoddi, Hamarskriki, Jökulheimar.
Nálægar leiðir: Faxasund, Sveinstindur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort