Endalausidalur

Frá Meðalfelli í Hornafirði að Efra-Firði í Lóni.

Endalausidalur er sérstætt nafn á mjög þröngum og mjög löngum þverdal milli Hornafjarðar og Lóns. Hliðardalur Endalausadals heitir Loklausidalur. Mikið má sjá af líparíti í dalnum og utan til í honum förum við yfir stærsta djúpbergshleif landsins úr eins konar graníti, ljósgráu og sums staðar rauðleitu. Milli Endalausadals og Slufrudals er Bleikitindur, stærsti graníthleifur á Íslandi.

Byrjum á þjóðvegi 1 í Hornafirði, við afleggjarann að Meðalfelli. Förum heimreiðina og síðan frá bænum eftir jeppaslóð upp í Laxárdal, sem gengur þar til norðurs. Austan dalsins er Bergárdalsheiði. Þegar henni sleppir, gengur dalverpi til austurs, milli Bergárdalsheiðar að sunnanverðu og Árnanesmúla að norðanverðu. Við förum yfir Laxá og inn þennan dal. Förum framhjá Loklausadal, sem kemur úr norðri, og förum suðaustur eftir Endalausadal, þar sem við náum fljótlega 340 metra hæð. Síðan hallar undan fæti. Við mynni dalsins komum við að Efra-Firði upp frá Papafirði í Lóni.

15,0 km
Austfirðir, Skaftafellssýslur

Nálægar leiðir: Skógey, Vítisbrekkur, Hornsskriður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins