Bárðargata

Frá Lundarbrekku í Bárðardal um Vonarskarð að Núpum í Fljótshverfi.

Leiðin er 250 km löng og liggur hæst í 1000 metrum. Nær yfir fimm stórár, Skjálfandafljót, Köldukvísl, Tungnaá, Skaftá og Hverfisfljót. Björn Gunnlaugsson fór um Vonarskarð 1839 og sýnir leiðina á korti sínu 1849. Hann fór ekki yfir Hverfisfljót. Hér er bara sá suðurendi táknaður með heitinu Bárðargata. Sjá nánar leiðirnar Réttartorfa, Öxnadalsdrög, Vonarskarð, Hamarskriki, Fljótsoddi.

Bárður Bjarnason nam Bárðardal og bjó að Lundarbrekku. Varð þess var, að sunnanáttir voru hlýrri og þurrari en norðanáttir. Því ætlaði hann að betri lönd væru sunnanlands. Sendi syni sína suður á góunni til að athuga þetta betur. Þeir fundu ýmsan gróður á leiðinni á þessum kalda árstíma. Þarnæsta vor að loknum undirbúningi lét hann hvert húsdýra sinna bera byrðar suður yfir og nam allt Fljótshverfi og byggði bæ að Gnúpum. Hét hann síðan Gnúpa-Bárður. Nú heitir jörðin Núpar.

Förum frá Lundarbrekku suður veg að Víðikerum og síðan heimreið suður að Stóru-Tungu. Svo suður slóð meðfram Skjálfandafljóti um fjallaskálann Réttartorfu og Hafursstaði. Upp á fjallið Víðskyggni, alltaf í suðurátt, þvert yfir Ódáðahraunsleið og áfram til suðurs vestan við Trölladyngju. Síðan þvert yfir Gæsavatnaleið við Fossgljúfur og áfram til suðurs milli Dvergöldu að austan og Langháls að vestan. Þar sveigir slóðin til suðvesturs austan undir Stakfelli og Rauðukúlu í Snapadal. Þaðan til suðurs yfir Köldukvísl og í sjálft Vonarskarð milli Vatnajökuls og Tungnafellsjökuls. Þaðan fylgjum við vesturbrún Vatnajökuls um Mókolla í fjallaskálann Sylgjufell. Þaðan áfram slóðina suður í fjallaskálann Jökulheima. Síðan suður um Botnaver að norðausturenda Fögrufjalla við Langasjó. Sunnan fjallanna förum við yfir kvíslar Skaftár um Fljótsodda að upptökum Hverfisfljóts undir jökli. Að fornu var Hverfisfljót minna vatnsfall og hét þá Raftalækur. Förum síðan fyrir norðurenda Rauðhóla og síðan beint suður í Núpahraun á gangnamannaslóð, sem liggur suðaustur Núpaheiðina að Núpum í Fljótshverfi.

27,7 km
Skaftafellssýslur

Ekki fyrir hesta

Nálægir ferlar: Fljótsoddi, Hamarskriki, Vonarskarð, Öxnadalsdrög, Réttartorfa. Nálægar leiðir: Flosavegur, Núpahraun.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Íslendingabók