Þjóðleiðir

Hestskarð vestra

Frá Hestdal í Önundarfirði að Seljalandi í Álftafirði.

Rani liggur frá Þverfelli niður í Hestskarð. Hlið hans niður í Hestdal er mjög brött og heitir Manntapabrekkur. Þeir, sem að norðan koma, þurfa að gæta sín að fara ekki of langt til hægri og of hátt í ranann.

Byrjum í Hestdal í Önundarfirði. Förum fram dalinn, vestan við Hest og um djúpt Hestskarð í 720 metra hæð fyrir botni dalsins, austan við Þverfell. Síðan niður Seljalandsdal að Seljalandi.

13,9 km
Vestfirðir

Erfitt fyrir hesta
Mjög bratt

Nálægar leiðir: Þóruskarð, Álftafjarðarheiði, Lambadalsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hestskarð eystra

Frá botni Siglufjarðar um Hestskarð til Héðinsfjarðarvatns.

Ruddar götur eru í efstu brekkunum beggja vegna skarðsins.

Förum frá Siglufirði austsuðaustur inn í Skútudal og síðan meira til austurs upp í fjallshlíðina. Þar er Hestaskarð í 600 metra hæð. Förum austur um skarðið og síðan austsuðaustur og niður dalinn að Héðinsfjarðarvatni.

5,6 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Siglufjarðarskarð, Sandskarð, Hólsskarð, Fiskihryggur, Efrafjall, Fossabrekkur, Vatnsendaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Hestháls

Frá Miðfossum í Andakíl um Hestháls yfir í Lundareykjadal.

Hluti þjóðleiðar frá Hvalfirði og Akranesi vestur um Borgarfjarðardali og síðan áfram vestur eða norður á land. Var þá farinn Skarðsheiðarvegur vestan Skarðsheiðar og síðan með Hesthálsi sunnan- og austanverðum. Áður var síðan farið framan við Flókadal, en þar er nú kominn bílvegur. Því er nú fremur farið að Lundi í Lundareykjadal og síðan Lundarsneið til Flókadals og áfram Kirkjugötu til Reykholtsdals.

Byrjum hjá þjóðvegi 507 við malarnámur austan Miðfossa. Síðan norðaustur að Fossaborg og meðfram Hestfjalli austanverðu yfir að mótum þjóðvega 50 og 52 í Lundareykjadal.

6,2 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægar leiðir: Skarðsheiði, Mávahlíðarheiði, Grímsárbugar.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Hestfjarðarheiði

Frá Botni í Dýrafirði að Hestfirði.

Greiðfær og stutt leið. Áður fyrr var farið með fjárrekstra um heiðina til slátrunar. Margir lentu í hrakningum við það tækifæri og hrökkluðust niður í aðra firði.

Förum frá Botni inn dalinn og upp úr honum norðanverðum á Hestfjarðarheiði og áfram niður í Hestfjörð.

13,1 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Glámuheiði nyrðri.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hestfjall

Frá Kiðjabergi í Grímsnesi til Vatnsness í Grímsnesi.

Stutt og skemmtileg leið um víðáttumikið nes í Hvítá, sem fáir þekkja. Hvítá umlykur nesið á þrjá vegu og af Hestvatni á fjórða veginn. Hestfjall þekkja flestir, sem fara um Suðurland, það er áberandi í landinu. Af tindi þess er sagt vera útsýni til 20 kirkna á Suðurlandi. Við fjallið voru upptök Suðurlandsskjálftanna árið 2000.

Förum frá Kiðjabergi norðaustur upp Hestfjall og síðan austur yfir það að eyðibýlinu Gíslastöðum við Hvítá. Síðan norður með Hvítá, austan við Snoppuna og loks í Vatnsnes.

14,2 km
Árnessýslur

Nálægar leiðir: Bakkagötur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hesteyrarskarð

Frá Hesteyri í Hesteyrarfirði um Hesteyrarskarð til Miðvíkur í Aðalvík.

Förum frá Hesteyri norðvestur um Hesteyrardal í Hesteyrarskarð í 280 metra hæð. Þar skiptast leiðir, Önnur liggur um Mannfjall að Látrum, en þessi liggur beint vestur í Miðvík.

7,1 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Sléttuheiði, Kjaransvíkurskarð, Hesteyrarbrúnir, Háaheiði, Mannfjall, Þverdalsdrög, Aðalvík.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hesteyrarbrúnir

Frá Hesteyri í Hesteyrarfirði um Hesteyrarbrúnir og Kjaransvíkurskarð til Kjaransvíkur.

Vörðuð leið og töluvert farin áður fyrr. F

örum frá Hesteyri norðaustur Kúsbrekku í sneiðingum upp á Hesteyrarbrúnir og síðan áfram með brúnunum og undir Kistufelli að Andbrekkum undir Kjaransvíkurskarði. Við förum austnorðaustur brattar brekkurnar. Þar komum við inn á leið úr botni Hesteyrarfjarðar. Förum áfram eftir þeirri leið austnorðaustur í 430 metra hæð í Kjaransvíkurskarði. Síðan áfram norðnorðaustur Jökladali niður að eyðibýlinu í Kjaransvík.

7,9 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Kjaransvíkurskarð, Sléttuheiði, Háaheiði, Fljótsskarð, Hraunkötludalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Herðubreiðarlindir

Frá þjóðvegi 1 á Mývatnsöræfum að Herðubreiðarlindum.

Herðubreið gnæfir yfir Herðubreiðarlindum, 1680 metra hátt stapafjall með gíg í kolli og rís meira en kílómetra yfir umhvefið. Fjallið er bratt og hömrum girt. Fært er upp á það um brattar skriður og móbergshellur að norðvestanverðu. Herðubreiðarlindir og Eystri-Grafarlönd eru þekktustu hálendisvinjar landsins rétt norðaustan Herðubreiðar. Þar eru margar lindir, sem saman mynda Lindá.

Förum af þjóðvegi 1 hjá Hrossaborgum á Mývatnsöræfum, nálægt Jökulsá. Förum suður með ánni að vestanverðu, vestan við Ferjuás og Yztafell, austan við Miðfell og Fremstafell og síðan yfir Grafarlandaá og vestan við Ferjufjall og austan við Grafarlandaá, alltaf suður með Jökulsá, yfir Lindá í Herðubreiðarlindir.

63,6 km
Þingeyjarsýslur

Jeppafært

Skálar:
Herðubreiðarlindir: N65 11.560 W16 13.390.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hestatorfa

Frá Smjörhóli í Öxarfirði um Hestatorfu í Sandskála á Fjöllum.

Förum frá Smjörhóli suðaustur með Hafrafelli, vestan Þrístikluvatns. Síðan suður með Dalfjalli vestanverðu, um Tungudal, að Sandskála norðan Silungavatns á Hólsfjöllum.

31,5 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Sandskáli: N65 52.389 W16 05.880.

Nálægir ferlar: Öxarfjörður, Hafrafellsleið, Álandstunga, Hólsfjöll.
Nálægar leiðir: Urðir, Súlnafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hengladalaá

Frá Litlu kaffistofunni til Hveragerðis.

Um Kambana sagði Björn Pálsson, forstöðumaður Héraðsskjalasafnsins á Selfossi, að þar sé vegaminjasafn þjóðarinnar, sýnishorn af vegum og troðningum frá fyrstu dögum Íslandsbyggðar. Á Kolviðarhóli var byggt sæluhús árið 1844 og síðan gistihús fyrir ferðamenn. Árið 1938 keypti Íþróttafélag Reykjavíkur svo Kolviðarhól af Valgerði Þórðardóttur. Eftir það var þarna skíðaskáli fram yfir seinna stríð. Förum frá Litlu kaffistofunni eftir gamla þjóðveginum norður fyrir hraunið að Kolviðarhóli, þar sem áður var gistihús ferðamanna, en núna jarðvarmavirkjun.

Frá Kolviðarhóli förum við upp Hellisskarð/Yxnaskarð og síðan með Skarðsheiðarfjalli, þar sem heitir “Vegur milli hrauns og hlíða”. Við förum norður fyrir Litla-Skarðsmýrarfjall inn í Fremstadal og síðan suður með Hengladalaá og síðan áfram suður yfir þjóðveg 1 á gamlan bílveg að Kömbum. Förum niður Kamba og síðan aftur yfir þjóðveg 1 niður í Hveragerði að Garðyrkjuskólanum á Reykjum.

24,8 km
Árnessýsla

Skálar:
Þrymur: N64 02.780 W21 19.010.
Kútur: N64 02.712 W21 19.301.

Nálægar leiðir: Hellisheiði, Þrengsli, Lágaskarð, Ölkelduháls, Ölfusvatnsá, Hagavík, Trölladalur, Áftavatnsvað, Reykjadalur, Klóarvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hellur

Frá Hafralækjarbungu um Hellur að þjóðvegi 85 í Aðaldal.

Byrjum á þjóðvegi 85 við norðurenda Hafralækjarbungu í Aðaldal. Förum norðvestur til Hellnasel. Þangað er leið norðan um Sandsbæi. Frá Hellnaseli förum við beint austur á þjóðveg 85 norðan við Tjörn í Aðaldal.

6,6 km
Þingeyjarsýslur

Nálægar leiðir: Sandsbæir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hellugnúpur

Frá Hellugnúpsskarði að Hlíðarenda og Eyjardalsá í Bárðardal.

Á Sörlastöðum hafa hestamenn á Akureyri aðstöðu fyrir hestamenn. Þetta er kjörinn áningarstaður á ferðalögum milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslna. Hellugnúpsskarð er nokkuð bratt, einkum að vestanverðu, en stutt og auðratað, því að reiðliðin er greinileg. Samhliða reiðleiðinni er línuvegur, sem er torfær jeppum.

Förum af leiðinni frá Sörlastöðum um Hellugnúpsskarð í 600 metra hæð. Fylgjum línuveginum, sem þverbeygir til norðausturs og síðan til norðurs um Eyjadal niður í Bárðardal milli Hlíðarenda og Eyjadalsár.

9,5 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Sörlastaðir: N65 33.420 W17 40.400.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Bíldsárskarð, Fnjóskadalur, Hellugnúpsskarð.
Nálægar leiðir: Gönguskarð vestra, Gásasandur, Bleiksmýrardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hellugnúpsskarð

Frá Sörlastöðum í Fnjóskadal að Stóru-Völlum í Bárðardal.

Hellugnúpsskarð er nokkuð bratt, einkum að vestanverðu, en stutt og auðratað, því að reiðliðin er greinileg. Samhliða reiðleiðinni er línuvegur, sem er torfær jeppum. Þegar þeim vegi sleppir og við nálgumst brún Bárðardals, verður sums staðar að gæta þess að tapa ekki slóðinni í mýrum og missa ekki af vörðunum tveimur, sem sýna leiðina niður í dal að Stóru-Völlum.

Á Sörlastöðum hafa hestamenn á Akureyri aðstöðu fyrir hestamenn. Þetta er kjörinn áningarstaður á ferðalögum milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslna.

Förum frá Sörlastöðum í 240 metra hæð suður um einn kílómetra og þaðan upp sneiðinga austur í Hellugnúpsskarð. Fylgjum línuveginum upp úr gróðrinum og beygjum svo fljótlega til vinstri inn á reiðslóðina. Bæjarfjall er norðan skarðsins og Hellugnúpur sunnan þess. Skarðið fer í 600 metra hæð. Við förum yfir línuveginn á reiðslóð suðaustur á fjallsbrún ofan við Hliðskóga í Bárðardal. Þar á brúninni er slóðin merkt með tveimur vörðum. Við förum skáhallt niður hlíðina að Stóru-Völlum í Bárðardal, sem eru í 200 metra hæð.

14,5 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Sörlastaðir: N65 33.420 W17 40.400.
Kiðagil: N65 30.117 W17 27.375.

Nálægir ferlar: Fnjóskadalur, Bíldsárskarð, Víðiker, Engidalur.
Nálægar leiðir: Gönguskarð vestra, Hellugnúpur, Hörgsdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Helludalur

Frá Hlöðuvöllum að Geysi.

Hlöðuvellir eru mikill og fagur fjallasalur í skjóli undir voldugu Hlöðufelli. Það er 1188 metra hár móbergsstapi með grágrýtiskolli, hömrum girtur. Uppgöngugil er við skálann. Á völlunum skiptast á sléttir balar og smáþýfi. Vestan Hlöðuvalla er víðáttumikla hraundyngjan Skjaldbreiður. Að sunnanverðu er Skriðan og Skriðutindar. Austan við Hlöðufell er hraundyngjan Lambahraun, sem líkist Skjaldbreið. Þaðan er komið Lambahraun austan og sunnan við Hlöðuvelli. Næst völlunum er hraunið sandorpið og heitir Rótarsandur. Austan við hraunið rísa tvö brött fjöll, Kálfstindur að austan og Högnhöfði að vestan. Milli þeirra er Hellisskarð, aldagömul þjóðleið hestamanna. Um það skarð liggur sú leið, sem hér er lýst.

Förum frá fjallaskálanum á Hlöðuvöllum í 460 metra hæð suðvestur yfir Lambahraun og Rótarsand í Hellisskarð milli Högnhöfða að vestan og Kálfstinds að austan. Við förum sunnan við hólinn í miðju skarðinu og síðan niður með Högnhöfða. Þegar við komum niður úr skarðinu, höldum við beint áfram austur undir Rjúpnafell og síðan austur í skarðið norðan við Bjarnarfell. Við förum upp skarðið norðanvert við lækinn, sem rennur úr skarðinu. Efst í skarðinu förum við norðan við lágan Selhnjúk og síðan greinilega slóð fram á bratta brún, sem heitir Gustuk. Þaðan förum við niður bratta hlíð, fyrst til austurs með grunnu Markargili og þverbeygjum síðan til suðurs langan sneiðing niður að bænum Helludal, í 130 metra hæð. Þaðan förum við með heimreið og þjóðvegi 35 að Geysi.

18,5 km
Árnessýsla

Skálar:
Hlöðuvellir: N64 23.913 W20 33.488.

Nálægar leiðir: Eyfirðingavegur, Skessubásavegur, Hlöðufell, Miðdalsfjall, Brúarárskörð, Miðfell, Hellisskarð, Farið, Skyggnisheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hellisskógur

Frá Stafafelli í Lóni inn með Jökulsá í Hellisskóg.

Óvenjulega fögur reiðleið undir tilbreytingarríkri fjallshlíð.

Förum frá Stafafelli með jeppavegi norðvestur með Jökulsá í Lóni. Förum fyrir Raftagil, Gullaugarfjall og Hvannagil. Síðan um Smiðjunes og Valskógsnes. Áfram förum við reiðslóð norður í Austurskóga og síðan norðvestur í Hellisskóg.

12,3 km
Austfirðir, Skaftafellssýslur

Nálægar leiðir: Illikambur, Dalsheiði, Reifsdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort