Helludalur

Frá Hlöðuvöllum að Geysi.

Hlöðuvellir eru mikill og fagur fjallasalur í skjóli undir voldugu Hlöðufelli. Það er 1188 metra hár móbergsstapi með grágrýtiskolli, hömrum girtur. Uppgöngugil er við skálann. Á völlunum skiptast á sléttir balar og smáþýfi. Vestan Hlöðuvalla er víðáttumikla hraundyngjan Skjaldbreiður. Að sunnanverðu er Skriðan og Skriðutindar. Austan við Hlöðufell er hraundyngjan Lambahraun, sem líkist Skjaldbreið. Þaðan er komið Lambahraun austan og sunnan við Hlöðuvelli. Næst völlunum er hraunið sandorpið og heitir Rótarsandur. Austan við hraunið rísa tvö brött fjöll, Kálfstindur að austan og Högnhöfði að vestan. Milli þeirra er Hellisskarð, aldagömul þjóðleið hestamanna. Um það skarð liggur sú leið, sem hér er lýst.

Förum frá fjallaskálanum á Hlöðuvöllum í 460 metra hæð suðvestur yfir Lambahraun og Rótarsand í Hellisskarð milli Högnhöfða að vestan og Kálfstinds að austan. Við förum sunnan við hólinn í miðju skarðinu og síðan niður með Högnhöfða. Þegar við komum niður úr skarðinu, höldum við beint áfram austur undir Rjúpnafell og síðan austur í skarðið norðan við Bjarnarfell. Við förum upp skarðið norðanvert við lækinn, sem rennur úr skarðinu. Efst í skarðinu förum við norðan við lágan Selhnjúk og síðan greinilega slóð fram á bratta brún, sem heitir Gustuk. Þaðan förum við niður bratta hlíð, fyrst til austurs með grunnu Markargili og þverbeygjum síðan til suðurs langan sneiðing niður að bænum Helludal, í 130 metra hæð. Þaðan förum við með heimreið og þjóðvegi 35 að Geysi.

18,5 km
Árnessýsla

Skálar:
Hlöðuvellir: N64 23.913 W20 33.488.

Nálægar leiðir: Eyfirðingavegur, Skessubásavegur, Hlöðufell, Miðdalsfjall, Brúarárskörð, Miðfell, Hellisskarð, Farið, Skyggnisheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson