Þjóðleiðir

Hlíðarfjall

Frá Skarði um Hlíðarfjall að Laxárdal í Gnúpverjahreppi, að mestu utan jeppaslóða.

Förum frá Skarði norðaustur með Skarðsfjalli og norður fyrir það austur að Háholti. Svo til norðausturs utan í Háholtsfjalli vestanverðu að Hlíð. Þaðan norður að Stóru-Laxá og síðan norðnorðaustur meðfram Stóru-Laxá og undir Hlíðarfjalli og um Leirdal norður í Laxárdal.

15,8 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Laxárdalsvað, Kaldbaksvað.
Nálægar leiðir: Stóra-Laxá, Stóru-Laxárvað, Þjórsárholt, Fossnes.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hjörsey

Hringferð um Hjörsey og Hjörseyjarsand.

Eyjarnar eru nánast landfastar á fjöru og við verðum því að sæta sjávarföllum.

Miðnæturreið í kyrru veðri er ógleymanleg á þessum slóðum. Hjörsey er stærsta eyjan fyrir Mýrum, en fer minnkandi vegna sjávargangs. Hún var kirkjujörð fram undir 1900. Flatlend og grasgefin. Útræði var gott og mikill reki. Skipströnd voru tíð. Grunnpunktur landmælinga við Ísland var til skamms tíma í Hjörsey, áður en gervihnettir og GPS tóku við landmælingum. Oddný Þorkelsdóttir Eykyndill, fögur kona og festarmey Björns Hítdælakappa, átti heima í Hjörsey. Þórður Kolbeinsson, skáld, ginnti hana frá Birni.

Byrjum við þjóðveg 540 um Mýrar, suðvestan við Hundastapa, þar sem vegurinn liggur lengst til suðurs. Þar er næturhagi frá Álftárósi. Frá vegarhorninu förum við um hlið og fylgjum slóð suður og suðvestur til Hólmakotsvatns. Förum austan við vatnið að eyðibýlinu Seljum og síðan áfram suður um rif og ála í austurhorn eyjarinnar Hjörseyjarsands og síðan áfram um sundið suður í Hjörsey. Tökum þar land í norðausturhorni eyjarinnar og förum síðan réttsælis hring um eyjuna. Úr norðvesturhorni Hjörseyjar förum við aftur um sundið til baka í Hjörseyjarsand. Förum norðvestur fjöru Hjörseyjarsands meðfram eyjunni og síðan þvert austur yfir norðurhorn hennar. Þar förum við sundið til austurs í land, síðan áfram að eyðibýlinu Seljum og fyrri leið til baka.

22,6 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægir ferlar: Akrar.
Nálægar leiðir: Saurar, Æðarvatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hjálpleysa

Frá Árey í Reyðarfirði um Hjálpleysu að Stóra-Sandfelli í Skriðdal.

Torfær hestum, en var skemmsta leiðin frá Héraði til kaupstaðar á Reyðarfirði. Í lægðinni fyrir sunnan Hryggi er sagt, að Valtýr á grænni treyju hafi haldið sig eftir morðið á sendimanni sýslumanns. Áður fyrr var oft farið með fjárrekstra um dalinn til slátrunar á Reyðarfirði. Um miðja tuttugustu öld varð slys í háskarðinu, þegar fé rann niður fönn.

Förum frá Áreyjum norður með Áreyjartindi og síðan vestur Hjálpleysu Reyðarfjarðarmegin að Botnatindi. Þar sveigir leiðin norðvestur í skarðið í 770 metra hæð. Þaðan förum við norður um Hjálpleysu. Sveigjum síðan að Stóra-Sandfelli í Skriðdal.

16,1 km
Austfirðir

Erfitt fyrir hesta

Nálægar leiðir: Þórdalsheiði, Stuðlaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Hjálmárdalsheiði

Frá Klyppstað í Loðmundarfirði um Hjálmárdalsheiði til Dvergasteins í Seyðisfirði.

Heiðin er fær hestum, en tæpast klyfjahestum. Stórfenglegt útsýni er úr Fossbrekkum og Skógarhjalla yfir Seyðisfjörð. í gamalli sóknarlýsingu segir þetta um veginn: “Hann er yfir höfuð allur grýttur, örðugur og blautur og lítt fær með áburð. Mega því fjarðarbúar flytja allar nauðsynjar sínar sjóveg af Seyðisfirði.”

Förum frá sæluhúsinu á Klyppstað austsuðaustur að Sævarenda. Förum suðaustur um Strandarbrekkur undir Gunnhildi og yfir Biskupsgil. Síðan suður og upp í mynni Hjálmárdals austan undir Gunnhildi. Suðvestur í Mjósund og vestur og upp á hjalla og síðan vestur á Hjálmárdalsheiði. Þaðan vestsuðvestur í 640 metra hæð og síðan niður Hall í Kolsstaðadal og yfir Selstaðaá. Í bratta brekku efst á brún Kolstaðadals og förum bratt niður sneiðinga suðaustur um Fossbrekkur. Sveigjum neðan við Grýtubrjóst suðvestur á Skógarhjalla og förum þá bratt niður til suðvesturs á þjóðveg 951 við Dvergastein milli Sunnuholts og Selsstaða.

13,1 km
Austfirðir

Erfitt fyrir hesta
Mjög bratt

Skálar:
Klyppstaður: N65 21.867 W13 54.051.

Nálægar leiðir: Loðmundarfjörður, Norðdalsskarð, Tó, Vestdalsheiði, Kækjuskörð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hjaltadalsheiði

Frá Hólum í Hjaltadal til efstu bæja í Svarfaðardal.

Þetta er mjög há heiði, nær upp í 1020 metra, öldum saman vel vörðuð og fjölfarin almannaleið. Hennar er nokkrum sinnum getið í Sturlungu, einkum í tengslum við ferðir Guðmundar biskups góða. Löngu síðar var þetta ort um heiðina: “Hjaltadals er heiðin níð, / hlaðin með ótal lýti. / Fjandinn hefur í fyrri tíð / flutt sig þaðan í Víti.”

Förum frá Hólum með bílvegi suður Hjaltadal að Reykjum og síðan eftir reiðslóð inn í dalbotn, sem skiptist um Tungufjall. Við förum upp botninn austan fjallsins og förum vel varðaða slóð austur með Heiðará. Hún er bröttust neðst, þar sem hún liggur í sveigjum upp Kamb. Og síðan beint á Hjaltadalsheiði, þar sem við komum í 1020 metra hæð. Heiðin er norðan Prestafjalls, en sunnan við það er Afglapaskarð, sem er varhugavert. Slóðin niður heiðina meðfram Hörgá að sunnanverðu er vel vörðuð. Milli Sandárhnjúks að norðanverðu og Ólafarhnjúks að sunnanverðu. Löng leið er úr botni dalsins um Sveig milli Flöguselshnjúks að norðanverðu og Grjótárfjalls að sunnanverðu út að efstu bæjum í Svarfaðardal.

27,2 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Héðinsskarð, Hörgárdalsheiði, Myrkárdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hítardalur

Frá Múlavegi undir Grettisbæli í Fagraskógarfjalli að Hítarvatni.

Byrjum á mótum Múlavegar við Grettisbæli undir Fagraskógarfjalli. Múlavegur liggur milli Grímsstaða á Mýrum og Snorrastaða í Hítardal. Förum norður Hítardal, vestan Hítarár, að syðri enda Hítarvatns.

10,7 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Fagraskógarfjall, Múlavegur, Svínbjúgur, Klifháls.
Nálægar leiðir: Hítardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hítarárleið

Frá þjóðvegi 54 við Hítárá að Fagraskógarfjalli.

Förum meðfram Hítará eftir veiðivegi upp að Fagraskógarfjalli.

5,1 km
Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir

Jeppafært

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Hítará

Frá Stóra-Kálfalæk á Mýrum að Snorrastöðum í Hnappadal.

Þetta er austasti hluti Löngufjara, þar sem farið er yfir Hítará og Kaldá.

Hér komst Þórður kakali árið 1242 naumlega út á fjörurnar með 200 manna lið á flótta undan 700 manna liði Kolbeins unga. Líklega frá Jörfa, sem er sunnan við Kaldá. Síðan féll flóðið að, áður en Kolbeinn kæmist yfir. Frá Skálholti til Stykkishólms riðu menn Þórðar einhesta um 200 km leið á rúmlega 36 stundum enda um líf og dauða að tefla. Það er samkvæmt samtímaheimild Sturlungu. Slíkt gera menn ekki nú á tímum. Að fornu lögðu menn harðar að sér í ferðum milli sveita og landshluta, jafnvel að vetrarlagi, og létu vosbúð ekki aftra sér. Þéttur lopi hélt hita á mönnum.

Förum frá Stóra-Kálfalæk suðvestur með veginum að fjörunni við Krákunes. Þar förum við út á Akraós og höldum fyrst vestur af norðri unz við komum að hólmum í miðjum ósnum. Þar sveigjum við beint til norðurs, förum yfir Hítará og tökum land öðru hvoru megin við lítinn ós að baki hóls í Hítarnesi. Förum upp á nesið og strax um blautar mýrar áður en við komum á þurrar götur vestur og síðan norður fyrir girðingu framhjá eyðibýlinu Selgarði og síðan um Lengjur. Við Bratteyri austanverða förum við út á Kaldárós, ekki af eyrinni sjálfri, því að bratt er af henni. Síðan beint í norður, förum austan við Kaldá milli Jörfaeyja og Jörfaness, förum yfir Kaldá og tökum land tvöhundruð metrum vestan við Kaldá. Að lokum förum við upp með Kaldá til Snorrastaða.

17,8 km
Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir

Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Snorrastaðir: N64 46.558 W22 17.969.

Nálægir ferlar: Akrar, Saltnesáll, Múlavegur, Gamlaeyri.
Nálægar leiðir: Skjólhvammsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Héraðsvötn

Frá Reykjum um Héraðsvötn að Örlygsstöðum.

Héraðsvötn voru á Sturlungaöld riðin á ýmsum stöðum. Nú er einkum farið andspænis Kúskerpi.

Jón Markússon flúði 1234 með syni sínum undan Kolbeini unga Arnórssyni og sundriðu þeir Héraðsvötn. Gissur Þorvaldsson og Kolbeinn ungi Arnórsson riðu Héraðsvötn 21. ágúst 1238 gegnt Víðivöllum með 1600 manna liði á leið í Örlygsstaðabardaga gegn Sturlu Sighvatssyni og Sighvati Sturlusyni. Gissur og Kolbeinn fóru yfir Héraðsvötn í tveimur stórum kvíslum vestan Sólheima í Akrahreppi. Það hefur verið tilkomumikil og nánast skelfileg sjón fyrir Sturlu og Sighvat að sjá 1600 manna her koma niður Reykjatunguna og yfir vötnin, fjölmennasta her Íslandssögunnar. Enda var viðbúnaður Sturlunga svo fálmkenndur, að gleymdist að losa skildina niður af klökkum og nýttust þeir því ekki í bardaganum. Þar náðu Gissur og Kolbeinn völdum í landinu og Sturlungar hnigu til viðar. Förum frá Reykjum norðnorðaustur um skarðið í Reykjatungu að Héraðsvötnum. Tökum þar stefnu á Ásgarð í Akrahreppi. Þar fyrir ofan laust herjunum saman á Örlygsstöðum, sem nú eru í eyði.

Héraðsvötn eru ekki riðin á þessum stað nú á tímum, heldur sunnar, andspænis Kúskerpi.

4,8 km
Skagafjörður

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk
Nálægir ferlar: Mælifellsdalur.
Nálægar leiðir: Kiðaskarð, Vellir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sturlunga

Héðinsskarð

Frá Hólum í Hjaltadal að Melum í Hörgárdal.

Einn af allra hæstu fjallvegum landsins, hrikalegur og ætíð fáfarinn. Héðinsskarð og Hólamannaskarð eru samhliða, Héðinsskarð á Barkárjökli og Hólamannaskarð á Tunguhryggsjökli. Leið þessi er tæpast fær hestum. Sprunginn jökull liggur að skarðinu beggja vegna og hamrar eru beggja vegna. Ingimar Sigurðsson varð úti í skarðinu árið 1908.

Förum frá Hólum suður Hjaltadal og beygjum hjá Hlíð og Hofi austur í Héðinsdal milli Hagafjalls að norðan og Fúinhyrnu að sunnan. Förum upp með Héðinsá og síðan með nyrðri kvísl hennar, Ytri-Skarðsá, upp að Barkárjökli. Þar er skarð í jökulinn með klettum beggja vegna og sköflum árið um kring í 1210 metra hæð. Síðan förum við niður í Barkárdal og austur hann um Baugasel og Féeggsstaði til Hörgárdals, fram að Melum við þjóðveg 815 í Hörgárdal.

36,7 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Skálar:
Baugasel: N65 39.370 W18 36.640.

Nálægar leiðir: Þverárjökull, Hólamannavegur, Hjaltadalsheiði, Tungnahryggur, Heiðinnamannadalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Héðinsfjarðará

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá botni Héðinsfjarðar upp á Sandskarðsleið.

Förum frá botni Héðinsfjarðar suðsuðvestur með Héðinsfjarðará upp í Sandskarð, algenga reiðleið milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar.

4,1 km
Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Hólsskarð, Fossabrekkur, Vatnsendaskarð, Sandskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Heylækur

Frá Mallandi á Skaga um Heylæk að Aravatnsleið.

Ísbirna með tvo húna gekk á land á Skaga árið 2008. Einn björninn hafðist við um skeið í Mallandsskarði, en var skotinn af byssuglöðum eftirlitsaðilum, þegar hann hugðist synda út á sjó.

Byrjum á þjóðvegi 745 við Malland á Skaga. Förum vestsuðvestur eftir jeppaslóð um Heylæk og norðan Selvatns. Síðan til vestnorðvesturs fyrir norðan Rangártjarnir og næst vestsuðvestur að Aravatnsleið milli Hrauns á Skaga og Ketubrunaleiðar milli Keldulands í Húnaþingi og Ketu á Skaga.

6,6 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Jeppafært

Nálægar leiðir: Ketubruni, Aravatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hestvatn

Frá þjóðvegi 354 í Grímsnesi um Hestfjall og Hestvatn að Kiðjabergsvegi í Grímsnesi.

Förum frá þjóðvegi 354 eftir Ormsstaðavegi suður að Hestfjalli. Síðan suðsuðvestur milli fjalls og Hestvatns og til vesturs upp á Vatnsheiði. Vestur og niður að heiðinni til sumarhúsahverfis hjá Kiðjabergi.

9,0 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Hestfjall

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Heydalur

Frá Syðri-Rauðamelskúlu að Bíldhóli á Skógarströnd.

Farið er með þjóðvegi mestalla leiðina. Hestamenn kjósa því frekar að fara Rauðamelsheiði.

Byrjum sunnan við Syðri-Rauðamelskúlu í Hnappadal. Förum eftir jeppavegi vestan við kúluna til norðurs, austan við Fiskitjörn, yfir Haffjarðará að Höfða. Þaðan áfram norður um Höfðaurðir og upp á þjóðveg 55 um Heydal, rétt vestan við eyðibýlið Ölviskross. Höldum síðan áfram norður með þjóðveginum, vestan við Skarðstjörn í 160 metra hæð og síðan niður í Heydal vestanvert við þjóðveginn. Áfram norður að mótum þjóðvega 55 og 54 við Bíldhól.

20,6 km
Snæfellsnes-Dalir

Bílvegur

Nálægir ferlar: Kvistahryggur, Skógarströnd, Rauðamelsheiði, Kolbeinsstaðafjall.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Hestur

Frá Fjarðarhorni í Seyðisfirði í Ísafjarðardjúpi með strönd Hestfjarðar í Folafót við Seyðisfjörð.

Fyrr á öldum var sjávarþorp á Folafæti.

Förum frá Fjarðarhorni norðaustur að Hestfirði og síðan norður með vesturströnd Hestfjarðar undir fjallinu Hesti. Síðan norður fyrir Hest að Folafæti.

18,0 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Hestfjarðarheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort