Þjóðleiðir

Miðleið

Frá Galtabóli sunnan Bleiksmýrardals að Háölduleið vestan Nýjadals.

Hér kölluð Miðleið til aðgreiningar frá vestari leið um Sprengisand norðan frá Laugafelli og austari leið norðan úr Bárðardal. Þessi leið er í beinu framhaldi af leið norðan úr Bleiksmýrardal. Fjórðungsvatn er stærsta vatn á Sprengisandi, fimm kílómetrar að lengd, í 760 metra hæð.

Byrjum á krossgötum vestan Galtabóls. Við förum jeppaslóð suður Sprengisand að Fjórðungsvatni, þar sem við komum á höfuðleiðina yfir Sprengisand sunnan úr Nýjadal. Hún liggur norður að suðurenda Fjórðungsvatns. En við förum til suðvesturs frá vesturhlið Fjórðungsvatns eftir jeppaslóð austan og sunnan Vegamótavatns að leiðinni um Háöldur. Sú leið liggur milli Laugafells í norðri og Háumýra í suðri.

27,8 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Galtaból: N65 01.654 W18 03.243.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fjórðungsalda, Háöldur.
Nálægar leiðir: Hólafjall, Kiðagil, Gásasandur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Miðgötumúli

Frá Brú á Jökulsárdal um Miðgötumúla að vegi F910 á Dyngjuhálsi.

Greiðasta leiðin milli Brúar á Jökuldal yfir fjallgarðana vestur að Grjótum við Jökulsá á Fjöllum og síðan norður í Möðrudal. Þetta er auðveldari en lengri leið en nyrðri leiðirnar tvær, Byttuskarð og Brattifjallgarður.

Förum frá Brú á Jökuldal norður þjóðveg F907 og beygjum á þjóðveg F910 til vesturs. Förum vestur yfir Fiskidalsháls, Fiskidal, sunnan Þríhyrnings og norðan Miðgötumúla, sunnan Þríhyrningsvatns og norðan Öskjufjallgarðs að vegi F910 á Dyngjuhálsi.

18,6 km
Austfirðir

Jeppafært

Nálægir ferlar: Sænautasel, Grágæsadalur.
Nálægar leiðir: Aðalbólsheiði, Leiðaskarð, Byttuskarð, Hvannstóðsfjöll.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Miðfjarðarheiði

Fra Miðfirði um Miðfjarðarheiði að Hágangaleið.

Förum frá botni Miðfjarðar suður og suðsuðvestur á Miðfjarðartungu og síðan Miðfjarðarheiði. Þaðan suður að Djúpavatni vestanverðu. Nokkru sunnan þess eru vegamót við Hágangaleið úr Vopnafirði í Þistilfjörð.

16,1 km
Austfirðir

Skálar:
Miðfjarðarheiði: N65 54.467 W15 14.209.

Nálægar leiðir: Hágangar, Kverkártunga.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Miðfell

Frá Hlöðuvöllum um Miðfell til Úthlíðar.

Ein af mörgum leiðum frá Hlöðuvöllum til byggða. Þaðan liggur meginleið hestamanna sunnan Skjaldbreiðar til Skógarhóla. Einnig Skessubásavegur á línuveginn norðan Skjaldbreiðar eða norðvestur á Kaldadal. Ennfremur leiðir beggja vegna Hlöðufells og Þórólfsfells norður til áðurnefnds línuvegar. Niður í Bláskógabyggð liggja nokkrar leiðir. Austast er leið um Hellisskarð og áfram austur að Helludal og síðan að Geysi. Önnur leið um Hellisskarð og suður um Miðfell að Úthlíð. Líka leið suður um Kálfá til Úthlíðar. Um Brúarárskörð til Miðhúsa og leið vestan Rauðafells til Miðdals. Af Þingvallaleið eru leiðir vestan Skriðu inn Langadal, önnur um Klukkuskarð til Hjálmsstaða. Hin krækir út fyrir Skefilfjöll og síðan meðfram Kálfstindum að Stóra-Dímon skammt norðan þjóðvegar 365 um Lyngdalsheiði.

Förum frá Hlöðuvöllum í 460 metra hæð suðvestur yfir Rótarsand í Hellisskarð milli Högnhöfða að vestan og Kálfstinds að austan. Við förum sunnan við hólinn í miðju skarðinu og síðan niður með Högnhöfða. Þegar við komum niður úr skarðinu, höldum við áfram milli hrauns og hlíða undir Högnhöfða og síðan undir Rauðafelli. Hraunið heitir fyrst Svínahraun og síðan Úthlíðarhraun. Á mót við Miðfell beygjum við eftir dráttarvélaslóð þvert austur yfir hraunið að Miðfelli. Við getum síðan farið vestan eða austan við Miðfell og veljum síðari kostinn. Frá fellinu förum við áfram beint suður og niður hallandi skóglendi að bænum Úthlíð.

18,0 km
Árnessýsla

Skálar:
Hlöðuvellir: N64 23.913 W20 33.488.

Nálægar leiðir: Eyfirðingavegur, Skessubásavegur, Hlöðufell, Farið, Helludalur, Hellisskarð, Brúarárskörð, Klukkuskarð, Miðdalsfjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Miðdalsfjall

Frá Hlöðuvöllum um Miðdalsfjall að Miðdal.

Jeppaslóð, sem fylgir fjöllum milli Laugarvatns og Hlöðuvalla. Flestar aðrar slóðir á svæðinu fylgja dölum og völlum og skörðum milli brattra fjalla. Þetta er greið og fljótriðin leið, en hæðarmunur er samt töluverður.

Árið 1253 fóru Hrafn Oddsson og Eyjólfur Þorsteinsson úr Hvítársíðu og suður hjá Skjaldbreið um Skessubásaveg og um Miðdalsfjall í misheppnaðri aðför að Gissuri Þorvaldssyni.

Förum frá fjallaskálanum á Hlöðuvöllum í 460 metra hæð suður milli hrauns og hlíða eftir jeppaslóð um vesturjaðar Rótarsands. Slóðin heldur áfram upp brekkurnar norðvestan Rauðafells og suður með fellinu. Við beygjum síðan eftir slóðinni vestur á Miðdalsfjall, þar sem við förum hæst í 680 metra hæð. Förum framhjá Gullkistu, reisulegri klettaborg. Fylgjum síðan slóðinni suður af fjallinu og niður brattar brekkur og sneiðinga að Miðdal í Laugardal, i 90 metra hæð.

21,0 km
Árnessýsla

Skálar:
Hlöðuvellir: N64 23.913 W20 33.488.

Jeppafært

Nálægar leiðir: Eyfirðingavegur, Skessubásavegur, Hlöðufell, Farið, Helludalur, Hellisskarð, Brúarárskörð, Klukkuskarð, Miðfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Miðdalir

Frá Búðardal að Hamraendum í Miðdölum.

Þetta er tengileið með þjóðvegi. Út frá henni eru ýmsar reiðleiðir um Miðdali og nágrenni, til dæmis suður um Sópandaskarð eða Svínbjúg. Syðsti hluti Dalasýslu skiptist í Haukadal nyrst, síðan Miðdali og loks Hörðudal vestast, næst Skógarströnd.

Förum frá hesthúsahverfi Búðardals suður hesthúsveginn að Laxá og yfir hana og vestur með henni að þjóðvegi 60. Förum suður með þeim vegi vestur fyrir Laxárdalsháls, um Saura og Þorbergsstaði suðaustur að Haukadalsá. Yfir hana á gömlu brúnni austan þeirrar nýju. Síðan áfram suður með þjóðveginum, þangað til við komum að afleggjara að Miðskógi. Þar beygjum við af þjóðvegi 60 til suðurs, förum upp með Miðá og síðan yfir hana að Hamraendum undir Hlíðarhálsi.

15,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Gaflfellsheiði, Lækjarskógarfjörur, Sópandaskarð, Skógarströnd, Sanddalur.
Nálægar leiðir: Miðá.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Miðá

Frá Snóksdalspollum í hæl Hvammsfjarðar að Þórólfsstöðum í Miðdölum.

Í Miðá sunnan Harrastaða er Leiðarhólmur. Þar voru haldin þing á fyrri öldum og þar var gerðu höfðingjar Leiðarhólmssamþykkt árið 1506 gegn kirkjuvaldi. Í Nesodda er skeiðvöllur hestamannafélagsins Glaðs í Dölum.

Förum frá Snókdalspollum austur og upp með Miðá úr fjörunni sunnan megin við ósinn. Fylgjum Miðá og förum svo upp með Tunguá, hjá veiðihúsi og áfram upp á reiðveg um Miðdali. Þar heitir Nesoddi milli Erpsstaða og Þórólfsstaða.

9,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Lækjarskógarfjörur, Skógarströnd, Sópandaskarð, Miðdalir, Sanddalur.
Nálægar leiðir: Hallaragata, Prestagötur, Sauðafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Merkisgreni

Frá vegi 931 við Lagarfljót hjá Ási um Fljótsdalsheiði að Klausturseli við Jökulsá á Dal.

Milli Hákonarstaða og Klaustursels í Jökuldal er elsta akfæra brú landsins. Sérsmíðuð í Bandaríkjunum, flutt í hlutum hingað, hnoðuð saman á staðnum og sett upp 1908. Venjulega þjóðleiðin frá Möðrudal lá um Klaustursel suðaustur að Bessastöðum í Fljótsdal. Einnig var farin þessi lengri leið en beinni austur eftir Fljótsdalsheiði endilangri. Hér er sú leið kennd við Merkisgreni, örnefni á leiðinni. Eftir þessari leið komust menn fljótar austur í Fell og Egilsstaði.

Byrjum við þjóðveg 931 við Ásklif hjá Ási við Lagarfljót. Frá Ásklifi förum við suðvestur um Ásenda og Erlendsbotnslæk. Þar beygjum við í vestnorðvestur milli Brandsvörðulækjar og Götulækjar á Fljótsdalsheiði. Förum þar um Urðarhraun og Melþúfuflóa. Komum þar að fjallakofanum Melstað á Fellaheiði. Förum þaðan í vestsuðvestur sunnan við Álftavatnshæðir og Stórhól, austur um Digrahól og Merkisgreni og síðan sunnan við Mórauðavatn. Þaðan beint vestur að Klausturseli við Jökulsá á Dal, andspænis Hákonarstöðum.

31,0 km
Austfirðir

Skálar:
Melstaður: N65 12.483 W14 46.807.

Nálægar leiðir: Stekkás, Þrívörðuháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Melgerðismelar

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Akureyrarflugvelli með Eyjafjarðará að Melgerðismelum.

Tálmanir hafa verið settar upp á þessari þjóðbraut Eyjafjarðar sunnan Laugalands. Samningar um ferðafrelsi hafa dregizt á langinn. Varla verða fleiri landsmót á Melgerðismelum, meðan ekki er reiðfært utan bílvega milli Akureyrar og Melgerðismela.

Helzti skeiðvöllur Eyfirðinga er á Melgerðismelum. Þar hafa verið haldin landsmót hestamanna. Förum frá Akureyrarflugvelli austur yfir gömlu brýrnar á Eyjafirði, síðan suður með ánni að austanverðu. Vestur yfir ána við Melgerðismela.

21,7 km
Eyjafjörður

Erfitt fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægir ferlar: Bíldsárskarð.
Nálægar leiðir: Gönguskarð vestra, Skjálgdalsheiði, Hraunárdalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Máskot

Frá Einarsstöðum í Reykjadal um Máskot að Þverá í Laxárdal.

Unnur Benediktsdóttir frá Auðnum ritaði sögur undir rithöfundarnafninu Hulda.

Förum frá Einarsstöðum austur yfir Reykjadalsá og suður veginn að Hjalla. Síðan suður á fellið, austan við Brún, að Máskoti. Þaðan vegarslóða norðaustur að Ljótsstöðum í Laxárdal. Norður veg um Laxárdal að Auðnum og Þverá.

22,5 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Nafarvað, Vatnshlíð, Hvammsheiði.
Nálægar leiðir: Þegjandadalur, Ljótsstaðir, Kinnarfell, Fljótsheiði, Heiðarsel.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Maríuhöfn

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Maríuhöfn á Búðasandi í Kjós að Stíflisdal á Selkotsleið á Kjósarheiði.

Norðan Stíflisdalsvatns liggur leiðin sumpart í Stíflisdalsvatni til að komast út fyrir kletta, sem ganga út í vatnið.

Maríuhöfn var stærsta höfn landsins á 14. öld. Þangað komu skip með vöru og vistir til Skálholtsstóls. Biskupar notuðu líka Maríuhöfn til utanferða. Stutt er milli Maríuhafnar og Þingvalla um Kjósarheiði og Selkotsleið. Stundum var farið inn í Brynjudalsbotn og þaðan um Leggjabrjót til Þingvalla. Umhverfi hafnarinnar er einn fegursti staður Hvalfjarðar, Búðasandur með fjörukambi og lóni. Á kambinum hafa fundizt leifar mannabústaða .
Förum frá Maríuhöfn með þjóðvegi 48 austur með Laxá í Kjós norðanverðri og framhjá Reynivöllum. Síðan til suðurs með veginum fram dalinn hjá Vindáshlíð og áfram suðaustur með Laxá. Förum norðan við Stíflisdalsvatn að Stíflisdal. Þaðan er Selkotsleið austur í Skógarhóla.

23,5 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Reynivallaháls, Gíslagata, Reiðhjalli, Seljadalur, Selkotsvegur, Svínaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Marardalur

Krókur á Jórukleifarleið inn í Marardal.

Á vefsíðu Ferlir.is segir þetta um Marardal: “Marardalur er sigdæld, neðanundir Skeggja, en svo nefnist hæsti tindur Hengilsins. Brattar hlíðar liggja að honum á alla vegu, botn hans er rennisléttur og um grundirnar liðast fagurtær lækur. Smá skarð í dalsbrúnina er í suðvesturhlið hans. Um það rennur lækurinn. Skarðið er svo mjótt, að menn verða að ganga þar inn í einfaldri röð. Merki um grjótgarðshleðslu er þar, því áður fyrr voru naut og önnur geldneyti höfð þar að sumarlagi og lokuð þar inni með þessum grjótgarði.“

Byrjum á Jórukleifarleið sunnan Marardals. Förum eftir greinilegri slóð austur í lækjargil og þræðum gilið norðaustur og norður í Marardal. Förum norður úr dalnum um greinilega sneiðinga og síðan eftir götu um Þjófahlaup á Jórukleifarleið norðan Marardals.

4,2 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Jórukleif.
Nálægar leiðir: Dyravegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Mannfjall

Frá Hesteyri í Hesteyrarfirði um Mannfjall til Látra í Aðalvík.

Í Árbók FÍ 1994 segir: “Grónar brekkur með melhryggjum á milli ganga uppúr Stakkadal á fjallið. Brekkurnar kallast Stakkadalsbrekkur og er farið um þær til Hesteyrar, greiðfæran fjallveg, þar sem hjarnfannir leysir aldrei til fulls.” Leið þessi er oft kölluð Stakkadalur.

Förum frá Hesteyri norðvestur um Hesteyrardal um góðan veg í Hesteyrarskarð í 280 metra hæð. Þar skiptast leiðir, Önnur liggur vestur og niður í Miðvík, en þessi liggur norðvestur heiðina um skýra götu, rudda og vel varðaða, en víða grýtta nálægt vörðunum. Síðan niður Stakkadal og um túnin á bænum Stakkadal til Aðalvíkur. Þaðan er farið yfir Stakkadalsós norðvestur að Látrum. Ýmis vöð er á ósnum, allt frá fjöru upp að Stakkadalsvatni.

6,1 km
Vestfirðir

Skálar:
Látrar: N66 23.555 W23 02.200.

Nálægar leiðir: Kjölur, Rekavík, Aðalvík, Hesteyrarskarð, Þverdalsdrög.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Malarrif

Frá Háahrauni um Lónbjörg að Djúpalónssandi.

Malarrif er skammt vestan við Lóndranga, syðsti hluti Snæfellsness. Frá Malarrifi var útgerð og útræði öldum saman allt til 1900. Lóndrangar eru tveir basaltklettadrangar, fornir gígtappar er rísa stakir við ströndina. Hærri drangurinn er 75 metrar á hæð, sá minni 61 metrar. Fyrrum var útræði við Lóndranga og var lendingin austan við hærri dranginn, þar sem heitir Drangsvogur. Þaðan voru gerð út tólf skip, þegar mest var. Einarslón var um tíma að hálfu í eigu Jóhannesar Kjarval listmálara, er sótti þangað efni í mörg listaverk. Árið 1703 voru á Einarslóni um 62 ábúendur á tólf býlum alls, en er nú í eyði. Djúpalónssandur var meiri háttar verstöð fyrrum. Þar eru steintök, sem vermenn reyndu afl sitt á. Gönguleið er milli Djúpalónssands og Dritvíkur.

Byrjum hjá þjóðvegi 574 við Háahraun vestan Dagverðarár. Þar liggur leið milli Arnarstapa og Beruvíkur. Förum niður að sjó við Gjafa, vestur með Þúfubjörgum að eyðibýlinu Malarrifi. Síðan norðvestur um Lónbjörg að Einarslóni og Djúpalónssandi.

8,8 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Beruvík.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Löngusker

Frá Stakkhamri að Görðum á Snæfellsnesi.

Þetta er vesturendinn á Löngufjörum, fjölfarinni þjóðleið frá fornu fari. Ekki lengur leirur eins og vestan Stakkhamars, heldur gullin fjara úr skeljasandi. Víða eru sker utan fjörunnar eða í fjörunni, sem ýmist er farið ofan við eða neðan við eftir sjávarföllum. Fjaran nær frá Stakkhamri að Staðará. Hér eru eyðibýlin Melur og Krossar. Hjá þeim síðari fórst Galdra-Loftur. Hann fékk bát hjá bóndanum á Krossum, reri út á sjó og þar kom upp grá og loðin hönd, sem dró bátinn niður. Norskur sumarbúseti á Krossum amast stundum við ferð hestamanna um fjöruna, vill heldur að þeir fari upp fyrir bæjarhús og tún, svo að hrossin spori ekki fjöruna. Engir jeppar eiga að geta verið hér á ferð fyrr en komið er yfir Staðará.

Förum frá Stakkhamri vestur dráttarvélaslóð um fjöruna, fyrir sunnan Sauratjörn, vestur um eyðibýlið Melkot, gegnum hlið og fljótlega síðan niður í fjöruna og fylgjum henni vestur, neðan garðs í Krossum. Síðan landmegin við Löngusker og áfram fjöruna vestur að Staðará, förum þar yfir um 200 metra frá ósnum. Síðan meðfram girðingu upp að þjóðvegi 54. Fylgjum honum sunnan Langavatns að Görðum.

21,2 km
Snæfellsnes-Dalir

Erfitt fyrir göngufólk

Nálægir ferlar: Straumfjarðará, Skógarnesfjörur, Búðaós, Klettsgata.
Nálægar leiðir: Bláfeldarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson