Malarrif

Frá Háahrauni um Lónbjörg að Djúpalónssandi.

Malarrif er skammt vestan við Lóndranga, syðsti hluti Snæfellsness. Frá Malarrifi var útgerð og útræði öldum saman allt til 1900. Lóndrangar eru tveir basaltklettadrangar, fornir gígtappar er rísa stakir við ströndina. Hærri drangurinn er 75 metrar á hæð, sá minni 61 metrar. Fyrrum var útræði við Lóndranga og var lendingin austan við hærri dranginn, þar sem heitir Drangsvogur. Þaðan voru gerð út tólf skip, þegar mest var. Einarslón var um tíma að hálfu í eigu Jóhannesar Kjarval listmálara, er sótti þangað efni í mörg listaverk. Árið 1703 voru á Einarslóni um 62 ábúendur á tólf býlum alls, en er nú í eyði. Djúpalónssandur var meiri háttar verstöð fyrrum. Þar eru steintök, sem vermenn reyndu afl sitt á. Gönguleið er milli Djúpalónssands og Dritvíkur.

Byrjum hjá þjóðvegi 574 við Háahraun vestan Dagverðarár. Þar liggur leið milli Arnarstapa og Beruvíkur. Förum niður að sjó við Gjafa, vestur með Þúfubjörgum að eyðibýlinu Malarrifi. Síðan norðvestur um Lónbjörg að Einarslóni og Djúpalónssandi.

8,8 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Beruvík.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort