Miðfell

Frá Hlöðuvöllum um Miðfell til Úthlíðar.

Ein af mörgum leiðum frá Hlöðuvöllum til byggða. Þaðan liggur meginleið hestamanna sunnan Skjaldbreiðar til Skógarhóla. Einnig Skessubásavegur á línuveginn norðan Skjaldbreiðar eða norðvestur á Kaldadal. Ennfremur leiðir beggja vegna Hlöðufells og Þórólfsfells norður til áðurnefnds línuvegar. Niður í Bláskógabyggð liggja nokkrar leiðir. Austast er leið um Hellisskarð og áfram austur að Helludal og síðan að Geysi. Önnur leið um Hellisskarð og suður um Miðfell að Úthlíð. Líka leið suður um Kálfá til Úthlíðar. Um Brúarárskörð til Miðhúsa og leið vestan Rauðafells til Miðdals. Af Þingvallaleið eru leiðir vestan Skriðu inn Langadal, önnur um Klukkuskarð til Hjálmsstaða. Hin krækir út fyrir Skefilfjöll og síðan meðfram Kálfstindum að Stóra-Dímon skammt norðan þjóðvegar 365 um Lyngdalsheiði.

Förum frá Hlöðuvöllum í 460 metra hæð suðvestur yfir Rótarsand í Hellisskarð milli Högnhöfða að vestan og Kálfstinds að austan. Við förum sunnan við hólinn í miðju skarðinu og síðan niður með Högnhöfða. Þegar við komum niður úr skarðinu, höldum við áfram milli hrauns og hlíða undir Högnhöfða og síðan undir Rauðafelli. Hraunið heitir fyrst Svínahraun og síðan Úthlíðarhraun. Á mót við Miðfell beygjum við eftir dráttarvélaslóð þvert austur yfir hraunið að Miðfelli. Við getum síðan farið vestan eða austan við Miðfell og veljum síðari kostinn. Frá fellinu förum við áfram beint suður og niður hallandi skóglendi að bænum Úthlíð.

18,0 km
Árnessýsla

Skálar:
Hlöðuvellir: N64 23.913 W20 33.488.

Nálægar leiðir: Eyfirðingavegur, Skessubásavegur, Hlöðufell, Farið, Helludalur, Hellisskarð, Brúarárskörð, Klukkuskarð, Miðdalsfjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort