Þjóðleiðir

Naustavík

Frá Nípá í Köldukinn til Naustavíkur.

Þetta er lengri leiðin til Naustavíkur, en traustari en fjöruleiðin um Ágúlshelli, sem ekki er fær hestum.

Förum frá Nípá vestur og upp með Karlsá í Kotaskarð. Norðnorðvestur um skarðið í 460 metra hæð. Síðan norður og niður með Skarðsá og Purká í Kotadal til Naustavíkur.

10,2 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Naustavík: N66 00.475 W17 40.597.

Nálægar leiðir: Skjálfandi, Uxaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Mönguhóll

Frá Valdarási við þjóðveg 1 suður um Aðalbólsheiði um fjallaskálana Mönguhól, Bleikskvísl og Haugakvísl að slóðum um Víðidalstunguheiði og Haukagilsheiði.

Förum frá afleggjara að Hrísum og Valdarási suður Fitjaás um eyðibýlin Króka og Gilsbakka að fjallaskálanum Mönguhóli. Þar komum við á leið, sem liggur þvert austur yfir heiðar Húnaþings. Fylgjum þeirri slóð austur um fjallaskálana Bleikskvísl og Haugakvísl að vegamótum, þar sem mætast slóðir af Víðidalstunguheiði og Haukagilsheiði og liggja þær suður í fjallaskálann í Suðurmannasandfelli.

40,4 km
Húnavatnssýslur

Jeppafært

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jón Garðar Snæland

Nafarvað

Frá Geitafelli í Reykjahverfi til Einarsstaða í Reykjadal.

Þetta er mjúk leið um efri hluta gróðursælla dala Þingeyjarsýslu, nokkuð brött með köflum, þegar hún steypir sér niður í Laxárdal og Reykjadal. Laxárdalur er rómaður fyrir fegurð og Reykjadalur fyrir gróðursæld. Um heiðar og dali liggja moldargötur, sem fara notalega með hófa ferðahesta. Þetta er dæmigerð leið um Þingeyjarsýslu og á henni eiga engir jeppar að geta verið á ferð.

Förum frá eyðibýlinu Geitafelli suður með þjóðvegi 87 meðfram Geitafellshnjúk. Förum um hlið frá veginum og eftir reiðslóð beint til suðurs að Kringluvatni. Förum vestan vatnsins til suðvesturs eftir slóð niður hlíðarnar að Árhvammi í Laxárdal. Förum ofan túns og um rennu niður að þjóðvegi 856. Síðan um 200 metra leið með þjóðveginum og beygjum síðan eftir slóð að Nafarvaði að Laxá. Förum yfir vaðið og síðan eftir slóð að Þverá í Laxárdal. Þar förum við ofan garða á slóð, sem liggur þaðan yfir heiðina til Reykjadals. Slóðin liggur fyrst til suðvesturs og síðan til vesturs undir Hvítafelli í 320 metra hæð og loks til norðvesturs um brekkur niður að Stóru-Laugum í Reykjadal. Þar komum við á þjóðveg 846 og fylgjum honum tæpa tvo kílómetra til norðurs, unz við komum að vaði á Reykjadalsá andspænis Einarsstöðum. Fylgjum þar reiðslóð um sléttlendið að bæ á Einarsstöðum.

18,7 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Geitafell : N65 47.938 W17 14.659.

Nálægir ferlar: Hamrahlíð, Vatnshlíð, Hvammsheiði.
Nálægar leiðir: Hrossanúpar, Máskot, Ljótsstaðir, Þegjandadalur, Máskot, Fljótsheiði, Kinnarfell, Heiðarsel.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Mælifellssandur

Frá skálanum í Hólaskjóli að skálanum í Hvanngili.

Þetta er greiðfær leið og hestar spretta oft úr spori, þegar þeir finna, að gróðurinn í Hvanngili nálgast. Flosi Ólafsson leikari taldi þetta mesta skeiðvöll landsins. Mýrdalsjökull gnæfir yfir suðurbrún sandsins og Torfajökull yfir norðurbrún hans. Stök fjöll á sandinum eru áberandi, mest Mælifell, sem sandurinn er kenndur við. Þetta hefur allar aldir verið þjóðleið milli Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu. Hún var fljótar farin en leiðin á ströndinni, þar sem oftar þurfti að vaða jökulár. Hér fór Flosi Þórðarson með liði sínu í aðför að Njáli á Bergþórshvoli. Áður en verzlun var sett upp í Vík í Mýrdal var farið hér um með alla aðdrætti frá Eyrarbakka og Reykjavík.

Förum frá skálanum í Hólaskjóli í 320 metra hæð og norður Lambaskarðshóla með Fjallabaksleið. Beygjum til vesturs og síðan út af veginum til suðurs eftir reiðslóð um þröngt gil. Förum vestur gilið inn í Álftavatnakrók og síðan suður að Álftavötnum. Þar komum við á Syðri-Fjallabaksleið og fylgjum henni. Fyrst suður í Álftavatnakrók og síðan suður um hæðirnar austan og sunnan Svartahnjúks, komum þar í 600 metra hæð. Slóðin beygir til vesturs niður úr hálsunum, síðan suðvestur sandinn suður fyrir Mælifell og síðan til vesturs um Brennivínskvísl, sunnan við Slysaöldu, í 600 metra hæð, og þaðan beint vestur að vaði á Kaldaklofskvísl. Frá því förum við norður með Hvanngilshausum að vestanverðu inn að skálunum í Hvanngili, í 570 metra hæð.

46,7 km
Rangárvallasýsla, Skaftafellssýslur

Skálar:
Hólaskjól: N63 54.441 W18 36.235.
Álftavatnakrókur: N63 53.851 W18 41.445.
Hvanngil: N63 49.920 W19 12.290.
Hvanngil eldri: N63 49.988 W19 12.578.

Nálægir ferlar: Fjallabak nyrðra, Landmannaleið, Skælingar, Hólaskjól, Ljótarstaðaheiði, Öldufell, Laufafell, Krókur, Mosar.
Nálægar leiðir: Flosavegur, Hólmsá, Strútslaug.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Mælifellsdalur

Frá skálanum við Galtará um Mælifellsdal að Hvíteyrum í Skagafirði.

Þessa leið hafa menn farið allar aldir ofan af Kili niður í Skagafjörð. Hér fóru Gissur jarl og Kolbeinn ungi 19. ágúst 1238 með níuhundruð manns og fjölda hesta til móts við Skagfirðinga, þegar þeir gerðu atlögu að Sturlu og Sighvati í Örlygsstaðabardaga, sem lýst er í Sturlungu. Mælifellsdalur er djúpur og þröngur og nær langt vestur undir drög Svartárdals. Fylgt er jeppaslóð alla leiðina frá Galtará til Mælifells. Sjálfur Mælifellshnjúkur er með hæstu fjöllum á svæðinu, 1138 metra hár og sést um óravegu í góðu skyggni.

Förum frá fjallaskálanum við Galtará í 500 metra hæð og fylgjum vegi norðaustur yfir Þingmannaháls að Bugaskála við suðvesturhorn Aðalmannsvatns. Þaðan förum við vestan vatnsins til norðurs og síðan til austurs við norðurenda þess. Vegurinn beygir fljótlega til norðurs og upp hlíðar Haukagilsheiðar austan við Stafnsgil og allt norður fyrir Heiðarhaus, þar sem við náum 600 metra hæð. Síðan niður brekkurnar í Mælifellsdal og út eftir dalnum til norðurs, yfir brú og að þjóðvegi 751 um Mælifellsá. Fylgjum þeim vegi að þjóðvegi 752 inn Skagafjörð. Förum þann veg hundrað metra að réttinni við Hvíteyrar.

38,1 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Skálar:
Galtará: N65 11.809 W19 31.474.
Bugaskáli: N65 13.183 W19 25.981.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Haugakvísl.
Nálægar leiðir: Stífluvegur, Fossaleið, Hraungarður, Gilhagadalur, Kiðaskarð, Héraðsvötn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Mývatnsrif

Frá Álftagerði við Mývatn um Haganes og síðan um Rifið yfir Mývatn.

Rifið er raunar mörkin milli Mývatns og Laxár, þótt stórir flóar séu neðan þess. Þessi leið var áður farin með brennistein úr Fremri-Námum í Ketildyngju til Húsavíkur, þegar kóngurinn í Kaupmannahöfn þurfti að fara í stríð. Þegar þeir flutningar lögðust af, týndist þetta vað á Mývatni. Arngrímur Geirsson á Skútustöðum og fleiri hestamenn við Mývatn fundu vaðið aftur og hafa síðan hjálpað hestamönnum yfir það. Vaðið er 300 metra langt, traust og hvergi sund, en vel í síðu. Önnur vöð eru neðar, svo sem Brautarsteinsvað, Sauðavað, Gunnlaugsvað, Helluvað og Geirastaðavað. Mest notuð voru Brotavöð, þar sem farið var yfir Laxá í fjórum kvíslum um Brotahólma og Hrútey, hálfum kílómetra norðan við bæinn á Helluvaði.

Förum frá Álftagerði hálfan kílómetra vestur með þjóðvegi 1 að hliði á afleggjara að Haganesi. Fylgjum heimreiðinni í Haganes og þaðan eftir reiðslóð norður í Fjárborg og síðan vestur á Rifshöfða í norðvesturhorni Haganess. Einnig er hægt að fara vestur og norður fyrir Blátjörn út í Rifshöfða. Þar förum við vestur yfir Mývatn á Rifinu norðan við Ytri-Breiðu, 300 metra langt vað. Komum í land undir Rifsborgum rétt við þjóðveg 848 norðan Mývatns, í Geirastaðahrauni milli Vagnbrekku og Geirastaða. Síðan sömu leið til baka aftur. Þessa leið má aðeins fara með kunnugum manni, því að djúpt er beggja vegna rifsins. Arngrímur Geirsson á Skútustöðum hefur hjálpað mönnum yfir vaðið.

7,0 km
Þingeyjarsýslur

Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Skútustaðir: N65 34.050 W17 02.200.

Nálægir ferlar: Krákárbotnar.
Nálægar leiðir: Sandfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Mývatnsheiði

Sportleið frá Gautlöndum í Mývatnssveit á Stóraás og til baka að Stöng í Mývatnssveit.

Gautlönd eru gamalgróið menningarsetur. Jón Sigurðsson á Gautlöndum var lengi alþingismaður og forustumaður í samvinnuhreyfingunni á upphafsárum hennar. Sonur hans, Sigurður Jónsson var einnig þingmaður og forustumaður í samvinnuhreyfingunni. Stöng er gamalgróið ferðaþjónustubýli, sem býður fjölbreytta gistingu. Stóriás er langur og lágur ás, sem liggur frá Sandfelli langleiðina suður að Víðikeri. Í ásnum er lyng, í lægðunum umhverfis er mýragróður og þar á milli er víðir af ýmsu tegundum.

Byrjum á brúnni yfir Gautlandalæk við Gautlönd. Förum með leyfi landeiganda vestur um bæjarhlað og síðan suður um tún að hliði í efsta horni hliðsins. Förum um hliðið inn á jeppaslóð á Mývatnsheiði. Sláum okkar fljótlega meira til vesturs og komum sunnan við Sandfell að jeppaslóð milli fellsins og Sandvatns. Sú slóð kemur inn á slóð frá Engidal, sem liggur um Sandfell til Stangar. Við förum suður veginn í átt að Engidal. Þegar vegurinn víkur til vesturs frá vatninu, förum við reiðslóð til suðurs meðfram girðingu frá eyðibýlinu Stóraási. Við förum austan við Bjarnapoll og á Stóraás svo langt sem okkur lystir. Leiðin endar við Grjótá, sem leiðir okkur að Víðikeri í Bárðardal. Við förum sömu leið til baka að Sandfelli. Þar förum við með veginum yfir fellið að Stöng. Þaðan liggur Gullvegur vestur um Fljótsheiði.

20,6 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Engidalur.
Nálægar leiðir: Gautlönd, Sandfell, Hrísheimar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Mýrdalssandur

Frá Fjallakofanum við Hólmsá um Mýrdalssand að Höfðabrekku. Hér eru engar slóðir, aðeins eyðisandur eins langt og augað eygir til suðurs. Fara þarf varlega í stríðum jökulkvíslum á sandinum, Leirá og Þverkvísl. Sandurinn getur líka verið þungur yfirferðar. Fyrst og fremst er þetta tengileið milli leiða af Fjallabaki og leiða í Mýrdal. Í góðu veðri er mikilúðlegt útsýni til Mýrdalsjökuls og stöku fjöllin á sandinum eru líka tignarleg, Atley og Hafursey. Þegar komið er í Hafursey er ástæða til að vera feginn að vera sloppinn undan Kötlugosi, því að í eynni er griðland fyrir hugsanlegu jökulflóði. Förum frá Fjallakofanum við Hólmsárfoss suður jeppaveg með ánni, unz hún snýr til vesturs og nálgast Atley á sandinum. Förum þá þvert til suðurs af slóðinni í stefnu á austurhorn Hafurseyjar, vestan Rjúpnafells og austan Sandfells. Förum beint strik meðfram Sandfellsjökli og Kötlujökli. Förum yfir Leirá og Þverkvísl og beygjum síðan þvert til vesturs við suðausturhorn Hafurseyjar. Komum þar inn á slóða að björgunarskýli í sunnanverðri eynni. Fylgjum þeim slóða að mestu til suðurs að þjóðvegi 1 og síðan vestur brúna á Múlakvísl að Höfðabrekku.

35,0 km
Skaftafellssýslur

Erfitt fyrir göngufólk

Skálar:
Framgil : N63 42.655 W18 43.259.
Hafursey : N63 30.900 W18 44.080.

Nálægir ferlar: Öldufell, Höfðabrekkuheiði.
Nálægar leiðir: Hólmsá, Skaftártunguleið, Álftaversleið, Heiðardalsvegur, Arnarstakksheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Mýravegur

Frá Báreksstöðum í Borgarfirði til Grímsstaða á Mýrum.

Þessi leið er ekki forn, en er nú á tímum mikið farin af hestamönnum. Um hana fara Borgfirðingar á leið til fjórðungsmóts á Kaldármelum. Leiðin liggur um uppbyggða og malarborna dráttarvélaslóð um blautar mýrar milli Gufár og Langár. Áður var ekki farið með Langá, heldur með Gufá alla leið að Valbjarnarvöllum og síðan vestur um eyðibýlið Litla-Fjall að Grenjum, en slóðin yfir mýrina milli Gufár og Langár hefur gert þessa leið vinsælli. Þetta er önnur leið en sú, sem Þórður kakali og Kolbeinn ungi fóru vestur Mýrar 27 nóvember 1242. Þá var snjór og frost og þeir gátu farið það sem kallað var “vetrarvegur” beint af augum yfir mýrar og sund. Þurftu ekki að krækja fyrir torleiði. Þeir fóru sunnar en hér er lýst, um Álftártungu.

Förum frá Báreksstöðum norður með þjóðvegi 511 að Hvítárbrú við Ferjukot. Yfir brúna og vestur þjóðveg 510 með Þjóðólfsholti og síðan vestur um Krókatjörn og Eskiholt. Yfir þjóðveg 1 og áfram norður um sumarhúsahverfi og síðan vestur að eyðibýlinu Gufá. Þaðan norður með Gufá, framhjá Staðarhúsum að Laxholti. Þaðan förum við vestur mýrarnar milli Uxavatns að sunnanverðu og Álftavatns að norðanverðu, í Stangarholt. Förum suður fyrir bæinn og síðan vestur að Langá og norður með ánni. Förum yfir Langá á Sveðjuvaði, þegar við nálgumst eyðibýlið Grenjar, gegnum sumarhúsahverfi og síðan um slóð ofan við garða, gegnum hlið og á reiðleið undir Grenjamúla. Fylgjum þeirri leið áfram undir Grímsstaðamúla að Grímsstöðum.

28,1 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Grímsstaðir: N64 41.836 W21 56.604.

Nálægir ferlar: Múlavegur, Hraundalur.
Nálægar leiðir: Gufá, Hrosshyrna.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Myrkárdalur

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá þjóðvegi 814 á mótum Hörgárdals og Myrkárdals um Myrkárdal til Svelgs í Hörgárdal.

Byrjum við mót Hörgárdals og Myrkárdals. Förum vestur Myrkárdal og síðan suður Sandárdal austan ár að vatnaskilum tveggja Sandáa í 940 metra Hæð. Áfram til suðurs um jaðar Tófuhrauns og fyrir austan Sandárgil niður að Svelg.

15,0 km
Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Hjaltadalsheiði, Hörgárdalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Múlavegur

Frá Grímsstöðum á Mýrum til Snorrastaða í Hnappadal.

Forn leið milli Mýra og Snæfellsness og er enn mikið farin af hestamönnum. Enda er leiðin fjölbreytt um kjarr og einstigi í hrauni. Engir jeppar eru hér á ferð. Árið 1253 fóru hér Þorgils skarði Böðvarsson og Þórður Hítnesingur á leið frá Staðastað í aðför að Agli Sölmundarsyni í Reykholti vegna óvirðinga og sviksemi. Fóru hjá Fagraskógarfjalli þjóðgötuna að vaðinu á Hítará. Svo hraungötuna um Hagahraun eftir svonefndum Ferðamannavegi, með Múlum og undir Grímsstaðamúla. Þetta er önnur leið en sú, sem Þórður kakali og Kolbeinn ungi fóru vestur Mýrar 27 nóvember 1242. Þá var snjór og frost og þeir gátu farið það sem kallað var “vetrarvegur” beint af augum yfir mýrar og sund. Þurftu ekki að krækja fyrir torleiði. Þeir fóru sunnar en hér er lýst, um Álftártungu.

Förum frá Grímsstöðum í 100 metra hæð ofan túna undir Grímsstaðamúla til norðausturs og niður á jeppaveg undir múlanum. Förum með veginum um Hraundalshraun að mynni Hraundals. Við höldum áfram til vesturs undir Svarfhólsmúla eftir jeppavegi um Helluskóg og síðan til norðvesturs um Svarfhól og síðan eftir einstigi um Staðarhraun að þjóðvegi 539 um Hítardal. Við förum yfir veginn og áfram norðvestur að Grjótá og um Tálma yfir Hagahraun, þar sem við förum um einstigi að Hítará undir Bælinu. Við erum þar undir Grettisbæli og Fagraskógarfjalli. Förum vestur með fjallinu um eyðibýlin Moldbrekku og Skóga og síðan norður með fjallinu að rétt við Kaldá í mynni Kaldárdals. Förum síðan niður með ánni um Hraunsmúla að Kaldármelum og áfram upp að þjóðvegi 54, fylgjum honum nokkra tugi metra og förum síðan með afleggjara vestur og suðvestur að Snorrastöðum.

25,2 km
Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir

Skálar:
Grímsstaðir: N64 41.836 W21 56.604.
Snorrastaðir: N64 46.558 W22 17.969.

Nálægir ferlar: Mýravegur, Hraundalur, Fagraskógarfjall, Kolbeinsstaðafjall, Saltnesáll, Hítará, Gamlaeyri.
Nálægar leiðir: Hrosshyrna, Hítardalur, Skjólhvammsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Múlaskógur

Frá Húsafelli um Múlaskóg að Kaldadalsvegi á Skagfirðingaflöt.

Förum frá Húsafelli eftir skógargötu til austurs um Múlaskóg að Kaldadalsvegi.

4,4 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægir ferlar: Kaldidalur.
Nálægar leiðir: Húsafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Múlakolla

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Brimnesi í Ólafsfirði um Múlakollu að Míganda Dalvíkurmegin við Ólafsfjarðarmúla.

Múlakolla er tindur Ólafsfjarðarmúla, sem Jón Helgason orti svo um: “Ærið er bratt við Ólafsfjörð / ógurleg klettahöllin; / teygist hinn mikli múli fram, / minnist við boðaföllin; / kennd er við Hálfdán hurðin rauð, / hér mundi gengt í fjöllin; / ein er þar kona krossi vígð / komin í bland við tröllin.”

Byrjum við þjóðveg 82 við Brimnes í Ólafsfirði, rétt vestan við mynni Ólafsfjarðarganga. Förum austur yfir Brimnesá og áfram upp dalinn að Gvendarskál. Gott er að fara á snjó sunnan við skriðuna upp í skálina. Þaðan norðaustur á Múlakollu í 940 metra hæð. Og á ská suður hlíðina og síðan austsuðaustur hana niður að Míganda við þjóðveg 82 rétt sunnan við mynni Ólafsfjarðaganga.

5,6 km
Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Drangar, Sandskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Múlafjall

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá mótum þjóðvegar 1 og Brynjudalsvegar um Múlafjall til Botnsdals í Hvalfirði.

Förum frá vegamótunum austur Brynjudal og fylgjum veginum norður yfir Brynjudalsá og áfram austur Brynjudal. Síðan norðaustur og upp á fjallið, annað hvort austur á Múlafjall eða norðaustur á Hrísháls. Þaðan er leið til norðvesturs um Ásmundartungu niður í Botnsdal.

8,4 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Reynivallaháls, Leggjabrjótur, Grillirahryggur.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Mosfellssveit

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Víðidal í Reykjavík til Hrafnhóla við Esju.

Förum frá Skeggjastöðum austur með Leirvogsá sunnanverðri, framhjá Tröllafossi, yfir ána og í Stardal. Förum þar upp með gripahúsum og á slóð utan í Múla. Á kafla þarf að fara niður að gamla þjóðveginum um Mosfellsheiði og síðan upp með Bugðu áður en komið er að Litla-Sauðafelli. Förum norðan við fellið um Sauðafellsflóa, yfir þjóðveg 48 og áfram til austurs fyrir sunnan og austan Stíflisdalsvatn. Í Ártúni var fyrrum veitingasala. Eiríkur Ólafsson frá Brúnum rak hana 1879-1881. Þar gerðist hann mormóni og stofnaði mormónakirkju í Ártúni. Fyrir ofan Ártún er Reiðskarð við Elliðaár, þar var vegurinn úr bænum. Úr skarðinu lá vegurinn um Grafarvog, fyrir vestan Keldur, um Keldnaholt að Korpúlfsstöðum að Ferðamannavaði á Blikastaðaá, sem nú heitir Korpa. Leiruvogs er víða getið í fornsögum. Þar áttust m.a. við Hrafn Önundarson og Hallfreður vandræðaskáld, en Hrafn sótti að honum með 60 manns og hjó á landfestar Hallfreðar. Skipið rak og lá þarna við alvarlegu skipbroti. Fyrir norðan hesthúsahverfið er svo Skiphóll. Bátar fóru þar upp um flóð meðal annars til að taka hey úr Skaftatungu, mýrum sem lágu undir Helgafelli.

Byrjum í hesthúsahverfi Fáks í Faxabóli við Elliðaár. Þaðan förum við reiðslóð að Rauðavatni og síðan norður Hádegismóa og undir þjóðveg 1 við Grafarholt. Þá meðfram þjóðveginum að Korpu og síðan á vestri bakka árinnar norður að Ferðamannavaði. Er þá komið á gömlu þjóðleiðina úr bænum. Þaðan fylgjum við reiðslóðinni að hesthúsahverfinu í Mosfellsbæ. Síðan eftir reiðslóð yfir Varmá og Köldukvísl og upp með Köldukvísl, undir þjóðveg 1 og síðan meðfram Köldukvísl austur í Mosfellsdal. Áfram fyrir sunnan Mosfell og yfir Háaleiti og Borgarmela norðvestur að Skeggjastöðum, beint yfir Leirvogsá og í Hrafnhóla.

20,8 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægir ferlar: Elliðaárdalur, Rauðavatnshringur, Rauðhólahringur, Jórukleif.
Nálægar leiðir: Elliðavatn, Þrengsli, Ólafsskarð, Dyravegur, Kóngsvegur, Óskotsleið, Mosfellsheiði, Stardalsleið, Svínaskarð, Illaklif, Selkotsvegur.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH