Múlavegur

Frá Grímsstöðum á Mýrum til Snorrastaða í Hnappadal.

Forn leið milli Mýra og Snæfellsness og er enn mikið farin af hestamönnum. Enda er leiðin fjölbreytt um kjarr og einstigi í hrauni. Engir jeppar eru hér á ferð. Árið 1253 fóru hér Þorgils skarði Böðvarsson og Þórður Hítnesingur á leið frá Staðastað í aðför að Agli Sölmundarsyni í Reykholti vegna óvirðinga og sviksemi. Fóru hjá Fagraskógarfjalli þjóðgötuna að vaðinu á Hítará. Svo hraungötuna um Hagahraun eftir svonefndum Ferðamannavegi, með Múlum og undir Grímsstaðamúla. Þetta er önnur leið en sú, sem Þórður kakali og Kolbeinn ungi fóru vestur Mýrar 27 nóvember 1242. Þá var snjór og frost og þeir gátu farið það sem kallað var “vetrarvegur” beint af augum yfir mýrar og sund. Þurftu ekki að krækja fyrir torleiði. Þeir fóru sunnar en hér er lýst, um Álftártungu.

Förum frá Grímsstöðum í 100 metra hæð ofan túna undir Grímsstaðamúla til norðausturs og niður á jeppaveg undir múlanum. Förum með veginum um Hraundalshraun að mynni Hraundals. Við höldum áfram til vesturs undir Svarfhólsmúla eftir jeppavegi um Helluskóg og síðan til norðvesturs um Svarfhól og síðan eftir einstigi um Staðarhraun að þjóðvegi 539 um Hítardal. Við förum yfir veginn og áfram norðvestur að Grjótá og um Tálma yfir Hagahraun, þar sem við förum um einstigi að Hítará undir Bælinu. Við erum þar undir Grettisbæli og Fagraskógarfjalli. Förum vestur með fjallinu um eyðibýlin Moldbrekku og Skóga og síðan norður með fjallinu að rétt við Kaldá í mynni Kaldárdals. Förum síðan niður með ánni um Hraunsmúla að Kaldármelum og áfram upp að þjóðvegi 54, fylgjum honum nokkra tugi metra og förum síðan með afleggjara vestur og suðvestur að Snorrastöðum.

25,2 km
Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir

Skálar:
Grímsstaðir: N64 41.836 W21 56.604.
Snorrastaðir: N64 46.558 W22 17.969.

Nálægir ferlar: Mýravegur, Hraundalur, Fagraskógarfjall, Kolbeinsstaðafjall, Saltnesáll, Hítará, Gamlaeyri.
Nálægar leiðir: Hrosshyrna, Hítardalur, Skjólhvammsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson