Sanddalur

Frá Hamraendum í Miðdölum að Háreksstöðum í Norðurárdal.

Sanddalur var fyrr á öldum mikilvæg samgönguleið milli Norðurárdals og Dalasýslu, þótt Brattabrekka hafi alltaf verið helzta leiðin og sé það enn. Upp í Sanddal liggja fleiri leiðir úr Dölum en hér er lýst. Sunnan þessarar leiðar er leið vestan úr botni Reykjadals um Sprengibrekku og Mjóadal. Norðan þessarar leiðar er leið úr botni Haukadals um Sátudal. Sanddalur er gróinn dalur, fremur þröngur og var í byggð fyrr á öldum. Síðasti bærinn, Sanddalstunga, fór ekki í eyði fyrr en 1974.

Förum frá Hamraendum með þjóðvegi 582 upp með Miðá að suðvestanverðu með þjóðvegi 582 og síðan beggja vegna árinnar til suðausturs. Yfir þjóðveg 60 og til austurs inn í Reykjadal um Fellsendaskóg og eyðibýlið Fellsendakot og til austurs upp úr dalbotninum hjá Tröllakirkju. Komum þar í 410 metra hæð á Merkjahrygg, sýslumörkum Dala og Mýra. Síðan áfram austur um stutt og þröngt skarð, austur Heydal og beygjum til suðurs niður í Sanddal, sem við fylgjum út í Norðurárdal, alltaf vestan við Sanddalsá. Fjallið Sandur er að vestanverðu og Hádegisfjall að austanverðu. Við förum um eyðibýlið Sanddalstungu og síðan áfram suður meðfram Hvammsmúla að vestanverðu og Sveinatungumúla að austanverðu. Förum yfir þjóðveg 1 í Norðurárdal og síðan beint yfir Norðurá upp á þjóðveg 528 og eftir honum einn kílómetra vestur að Háreksstöðum.

38,3 km
Snæfellsnes-Dalir, Borgarfjörður-Mýrar

Nálægir ferlar: Sópandaskarð, Skógarströnd, Jafnaskarð.
Nálægar leiðir: Miðá, Hallaragata, Eyðisdalur, Illagil.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Jónas Kristjánsson