Punktar

Móðgandi skoðanir

Punktar

Brezka stjórnin reyndi að koma á banni við móðgunum við trú múslima, en tókst ekki að koma lögunum gegnum lávarðadeildina. Hún tók út orðin “níð” og “móðgun”, en skildi eftir orðið “ógnun”. Samkvæmt því er móðgun því aðeins bönnuð, að í henni felist ógnun eða hótun. Brezka stjórnin var ekki sátt og vildi koma orðalaginu í fyrra horf, þótt vestræn menning sé sátt við móðganir við trúfélög sem og aðrar stofnanir. Lávarðarnir vildu viðhalda frelsi manna til að hafa móðgandi skoðanir. Það var svo staðfest í brezka þinginu í gær.

Vandlifað

Punktar

Leitarvélin Google hefur komið upp kínverskri leit, sem útilokar bannað efni, svo sem orðin lýðræði og frelsi. Google hefur sér það til forláts, að neðst á síðunum stendur berum orðum, að leitin hafi verið ritskoðuð. Staða Google er því skárri en staða Yahoo, sem beinlínis hjápaði stjórnvöldum í Kína til að hafa hendur í hári manns, sem rak stjórnarandstöðu á netinu, og dæma hann í sex ára fangelsi. Það er vandlifuð sambúðin við mesta óvin lýðræðis og frelsis í heiminum. Mörg af þekktustu fyrirtækjum heims hafa í Kína farið flatt á gróðafíkninni.

Spillingin

Punktar

Alþjóðabankinn og Þróunarsjóðurinn hafa lánað Kenya milljarða í kjölfar greina um spillingu í Kenyja, skrifaðar af John Githongo, sem ráðinn var af stjórnvöldum til að útrýma spillingu. Hann er núna landflótta í Bretlandi og lýsir í greinunum, hvernig ráðamenn Kenya láta milljarða af slíkri aðstoð hverfa inn á persónulega reikninga. Þetta er eitt fyrsta afrek Paul Wolfowitz, nýs forstjóra Alþjóðabankans. Sir Edward Clay, fyrrverandi sendiherra Bretlands í Kenya, hefur harðlega mótmælt því, sem hann kallar blindu og heimsku bankans.

Dario Fo

Punktar

Gamalt nóbelsskáld hyggst verða næsti borgarstjóri Milano á Ítalíu. Dario Fo er orðinn 79 ára, en lætur ekki deigan síga, frægastur fyrir háð í leikritum um ríka og volduga. Kosningaloforð hans er: Ég er ekki maður málamiðlana. Í kosningunum er hann studdur af græningjum og kommúnistum. Skoðanakönnun spáir honum ekki sigri, en öðru sætinu. Bruno Ferrante, fyrrverandi lögreglustjóri í Milano, mældist með 45% fylgi og Dario Fo með 43% fylgi. Við hæfi er, að ein af bókum Fo fjallar einmitt háðulega um lögreglustjóra í Milano.

Nýr dómari

Punktar

Leppstjórn Bandaríkjanna í Írak á í mestu vandræðum með réttarhöldin yfir einræðisherranum Saddam Hussein. Þrýst var á Rizgar Amin dómara að herða réttarhöldin, svo að hann sagði af sér vegna þrýstings stjórnvalda. Nú er kominn nýr dómari, Abdel Rahman, sem lætur vísa sakborningum úr salnum, ef þeir eru með múður. Fréttastofa Reuters segir líklegt, að hann nái tökum á salnum. Það verður ekki seinna vænna, því að réttarhöldin hafa lengi verið skrípaleikur og stundum öngþveiti. Í gær var rekinn út hálfbróðir Husseins, Barzan al-Tikrit.

Angela Merkel

Punktar

Angela Merkel er dæmi um pólitíkus, sem ekki áttar sig á, að kosningar í heimi múslima hafa öfug áhrif við vestræna óskhyggju. Hún vill núna refsa Palestínumönnum fyrir að kjósa ekki rétt. Þýzki kanzlarknn er í Ísrael í dag og ætlar að hitta hinn sigraða Mahmud Abbas, en ekki sigurvegarana frá Hamas-flokknum. Sigur Hamas í kosningunum stafar af réttlátri reiði fólks gegn grófri spillingu manna Arafats, og gegn langvinnu árangursleysi við að stofna sjálfstætt ríki í skugga Ísraels. Ekki er vitrænt að hóta mönnum illu fyrir að kjósa frjálst.

Mikið gengur á

Punktar

Mikið getur gengið á í litlum flokki. Þótt víðar séu átök en í Framsókn, er stríðið þar mest og markvissast. Allt verður Framsókn að deilu, prófkjör, stjórnarkjör kvenfélaga og smölun í sértrúarsöfnuðum. Jafnan eru það menn úr hirð formannsins, einkum aðstoðarmenn ráðherra, sem sækjast til valda. Reynt er að gera flokkinn þægari formanninum og losna við fólk, sem ekki er í innsta hring. Kristinn H. Gunnarsson er höfuðóvinur, Jónína Bjartmarz og Siv Friðleifsdóttir eru ekki í náðinni. Enda hentar litlum flokki að hafa þrönga klíkun við völd.

Skautað hratt

Punktar

Seðlabankinn segir verðbólguhorfur landsins vera óviðunandi. Hann hefur hækkað stýrivexti í 10,75%, langt umfram vestræn ríki. Bankar spá 4% verðbólgu á þessu ári, tvöfalt hærri en eðlilegt er. Vextir munu því hækka á almenningi, sem hefur tvöfaldað skuldir sínar á tveimur árum, í 540 milljarða króna. Þótt margir hafi notað lánin til að kaupa húsnæði, hafa þeir ekki af því auknar tekjur til að mæta hækkun vaxta. Því er skautað djarft í fjármálum þessa daga og margir munu heimta sér launaskrið. Bankinn hótar að hækka vexti enn frekar.

Tvær hugsanir

Punktar

Það fyrsta, sem vestrænum pólitíkusum datt í hug, þegar skæruliðar í Hamas unnu þingkosningarnar í Palestínu og komu spilltum arftökum Arafats í Fatah frá völdum, var fitja upp á trýnið. Næsta hugmynd, sem þeir fengju, var að hóta að hætta fjárstuðningi við Palestínu, ef Hamas sviki ekki loforð sín og breytti sér ekki í eins konar Fatah. Það er ekki von á góðu í vestrænum afskiptum af Palestínu, þegar við höfum stjórnmálamennm, sem ekki skilja nútímasögu og halda, að frjálsar kosningar gefi niðurstöður í samræmi við vestræna óskhyggju.

Hamas vann

Punktar

Fyrir rúmum ellefu árum spáði ég Hamas sigri gegn Fatah, ef frjálst yrði kosið í Palestínu. Það er nú komið á daginn. Bandaríkjastjórn virðist telja, að frjálsar kosningar leysi mál í miðausturlöðndum. Þær eru góðar, en leiða til niðurstöðu, sem kemur Bandaríkjastjórn á óvart, ekki mér. Ofsatrúarmenn sjíta sigruðu í Írak og skæruliðar Hamas í Palestínu. Þegar íbúar miðausturlanda fá að tjá sig frjálst, greiða þeir alltaf atkvæði gegn Bandaríkjunum. Það gera þeir, af því að þaðan koma krossferðirnar, sem hafa sett allt á hvolf hjá múslimum.

Ljós í myrkri

Punktar

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra er að undirbúa tillögu um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Hún segir, að verin séu gríðarlega verðmætt svæði. Hún telur hugmyndum um Norðlingaölduveitu hafa verið ýtt út af borðinu. Þannig hefur hún rofið bandalag ráðherra um að styðja með þögninni virkjunaráform Halldórs Ásgrímssonar og Valgerðar Sverrisdóttur. Sigríður Anna er orðin ljós í myrkri úreltrar stefnu um áliðju, sem byggist á landníði að hætti Kárahnjúka og á brotum á fjölþjóðasamningi um útblástur gróðurhúsalofttegunda.

Heilaþvotturinn

Punktar

Landsvirkjun rekur áróður í skólunum fyrir stórvirkjunum, svo sem komið hefur fram í fréttum. Einkum stendur hún fyrir samkeppni skóla um verkefni, sem byggist á gögnum hennar. Þau eru full af áróðri fyrir stórvirkjunum, studd skoðanakönnun, sem virðist sýna, að þjóðin telji náttúruvernd og orkuver geta farið saman. Stjórnvöld hafa staðfest, að Landsvirkjun megi misnota skóla landsins og þeir megi nota efni frá henni. Landsvirkjun hefur nú sent bréf, þar sem segir, að skólum sé ekki skylt að vinna verkefnin þóknanlega fyrir Landsvirkjun.

Skammtaðar fréttir

Punktar

Fjölmiðlar segja okkur ekki sannleikann, er þeir skammta í okkur fréttir. Þegar þeir sögðu á netinu frá ást hálfrar þjóðarinnar á orkuverum, vil ég ekki bara vita, hvaða álit fólk á Austurlandi hefur á Landsvirkjun. Ég vil líka vita um álit annars fólks, en fæ það ekki. Ég fæ að vita um prósentur, sem styðja vatnsafl og áliðnað, en fæ ekki á netinu að vita um prósentur hinna, sem gera það ekki. 48% styðja ekki frekri álver og 43% styðja ekki frekari vatnsorkuver. Það eru háar tölur, en sáust ekki í morgun á netsíðum fjölmiðlanna.

Engin tengsli?

Punktar

Við höfum fengið fréttir af, að í vor muni hætta L-listinn, sem hafði hreinan meirihluta í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og hafði þar forustu um að stöðva landníð Landsvirkjunar við Þjórsárver. Borið er við ágreiningi innan listans um skóla. En við höfðum áður frétt, að Landsvirkjun hefði sótt hart að hreppsnefndinni fyrir þvermóðsku. Ég sakna þess í fréttinni, að ekki skuli vera fjallað um, hvort tengsl séu milli Þjórsárveramálsins og ákvörðunar L-listans um að hætta. Eru puttar stóra Bróður í þessu máli, er enn verið að knýja fram orkuver?

Sá enga fanga

Punktar

Þótt ríkisstjórnir Evrópu sæti áburði um vitneskju einstakra ráðherra um fangaflug Bandaríkjanna, segja talsmenn íslenzku ríkisstjórnarinnar, að flugið sé ósannað mál. Þótt Evrópuráðið hafi látið gefa út skýrslu um flugið og hafi sent ríkisstjórninni bréf, þar sem spurt er, hvort íslenzk lög tryggi, að ólöglegt athæfi af slíku tagi gerist ekki á íslenzkum flugvöllum. Þótt hér sem annars staðar hafi opinberlega verið gefnar út tölur um komudaga slíkra flugvéla. Ríkisstjórnin kíkti ekki í vélarnar og telur málið ekki vera sannað.