Punktar

Sama tóbakið

Punktar

Philip Morris hefur skírt sig Altria til að fela sig fyrir veruleikanum sem stærsta og versta glæpafyrirtæki tóbaksframleiðslunnar. Það heldur áfram að drepa fólk með tóbaki, þótt það heiti Altria. Það er áfram sama tóbakið. Samanlagt veldur tóbaksiðnaðurinn árlega dauða fimm milljóna manna, hér á Íslandi með stuðningi Sigurðar Kára Kristjánssonar, alþingismanns Sjálfstæðisflokksins. Philip Morris, nú Altria, er enn fremst í flokki þeirra, sem reyna að fá börn um allan heim til að taka upp reykingar, sem drepa þau síðan langt um aldur fram.

Teppabankarar

Punktar

Bagram í Afganistan er tekin við af Guantánamo á Kúbu sem pyndingastöð Bandaríkjanna, þar sem menn hírast án dóms og laga árum saman. Þrýstingur alþjóðasamfélagsins á lokun Guantánamo hefur leitt til flutnings fanga til Bagram í stað Guantánamo. Staðurinn hefur sérstakt gildi fyrir Ísland, sem styður hernám Bandaríkjanna á Afganistan með því að senda þangað íslenzka hermenn, sem eru svo hataðir af heimamönnum, að þeir geta ekki keypt sér teppi í aðalgötunni í höfuðborginni Kabúl. Íslendingar eiga ekki að vera teppabankarar hjá trylltu heimsveldi.

Afskiptasemi

Punktar

Evrópusambandið reynir að hindra Svartfellinga í að samþykkja ályktun í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem getur falið í sér skilnað við Serbíu. Það vill, að kosningin sé gild, ef 50% kjósenda taka þátt og 55% segja já. Þetta telur ríkisstjórn Svartfjallalands vera of háar tölur, finnst nóg, að 41% taki þátt og meirihlutinn segi já. Vandséð er, hvaða vald sambandið hefur til að brengla reglur um þjóðaratkvæðagreiðslu til að gleðja Serbíu, sem að venju hótar ofbeldi. Evrópa hefur ekki rétt til að binda Svartfellinga við Serbíu, ef þeir vilja það ekki.

Bandarískar reglur

Punktar

Beztu bandarísku blöðin hafa flest umboðsmann lesenda og eigin siðareglur, sem eru ólíkar því, sem við þekkjum hér á landi. Andinn í bandarískum siðareglum fjölmiðla er: Sannleikurinn = góður vilji + mikil vinna = staðfestingar + staðfestingar + staðfestingar. Sannleikurinn er torsóttur og flókinn, en menn komast næst honum með góðum vilja og mikilli vinnu, eins og Bernstein og Woodward sýndu í Watergate. Allt næst þetta fyrst og fremst með endalausri röð af staðfestingum. Hér á landi fela siðareglur blaðamanna í sér þægilegt boðorð letinnar: Oft má satt kyrrt liggja.

Bananalýðveldi

Punktar

Bandaríkin hafa tapað pyndingastríðinu, segir Richard Bernstein í Herald Tribune, er alþjóðlegt skurðgoð á borð við Desmond Tutu hefur bætzt við hinn fjölmenna kór fjölþjóðasamtaka, sem vill láta loka pyndingastöðinni í Guantánamo. Bernstein segir, að ekki sé lengur hægt að rökræða málið, í Evrópu sé almennt litið á Bandaríkin sem bananalýðveldi og þar sé ekki lengur hlustað á fulltrúa Bandaríkjastjórnar. Sameinuðu þjóðirnar hafa breytt reglum Mannréttindastofunnar á annan hátt en Bandaríkin hafa óskað og munu ekki hlusta á mótrök.

Norrænn brestur

Punktar

Í framhaldi af fáránlegum æsingi út af teikningum af Múhameð spámanni hefur norræn samvinna beðið hnekki. Carl Hamilton, þingmaður frjálslynda flokksins í Svíþjóð, segir hana vera gjaldþrota. Hann segir það vera til skammar, að norsk og sænsk stjórnvöld hafi aðeins veitt dönsku stjórninni málamyndastuðning af ótta við reiði múslima. Komið hefur til orðaskipta milli forsætisráðherra Danmerkur og Svíþjóðar út af málinu. Sænska utanríkisráðuneytið og lögreglan sýndu svo gróft frumhlaup með því að loka heimasíðum með teikningunum.

Rétttrúnaður

Punktar

Siðanefnd þriggja lögmanna hefur svipt Ken Livingstone embætti borgarstjóra í London í fjórar vikur og dæmt hann í tíu milljón króna málskostnað fyrir óviðurkvæmileg ummæli um gyðing. Löglega kjörinn stjórnmálamaður er sviptur embætti tímabundið fyrir skoðanir. Brezki sagnfræðingurinn David Irving var dæmdur í Austurríki í þriggja ára fangelsi fyrir efasemdir um helför gyðinga í síðari heimsstyrjöldinni. Í báðum tilvikum hefur félagslegur rétttrúnaður farið út í öfgar. Fáránlegt er að taka meinta vellíðan fólks og trúarflokka fram yfir málfrelsi.

Ísrael ekki í Nató

Punktar

Atlantshafsbandalagið er ekki bara orðið gagnslaust eftir fyrirvaralítið hvarf Sovétríkjanna, heldur lýtur það bandarískri stjórn í auknum mæli. Það er komið með heri langt út fyrir Evrópu og Atlantshafið, til dæmis í Afganistan. Nýjasta ruglið í bandalaginu er tillagan um, að Ísrael fái að ganga í það. Verið er að leggja til að taka inn og bera ábyrgð á ríkinu, sem ber einna mesta ábyrgð á nýrri styrjöld menningarheimanna, krossferðum Bandaríkjamanna í löndum múslima. Sem betur fer eru engar líkur á, að ráðamenn í Evrópu samþykki ruglið.

Vilja græna skatta

Punktar

Skoðanakönnun sýnir, að mikill meirihluti Breta vill greiða græna skatta til að bæta umhverfið. 63% Breta voru á þessari skoðun. Þeir voru að meðaltali reiðubúnir að borga tæpar 45.000 krónur hver á ári, þótt þeir spöruðu sjálfir ekkert á móti. Litlu færri sögðust hafa neitað sér um að kaupa vörur fyrirtækja, sem menga umhverfið. Aðeins 16% vildu ekki gera neitt. Sama könnun sýnir, að Bretar taka umhverfi langt fram yfir hagþróun. Þetta afsannar þá fullyrðingu Tony Blair, að ekkert land í heiminum vilji slíkt. Jafnvel Íslendingar vilja nú ekki fleiri álver næstu árin.

Dularfullt ferli

Punktar

Hvers vegna hunzaði Enex ítrekaðar ábendingar ræðismanns Íslands í El Salvador um að láta Jón Þór Ólafsson hafa lífvörð? Af hverju vill Lárus Elíasson, forstjóri fyrirtækisins, ekki tala við blöð um þetta? Hví hafa ættingjar Jóns Þórs ekki gefið út opinbera fyrirspurn? Þeir hafa þó gefið út opinbera yfirlýsingu í öðrum þætti málsins. Af hverju kvartaði Lárus við bandaríska (sic) sendiráðið um afskipti íslenzka ræðismannsins og hví gaf eiginmaður ræðismannsins út yfirlýsingu um, að hann skipti sér ekki frekar af málinu? Fjölmiðlar eiga að útvega svör, til hvers eru þeir?

Seintekinn gróði

Punktar

Gallinn við frjálsar kosningar er, að úrslitin geta orðið önnur en þú vilt. Þannig ógilti herinn kosningar í Alsír, sem trúarofstækismenn höfðu unnið. Þannig hefnast Bandaríkin og Ísrael á Palestínumönnum fyrir að hafna flokki Arafats í þingkosningum. Þannig hafa frjálsar kosningar í Írak leitt trúarofstæki í landstjórnina og gert bandaríska hernámsliðið gráhært. Þannig hafa frjálsar forsetakosningar í Íran leitt til valda mann, sem samtímis ögrar Ameríku og Evrópu. Það er seintekinn gróði fyrir heimsveldi að troða frelsi upp á þjóðir.

Nú eru það moskurnar

Punktar

Ofbeldi magnast þessa daga í Írak. Sjítar og súnnítar ráðast hvorir tveggja á moskur hinna. Eftir kosningar og stjórnarmyndun er stríð hafið milli helztu trúarhópa landsins. Endurvalinn forsætisráðherra hvetur fulltrúa Bandaríkjanna til að hætta að skipta sér af landsstjórninni. Enn í dag er ástand innviða ríkisins, vega, vatnsleiðsla og rafmagns, lakara en það var á tíma Saddam Hussein. Þannig hefur farið fáránleg tilraun bandarískra ofstækismanna til að þvinga rétthugsun sinni með hervaldi og fjöldamorðum upp á fólk í útlöndum.

Karl prins skrifar

Punktar

Kafli úr dagbók Karls Bretaprins hefur lekið í fjölmiðla og orðið að dómsmáli. Karl er mjög opinber persóna og hefur um nokkurt árabil sent fjölmiðlum og embættum undarleg bréf með margvíslegum tillögum og skömmum. Í dagbókinni koma fram fordómar hans gegn Kínverjum og gremja hans yfir að þurfa að fljúga þangað á viðskiptafarrými, meðan stjórnmálamenn voru á fyrsta farrými. Undarlegt er að hafa Karl á ódýrara farrými, en skrítnara er þó, að höfundur lesendabréfa, sem tæpast er með fullu viti, skuli vera ríkisarfi stórveldis.

Með og móti Evrópu

Punktar

Menn hafa ýmist verið með eða móti aðild að Evrópu í skoðanakönnunum síðustu ára, fremur á móti í fyrstu könnun þessa árs. Athyglisvert er, að ekki er bara meirihluti hjá Samfylkingunni fyrir aðild, heldur líka hjá Vinstri grænum, þar sem forustumenn hafa talað gegn aðild. Enn merkilegra er, að Framsókn er á móti aðild, þótt forustumenn þar hafi talað með viðræðum um aðild. Sjónarmið forustumanna og fylgismanna fara ekki saman hjá þessum tveimur flokkum. Það er alltaf jafn fróðlegt að lesa úrslit skoðanakannana.

Vinstri meirihluti

Punktar

Aftur er komin upp sú staða í skoðanakönnunum, að núverandi meirihluti í Reykjavík geti haldizt í kosningunum í vor á þann hátt, að Samfylkingin fái sjö fulltrúa, Vinstri grænir einn og Framsókn engan. Verði þetta útkoman, getur Framsókn ekki skotizt upp í hjá Sjálfstæðisflokknum eftir kosningar. Um tíma var sá flokkur með hreinan meirihluta í könnunum, af því að hann var búinn að velja sér borgarstjóraefni, en Samfylkingin ekki. Nú er komið á jafnvægi milli stóru flokkanna að nýju og hæfileg spenna komin í spilin í borginni.