Punktar

Linkind Evrópu

Punktar

Brezka blaðið Guardian vekur í leiðara athygli á linkind Evrópuríkja í garð Bandaríkjanna og Ísraels í kjölfar hernaðar Ísraels í nágrannaríkjunum. Að vísu fór Jaiver Solana, utanríkisráðherra Evrópusambandsins, til Beirút. Það eina, sem Evrópa treystir sér til að gera, er að hvetja Ísrael til að “fara gætilega”. Það er vægt til orða tekið, þegar hundruð óbreyttra borgara eru myrt eða falla eins og það heitir á fréttamáli. Ef Evrópusambandið lætur ekki að sér kveða gegn stríðsglæpum við bæjardyrnar, er ekki von á, að það láti að sér kveða í utanríkismálum í náinni framtíð.

Allt innifalið

Punktar

Flugfélög á valdasvæði Evrópusambandsins verða eftir rúmt ár skylduð til að auglýsa fargjöld með öllu inniföldu, svo sem flugvallargjöldum. Þá geta farþegar í fyrsta skipti borið saman raunveruleg fargjöld flugfélaga. Auk þess verður flugfélögum bannað að hafa misjafna taxta eftir löndum. Þetta á eftir að fara fyrir þing sambandsins og ráðherranefnd. Sum flugfélög hafa tekið þessu vel og önnur illa, einnig sumir ráðherrar, sem gæta hagsmuna flugfélaga. Breytingin nær síðar til Evrópska efnahagssvæðisins, þar á meðal Íslands.

Nató er leppur

Punktar

Leppur Bandaríkjanna í heimsyfirráðum þeirra er Atlantshafsbandalagið. Það seilist æ víðar til stríðs utan Evrópu, hefur til dæmis tekið við hernaði á stórum svæðum í Afganistan og veltir fyrir sér aðild að stríðinu gegn Írak. Almennt má segja, að meginhlutverk bandalagsins verði að hreinsa til eftir árásir Bandaríkjanna. Að mestu er horfið hlutverk þess að gæta friðar í Evrópu. Í staðinn sogast ríki þess inn hernám og ofbeldi í þriðja heiminum, þar á meðal svonefnd friðargæzlusveit frá Íslandi. Við eigum hins vegar að forðast þetta bandalag eins og heitan eldinn.

Ísrael hvítþvegið

Punktar

Að undirlagi Bandaríkjanna hafa áttveldin á fundi sínum í Pétursborg ákveðið að kenna samtökunum Hamas og Hezbolla um ófrið Ísraels á hendur nágrannaríkjunum. Þannig kemst Ísrael upp með allt. Það komst t.d. upp með að fá sér kjarnorkuvopn, þótt allt verði vitlaust, þegar Íran reynir hið sama. Sérstaklega er merkilegt, hvernig tilraun Bandaríkjanna til að koma á lýðræði í Palestínu leiddi til kosningasigurs Hamas, sem Bandaríkin hamast nú við að gera að engu. Það er ábyrgðarhluti að teljast til vestrænna ríkja og bera ábyrgð á þeim hörmungum, sem þau valda víða um heim.

Ósvífin ummæli

Punktar

Vestrænu fólki finnst hámark ósvífninnar vera þau ummæli Kameini erkiklerks í Íran, að Ísrael sé djöfullegt krabbamein. Samt eru þau næsta rétt. Ísrael er krabbamein Miðausturlanda, meginorsök og meðorsök flestra vandræða heimshlutans. Ísrael er líka illt afl, ásamt Bandaríkjunum annar póllinn í öxli hins illa, sem er meginorsök og meðorsök flestra vandræða heimsins eftir valdatöku Bush forseta. Þegar ég hlustaði fyrir mörgum árum á Ehud Olmert, þáverandi borgarstjóra og núverandi forsætisráðherra, flytja erindi í Jerúsalem, fannst mér ég vera að hlusta á snarbilaðan mann.

Lítil hvalveiði

Punktar

Við erum í sama vanda og Norðmenn, getum ekki veitt nema tæpan helming af hvölunum, sem leyft er að veiða. Er þó kjötinu heldur betur tekið hér á landi en í Noregi og Japan, þar sem menn hafa gleymt átinu. Í Noregi eru allar frystigeymslur fullar og í Japan er hafinn ríkisrekinn áróður fyrir hvalkjötsáti. Á Íslandi hefur félag fjögurra báta leyfi til veiðanna, sem kallaðar eru vísindaveiðar að hætti Japana, ekki vísundaveiðar. Norðmenn læðast ekki kringum heita grautinn og kalla þetta bara veiðar. En seint verður þetta arðvænlegur atvinnuvegur á 21. öld.

Sturla fær prik

Punktar

Gott hjá Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra að opna spjallrás á heimasíðu ráðuneytisins, svo að fólk geti tjáð sig um mál þess. Fyrsta umræðuefnið er, hvort hækka eigi bílprófsaldur úr sautján árum í átján. Mitt svar við þeirri spurningu er, að menn eigi að fá allan borgaralegan rétt um leið og þeir verða skattskyldir. Mér finnst, að fólk eigi líka að fá að tjá sig um forgang hraðbrauta á Reykjavíkursvæðinu eða röra í afskekktum fjöllum. Einnig um forgang lagfæringu hringvegar eða viðbótarvegi um afskekktar heiðar. Setjum stórpólitísku málin í umræðu á vefnum.

Valgerður fær prik

Punktar

Vel og snaggaralega gert hjá Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra að senda 472 sæta vél til Damaskus að sækja Íslendinga og aðra Norðurlandabúa vegna loftárása Ísraels á Beirút. Of sjaldan heyri ég, að ráðuneytið komi Íslendingum að gagni í útlöndum. Enn sjaldnar heyri ég, að Valgerður komi þjóðinni að gagni, en einu sinni verður allt fyrst. Sá hængur er á málinu, að Norðmenn vildu ekki sjá Íslendinga í rútunum frá Beirút til Damaskus, svo að Íslendingar verða að fara með Finnum degi síðar. Vonandi bíður flugvélin eftir Íslendingunum frá Beirút.

Sumarfrí er martröð

Punktar

Íslenzkur fræðimaður telur, að Íslendingar kunni ekki að njóta sumarfrís, upplifi það sem algera martröð. Þeir geti ekki slakað á og fái einkenni fráhvarfs frá vinnu og hversdagsleika. Þetta eru ekki nýjar fréttir. Allt, sem víkur frá daglegri festu, veldur vandræðum þjóðarinnar. Svo einfalt mál sem helgarfrí sendir fólk út í næturlífið, þar sem það drekkur frá sér ráð og rænu til að forðast að vera eitt með sjálfu sér eða fjölskyldunni. Þegar fólk á lengra frí, telur það sig þurfa að skipuleggja fríið í stað þess að setjast í letistólinn með góða bók eða krossgátu.

Bannorð valda gelti

Punktar

Út um þúfur hafa farið hugmyndir um, að áttveldin taki sig saman um að gera lyf og ónæmissprautur ódýrari í þriðja heiminum. Bandaríkin hafna tillögum Frakklands og Bretlands um aðferðir á þeim grundvelli, að þær feli í sér skatt á auðríkin. Bush Bandaríkjaforseti er þannig víraður, að hann geltir alltaf, þegar hann heyrir nefndan skatt eða fjölþjóðasamstarf. Þetta er algengur galli, margir eru svona víraðir hér á landi einnig. Ekkert mun því koma út úr áttveldafundinum frekar en í Doha-viðræðunum um heimsviðskipti, þar sem Bandaríkin verja okur lyfjaframleiðenda á þriðja heiminum.

Stóri bróðir í morgunkorni

Punktar

Ég er með morgunkorn barnanna fyrir framan mig í sveitinni, þegar ég skrifa þetta. Á kantinum er innihaldslýsing. Þar segir bandaríski framleiðandinn, að sykur sé 23,5% og mettaðar fitusýrur séu 1,3%. Þessar góðu upplýsingar mega ekki sjást á Íslandi. Því hefur verið límdur yfir miði, sem hylur innihaldstöfluna og segir aðeins, hversu mikið prótein, kolvetni og fita sé í vörunni. Kerfiskarlar á Íslandi hafa ákveðið, að fólki sé ekki hollt að vita um sykur og mettaðar fitusýrur, og hafa heimtað ritskoðun upplýsinganna. Verst er, að flestir Íslendingar telja eðlilegt, að kerfiskarlar passi þá.

Mæðist af sárum

Punktar

Andlegur leiðtogi stjórnarstefnu George W. Bush á bágt þessa dagana. Nýjasti vandi Dick Cheney varaforseta er, að fyrirtækið hans er komið á svartan lista hjá stríðsráðuneytinu fyrir 70 milljarða króna okur og svindl í verktöku við hermangið í Írak. Ráðuneytið hefur sagt upp samningum við Halliburtun og boðið hermangið út. Vladimir Pútín Rússlandsforseti gerir opinberlega grín að honum fyrir að skjóta vin sinn í veiðiferð. Valery Plame, njósnari hjá CIA, hefur svo kært hann fyrir að ljóstra upp nafni hennar til að níðast á eiginmanni hennar.

Hvalur selzt ekki

Punktar

Norðmenn settu 1000 hvala kvóta á sumarvertíðinni, sem lýkur í ágúst. Þeir veiða hins vegar ekki nema tæplega 500 hvali, rétt innan við helming af kvótanum. Helzta ástæðan er, að kjötið selzt illa og frystigeymslur eru fullar. Norsk stjórnvöld vilja láta sýnast, að þau geti leyft eins mikla hvalveiði og þeim sýnist. Jafnframt neita þau að horfast í augu við, að hvalur er ekki lengur á borðum manna, ekki einu sinni í Japan. Í báðum þessum ríkjum eins og á Íslandi eru hvalveiðar knúðar fram af þrjózku, sem á sér ekki arðbæra forsendu í markaðslögmálum.

Zidane er dólgurinn

Punktar

Áhugamenn um fótbolta reyna hver um annan þveran að afsaka árás Frakkans Zinédine Zidane á Ítalann Marco Materazzi í úrslitaleik heimsboltans. Menn eru að spá í, að Materazzi hafi sagt eitthvað ljótt við Zidane, til að gera lítið úr, að afbrotið framdi Zidane. Hann fékk raunar rautt spjald fyrir verknaðinn og var rekinn út af, sem er sorgarendir á löngum ferli. Engum er um það að kenna öðrum en Zidane sjálfum. Þjóðremba veldur því svo, að hann er nú vinsælli en nokkru sinni fyrr í Frans. Stjórnmálamenn hamast við að láta ljóma hans skína á sig. Svona er lífið öfugsnúið.

Microsoft borgar ekki

Punktar

Samkeppnisstofnun Evrópusambandsins hefur sektað Microsoft um 280 milljón evrur til viðbótar 500 milljón evra fyrri sekt. Einnig hefur hún ákveðið að beita 3 milljón evru dagsektum á hverjum degi frá 31. júlí, meðan Microsoft fer ekki eftir fyrirmælum um opnun forrita. Fyrirtækið hefur kært þetta eins og aðra úrskurði stofnana og dómstóla á vegum sambandsins. Skondnast við þetta er, að hingað til hefur Microsoft komist upp með að borga ekkert. Það hefur heri lögfræðinga við að tefja málið og vinna tíma. Stríðið hefur staðið í átta ár án nokkurs árangurs.