Punktar

Engin endurræsing þar

Punktar

Fylgisaukning Viðreisnar stöðvaðist í tæplega 10% fylgi, þrátt fyrir ágætis almannatengsli. Líklega eru þetta aðallega ósáttir sjálfstæðismenn. Forustan tekur fyrirtæki fram yfir fólk eins og móðurflokkurinn. Býður væntanlega hins vegar upp á minni spillingu, en það nægir ekki miðjufólki. Ef Sjálfstæðis skutlar út gerspillta sætabrauðsdrengnum, fer þetta lið aftur í gamla flokkinn sinn. Þetta er semsagt framboð ósáttra sjálfstæðismanna með ýmis fyrirmenni atvinnulífsins í boði. Viðreisn endurreisir ekki samfélagið, en gæti síðar endurreist skipreika Sjálfstæðisflokkinn. Miðjuflokkur er hún engan veginn.

Einstæður kjörþokki

Punktar

Ég hef enga skýringu á fylgissveiflu Vinstri grænna nema Katrínu Jakobsdóttur. Hún hefur einstæðan kjörþokka og yrði friðarhöfðingi sem forsætisráðherra. Hún hefur allt, sem gamla gengið í Samfylkingunni hefur ekki. Hún þyrfti bara að losna við Steingrím J. Sigfússon, sem er grunaður um stuðning við kvótagreifa og hvers kyns kjördæmispot. Að honum frátöldum hafa vinstri grænir yfirbragð vistvænna græningja. Það er málaflokkur, sem er frekar veikur hjá pírötum, þótt þeir séu sammála um að friða miðhálendi Íslands. Það er eitt af stóru málunum í endurræsingu samfélagsins, sem við væntum á komandi kjörtímabili.

Þægilega innivinnan

Punktar

Mér hefur aldrei fundizt Björt framtíð vera áhugaverður flokkur. Meira svona aðferð við að komast í þægilega innivinnu. Í sumum sveitarfélögum myndar hún meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Einn þingmaður flokksins flutti lofræðu um kvótagreifa á landsþingi þeirra. Svo eru þeir flottir í tauinu, sem mér finnst ekki til bóta. Í þessari kosningabaráttu eru þeir opnir í alla enda. Þannig að ég vissi ekkert um, hvað ég fengi, ef ég styddi þá. Ég efast um, að næsti stjórnarmeirihluti þurfi á þrem-fjórum þingmönnum Bjartrar framtíðar að halda. Og finnst það bara í góðu lagi. Björt framtíð endurræsir ekki samfélagið.

Stóridómur nálgast

Punktar

Bara vika er til kosninga og kannanir komnar bærilega nálægt því, sem kemur upp úr kössunum eftir viku. Moggakönnunin nýja er stór, tekin fyrir viku og staðfestir þróun undanfarinna vikna. Sýnir þrjá turna með 19-22% fylgi hver, Pírata, Sjálfstæðis og Vinstri græn. Samtals hafa þeir 62% alls fylgis og 13-15 þingmenn hver. Síðan koma smáflokkarnir í hóp með 6-9% hver og 4-6 þingmen hver. Flokkur fólksins er með 3,8 og gæti hæglega náð inn þingmönnum í síðustu viku stríðsins. Gífurlegt fylgi pírata sýnir, að með litlu rekstrarfé er hægt að ná betri árangri en með milljóna mútufé úr ofursjóðum kvótagreifa.

Píratar massa fésbókina

Punktar

Ekki kemur á óvart, að unga fólkið í Pírötum er fyrirferðarmest á vefmiðlum á borð við Facebook. Ekki kemur heldur á óvart, að Vinstri græn eru daufust á þeim vettvangi, bara einn þrettándi af þátttöku pírata. Píratar eru á kafi í nútímanum, en vinstri græn klóra fé sínu og bíða eftir vinnu hjá stóriðjunni á Bakka. Þátttaka stuðningsfólks Bjartrar framtíðar, Samfylkingar, Viðreisnar og Framsóknar er litlu skárri en Vinstri grænna. Viðreisn hefur faglega unnið efni á fésbókinni, en viðbrögð notenda eru dauf. Stutt er í, að hér verði tveir turnar í pólitíkinni, Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar, og er það vel.

Óhæfar taugahrúgur

Punktar

Símtal Davíðs og Geirs Haarde á síðustu mínútunum fyrir hrun er sagnfræðilegur minnisvarði. Sýnir tvo menn ráða ekki við hlutverk sitt. Davíð áttar sig skár á stöðunni. Telur sig þurfa upptökubúnað til að varðveita símtalið. Þannig getur hann reynt að haga talinu þannig, að sökin á hruninu beinist frekar að Geir. Áratug síðar kennir hvor hinum um, þótt hvor eigi sinn þátt. Ef símtalið er skoðað í samhengi við taugaveiklaða innrás Davíðs á ríkisstjórnarfundinn, sjást hrunskýin hrannast upp. Óhæfar taugahrúgur brenndu tugi ef ekki hundruð milljarða í fyrirsjáanlega gagnslausum mokstri þjóðarsjóðsins í glæpabankana.

Þrír andvígir markaði

Punktar

Kosningamálin skýrðust verulega í dag. Björt framtíð er hægri flokkur, sem vill áfram hafa kvótakerfi í fiskveiðum. Hún hafnar beinlínis frjálsu uppboði veiðileyfa, hafnar frjálsum markaði eins og aðrir hægri flokkar. Hér eftir flokkast Björt framtíð með Sjálfstæðisflokkum sem varadekk í stað sprungins framsóknardekks. Viðreisn útskýrði líka stöðu sína frá í gær. Hún er alls ekki andvíg stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum. Er bara á móti því að verða þriðja hjól í samstarfi Sjálfstæðis og Framsóknar. Vill ekki heldur uppboð veiðileyfa, hafnar frjálsum markaði. Þrír hægri flokkar andvígir markaðsleið.

Viðreisn talar í kross

Punktar

Nú eru þeir farnir að tala í kross, höfðingjarnir í Viðreisn. Enda er loftið farið að síga úr blöðrunni, fylgið komið niður fyrir 7%. Þorsteinn Víglundsson segir flokkinn opinn í alla enda eins og Björt framtíð. Benedikt Jóhannesson segist ekki ætla í stjórnarsamstarf við Framsókn eða Sjálfstæðis. Vill hins vegar viðræður við Pírata EFTIR kosningar. Ætli þessi krossdans endist ekki fram undir kosningar, Viðreisnarfólki til vansældar. Frambjóðendurnir þurfa kannski að hittast og koma sér saman. Vinstri græn eru hins vegar komin í sveiflu og nálgast fylgi Pírata og Sjálfstæðis sem þriðji turninn í pólitík.

Viðreisn sér ljósið

Punktar

Fundarboð Pírata um viðræður um hugsanlegt stjórnarsamstarf hefur þegar haft markverð áhrif. Eftir daufar móttökur í fyrstu afneitaði formaður Viðreisnar Sjálfstæðisflokknum í morgun. Yfirlýsing hans er skýr og henni verður trúað, þegar Benedikt hefur afneitað Bjarna þrisvar. Í stað ríkisstjórnar Sjálfstæðis og Viðreisnar fáum við stjórn Pírata og Viðreisnar og væntanlega Samfylkingar og Vinstri grænna, sem óneitanlega hljómar betur. Auðvitað er allt þetta háð því, hvað kemur upp úr kjörkössunum. Við bíðum nú eftir nánari útlistunum á, gildi afneitunar Viðreisnar. Samkvæmt orðanna hljóðan fer að birta í pólitík.

Næsta stjórn er tilbúin

Punktar

Næsta víst er, að eftir kosningar verður mynduð meirihlutastjórn Sjálfstæðis, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og hugsanlega Sigurðararms Framsóknar. Björt framtíð hefur í sveitastjórnarmálum hallað sér að Sjálfstæðisflokknum og mun vafalaust gera það líka í landsmálum. Viðreisn er beinlínis útskot úr Flokknum til að sækja fylgi inn á miðjuna. Björt framtíð og Viðreisn villa hins vegar á sér heimildir með miðlægum stefnuskrám. Á hægra kanti stjórnmálanna er stefna bara músagildra. Markmiðið er eftir sem áður að stjórna í þágu hinna ríkustu á kostnað almennings. Viðbrögðin við tillögu Pírata um viðræður benda til þessa.

Útvíkkuð ógnarstjórn

Punktar

Sumar stefnuskrár eru lítils virði. Vitum til dæmis, að stefnuskrár Framsóknar og Sjálfstæðis voru einskis virði fyrir hálfu fjórða ári. Yfirleitt er slæm reynsla af stefnuskrám. Verðum þó að taka tillit til nýrra flokka, er enn hafa ekki svikið eigin orð. Vitum, að Björt framtíð vill vera opin í alla enda. Er beinlínis stofnuð fyrir ráðherrastóla. Staða Viðreisnar er hins vegar umdeild. Stefnan er tiltölulega miðlæg, en frambjóðendur koma úr Sjálfstæðisflokknum. Þiggi Viðreisn ekki boð um viðræður miðju og vinstri, er næsta ljóst, að hún fer eins og Björt framtíð í samstarf við Sjálfstæðis um nýja ógnarstjórn.

Undir fölsku flaggi

Punktar

Blendin eru viðbrögð flokkanna fjögurra við tilboði Pírata um upphaf viðræðna um stjórnarmyndun fyrir kosningar. Samfylkingin og Vinstri grænir taka boðinu vel, en Viðreisn og Björt framtíð daufar. Viðbrögðin draga úr væntingum þeirra kjósenda, sem áður töldu Viðreisn og Bjarta framtíð vænan kost við endurreisn rofins samfélags. Styrkir þá tilfinningu, að Viðreisn sé lítið annað en útskot úr Sjálfstæðiflokknum og muni renna þangað inn við tækifæri eftir kosningar. Viðreisn sigli undir fölsku flaggi. Hafi frjálslynda stefnu, en frambjóðendur úr Flokknum. Björt framtíð er líka pakki, sem þú veizt tæplega hver er.

Stjórnarviðræður strax

Punktar

Flott hjá Pírötum að senda fjórum flokkum boðsbréf um könnunarviðræður um stjórnarsamstarf. Útiloka gerspilltu stjórnarflokkana tvo. Líka smáflokkana, sem ekki koma manni á þing. Bréfið fá Viðreisn, Vinstri grænir, Samfylkingin og Björt framtíð. Fyrir kosningar verði komið í ljós, hvort grunnur er fyrir samstarfi eftir kosningar. Kjósendum er til hægðarauka að vita það í tæka tíð. Í bréfi Pírata er lögð áherzla á fimm atriði: Stríð gegn spillingu, nýja stjórnarskrá, breytta dreifingu auðlindarentu og gjaldfrjálsa heilsuþjónustu. Það yrðu tímamót í stjórnmálasögunni, ef sátt næðist um þess háttar áherzlumál.

Pólitíska byltingin

Punktar

Kosningabaráttan mótast af þörf nýrra frambjóðenda í baráttusætum fyrir að kynna sig almenningi. Sannfæra hann um, að þeir séu ekki núll og nix. Heldur betri frambjóðendur en hinir, sem fallið hafa eða munu falla. Og fólk er að fatta, að vit og von er í sumum þessara nýju andlita. Það er gott. Álitsgjafar einskorða sig við túlkun skoðanakannana, sem ramba óvenju skarpt út og suður. Efast má um, að gamlar og grónar aðferðir í könnunum henti breyttum veruleika. Núna þarf raunar kjark til að spá í rennandi fylgi. Ég þori það ekki. Á fátt nema dofnandi vonina blíðu um, að nú sé loksins komið að pólitískri byltingu.

Kjósendur eru vandinn

Punktar

Óhugnanlegt er, að tæplega þriðjungur kjósenda leggi lag sitt við bófaflokka. Sjálfstæðis og Framsókn hafa fé af fólki og ljúga þindarlaust. Ekkert samband hefur í þrjú ár verið milli orða og gerða. Oddamenn flokkanna hafa reynzt vera siðblindir mafíósar að hætti ítalskra pólitíkusa. Samtals fá þessir flokkar um 30% fylgi í könnunum. Aðeins 20% lýsa yfir fylgi við pírata, er skipulega hafa ráðizt gegn bófunum. Lagt fram ýtarlegar tillögur um siðvæðingu samfélagsins í stóru og smáu. 20% er því miður ekki nóg fylgi til að ráða ferð okkar næstu árin. Andstæðingar bófanna ættu að halla sér að pírötum í aðvífandi kosningum.