Punktar

Pólitíski ómöguleikinn

Punktar

Okkar vel metnu pólitísku höfðingjar lögðu í hádeginu mat á kosningarnar. Vegna hins „pólitíska ómöguleika“ mun Viðreisn halla sér að Sjálfstæðisflokknum. Setur bara það skilyrði, að Framsókn sé ekki með í boðinu. Því verður að velja þriðja hjól og beinast böndin að Bjartri framtíð. Enda bendir Viðreisn á, að kjósendur hafi hafnað vinstri stjórn. Kannski var það óttinn við vinstri stjórn, sem olli flótta fólks í faðm bófaflokksins í lok vikunnar. Slíkur ótti veldur svipaðri útkomu í ýmsum héruðum við Miðjarðarhaf. Þar sem útkoman verður seinleg í suðu, mun taka dálítið dass af „pólitískum ómöguleika“ til að gera stjórnina lystuga.

Snúin stjórnarmyndun

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn er sigurvegari kosninganna, þótt fylgisaukning hans haldi ekki ríkisstjórninni á floti. Samstarfsflokkurinn tapaði of miklu fylgi. Bjarni Ben þarf að fylla í meirihluta á annan hátt, til dæmis með Vinstri grænum. Ekki dugir Viðreisn nema þriðji flokkurinn fylgi með. Snúið mál fyrir Bjarna. Píratar juku fylgi sitt verulega, en ekki nóg til að verða hinn turninn í pólitíkinni. Það fellur í hlut Vinstri grænna. Píratar geta varla haldið áfram aðdraganda stjórnarmyndunar, er hafinn var fyrir kosningar. Fjórflokkastjórn er úr sögunni, nema Viðreisn bætist við sem fimmti flokkur. Snúið mál fyrir Katrínu Jakobs.

Skánandi kosningabarátta

Punktar

Kosningabaráttan var að mörgu leyti betri en áður. Öll sjónarmið komust að í sjónvarpinu. Minni áróður var í flestum fjölmiðlum öðrum en Viðskiptablaðinu. Til viðbótar við góð pappírsblöð á borð við Stundina og Fréttatímann eru komin vefblöð, sem oft kafa í mál. Kjarninn og Kvennablaðið eru dæmi um það. Meira máli skiptir, að opnir vefmiðlar eins og Pírataspjallið, Frjálshyggjufélagið og Stjórnmálaspjallið flytja gagnleg skoðanaskipti. Fésbækur einstaklinga skipta mestu, hafa skotið niður bombur, sem komið hefur verið á loft. Árangur sést kannski lítt í kosningunum. Fólk hleypur enn eftir gamalkunnri froðu.

Undirlægjur andverðleikanna

Punktar

Ekki er það góð auglýsing fyrir þjóðina, að 50.000 manns styðji bófaflokk á borð við mafíuna í almennum kosningum. Að 25% þjóðarinnar styðji þá, sem hafa rænt og ruplað okkur. Með afnámi auðlegðarskatts og stórlækkun auðlindarentu. Með földu fé í skattaskjóli á aflandseyjum. Þá, sem hafa beinlínis reynt að skera niður heilsuþjónustu og skólaþjónustu til að létta á kvótagreifum. Ekki er það heldur góð auglýsing, að 20.000 manns styðji sérhagsmunaflokk í vinnslu búvöru. Þar af 10.000 stuðningsmenn kraftaverkakarls, sem ekki er með öllum mjalla. Alls 70.000 undirlægjur andverðleikastjóra spillingarsamfélagsins.

Staðfesta bófaflokksins

Punktar

Flokkurinn, sem á tvo ráðherra í skattaskjóli, leggur aðaláherzlu á, að hann færi þjóðinni staðfestu. Flokkurinn, sem hækkaði skatta láglaunafólks til að lækka skatta hálaunafólks, boðar okkur staðfestu. Flokkurinn, sem rústaði heilbrigðiskerfinu, segist þar með sýna staðfestu. Í rúman aldarþriðjung hefur Sjálfstæðisflokkurinn flutt fé frá fátækum til ofurríkra. Á þessu kjörtímabili hefur hann aukið eignahlutfall hinna allra ríkustu á kostnað láglaunafólks. Nú er kominn tími til, að síðasti fimmtungur þjóðarinnar hverfi frá dýrkeyptri staðfestu bófaflokksins og taki þátt í afar brýnni endurræsingu samfélagsins.

Tæplega endurræsing

Punktar

Síðasta könnun bendir til, að þeir, sem eru að ákveða sig nú, skiptist svipað og hinir, sem voru áður búnir. Ef við teljum Félagsvísindastofnun vera með traustar tölur, verður niðurstaðan svipuð og kannanir hafa sýnt síðustu daga. Sjálfstæðisflokknum og Framsókn nægir ekki að draga Viðreisn inn í víkkaða ríkisstjórn. Fjórflokkur stjórnarandstöðunnar fær þriggja manna meirihluta án þess að þurfa að draga Viðreisn inn. Sú fjögurra flokka ríkisstjórn virðist líklegust, enda eru þessir flokkar vanir samstarfi. Ótrúlegt er, að það feli í sér stórvægilega endurræsingu. En alténd verður það heiðarlegri ríkisstjórn.

Samstöðuyfirlýsing

Punktar

Forustufólk stjórnarandstöðuflokkanna á alþingi hefur eftir tvo fundi birt samstöðuyfirlýsingu. Hún snýst um, að þessir fjórir flokkar hafi margvísleg atriði sameiginleg. Að þeir telji vænlegt að reyna samstarf um ríkisstjórn, ef kosningarnar á laugardaginn gefi umboð til þess. Mikilvæg yfirlýsing lýsir eindregnum vilja til að samræma markmið. Og finna lausnir á ýmsum vanda, sem liggur ljós fyrir eftir auðræðisdýrkun kjörtímabilsins. Þýðir væntanlega, að flokkarnir geti náð saman um auðlindarentu, heilbrigðismál, stjórnarskrá og fjárlög. Þú getur stuðlað að þessu með atkvæði þínu á laugardaginn kemur.

Ögurstund hrunsins

Punktar

Davíð var á síðustu klukkustundunum ekki eins farinn á taugum og Geir. Hafði vit á að bjarga sér á ögurstundu. Lét taka upp frægt símtal við Geir til að koma á hann sök á tæknilegu gjaldþroti Seðlabankans. Því má Geir ekki til þess hugsa, að samtalið birtist. Var á þessum stundum orðinn svo langt leiddur, að hann gat ekki hugsað. Á brýnum fundum settist hann út í horn, lét lítið fyrir sér fara. Davíð brá slæðu yfir taugaveiklun sína með gamansögum og rustalegu tali. Þannig stýrði hann brennslu milljarða af erlendum gjaldeyri. Auðvitað bar seðlabankastjórinn ábyrgð, en kom henni kænlega yfir á rænulítinn Geir.

Stofnanir á villigötum

Punktar

Hagsmunir náttúrunnar vegur þyngra en fjárhagslegir hagsmunir í ákvörðunum um atvinnumál. Segir mikill meirihluti svarenda við spurningum Ríkisútvarpsins. Verndun náttúrunnar er orðin mikilvægari en stóriðja. Enda hefur komið í ljós, að orkuver og línur kosta mikið og gefa lítið af sér í rekstri. Orkustofnun, Landsvirkjun og Landsnet hafa verið afhjúpaðar sem áróðursstofnanir, sem gefa rangar upplýsingar um kostnað. Til dæmis um Sprengisandslínu. Skipta um nafn á virkjanakostum til að geta komið þeim ítrekað í umhverfismat. Til dæmis lónið í Þjórsárverum. Hreinsa þarf til í verkfræði-pólitískum stofnunum af því tagi.

Stöðugleiki og endurræsing

Punktar

Tveir ráðherrar Flokksins hafa sagt af sér vegna spillingar. Tveir hafa ekki sagt af sér, því þeir telja eðlilegt, að forgangsfólk geymi fé í skattaskjóli á aflandseyjum. Á þessum grunni telur Sjálfstæðisflokkurinn heppilegt að tefla fram slagorðinu „stöðugleiki“ gegn slagorði pírata, „endurræsing“. Og virðist gefast vel, fimmti hver kjósandi styður hvort slagorð. Það telst eðlilegt að vera spilltur, kunna að bjarga sér og sínum. Þess vegna er allt í fínu standi í heilbrigðismálum að mati Flokksins. En meðan meginbjörgin titra í baráttunni hefur Samfylkingin fundið sér fyrsta heims kjörorðið um „bíllausan lífsstíl“.

Það er enginn gangráður

Punktar

Mannkynið hefur engan gangráð til að stjórna ferli okkar. Hitnun jarðar og mengun hafsins eru óviðráðanleg. Barátta menningarheima er orðin stjórnlaus í Sýrlandi og nágrenni. Fólk streymir tugþúsundum saman yfir landamæri í leit að betra lífi. Banksterar hafa tekið völd af pólitíkusum og eiga raunar næstum þá alla í Bandaríkjunum. Aldarfjórðungi eftir hrun kommúnismans er kapítalisminn að hrynja líka, orðinn að sjálfvirku skrímsli. TISA afskaffar lýðræði. Prentun verðlausra aura leikur lausum hala. Hér og þar er fólk farið að sjá storminn, Bernie Sanders í Bandaríkjunum, Jeremy Corbyn í Bretlandi, Píratar á Íslandi.

Endurræsing samfélagsins

Punktar

Endurræsa þarf margt eftir kosningarnar. Endurræsa þarf allt heilbrigðiskerfið eftir misþyrmingar og einkavinavæðingar Sjálfstæðisflokksins. Endurræsa þarf markaðshagkerfið, til dæmis í veiðiheimildum, raforkuverði til stóriðju og gjöldum af ferðaþjónustu. Endurræsa þarf samstöðu þjóðarinnar og hætta að skilja þá veiku og varnarlausu útundan. Ógeðslegri auðmannastefnu Sjálfstæðis og Framsóknar þarf að varpa í yztu myrkur. Taka upp gamla slagorðið: Frelsi, jöfnuður, bræðralag. Siðblind stefna mannhaturs og spillingar hefur runnið sitt skeið á enda. Nú tekur við endurræsing og nýtt Ísland fæðist í kjölfarið.

Ákveðinn ómöguleiki

Punktar

Ýmis samtök hafa rukkað inn svör flokkanna um stefnu þeirra í hagsmunamálum samtakanna. Síðan borið saman innihaldið. Hlýtur að teljast nokkuð skondið að bera saman stefnu flokka, sem ætíð, oft, sjaldan eða aldrei svíkja stefnuna. Án þess að vita um fyrri ósannindi flokkanna er marklaust að bera saman stefnu þeirra. Sjálfstæðis og Framsókn ljúga alltaf, fyrir því er reynsla. Um aðra flokka er flóknara að dæma, því þeir hafa ekki verið í valdaaðstöðu til að efna loforð. Ég mundi fara varlega í að treysta orðum Sjálfstæðis og Framsóknar, sem hafa fundið upp orðin „ákveðinn ómöguleiki“, þegar spurt er um efndir.

Dauðadæmd fabrikka

Punktar

Verksmiðja kjördæmispotaranna á Bakka er dauðadæmd. Aðstandendur hennar hirtu ekki um að afla sér nauðsynlegra leyfa. Óðu bara áfram í fullkomnum skorti á dómgreind. Ein afleiðingin er Vaðlaheiðargöng, sem kosta milljörðum meira en áætlað var. Nú hefur úrskurðarnefnd umhverfismála ógilt samþykkt Mývetninga á raflínu Landsnets frá Þeistareykjum til Húsavíkur. Framkvæmdir stöðvast við línuna og Bakkaver. Ljóst er, að hér hafa æðikollar vaðið áfram í stað þess að bíða eftir réttum pappírum. Þar á meðal ríkisfyrirtæki eins og Landsnet, sem hvað eftir annað lendir í svona frekjugangi. Þá rándýru drjóla þarf að reka.

Stjórnlausar hamfarir

Punktar

Stjórnvöld hafa misst tök á landsmálum. Í góðærinu hefur ungt fólk ekki lengur efni á að koma yfir sig þaki. Stjórnin sparkar ítrekað í öryrkja og aldraða, tryggustu fylgismenn sína. Hlutafélagavæddar ríkisstofnanir leika lausum hala, allt frá Landsvirkjun yfir í Isavia. Biðlistar lengjast hratt á Landspítala. Stjórnleysi magnast líka erlendis. Hundruð farast í hryðjuverkum. Tíuþúsund börn hafa horfið sporlaust í Evrópu á nokkrum árum. Verðsveiflur olíu eru ekki lengur viðráðanlegar. Einnig mengun hafsins og hitnun jarðar af mannavöldum. Við þurfum nýtt fólk með nýja yfirsýn og nýjar lausnir. Við þurfum pírata.