Punktar

Traustur trúarhávaði

Punktar

Mér finnst hávaði frá kirkjum vera í góðu lagi, upp að vissu marki. Setja þarf mörk við hljóðstyrk kirkjuklukkna og hringingum að næturlagi. Núverandi ástand er í góðu lagi. Sama er að segja um annan trúarhávaða, til dæmis frá moskum. Í góðu lagi er að heyra bænaköll, upp að vissu marki hljóðstyrks og tímasetninga. Um alla Evrópu og Miðausturlönd er hávaði af þessu tagi hluti af menningu og siðvenjum staðarins. Þetta eru meðal þeirra atriða, sem gefa lífinu gildi. Mér finnst líka, að innleiða megi trúarlegar skrúðgöngur, er einkenna kaþólsk lönd. Þótt margir efist um trúarsetningar, eru helgisiðir í sjálfu sér mikils virði.

Sykurneyzla er fíkn

Punktar

Samtök iðnaðarins hafa fengið sér næringarfræðing, eins og hagsmunasamtök hafa löngum gert. Hlutverk fræðingsins er að segja vörur félagsmanna vera hollar og næringarríkar. Ragnheiður Héðinsdóttir segir í Fréttablaðinu í dag, að sykur sé ekki ávanabindandi. Kemst að þeirri niðurstöðu með því að skipta fíkn í tvennt, efnisfíkn og hegðunarfíkn. Matarfíkn sé bara hegðunarfíkn og tengist því ekki sykri frekar en öðrum matvælum. Hún er þarna á hálum ís, því að algeng meðferð við ofáti er að skera niður neyzlu á viðbættum sykri. Ástæðan er sú, að margir telja viðbættan sykur vera lystaukandi og leiða þannig til of mikillar neyzlu.

Gúglið „added sugar addictive“ til að finna rökstuðning fyrir ríkjandi meðferðarúrræðum.

München endurspiluð

Punktar

Að sumu leyti minnir staða Úkraínu á Tékkóslóvakíu 1938. Pútín leikur hlutverk Hitlers, mætir hverri eftirgjöf með nýjum kröfum. Merkel leikur hlutverk hins smáða Chamberlains, sem reynir að miðla málum. Sagnfræðilegur samanburður hefur samt takmarkað sönnunargildi. Enginn veit, hvað gerzt hefði, ef fundurinn í München hefði farið á annan veg. Angela Merkel þeytist austur og vestur um haf. Virðist eiga á hættu að einangrast á miðjunni. Að venju ofmeta Bandaríkin eigin hernaðargetu. Allt getur þetta því miður endað með kjarnorkustríði. Einbeitt siðblinda er illviðráðanleg í pólitík og þarna getur teflzt um örlög mannkyns.

Flóinn gafst upp

Punktar

Flóabandalagið hefur gefizt upp á kjarabaráttu. Sýnir kröfur um lágmarkslaun, sem eru langt neðan við lágmark framfærslu. Flóabandalag höfuðborgarsvæðisins og Reykjaness er kjarninn í Starfsgreinasambandinu, sem er síðan kjarninn í Alþýðusambandinu. Þetta eru hinir hefðbundnu verkalýðsrekendur, sem lýsa sér á toppnum í Gylfa Arnbjörnssyni, Trójuhesti atvinnurekenda. Það verða aðeins smáfélög hér og þar, á Akranesi og Húsavík, sem streitast við að ná mannsæmandi kjörum. Þetta þýðir, að auðvelt verður að semja. Eftir smávægilegt hnuss og fuss munu atvinnurekendur fagna skilyrðislausri uppgjöf verkalýðsrekendanna.

Laugaveg vantar þak

Punktar

Sem verzlunargata hefur Laugavegur aldrei náð upp fyrir Vitastíg. Ofan hans hefur alltaf verið slæðingur af lausum gluggum, ekki sízt næst strætótorginu Hlemmi. Þótt ferðamenn séu orðnir yfir milljón ári, þótt hótel og lundabúðir þyrpist að. Reynt hefur verið að breyta Laugavegi í göngugötu að sumarlagi. Samt eykst ekki sókn í gluggapláss. Eitthvað vantar. Held það sé veðrið, sama náttúruaflið og hindrar hugsjónina um bílfrjálsa borg. Til að gera Laugaveg að göngugötu þarf að yfirbyggja hana. Koma þar upp gegnsæju þaki til varnar regni og roki. Gömul og góð reynsla er af slíkum gallerie í Napólí og Mílanó.

Frjálsir urðu þrælar

Punktar

Ísland er orðið að landi, þar sem láglaunafólk getur ekki lifað af launum sínum og hefur því ekki aðgang að neinu frelsi. Þar sem ungt fólk getur ekki byggt eða keypt þak yfir höfuðið. Þar sem fjöldinn tekur engan þátt í hlutabréfum og hefur notað séreignasparnaðinn til að borga af hrunskuldum. Þannig hafa rústast helztu hugsjónir Sjálfstæðisflokksins um frjálsa einstaklinga. Stefna flokksins leiddi hrun yfir þjóðina og gerði einstaklingana að þrælum. Þeir puða við að borga af krítarkortinu og skuldunum og sjá aldrei til sólar. Á sama tíma raka greifar landsins saman milljörðum. Þetta er átakanlegt gjaldþrot kapítalismans.

Hömlulaus áhættufíkill

Punktar

Vesturveldin gera sér grein fyrir, að Rússland getur valtað yfir Úkraínu. Deila hins vegar um viðbrögð. Bandaríkjastjórn vill með hernaði valda Rússlandi meiri kostnaði ofan á hrun olíuverðs. Það er samkvæmt reynslu Sovétríkjanna sálugu, sem hrundu innanfrá. Evrópustjórnir telja hins vegar, að Pútín hafi lítinn áhuga á atriðum, sem varða óþægindi eða fjárskort. Hann vilji skoða, hvað hann komist langt. Feti sig þess vegna sífellt lengra í ýfingum við nágranna. Fram á yztu nöf og jafnvel fram af henni, gerist þess þörf. Angela Merkel og François Hollande líta á Pútín sem hömlulausan áhættufíkil, er meðhöndlist af varfærni.

Fullvalda Martin

Punktar

Af hverju reynir Gunnar Bragi Sveinsson að fórna fullveldi með TISA-samningum? Þeir fela í sér meira framsal en aðild að Evrópusambandinu. Utanríkisráðherra streitist samt við þessa samninga, sem Evrópa er smám saman að leggjast gegn. Taugaveikluð andstaða hans við Evrópu er marklaus, þegar sá sami vill ganga enn lengra á öðrum vettvangi. TISA felur í sér framsal valds til risafyrirtækja. Felur í sér réttarstöðu þeirra til jafns við fullvalda ríki. Annað hvort er Gunnar Bragi svona fattlaus eða sjálfum sér ósamkvæmur. Kannski hann hafi af fávitaskap veitt Martin Eyjólfssyni sendifulltrúa réttarstöðu fullvalda ríkis.

Ólöf opnar leyndó

Fjölmiðlun, Punktar

Ólöf Nordal opnaði leyndó um vopna- og valdbeitingarreglur löggunnar, sem vonda Hanna Birna hafði læst. Mikilvægt skref til opnara þjóðfélags, burtséð frá mati okkar á reglunum. Okkur hafði verið sagt, að birting mundi auðvelda glæpi. Svo mælti Úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sem hefur ætíð verið og er enn helzti varðhundur hins lokaða stjórnkerfis. Nú er búið að birta þessar voðalegu reglur og þá kemur í ljós, að þær eru í meginatriðum vel hugsaðar og gagnlegar. Í ljós er komið, að það var leyndin, sem var skrímslið, en ekki innihaldið. Kerfi úreltrar leyndar lætur sér vonandi gott framtak ráðherrans að kenningu verða.

Sómalía norðursins

Punktar

Fyrir hrun skófu vildarmenn tugmilljarða úr bönkunum og fluttu í skattaskjól. Eftir hrun kom í ljós, að fyrirtækin voru skuldug upp fyrir haus og áttu engar eignir. Skuldirnar voru afskrifaðar, en stolna féð er enn til í skattaskjólum. Fé þetta er 100% þýfi, ekki bara skattsvikið, heldur stolið undan afskriftum. Listar yfir þýfið ganga kaupum og sölum erlendis. Þýzka ríkið keypti listana og rukkaði bófana. Hér á landi fer náfölur Bjarni Benediktsson undan í flæmingi, því bófarnir eru í hans liði. Veltir sökinni á skattrannsóknastjóra, sem hefur varanlega komið sér fyrir í felum. Þetta er Ísland í dag, Sómalía norðursins.

Þingmaður tuddast

Punktar

Einn tudda Sjálfstæðisflokksins á þingi bullaði um sovézka fiskveiðistjórnun á Íslandi í fréttaviðtali við Ríkisútvarpið. Rífst svo og skammast yfir því, sem rétt var eftir honum haft. Þetta er Sjálfstæðisflokkurinn í dag, hópur tudda, sem hefur litla hugmynd um, hvað þeir segja. Fnæsa svo, þegar ruglið er gert sýnilegt. Þeir telja vanda þjóðfélagsins felast í fréttamönnum, sem segja satt. Sitja saman í keng og gráta þau örlög sín. Telja ruglið fréttamönnum að kenna, en ekki sjálfum sér. Afneita tilraunum sínum til að stela þjóðarauðlindinni. Ásmundur Friðriksson er kjósendum til skammar eins og ýmsir fleiri þingmenn.

Þúsund ára velferð

Punktar

Fyrir þúsund árum ákvað lögbókin Grágás, að samfélagið bæri ábyrgð á vesalingum, svo sem öryrkjum, gamalmennum, sjúkum og atvinnulausum. Hreppar voru beinlínis stofnaðir til að sjá um framfærslu þeirra, sem höfðu orðið undir í lífinu. Nú á tímum hafa allir stjórnmálaflokkar lengst af verið sammála um þetta öryggisnet. Vinstri flokkar hafa þó viljað efla það og hægri flokkar haldið því óbreyttu. Alveg nýtt í sögu landsins er, að ríkisstjórn víki frá þessari velferðarstefnu. Að ríkisstjórn og þingmenn hennar ráðist af hörku gegn öryrkjum, gamlingjum, sjúkum og atvinnulausum. Herferðin er í boði kjósenda bófaflokkanna tveggja.

Fleygið þeim út

Punktar

Tvennt er brýnt. Í fyrsta lagi að fjármagna endurreisn heilsu og velferðar með endurheimt auðlindarentu og auðlegðarskatts. Í öðru lagi að flytja milljarða frá atvinnurekendum til launafólks með endurheimtri stéttabaráttu. Það gengur ekki, að einokun og fáokun geti flutt breytingar á kostnaði á neytendur. Hér er minni samkeppni en í stóru löndunum og fyrirtækin hafa komizt upp með hvað sem er. Út í hött er, að þolað sé, að hinir langbezt stæðu margfaldi tekjur sínar. Og hefji síðan ofsagrát, þegar láglaunafólk vill geta lifað af launum sínum. Þá er nærtækast að fleygja atvinnurekendum út. Auðvitað í krafti lífeyrissjóðanna.

Engin svör fást

Punktar

Það er léleg afsökun fyrir aðild Íslands að TISA-samningum, að hún sé Össuri Skarphéðinssyni að kenna. Þegar viðræðurnar byrjuðu, var ekki vitað, hvílíkt skrímsli þær yrðu. Í síðasta lagi um mitt síðasta ár átti utanríkisráðuneytið að fatta, að þar væri ekki allt með felldu. Þá hafði Wikileaks birt heilmikið af leyniskjölum viðræðnanna. Gunnar Bragi Sveinsson ráðherra þarf að útskýra, hvað Ísland er að gera þarna. Hvort geðbilunin sé að einhverju leyti einkamál Martins Eyjólfssonar sendifulltrúa. Hvort ríkisstjórnin vilji, að risafyrirtæki fái réttarstöðu þjóðríkja. Og að innviðir samfélaga verði almennt einkavæddir.

Vinstrið hrekkur upp

Punktar

Gott er, að formaður Vinstri grænna fattar, að vinstri flokkarnir urðu undir í baráttu um hugmyndir og orð. Sjálfstæðisflokki tekst enn að misnota orð, þótt túlkun hans hafi orðið gjaldþrota erlendis. Orð eins og stöðugleiki og frelsi. Nú er spurningin, hvort eitthvert malt sé eftir í Vinstri grænum. Samfylkingin er verr stödd, hefur misst samband við láglaunafólk. Þar tala menn í staðinn um „bíllausan lífsstíl“ og aðra óra, sem eiga engan hljómgrunn fátækra. Og þar er formaður, sem er eins og klipptur út úr banka. Minnir kjósendur á, að vinstri stjórninni mistókst hrapallega að koma böndum á siðblindingja bankanna.