Punktar

Pólitíska fjallabakið

Punktar

Auðvitað átti ríkisstjórnin að efna loforð stjórnarflokkanna um þjóðaratkvæði um framhald á aðildarviðræðum. Loforð er loforð. Enda hefði það verið í samræmi við vilja flestra kjósenda samkvæmt könnunum. Til að ganga gegn loforðum sínum og vilja kjósenda hefði ríkisstjórnin átt að bera málið fyrir alþingi. En það þorði hún ekki að gera, þótt hún þykist hafa ríflegan meirihluta á þingi. Svo hraklega fór utanríkisráðherra út úr slíkri tillögu í fyrra, að almenna athygli vakti. Stjórnin treysti honum ekki í aðra tilraun. Því fór hún fjallabaksleið og bjó til loðið plagg án staðfestingar alþingis. Það hefur takmarkað gildi.

Smákrakkar í sælgætisbúð

Punktar

Hlutafélagavæðing opinberra fyrirtækja er samfellt skrípó. Isavia er skrípó, Íslandspóstur er skrípó, Strætó er skrípó og Ríkisútvarpið rúllar í sömu átt.
Það er rétt hjá Vigdísi Hauksdóttur, að þetta er „allt sama steypan“. Tíu bossar hjá Isavia hafa bíl á vegum fyrirtækisins. Aðalyfirforstjórinn er með frúna í ferðalögum í útlandinu á kostnað einkavæddu einokunarinnar. Vigdís segir réttilega: „Forstjórar og stjórnir ohf félaga ríkisins haga sér eins og smákrakkar í sælgætisbúð – og svo er sagt við fjárveitingavaldið – ykkur kemur þetta ekki við.“ Þessi einkavinavæðing um bakdyrnar hefur gengið sér til húðar.

Blásið á útópista

Punktar

Landvættirnir blésu fast á útópista Reykjavíkurborgar í gær. Blésu sjálft þakið af sýningu í Hafnarhúsinu á hugmyndum um lognvært borgarskipulag. Fresta varð sýningu á manngerðri stíflun gatna, hindrunum í vegi sjúkrabíla, allsherjar bílastæðaskorti og hatri á börnum, öryrkjum og öldungum. Þar átti að gæla við hugmyndir um hverfi án bíla, um eina akrein í stað tveggja á Suðurlandsbraut og í Ánanaustum, kaos í bílastæðalausri Skeifu. Sýning útópista átti að heita „Hæg breytileg átt“. En við höfum í þrjá samfellda mánuði kynnzt veðurfari, sem blæs á hugaróra útópistanna. Íslenzki veruleikinn reif þak sýningarinnar í tætlur.

Alþingi í Hálsaskógi

Punktar

Meðan bófaflokkarnir á þingi ræna og rupla þjóðina í þágu hinna ríkustu eru þingmenn uppteknir við Hálsaskóg. Ræða tilfærslu á klukkutímum, sölu áfengis í stórmörkuðum og frjálsar nafngiftir ungbarna. Þetta eru flott mál í Hálsaskógi, þar sem öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Ekki er rætt á þingi um afnám auðlegðarskatts, lækkun auðlindarentu og hágrát áróðursstofnana út af hógværum launakröfum. Allt stefnir í verkföll út á varfærnar kröfur um 300.000 krónur brúttó á mánuði. Við búum á vitfirringahæli, þar sem hinir rugluðu stjórna hælinu samkvæmt fyrirskipunum glæpasamtaka kvóta, fáokunar, afskrifta og skattsvika.

Samráð um fáokun

Punktar

Samkvæmt Samkeppniseftirlitinu koma ytri verðlækkanir neytendum ekki til góða. Verzlanir lækka ekki verðið. Tvær verzlunarkeðjur stjórna verðlagi á innfluttri matvöru neytendum í óhag. Hér ríkir fáokun, samráð fárra um verðlag. Við vissum þetta áður um eldsneytið. Benzínstöðvar hækka verð í takt, þegar verð hækkar erlendis. En lækka treglega, seint eða ekki, þegar það lækkar. Fólk verður ekki vart við neinn markaðsbúskap hér á landi. Kenningum frjálshyggjunnar er bara ekki beitt. Auðmagnið er sátt við sína einokun. Þessu almenna þrælahaldi verður aðeins breytt með umfangsmiklum „eftirlitsiðnaði“, refsingum og fangavist.

Guð er ekki í bókum

Punktar

Helgar bækur hafa valdið mannkyninu miklum þjáningum. Skrifaður texti verður hættuleg forskrift hundruðum eða þúsundum ára síðar. Einkum þegar fjölmennar sveitir klerka reyna að túlka ritninguna inn í nútíma. Þá er voðinn vís, núna síðast með kóraninn. Gamla testamentið er litlu skárra og þá einnig Rigveda, Torah, Hávamál og hvað þær heita allar þessar helgu þulur og bækur. Fullar af ofbeldi, kvenhatri, barnaníði, nefnið það bara. Karlrembdir eyðimerkurkarlar, sem lifðu fyrir meira en þúsund árum, geta ekki sagt okkur, hvernig við eigum að haga okkur núna. Ekki heldur þeir, sem fabúlera út frá fornum biblíuversum.

Vályndari veður

Punktar

Með upplýsingum frá þúsundum mælistaða hafa veðurfræðingar staðfest hraðfara hlýnun jarðar. Hún er misjöfn eftir staðháttum, sums staðar hefur kólnað. Líka er staðfest, að veður eru vályndari en áður. Meira er um hamfarir, ofsarok og hvirfilbylji, steypiregn og flóð, rykský og ofurþurrka. Við erum komin inn í vítahring, sem erfitt verður að mæta. Á sama tíma halda flatjörðungar áfram að efast um vísindin, til dæmis hér á landi. Ég sé þá stundum læðast úr felum inn á fésbók. Mestar ógnir stafa þó af siðblindum stjórnendum risafyrirtækja. Þeir reyna ótrauðir að knýja stjórnvöld til meira „frelsis“ til að spilla jörðinni.

Saga um byggðastefnu

Hestar, Punktar

Fyrst duttu út Skógarhólar og Hólar í Hjaltadal sem landsmótsstaðir hestamanna, síðan Melgerðismelar og núna Vindheimamelar. Kröfur um aðstöðu sliguðu fámenna staði. Eftir stóðu fjölmennu félögin, á Hellu og einkum á höfuðborgarsvæðinu. Þar er aðstaða fín og hægt að halda slík risamót án sligandi kostnaðar við framkvæmdir. Á móti kraumaði svo andstaða strjálbýlis gegn uppgangi þéttbýlis. Þetta klauf samtök hestamanna. Útkoman var sátt um að halda næsta landsmót á Hólum og láta skattgreiðendur borga aðstöðu, sem þar vantaði. Það tókst, undir yfirskini háskóla í hestamennsku á Hólum. Allir sáttir? Skattgreiðendur hvað?

Leitin að fíkninni

Megrun, Punktar

Trúverðug er kenning læknanna Kára Stefánssonar og Þórarins Tyrfingssonar um, að fíkn sé harðvíruð í heilabúi efnisfíkla. Þeir staðsetja vandann í arfgengum taugabrautum í heila, sem magnist upp við notkun áfengis eða annarra fíkniefna. Fíkn á sér þannig arfgengar rætur og magnast síðan við aðstæður og aðgengi í umhverfi fíkilsins. Fíkillinn fær ekki ánægju hins venjulega manns nema með því að pumpa sig upp með fíkniefninu. Verkefni meðferðar felst þá í að endurstilla arfgengar taugabrautir, sem oft er harðsnúið. Lengi hefur verið beðið eftir lyfjum til að létta meðferð, en þau hafa látið á sér standa. Mjög athyglisvert.

Sjáið bara Keflavík

Punktar

Kannanir sýna, að þjóðin hafnar einkavæðingu helztu stofnana sinna, þar á meðal Landsvirkjunar, Ríkisútvarpsins og jafnvel Landsbankans. Þar á ofan vex sá meirihluti með hverju ári. Áherzla bófanna hefur færst yfir á Landspítalann, er lengi hefur verið bófunum þyrnir í augum. Kristján Þ. Júlíusson ráðherra reyndi í vetur að ýta honum fram af brúninni og olli mörgum miklu heilsutjóni. Draumar bófaflokkanna tveggja í ríkisstjórn stangast á við þjóðarviljann. Enda er fylgi bófanna dottið í 37%. Vonandi fá þeir hæfilega refsingu í næstu kosningum. Fólk fattar, að einkavæðing grunnstoða samfélagsins hæfir ekki, sjáið bara Keflavík.

Allur fiskur stolinn

Punktar

Einkennilegt, hvernig lýðræði nær hvergi fram að ganga hér á landi. Gott dæmi, er þjóðareign auðlinda, grunnmúruð í stjórnarskrá og staðfest í lögum. Samt á þjóðin ekki auðlindina, heldur fjárhaldsmenn pólitísku bófaflokkanna. Í skjóli banka veðsetja kvótagreifar þjóðarauðlindina og nota peningana í óskylt brask eða fela þá skattfrítt á aflandseyjum. Leigja meira að segja öðrum kvótann eða selja hann fram og aftur eins og þeim sýnist. Bófaflokkarnir meina nefnilega ekkert með stjórnarskrá og lögum. Hafa stolið öllum veiddum og óveiddum fiski. Samt hafa þrælarnir síður en svo gefið neitt leyfi fyrir þessum óhæfuverkum.

Sjö mögur Íslandsár

Punktar

Lífskjör fátækra hrundu í hruninu í október 2008, lífskjör láglaunafólks og fólks sem nýtur velferðar. Ríkisstjórnin, sem var við völd 2009-2013, reyndi að draga úr þjáningu fátækra innan ramma samdráttarins. Aðalverkefnið var þó að halda sjó í ríkisrekstri, þannig að árangur var takmarkaður. Stjórnin, sem tók við 2013, hefur hins vegar engar hömlur í árásinni á lífskjör fátækra. Hefur skorið niður ríkistekjur með afnámi auðlegðarskatts og skerðingu auðlindarentu. Þar með setti hún Landspítalann á hliðina og skar niður velferð kruss og þvers. Auðsveip félög launþega hafa verið í losti og eru kannski fyrst að vakna núna.

Flóttamaður Íslands

Punktar

Lögreglustjórinn í Reykjavík er orðinn Flóttamaður Íslands. Forðar sér undan samtölum við alla blaðamenn viku eftir viku. Nema Framsóknar-Binga, sem skilur vandamál þeirra, sem flækja sig í lygi. Lögreglustjórinn er á sömu siglingu á flóttanum og andlegur leiðtogi hennar, innanríkisráðherrann. Sú hraktist með löngum hléum á flótta úr einni lygi í aðra. Eins og Hanna Birna telur Sigríður Björk, að kontórismi felist í þjónustu við pólitíkus. Telur hægt að brjóta lög, sé hringt úr ráðuneytinu eða hún muni ekki lögin. Telur hægt að leyna kjarna máls fyrir embætti ríkissaksóknara, ef það hentar ráðherranum betur. Viðbjóður.

Bjarni verndar vinina

Punktar

Frumvarp nefndar ríkisstjórnarinnar um grið skattsvikara er ólíkt reglum, sem gilda í Evrópu, til dæmis Þýzkalandi. Þar fá bófarnir því aðeins grið, að þeir gefi upp skattsvikin, áður en kerfið fer að gramsa í listum úr skattaskjólum. En samkvæmt frumvarpinu fá bófarnir grið fram á mitt næsta ár til að hugsa sitt ráð. Þeir þurfa ekki að játa fyrr en öll sund eru lokuð og losna samt við sekt. Þannig afgreiðir Bjarni Benediktsson vini sína og flokksbræður. Samt er féð í skattaskjólunum ekki þar fyrir tilviljun, heldur útspekúlerað til að losna frá sköttum. Þetta fé hefur ekki sætt neinni skattlagningu hér enn sem komið er.

Sérvizka vegagerðar

Punktar

Vegagerðir nágrannaríkjanna leggja tvö lög af malbiki á vegi, fyrst burðarlag og svo slitlag. Segja það ódýrara til langs tíma. Samt er þar ekki eins mikil notkun nagladekkja og hér og ekki eins tíð skipti frosts og þíðu. Vegagerðin íslenzka leggur hins vegar bara eitt lag og segir það betra. Enn eitt dæmi um hinar víðfrægu séríslenzku aðstæður, sem enginn skilur. Verkfræðingar hér á landi vita allt betur en erlendir. Að áliðnum vetri er samt komið í ljós, að ástand gatna og vega er vægast sagt skelfilegt. En vegagerðin heldur fast við þá sérvizku, að íslenzkar malbikunarvenjur séu betri en í nágrannaríkjunum.