Punktar

Mogginn er öfgablað

Fjölmiðlun, Punktar

Pawel Bartoszek bendir réttilega á, að Mogginn hafi tekið upp stefnu öfgaflokka á hægri jaðri. Líkist National Front í Frakklandi og Fidesz í Ungverjalandi, er vilja haga seglum eftir vindi í alþjóðamálum. Í áratugi var blaðið kjölfestan í stefnu vestrænnar samvinnu, en hefur kúvent í makrílnum. Ræðst af ofsa á Gunnar Braga Sveinsson í einróma kór kvótagreifa, sem raunar eiga blaðið. Að venju er Elliði Vignisson í Eyjum vanstilltastur. Á sömu öfgalínu eru nokkrir þingmenn flokksins, að minnsta kosti Ásmundur Friðriksson, Brynjar Níelsson og Valgerður Gunnardóttir. Flokkurinn kann að klofna í vestrænan og tækifærissinnaðan flokk. Athyglisvert er svo, að Seðlabankinn telur makríldeiluna ekki alvarlegt áfall.

Pawel Bartoszek

Allt fyrir ekkert

Punktar

Heimssýn og önnur landsins gáfnaljós kenna Evrópusambandinu um makrílvandann. Hafi ginnt Pútín Rússakeisara til að setja makrílbann á Ísland til að refsa landinu fyrir stöðvun aðildarviðræðna. Gunnar Bragi er sendur til Bruxelles til að biðja Evrópu um að kaupa makrílinn í staðinn. Hvaða Ísland, segir Evrópa, er það eitthvert þorp? Næst fer hann til Bruxelles til að biðja Nató um náð. Hvaða makríll, segja þá Bandaríkjamenn, er Ísland ekki aðallega í hvalnum? Dýrt spaug er að spila frítt á öllum köntum og safna að sér óvild allra. Tækifærisstefna Davíðs er rösklega studd kvótagreifum, sem eru vanir að fá allt fyrir ekkert.

Mesta flopp orkusögunnar

Punktar

Hellisheiðarvirkjun er mesta flopp orkusögunnar, eins ósjálfbær og hægt er að hugsa sér. Á hverju ári þarf að bora holu á nýjum hverasvæðum til að halda uppi framleiðslugetu. Þau svæði átti að nota fyrir nýja stóriðju, eru enn talin upp sem slík. Smám saman verður Reykjanesskagi eyðilagður til að skrapa upp orku fyrir Norðurál. Var þó Hellisheiði ein og sér svo dýr, að hækka varð orkuverð til Reykvíkinga til að bjarga Orkuveitu Reykjavíkur frá gjaldþroti. Hver borgar allar þessar nýju borholur til að halda uppi Norðuráli? Auðvitað Reykvíkingar. Kominn tími til að strika yfir óráðsdrauma og skrúfa fyrir Hellisheiðarfloppið.

Hokinn af reynslu

Punktar

Björt framtíð hagar sér ekki bara undarlega á alþingi, heldur einnig í stjórnum sveitarfélaga. Í Hafnafirði er flokkurinn í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn um mannfjandsamlega framkomu við gamla bæjarstarfsmenn og ráðningu bæjarstjóra út úr kú. Samþykkti að „ráða til starfa bæjarstjóra með víðtæka þekkingu og reynslu af rekstri og fjármálum“. Ráðinn var Haraldur L. Haraldsson í ljósi þess að hann hafði gert fimm fyrirtæki gjaldþrota. Svo hokinn af reynslu, að nauðsynlegt þótti að hækka laun bæjarstjórans um 28%. Störf hans hafa einkum snúizt um gerræði í framkomu við starfsfólk í stíl græðgisvæddra frekjuhunda.

Langversta rekstrarformið

Punktar

Hlutafélagavæddar stofnanir hins opinbera misnota yfirleitt einokun sína til að haga sér verr en verstu dólgar einkabransans. Þekkt dæmi úr fréttum ársins eru Isavia og Strætó og Sinnum. Isavia breytti Leifsstöð úr flugstöð í okurmarkað og neitar að gefa upplýsingar um undarlega meðferð útboða. Strætó semur við bófa um flutning á varnarlausum öryrkjum. Sinnum rekur sjúkrahótel, þar sem sjúklingar gráta sig í svefn við ömurlegar aðstæður. Ferðinni ráða forstjórar, sem eru viti sínu fjær af græðgi og mannvonzku. Breyta þarf öllum fyrirbærum af þessu tagi í ríkisstofnanir, sem lúta opinberum reglum um heiðarleg samskipti.

Ólöf fattar ekki

Punktar

Ólöf Nordal kvartar yfir óvæginni umræðu og segir: „Stundum er eins og hér sé ekki eitt þjóðfélag, ekki ein þjóð í landi.“ Ég get upplýst silfurskeiðunga, að hér ERU minnst tvær þjóðir. Ekki von, að Ólöf fatti slíkt, fædd til valdsins. Væru 500 þúsund króna lágmarkslaun lögbundin, væri unnt að tala um eina þjóð. Um daginn var samið um hækkun upp í 300 þúsund krónur á þremur árum, hafi Ólöf ekki tekið eftir. Til að lögfesta 500 þúsund króna mánaðalaun þarf auk vasks á ferðaþjónustu að afturkalla afslátt af auðlegðarskatti og auðlindagjaldi. Slíkt má bófaflokkur Ólafar ekki heyra nefnt. Hún mun því fá fleira að heyra um tvær þjóðir.

Flokkurinn að kúvenda

Punktar

Á tíma Bjarna Ben fólst utanríkisstefna Flokksins í læstu fylgi við Bandaríkin og Nató. Byrjaði að breytast, þegar Bandaríkin lokuðu herstöðinni á Vellinum, þrátt fyrir ímyndaðan vinskap Bush og Davíðs. Grátur og gnístran tanna fengu því ekki breytt. Síðan leitaði Davíð í fang Pútíns Rússakeisara og þóttist hafa reddað þúsund milljarða láni þar á bæ. Reyndist bara ímyndun hans. Nú er hann málgagn kvótagreifa, heimtar felldar niður viðskiptahömlur á Rússa. Flokkurinn tvístígur í málinu. Er kominn á fremsta hlunn með að taka upp fylgispekt við Rússa, hinn forna óvin. Vantreystið þeim, sem hagar seglum eftir vindi meira en Framsókn.

Þvaðrað um góðæri

Punktar

Frá sjónarmiði fólks, sem hefur milljón á mánuði, kann að vera hér uppgangur og góðæri. Mikill makríll, góður afli, ferðamenn í milljónatali. Segja má jafnvel, að þeir geti bjargað sér, sem hafa hálfa milljón á mánuði. Sama verður tæpast sagt um þá hálfu þjóð, sem hefur innan við það. Svo sem ekki um þá, sem skríða upp í 300.000 eftir þrjú ár samkvæmt nýjustu kjarasamningum. Þetta fólk tekur ekki þátt í hinum meinta uppgangi og hinu meinta góðæri. Unga fólkið í þessum hópi getur hvorki leigt sér íbúð né keypt. Raunar er hinn mesti dónaskapur við alþýðu þessa lands að þvaðra gáleysislega um uppgang og góðæri í Undralandi.

Linur stuðningur minn

Punktar

Við höfum tekið þátt í vestrænu samstarfi af ýmsum ástæðum og sumpart af hálfum huga. Þessi ríki hafa svipað þjóðskipulag og svipaðan hugmyndabanka. Við höfum talið okkur hafa vernd í Atlantshafsbandalaginu og gróða af fríverzlunarsvæði Evrópu. Gengum samt ekki í Evrópusambandið, sætum linnulausum áróðri gegn því. Getum því ekki gert kröfu til, að það gæti hagsmuna okkar eða liðki til fyrir okkur vegna Rússa. Við ofmetum líka lýðræði og friðsemd vestrænna ríkja. Höfum einnig að undirlagi Davíðs stutt óhæfuverk Bandaríkjanna í þriðja heiminum. En við megum samt ekki láta grátkór kvótagreifa stjórna utanríkisstefnu okkar.

Slæm reynsla í Noregi

Punktar

Norsk stjórnvöld hafa látið rannsaka flutning ríkisstofnana út á land. Útkoman er, að kostnaðurinn nemur átján milljónum króna á starfsmann. Jafnframt hefur þjónusta þessara stofnana versnað. Verst er, að bezta starfsfólkið vill ekki flytja og ríkið missir þannig af sínu bezta fólki. Athyglisverðast var, að svokölluð afleidd störf létu á sér standa. Það er eins og í stóriðjunni hér. En Norðmenn eru ákaflega dreifbýlissinnaðir og vilja láta þessa hörmung yfir sig ganga. Útlátalaust hefði samt verið fyrir Sigurð Inga Jóhannsson ráðherra að kynna sér dapra reynslu Norðmanna, áður en hann gerði atlöguna að Fiskistofu.

Klipptu vistarbandið

Punktar

Skil ekki, hvers vegna þú ert að falsa greiðslumat þitt til að komast í klær bankanna og lenda í bankaþrælkun. Hvað heldurðu, að þú eigir, ef bankinn á 80% í svonefndri eign? Þú kemst að því, þegar þú ert kominn í eignamínus. Þetta er vistarbandið nýja. Miklu nær er að lagfæra pólitíkina. Fara í flokk eða mynda flokk og taka völdin. Til að afnema verðtryggingu, lækka vexti, reka bankstera, setja pólitíkusa Íbúðalánasjóðs í gapastokk og gera Eygló landræka. Ímyndaðu þér ekki, að einhver frjáls eigna- og leigumarkaður leysi vandann. Þú verður að leysa vandann, reka fúskara og öfgatrúarfólk frjálshyggjunnar af höndum þér. Eða flýja land.

Fetar stafkarls stíg

Punktar

Mér sýnist utanríkisráðherra Heimssýnar vera kominn í það sjokk, að hann vilji ganga í Evrópusambandið til að fá sörvis. Þar fengi hann þjónustu fyrir hádegi, makríl að óskum, tollfrelsi á fisk, Allt á stórum hærra verði en blankir Rússar borga. Í staðinn ber hann sem stafkarl að dyrum Evrópusambandsins og reynir að sníkja góðvild. Hvað segir Heimssýn við þeim ósköpum, að hennar prúðasti sonur er kominn með betlistafinn? Nú þarf að gera hann út með nesti og nýja skó. Ekki mega skrímslin í Evrópusambandinu troða í hann eitruðum mat og bógfrymli. Sem þar er á hverju strái að sögn doktoranna Guðna á Klörubar og Sigmundar Davíðs.

Forstjórarnir þúsund

Punktar

Mikilvirkustu þjófar landsins eru forstjórarnir þúsund, sem skrá heimili sitt erlendis til þess að komast hjá sköttum og skyldum landsins. Lítið sem ekkert eftirlit er með undanskotinu, enda er stjórnvöldum illa við eftirlit og kalla það eftirlitsiðnað. Þarna hverfa milljarðar árlega úr tekjum ríkisins og stuðla þannig að hruni velferðar. Ekki vantar þó, að forstjórarnir þúsund rífi kjaft og gefi þjóðinni ráð um, hvernig hún skuli haga málum sínum. Þegar viti borin stjórnvöld komast til valda, væri kjörið að gera þá landræka í tíu ár. Eins og tíðkaðist í Grikklandi hinu forna, þegar frekjuhundar gengu fram af fólki.

Ríkisstjórnin er flugslys

Punktar

Látum vera með illgirnina og trúarofsann; verri vandi er vangeta ráðherranna. Hver um annan þveran eru þeir aumingjar. Horfa á allt hrynja yfir sig, án þess að fá rönd við reist. Eygló er hreint slys í húsnæðismálum. Ungt fólk getur hvorki keypt né leigt og banksterarnir eru viti firrtir af græðgi. Ragnheiður Elín er hreint slys í ferðamálum. Við kaffærumst í tækifærum og vandamálum og hún floppar alla þá leið. Kristján Þór veltir Landspítalanum svo hastarlega, að hann verður vart endurreistur. Og nú er Gunnar Bragi kominn með sjálfan Pútín á bakið. Hjálpi okkur allir heilagir; ríkisstjórnin er meiriháttar flugslys.

Frjálsi markaðurinn brást

Punktar

Hinn frjálsi markaður í framleiðslu íbúða tryggir okkur ekki réttar stærðir á réttu verði á réttum tíma. Upp úr aldamótum fylltist allt af risastórum íbúðum, sem nú standa auðar í eigu sjóða. Nú er rætt um að byggja markvisst smáíbúðir fyrir láglaunafólk. Þær munu lenda í eigu fólks, sem leigir þær til ferðamanna á svörtum markaði. Bransinn er ævinlega í allt öðrum gír en þarfirnar. Liðinn er tími Henry Ford, er smíðaði ódýra bíla, sem starfsmenn gætu keypt. Nú byggja nýbúar hús, sem þeir geta ekki búið í. Tenging framleiðslu og nota slitnaði og frjálsi markaðurinn ráfar um dauðadrukkinn. Trúarofsi stefnunnar lifir einn.