Punktar

Lögðu ekki niður vopn

Punktar

Hermenn Íraks hafa enn ekki lagt niður vopn og gefizt upp fyrir ofurefli bandaríska hersins, þótt lengi hafi rignt yfir þá bandarískum dreifimiðum um, að slíkt borgaði sig fyrir þá. Það bendir til, að stjórnin í Bagdað sé ekki eins hötuð heima fyrir og áróðursmenn stríðsins hafa viljað vera láta. Það bendir líka til, að stríðið verði ekki eins stutt og áróðursmenn þess hafa viljað vera láta.

Tvíeyki í vondum félagsskap

Punktar

Einungis tvö ríki, Bretland og Ástralía, taka í verki þátt í árás Bandaríkjanna á Írak, hvort tveggja gegn eindregnum vilja kjósenda. Misheppnuð tilraun Bandaríkjanna til að fá stuðning öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sýndi, að einkum var beitt mútum og hótunum til að fá ríki til fylgis við innrásina. Tyrkir áttu að fá 26 milljarða dollara fyrir að taka við bandarískum landher, en neituðu samt í atkvæðagreiðslu á þjóðþinginu. Þau ríki, sem lýst hafa aðgerðalausum stuðningi við stríðið, gera það ekki af fúsum og frjálsum vilja. Þeim var mútað og þeim var hótað. Kjósendur voru ekki spurðir. Innan um kúguðu mútuþeganna eru svo tveir bjánar frá Íslandi, forsætis- og utanríkisráðherra okkar, sem ekki hirtu um að fá samþykki þingsins eins og lýðræðissinnaðri starfsbræður þeirra í Tyrklandi reyndu þó. Bandalagið gegn Írak er ekki bandalag viljugra, heldur bandalag kúgaðra og mútaðra með tvíeyki frá Íslandi í eftirdragi.

Fagnað þá og fagnað nú

Punktar

Oft höfum við séð myndskeið af Írökum að fagna Saddam Hussein. Brátt fáum við að sjá myndskeið af Írökum að fagna bandarískum her. Hvorugt er af heilindum. Þá og nú er þetta sama fólkið, sem er ekki að gera neitt annað en að reyna að halda lífi og limum í erfiðum kringumstæðum, hverjar sem þær eru hverju sinni.

Bretland er ríki nr. 51

Punktar

Polly Toynbee sagði í Guardian í morgun, að fundur Evrópusambandsins í gær sýni, að Bretland sé orðið einangrað, fyrirlitið og áhrifalaust í sambandinu. Þar líti menn einfaldlega á Bretland sem 51. ríki Bandaríkjanna. Þar sjái allir, að Tony Blair forsætisráðherra sé áhrifalaus í sambúðinni við George W. Bush og geri bara það, sem honum sé sagt. Hins vegar telur hún framtíð Evrópusambandsins bjarta, því að almenningur um alla Evrópu hafi þjappað sér um þá leiðtoga, sem hafa andhæft gegn Bandaríkjastjórn.

Félagsskapurinn gagnrýndur

Punktar

Alþjóðasamband ritstjóra hinnar vestrænu pressu gagnrýndi í gær, að Bandaríkin og Bretland skuli vera í styrjaldarbandalagi með ýmsum harðstjórnarríkjum, sem fótum troða prentfrelsi. Í mótmælabréfi sambandsins er sérstaklega gagnrýnt siðferðisvottorð Eþiópíu og Erítreu, Azerbadsjan og Georgíu, Kólumbíu og Úsbekistan á stríðinu gegn Írak. Sambandið segir það vera fyrir neðan virðingu Bandaríkjanna og Bretlands að sækjast eftir stuðningi ríkja af þessu tagi.

Einræðisherra heimsins

Punktar

Michael Kinsley fjallaði í morgun í Washington Post um lögmæti stríðsins við Írak. Hann segir, að sum stríð geti verið lögleg, en þetta stríð sé hvorki löglegt að bandarískum né alþjóðlegum lögum. Hann segir, að réttlætingar George W. Bush feli í sér, að hann telji sér heimilt að ráðast á hvaða ríki sem er í heiminum, ef hann sjálfur metur, að það geti einhvern tíma í framtíðinni orðið Bandaríkjunum hættulegt. Hann líti í rauninni á sig sem einræðisherra heimsins.

Þær eru dauðar og það fór vel

Punktar

Einn helzti höfundur hinnar nýju utanríkisstefnu Bandaríkjanna, Richard Perle, formaður varnarmálanefndar Hvíta hússins og róttækur aðdáandi Ísraels, sagði í morgun í Guardian, að Sameinuðu þjóðirnar séu sem betur fer dauðar, þótt menn muni áfram blaðra eitthvað á allsherjarþinginu. Hann segir, að ný heimsskipan muni rísa á rústum Sameinuðu þjóðanna. Allir vita, að sú skipan felst í, að Bandaríkin ein skipi fyrir og önnur ríki hlýði.

Sorgleg aðild Íslands

Punktar

Óbein aðild ríkisstjórnar Íslands að fjöldamorðum Bandaríkjanna og bandamanna þeirra á saklausu fólki er sorgleg. Hún er skelfilegt dæmi um, að borubrattir menn við skrifborð geta verið fjarlægir mannlegum veruleika þeirra, sem verða fyrir ópersónulegum loftárásum. Vonandi leiðir þetta ekki til þess, að forsætisráðherra okkar og utanríkisráðherra verði um síðir dregnir fyrir hinn nýja stríðsglæpadómstól í Haag. Þetta eru bara bjánar, en ekki alvöru illmenni. En þeir öfluðu sér ekki undanþágu frá Haag eins og George W. Bush gerði.

Síðbúinn sigur Gaullisma

Punktar

William Pfaff bendir í Guardian í morgun á, að einungis Bandaríkin, Bretland og Ástralía heyja stríðið gegn Írak. Að baki liggur örlagaríkur ósigur Bandaríkjanna fyrir Frakklandi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þrátt fyrir mútur og ógnanir tókst Bandaríkjunum ekki að vinna Angola, Chile, Pakistan, Kamerún, Gíneu og Mexikó á sitt band, ekki eitt einasta þessara ríkja. Og á endanum féll Tyrkland frá því að heimila Bandaríkjunum að ráðast á Írak frá herstöðvum í Tyrklandi. Allt felur þetta í sér síðbúinn sigur franska Gaullismans, sem kenndur er við de Gaulle heitinn. Framferði Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi hefur sett af stað miðflóttaafl, sem heimsveldið ræður ekki við.

Fréttafalsanir á fullu

Punktar

Stríðið gegn Írak er hafið og um leið er hafið hið hefðbundna áróðursstríð, er CNN og aðrir bandarískir fjölmiðlar fara að birta fölsuð myndskeið, sem eiga að sýna grimmd Saddam Hussein og gereyðingarvopn Íraks. Í fyrra Persaflóastríðinu var t.d. gert mikið með þá frétt, að Írakar hefðu drepið börn á spítala í Kúveit, sem síðan reyndist vera uppspuni frá rótum. Alþjóðasamtök ritstjóra hafa sýnt fram á mikið magn svipaðra vinnubragða Atlantshafsbandalagsins í Bosníu og Kosovo. Tilgangur allra þessara falsana er að sannfæra sjónvarpsáhorfendur og lesendur dagblaða á borð við Morgunblaðið, að óvinurinn sé feiknarlega andstyggilegur og því sé hrein guðs mildi, að einhver hafi bein í nefinu til að fara í stríð við hann. Allir vita, að Saddam Hussein lýgur hratt, en fáir átta sig á, að reynslan sýnir, að vestræn hernaðaryfirvöld ljúga enn hraðar.

Afsögn Robin Cook

Punktar

Robin Cook, fyrrverandi utanríkisráðherra hjá Tony Blair, hefur sagt af sér sem forseti neðri deildar brezka þingsins til að mótmæla styrjaldarstefnu brezka forsætisráðherrans. Grein hans í Guardian um þessa ákvörðun er stutt og gott yfirlit helztu raka gegn fyrirhuguðu stríði Bandaríkjanna og Bretlands við Írak.

Peningafurstar og pólitík

Punktar

Góð þumalputtaregla um óeðlileg fjármálatengsl stjórnmálaflokka og peningafursta er, hversu andvígur viðkomandi flokkur er lögum um gegnsæi þessara tengsla. Þetta er miklu öruggari mælikvarði en getsakir forsætisráðherra okkar um óeðlileg tengsl óvinsælla peningafursta við aðra flokka en hans eigin.

Írak er ekki Serbía

Punktar

Fyrirhugað stríð Bandaríkjanna og Bretlands gegn Írak er ekki sambærilegt við stríð Atlantshafsbandalagsins gegn Serbíu út af Kosovo, þótt farið hafi verið framhjá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í báðum tilvikum. Í dæmi Serbíu var Rússland eitt andvígt í öryggisráðinu, en Atlantshafsbandalagið, Evrópusambandið og Balkanskagaríkin voru einróma samþykk því. Stríðið við Serbíu naut því víðtæks stuðnings alþjóðasamfélagsins, en það gerir stríðið við Írak alls ekki.

Jesús og Jack Daniels

Punktar

Fjörutíu ára gamall var George W. Bush drykkfelldur iðjuleysingi og pabbadrengur, þegar hann frelsaðist snögglega, hætti að bragða áfengi og endurfæddist í Kristi að hætti ýmissa ofsatrúarmanna í Baptistakirkjum Suðurríkjanna, sem eru heimilisvinir hans. Smám saman magnaðist í honum trúarofsinn og hann fór að eiga einkasamræður við guð. Upp á síðkastið er hann farinn að upplýsa í opinberum ræðum, að hann sé útvalinn af guði til að fara í stríð við óvini ríkisins. Áður hafði hann upplýst í opinberri ræðu, að stríðið við Írak væri krossferð, orðrétt. Betra hefði verið fyrir okkur öll, að hann hefði haldið áfram að glíma við Jack Daniels og látið Jesú Krist í friði.

Huntington hnekkt

Punktar

Þróun heimsmála í vetur hefur hnekkt kenningu Samuel Huntington um væntanlega alheimsbaráttu menningarheima á þessari öld. Það eru ekki vestrið og íslam, sem berjast um völdin um þessar mundir, heldur hefur gamla Evrópa tekið forustu í andstöðu við heimsvaldastefnu Bandaríkjanna. Það er gamla Evrópa, sem reynir að verja Palestínu gegn ofbeldi Ísraels og Bandaríkjanna, en ekki Arabaríkin. Það eru Evrópumenn, sem á götum úti mótmæla fyrirhuguðu stríði við Írak í miklu meira mæli en múslimar gera. Það eru Frakkar, sem leiða baráttuna gegn heimsvaldastefnunni og tala fyrir hönd mikils meirihluta kjósenda í öllum löndum Evrópu. Baráttan stendur milli tveggja greina vestursins, þar sem gamla Evrópa hefur orðið sér úti um bandamenn í öllum heimshornum og menningarheimum, þar á meðal í Bandaríkjunum sjálfum, en Bandaríkin hafa einangrazt með nokkrum fylgislausum valdhöfum á borð við Tony Blair, Jose María Aznar og Simeone Saxe-Coburg Gotha.