Síðbúinn sigur Gaullisma

Punktar

William Pfaff bendir í Guardian í morgun á, að einungis Bandaríkin, Bretland og Ástralía heyja stríðið gegn Írak. Að baki liggur örlagaríkur ósigur Bandaríkjanna fyrir Frakklandi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þrátt fyrir mútur og ógnanir tókst Bandaríkjunum ekki að vinna Angola, Chile, Pakistan, Kamerún, Gíneu og Mexikó á sitt band, ekki eitt einasta þessara ríkja. Og á endanum féll Tyrkland frá því að heimila Bandaríkjunum að ráðast á Írak frá herstöðvum í Tyrklandi. Allt felur þetta í sér síðbúinn sigur franska Gaullismans, sem kenndur er við de Gaulle heitinn. Framferði Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi hefur sett af stað miðflóttaafl, sem heimsveldið ræður ekki við.