Þróun heimsmála í vetur hefur hnekkt kenningu Samuel Huntington um væntanlega alheimsbaráttu menningarheima á þessari öld. Það eru ekki vestrið og íslam, sem berjast um völdin um þessar mundir, heldur hefur gamla Evrópa tekið forustu í andstöðu við heimsvaldastefnu Bandaríkjanna. Það er gamla Evrópa, sem reynir að verja Palestínu gegn ofbeldi Ísraels og Bandaríkjanna, en ekki Arabaríkin. Það eru Evrópumenn, sem á götum úti mótmæla fyrirhuguðu stríði við Írak í miklu meira mæli en múslimar gera. Það eru Frakkar, sem leiða baráttuna gegn heimsvaldastefnunni og tala fyrir hönd mikils meirihluta kjósenda í öllum löndum Evrópu. Baráttan stendur milli tveggja greina vestursins, þar sem gamla Evrópa hefur orðið sér úti um bandamenn í öllum heimshornum og menningarheimum, þar á meðal í Bandaríkjunum sjálfum, en Bandaríkin hafa einangrazt með nokkrum fylgislausum valdhöfum á borð við Tony Blair, Jose María Aznar og Simeone Saxe-Coburg Gotha.