Punktar

Gömlu og nýju Bandaríkin

Punktar

William Pfaff segir í International Herald Tribune, að ýmsir vinir Bandaríkjanna í Evrópu eigi erfitt með að átta sig á, að ekki séu lengur gömlu, góðu mennirnir við völd þar vestra. Nú séu komnir þar til valda menn, sem hafi þrönga og ofstækissýn á heiminn, sem enginn annar deili með þeim, ekki einu sinni Tony Blair í Bretlandi. Þegar menn hafi áttað sig á þessum umskiptum, muni það hafa langtímaáhrif á vestrænt samstarf.

Hugsa eins og þeir tala

Punktar

Sumir muna eftir Roy Hattersley úr þorskastríðunum í gamla daga. Hann er fyrir löngu hættur í pólitíkinni og skrifar núna kjallaragreinar í Guardian. Hann segir þar, að þeir sem tala eins og Donald Rumsfeld, stríðsmálaráðherra Bandaríkjanna, hugsi á sama hátt. Stjórnmálamenn, sem hugsi eins og Rumsfeld, séu hættulegir. Hann segir, að George W. Bush sé álíka hrokafullur og Rumsfeld, en munurinn sé þó sá, að Bush eigi erfitt með að tjá hættulegar hugsanir sínar á ensku. Í framhjáhlaupi má geta þess, að Íslendingar voru heppnir að afgreiða sín þorskastríð löngu áður en vestræn heimspólitíkin lenti í klóm ofbeldissjúklinga á borð við Rumsfeld og Bush.

Innrásin hefur stöðvazt

Punktar

Innrásarher Bandaríkjanna og Bretlands hefur enn ekki náð neinni merkilegri borg í Írak, þrátt fyrir tólf daga stríð. Bretar sitja enn um Basra og Bandaríkjamenn sitja enn um Bagdað. Rick Atkinson og Thomas E. Ricks segja í Washington Post, að herstjórnin telji sig þurfa að skipuleggja stríðið upp á nýtt og að líkur bendi til, að það muni standa fram á sumar með tilheyrandi hörmungum fyrir íbúa landsins. Þeir telja, að skúrkar um allan heim notfæri sér þráhyggju Bandaríkjastjórnar og séu að færa sig upp á skaftið, fremstir þar í flokki ráðamenn Norður-Kóreu.

Rangskreiðar eldflaugar

Punktar

Sádi-Arabía og Tyrkland hafa lokað lofthelgi sinni fyrir bandarískum eldflaugum, þar sem sumar þeirra fara svo villar vega, að þær lenda í röngum löndum. Þrjár hafa þegar lent í Tyrklandi, svo að sitthvað er athugavert við hina margrómuðu nákvæmni þeirra. Enda er bandaríska herstjórnin eftir margar afneitanir farin að viðurkenna, að eldflaugin, sem lenti á útimarkaði í Bagdað, hafi getað verið bandarísk. Jonathan Weisman skrifar um þetta í Washington Post.

Skelfilegasti maður heims

Punktar

Mary Riddell segir í Observer, að Donald Rumsfeld, stríðsmálaráðherra Bandaríkjanna, sé blanda af vanhæfni og reigingi. Hann sé orðinn að skelfilegasta manni heims um þessar mundir. Hann sé þegar farinn að hóta Sýrlandi og Íran, þótt Írakar láti sér ekki eins vel líka að vera sprengdir og skotnir og hann taldi þá mundu gera, þegar hann skipulagði árásina á Írak. Riddell spyr, hver sé munurinn á frelsun Íraka og blóðbaði Íraka, hvort það sé sigur að frelsa menn með því að drepa þá.

Riðið inn í sólarlagið

Punktar

William Pfaff segir í International Herald Tribune, að hönnuðir stríðsins við Írak hyggist næst ráðast gegn Íran. Þeir lifi í einangruðum sýndarheimi, þar sem heimurinn er eins og hann á að vera, en ekki eins og hann er. Almennir borgarar í Írak sýni innrásarliðinu fjandskap, þvert á spár hönnuða stríðsins. Heimurinn hafi skipzt í tvö horn, þar sem annars vegar eru Bandaríkin og Bretland og hins vegar næstum allir aðrir. Pfaff segir, að Bandaríkin séu einmana kúrekinn, sem ríður inn í sólarlagið.

Hernaðaráætlunin mistókst

Punktar

Michael R. Gordon segir í New York Times, að bandarískir herstjórar hafi komizt að raun um, að Írakar séu almennt andvígir innrásinni og beiti innrásarliðið skæruhernaði, sem hægir á flutningum vopna, vista og hermanna til Bagdað. Í stað þess að leggja beint til atlögu gegn Bagdað, eins og áður var ákveðið, er nú búið að fresta þeirri árás og í staðinn lögð áherzlu á að uppræta skæruliða í suðurhluta landsins. Í kjölfar þess er ráðgert að hefja miklar matargjafir og aðra aðstoð við sjíta í suðurhlutanum í þeirri von, að þeir snúist til fylgis við innrásina. Það eru nefnilega mestu vonbrigði innrásarliðsins, að sjítar hafa yfirleitt snúist gegn innrásinni. Það er raunar haft til marks um, að ráðamenn í Bandaríkjunum hafa ekki hugmynd um, hvernig fólk í öðrum löndum hugsar.

Réttar arabískar fréttir

Punktar

Robert Fisk segir í Independent, að arabíska Al Jazeera sjónvarpsstöðin hafi eyðilagt kenningar vestrænna málgagna stríðsins með frásögnum og myndskeiðum fréttamanna stöðvarinnar í Basra og víðar. Hann nefnir sérstaklega afrek fréttaritarans Mohamed al-Abdullah, sem hafi verið linnulaust á ferðinni um torg og sjúkrahús Basra síðustu daga. Robert Fisk ber þessar fréttir saman við endalausar lygar í vestrænum sjónvarpsstöðvum, sem eru undir handarjaðri herstjórnar innrásarliðsins.

Bandaríkin tapa friðnum

Punktar

Adrian Hamilton segir í Independent, að Bandaríkin séu um það bil búin að tapa friðnum, sem komi, þegar stríðinu sé lokið. Allur umheimurinn hafi tekið afstöðu til stríðsins og ákveðið, að það sé amerískt stríð fyrir amerískum hagsmunum. Arabíska stöðin Al Jazeera sé núna talin öruggasta heimildin um gang stríðsins, betri en vestrænir fjölmiðlar. Hann telur, að allur heimurinn sé orðinn and-bandarískur og verði það áfram, þótt ráðamenn sumra smáríkja telji sig sjá sér hag í að nudda sér utan í heimsveldið. Hann minnist ekki sérstaklega á Davíð og Halldór.

Uppvísir að lygaflaumi

Punktar

BBC hefur opinberlega játað að hafa birt rangar fréttir frá Írak undir áhrifum innrásarliðsins. David Fox, fréttaritari Reuters, komst inn í Basra og komst að raun um, að þar hafði engin tilraun verið gerð til uppreisnar gegn Íraksher. Fjölmiðlar höfðu verið fullir af þeirri lygi brezka hersins, þar á meðal íslenzkir. Mark Damazer hjá BBC viðurkenndi líka, að fréttastofan hefði níu sinnum á fjórum dögum ranglega talið innrásarherinn hafa náð Umm Kasr á sitt vald. Ennfremur, að ekki væri fótur fyrir, að 51. deild Írakshers hafi gefizt upp. Hvort tveggja voru fullyrðingar innrásarliðsins. Faisal Bodi, fréttaritari Al-Jazeera, ræðir þessi mál í Guardian og segir, að hefðbundnir fjölmiðlar á Vesturlöndum hafi meira eða minna bergmálað þá óra Bush og Blair, að Írakar taki innrásarliðinu opnum örmum. Í sama Guardian segir Faisal al Yafi, að meðal almennings í Bretlandi sé að magnast vantraust á því, sem fólk sér og les um stríðið í þarlendum fjölmiðlum. Fólk telji hrylling innrásarinnar réttilega vera margfelt verri en þann, sem það fær skammtaðan á skjáinn.

Forza Islanda

Punktar

Áhrif fjárglæframannsins Silvio Berlusconi, sem er forsætisráðherra Ítalíu, ná til Sjálfstæðisflokksins á Íslandi. Á landsþingi flokksins blasir við íslenzkað slagorð Berlusconi: Forza Italia, Áfram Ísland. Þetta er ekki í fyrstu ítölsku áhrifin á íslenzk stjórnmál. Áður hafði Sjálfstæðisflokkurinn tekið upp slagorð fasistans Mussolini: Stétt með stétt. Búast má við, að nýja slagorðið verði áhrifamikið í kosningunum, rétt eins og hin róttæku yfirboð flokksins á skattalækkunarloforðum hinna flokkanna. Yfirboðin eru einnig að hætti Berlusconi, sem náði nægu fylgi í síðustu kosningum á Ítalíu til að verða forsætisráðherra og láta hjá líða að efna loforðin. Huliðshjálmurinn, sem Sjálfstæðisflokkurinn vill hafa yfir samskiptum stjórnmála og peningafursta, er einnig að hætti Berlusconi. Þess vegna ræður kolkrabbi ríkjum í báðum löndum.

Bagdað verður ný Grosný

Punktar

Alan Cowell segir í New York Times, að Írakar verjist með skæruhernaði, þeim einum hætti, sem þjóðir hafa alltaf varizt hernaðarlegum yfirburðum árásárliðs. Hann vitnar í Clifford Beal, ritstjóra Jane’s herfræðitímaritsins, sem segir, að stríðið í Bagdað verði eins og stríðið í Grosný í Tsjetsjeníu og jafnvel eins og stríðið í Hue í Víetnam og Mogadishu í Sómalíu. Með návígi í borgum og miklu mannfalli af beggja hálfu bæti verjendur sér upp frumstæða hernaðartækni. Þeir veiti bílaflotum innrásarliðsins fyrirsát, hverfi af götunum inn í hús, þar sem þeir þekkja hvern krók og kima, og ráðist skyndilega fram á nýjum stað. Því meira, sem blóðbaðið verði, þeim mun erfiðara verði fyrir Bush og Blair að verja ofbeldið.

Kenningar sukku í sand

Punktar

Maureen Dowd segir í New York Times, að hrokafullar heimsvaldakenningar ráðamanna Bandaríkjanna um auðvelda árás á Írak hafi mætt raunveruleikanum í eyðimörkum Íraks og sokkið þar í sandinn. Þeir séu fákunnandi um framandi menningarheima og hafi látið koma sér á óvart, að sjítarnir í Basra, sem lengi hafa sætt ofsóknum Saddam Hussein, skuli ekki dansa fagnandi móti innrásarhernum. En sjítar muni enn þá tíð, þegar faðir núverandi Bandaríkjaforseta sveik þá í tryggðum eftir árásina á Írak fyrir rúmum áratug.

Ofmeta sig og ofreyna

Punktar

Richard Bernstein segir í New York Times, að árás Bandaríkjanna á Írak sé orðin að risavöxnum mistökum í almannatengslum. Um allan heim og ekki sízt í fyrrverandi bandalagsríkjunum á Vesturlöndum skrifi dálkahöfundar, að hrokafull Bandaríkin séu drukkin af hernaðaryfirburðum sínum. Fréttatímaritið Spiegel í Þýzkalandi velti því fyrir sér, hvort bandaríska heimsveldið sé að riða til falls. Það sé þjakað af sama sjúkdómi og heimsveldi fyrri alda, þeim að ofmeta sig og ofreyna.

Vissu ekki hvað átt höfðu

Punktar

Jonathan Freedland segir í Guardian, að Bandaríkjamenn eigi í erfiðleikum með þá stefnu að hunza alla bandamenn, alla sáttmála, allar fjölþjóðastofnanir og allan umheiminn yfirleitt. Þeir geti ekki kvartað yfir meðferð stríðsfanga, af því að þeir hafa sjálfir hunzað Genfarsáttmálann. Þeir geta ekki kvartað yfir sölu hernaðarlega mikilvægra tækja frá Rússlandi til Írak, af því að þeir hafa sjálfir rofið sáttamálann um þau efni. Þeir geta ekki beðið Frakka og Þjóðverja um að taka þátt í að borga tjónið af stríðinu í Írak, af því að þeir hafa hunzað þessar þjóðir og valið þeim hin verstu orð. Þeir geta ekki dregið helztu valdhafa Íraks fyrir alvöru stríðsglæpadómstól, af því að þeir hafa sjálfir hunzað Alþjóðlega stríðsglæpadómstólinn. Í fjölþjóðsamstarfinu vissu þeir ekki, hvað þeir átt höfðu, fyrr en þeir höfðu hafnað því og þar með misst höfðu.