Punktar

Óraunhæfar hugmyndir

Punktar

Polly Toynbee rekur í Guardian ýmsar ástæður þess, að ekki er ástæða til mikillar bjartsýni um velgengni friðarins eftir stríðið við Írak. Hún telur, að væntanlegir sigurvegarar stríðsins hafi óraunhæfar hugmyndir um stöðu mála í Miðausturlöndum. Hún efast um, að frelsun Íraka muni færa þeim mikla gæfu. Auk þess nefnir hún ræðu John Bolton, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, þar sem hann gælir við hugmynd um að ráðast á Íran í beinu framhaldi af árásinni á Írak.

Efast um olíugróða

Punktar

Samkvæmt frétt David Usborne í Independent hefur forstöðumaður þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna varað við hugmyndum Bandaríkjanna um að láta olíugróða í Írak fjármagna endurreisn landsins eftir eyðileggingu stríðsins. Hann segir, að olíuiðnaðurinn þar í landi þurfi á mikilli fjárfestingu að halda, áður en hann getur lagt eitthvað af mörkum til uppbyggingar landsins. Reikna má með, að í Evrópu og hjá Sameinuðu þjóðunum verði mikil andstaða við fyrirhugaða stjórn Bandaríkjanna á málefnum Íraks.

Áhrifalítill Powell

Punktar

>Steven R. Weisman telur í New York Times, að ferð Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, til Brüssel hafi verið árangursrík. Minnkað hafi ágreiningur milli Evrópu og Ameríku um stjórn Íraks eftir stríðið. Þetta er nokkuð mikil bjartsýni. Efast má um, að langvinnt sambandsleysi þessara aðila verði lagað á einum degi með tuttugu kortérsfundum eins manns, sem er einangraður í stjórn Bandaríkjanna. Ofstækismennirnir þar verða ekki nema þrjátíu sekúndur að varpa fyrir borð hvers kyns samkomulagi, sem Powell kann að ná í Evrópu. Þeir hafa eyra ofstækisfulls forseta, en ekki hann.

Stríð til að græða á því

Punktar

Bandaríkin hyggjast ekki bæta Írak tjónið, sem hernaður Bandaríkjanna hefur valdið og á eftir að valda ríkinu. Ætlunin er að nota írakska olíu til að borga fyrir endurreisn ríkisins. Til þess að tryggja hagsmuni Bandaríkjanna verða 23 Bandaríkjamenn skipaðir ráðherrar Íraks. Þeir eiga að sjá um tekjurnar af olíusölunni og tryggja, að bandarísk fyrirtæki, einkum nokkur fyrirtæki með aðsetri í Texas, fleyti rjómann af endurreisnarstarfinu. Meðal greina um þetta efni er ein eftir Joseph Fitchett í International Herald Tribune.

Feðgavandi forseta

Punktar

Hófsamir repúblikanar frá stjórnarárum George Bush eldri, það á meðal James Baker, Brent Scowcroft, Lawrence Eagleburger og Colin Powell eru sagðir vera að reyna að koma þeim skilaboðum á framfæri við George W. Bush yngri, að róttæku heimsveldissinnarnir Dick Cheney, Donald Rumsfeld og Paul Wolfowitz gefi honum vond og hættuleg ráð í utanríkismálum, sem stríði gegn langtímahagsmunum Bandaríkjanna. Þeir hófsömu eru sagðir vera að velta fyrir sér að fá gamla forsetann til að reyna að hafa vit fyrir þeim yngri. Frá þessu er sagt í ýmsum blöðum vestan hafs, meðal annars hjá Maureen Dowd í New York Times.

Aðeins 100 komu af 3.000

Punktar

Þegar Bandaríkjastjórn taldi sér trú um, að hún ætlaði að frelsa Íraka frá oki Saddam Hussein, kom hún á fót hernaðarlegum æfingabúðum í Ungverjalandi fyrir írakska stjórnarandstæðinga, sem voru landflótta. Gert var ráð fyrir, að 3.000 útlagar fengju þar þjálfun til að taka þátt í innrásinni. Þegar til kastanna kom, reyndust innan við 100 tilbúnir til að fara í þessa þjálfun og hefur búðunum því verið lokað, ríkisstjórn Ungverjalands til mikils léttis. Hins vegar er stöðugur straumur útlaga til Íraks til að taka þátt í vörnum landsins. Þótt þeim sé illa við Saddam Hussein, er þeim enn verr við innrásina. Ian Traynor segir í Guardian frá þessum álitshnekki Bandaríkjanna.

Tapað áróðursstríð

Punktar

Phillip Knightley segir í Guardian, að bandamenn hafi tapað áróðursstríðinu, Blair og Bush séu almennt taldir sökudólgar stríðsins. Margir fjölmiðlar hafi brotizt undan viðjum herstjórnar bandamanna og segi frá morðum innrásarliðsins á óbreyttum borgurum og kuldalegum móttökum, sem það fær hjá Írökum. Vestrænir fjölmiðlar séu farnir að efast um réttmæti upplýsinga, sem þeir fá hjá herstjórn bandamanna, enda hafi sannleikurinn oftast reynzt vera sá, sem óháðir og arabískir fjölmiðlar lýstu. Samt hafa vestrænar sjónvarpsstöðvar ekki enn birt óhugnaðinn, sem sést í Al Jazeera sjónvarpsstöðinni. Áskrifendum hennar hefur nú fjölgað á skömmum tíma í Evrópu um fjórar milljónir manna.

Árangur velmegunarinnar

Punktar

Morgunblaðið hefur upplýst, hver sé árangur velmegunarinnar, sem dásömuð var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina. Stéttaskipting hefur aukizt í skólum landsins og íþróttafélögum. Hún lýsir sér m.a. í, að sum börn hafa ekki efni á að kaupa skólamáltíðir eða stunda íþróttir. Þetta er upphafið að árangrinum af vaxandi kostnaðarhlutdeild almennings í þjónustu, sem beint eða óbeint er á vegum hins opinbera. Við siglum áleiðis til þjóðskipulags Bandaríkjanna, þar sem auðræði hefur leyst lýðræði af hólmi, þar sem meira en allur hagvöxturinn fer í að bæta kjör þeirra allra bezt settu, og þar sem almúginn verður sífellt fátækari. Sjálfstæðisflokkurinn mun færa okkur slíkt þjóðskipulag.

Hundrað sinnum Bin Laden

Punktar

Ian Black og Chris McGreal segja í Guardian, að ástandið í Basra og Bagdað verði eins og í Gaza og Nablus. Þúsundir múslíma eigi þá ósk heitasta að fórna lífi sínu í sjálfsmorðsárás gegn innrásarliðinu. Þeir vitna í Hosni Mubarak, forseta Egyptalands, sem segir, að stríðið gegn Írak sé að framkalla 100 nýja Bin Laden.

Taugaveiklaðir og skotglaðir

Punktar

Richard Norton-Taylor og Rory McCarthy segja í Guardian, að brezkir herforingjar á hernámssvæðinu í suðurhluta Írak kvarti um skeytingarleysi bandarískra hermanna gagnvart borgurum landsins. Ameríkanarnir séu taugaveiklaðir og skotglaðir. Fréttaskýrendurnir vitna í bezka herforingja, sem segja, að þetta sé ekki leiðin til að afla innrásarliðinu stuðnings meðal heimamanna.

Breyta Saddam í Saladín

Punktar

George Monbiot segir í Guardian, að stríðið við Írak endi með skelfingu, hver sem úrslit þess verði. Trúarofstæki fari vaxandi um gervöll Miðausturlönd. Hernám Bagdað gegn vilja íbúanna muni kosta mikil fjöldamorð af hálfu vestrænna herja. Hatur Íraka á innrásarliðinu muni magnast um allan helming. Eitt helzta afrek Bandaríkjanna og Bretlands verði að breyta einum af mörgum skúrkum heimsins í goðsagnahetju múslíma, nýjan Saladín.

Sambúð undir frostmarki

Punktar

Forsetar Bandaríkjanna og Frakklands hafa ekki talazt við í átta vikur og forseti Bandaríkjanna og kanzlari Þýzkalands hafa ekki talazt við síðan í nóvember í fyrra. Elaine Sciolino lýsir í New York Times pólitískri sambúð, sem er undir frostmarki. Almenningsálitið í Frakklandi og Þýzkalandi er feiknarlega andvígt Bandaríkjunum, en þar virðast menn ekki gera sér grein fyrir alvöru ástandsins. Hún vitnar í Helmut Schmidt, fyrrverandi kanzlara Þýzkalands, sem segir, að Bandaríkin vilji nota Evrópu, ekki vinna með henni, og að Evrópumenn vilji vinna með þjóðum íslams, en ekki fara í krossferð gegn þeim.

Brezki herinn óþarfur

Punktar

Roy Denman minnir í International Herald Tribune á, að Donald Rumsfeld, stríðsmálaráðherra Bandaríkjanna, hafi launað Tony Blair liðveizluna við árásina á Írak með því að segja fyrirlitlega, að brezku hersveitirnar séu óþarfar. Blair hafi aðeins haft vandræði og niðurlægingu upp úr stuðningnum við bandarísku styrjaldarstefnuna.

Blair einangrar Bretland

Punktar

Mark Leonard segir í Observer, að það sé Tony Blair í Bretlandi, sem hafi einangrast í heiminum sem kjölturakki Bandaríkjanna, en ekki Jacques Chirac í Frakklandi, sem sé orðinn hetju um allan heim. Menn sætti sig ekki við, að Blair hafi fórnað alþjóðalögum fyrir þjónustulundina gagnvart húsbónda sínum í Hvíta húsinu. Hér eftir verði í Evrópu ekkert mark tekið á Blair og Bretlandi. Og í ljós hafi komið, að Bush og föruneyti hans taki ekki heldur neitt mark á Blair og Bretlandi, heldur noti hann bara fyrir sendisvein.

Krati meðal ofstækismanna

Punktar

Dálkahöfundar í Bretlandi spara ekki stóru orðin í lýsingum sínum á Tony Blair forsætisráðherra. Will Hutton segir í Observer, að Blair muni aldrei ná sér eftir stuðninginn við ofstækisfulla hægrisinna í Bandaríkjunum. Hann hafi misskilið eðli grimmdarstefnunnar, sem tekið hafi völdin vestan hafs og sé ógnun við allan heiminn. Hann sé krati, kominn í sæng með ofsatrúarmönnum, sem séu hatursmenn ríkisvalds, launþega, velferðar og svertingja í landi vaxandi stéttaskiptingar.