Phillip Knightley segir í Guardian, að bandamenn hafi tapað áróðursstríðinu, Blair og Bush séu almennt taldir sökudólgar stríðsins. Margir fjölmiðlar hafi brotizt undan viðjum herstjórnar bandamanna og segi frá morðum innrásarliðsins á óbreyttum borgurum og kuldalegum móttökum, sem það fær hjá Írökum. Vestrænir fjölmiðlar séu farnir að efast um réttmæti upplýsinga, sem þeir fá hjá herstjórn bandamanna, enda hafi sannleikurinn oftast reynzt vera sá, sem óháðir og arabískir fjölmiðlar lýstu. Samt hafa vestrænar sjónvarpsstöðvar ekki enn birt óhugnaðinn, sem sést í Al Jazeera sjónvarpsstöðinni. Áskrifendum hennar hefur nú fjölgað á skömmum tíma í Evrópu um fjórar milljónir manna.