Punktar

Allar kirkjur gegn stríði

Punktar

Séra Konrad Raiser, framkvæmdastjóri Heimskirkjuráðsins, skrifar í International Herald Tribune um stríð Bandaríkjanna og Bretlands við Írak. Hann segir, að allar deildir kristinnar kirkju séu sammála um að fordæma þetta stríð og hafi sérstaklega mótmælt tilraunum til að verja það á trúarlegum og siðfræðilegum forsendum. Hann talar um falsspámenn, sem beiti fyrir sig trúarlegum rökum, og á þar við George W. Bush Bandaríkjaforseta, sem segist vera af guði valinn til að fara í krossferð gegn illum öflum heimsins.

Murdock æsti til stríðs

Punktar

David D. Kirkpatrick skrifar í New York Times um stjórnmálaáhrif fjölmiðlakóngsins Rupert Murdoch, sem styður eindregið hernað Bandaríkjanna, Bretlands og Ástralíu gegn Írak. Hann á mikið af fjölmiðlum í árásarlöndunum og lætur þá styðja stefnu sína. Einkum hafa áhrif hans aukizt með Fox sjónvarpskeðjunni í Bandaríkjunum, sem rekur eindreginn styrjaldaráróður. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands á Murdoch skuld að gjalda, því að blöð hans studdu kosningabaráttu Blair eindregið. Það kann að skýra, hversu nákvæmlega Blair fylgir árásarstefnu Bandaríkjanna að málum.

Rústuðu Rússland

Punktar

Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, skrifar grein í Guardian um, hvernig róttækar hægri sinnaðar hagfræðikenningar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins rústuðu efnahag Rússlands á skömmum tíma eftir fall Sovétríkjanna. Á tímabilinu 1992-1998 minnkaði framleiðsla í landinu um helming og fátækt jókst úr 2% íbúa í rúmlega 40% íbúa. Þótt ástandið hafi lagazt á síðustu árum, er verg landsframleiðsla í Rússlandi enn 30% minni en hún var árið 1990. Hann varar við nýjum tilraunum til að falsa sagnfræðina og fela þetta gjaldþrot hægri sinnaðra hagfræðikenninga Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Menn trúa skattahruni

Punktar

Skoðanakönnun hefur sýnt, að margir taka mark á loforðum, sem stjórnmálaarmar peningavaldsins gefa um að lækka skatta villt og galið, jafnvel þótt loforðin gefi stjórnmálaarmar, sem lengi hafa verið við völd án þess að sjá ástæðu til að lækka skatta fyrr en nú. Ánægja manna með þessi yfirgengilegu loforð styður þá kenningu, að kjósendur fái þá valdamenn, sem þeir eiga skilið. Ennfremur þá kenningu, að það sé ekkert að á Íslandi, sem ekki sé hægt að laga með því að skipta um kjósendur.

Efnavopna-Donald

Punktar

George Monbiot talar um stríðsmálaráðherra Bandaríkjanna í Guardian og kallar hann efnavopna-Donald. Hann hafi fengið George W. Bush í síðustu viku til að samþykkja notkun á táragasi gegn Írökum. Þetta stríðir gegn alþjóðlegum sáttmála um efnavopn, þar sem sérstaklega er tekið fram, að táragas megi ekki nota í stríði. Táragas er jafn hættulegt og annað eiturgas, svo sem kom fram, þegar 128 manns létust í leikhúsi í Moskvu í október í fyrra. Táragasið hefur þegar verið sent til vígstöðvanna og landgönguliðar bandaríska hersins hafa þegar verið þjálfaðir í notkun þess. Allt er þetta ólöglegt. Bandaríkjastjórn er að hefja nýjar víddir í stríðsglæpum sínum á sama tíma og Írakar beita engum efnavopnum.

Afneitun, tregða, skelfing

Punktar

Philip Bowring skrifar í International Herald Tribune um lungnabólguæðið, sem hann segir minna á gin- og klaufaveikiæðið fyrir þremur árum. Fyrst hafi Kína verið í afneitun og síðan hafi Hong Kong verið með tregðu. Hvort tveggja hafi síðan leitt til skelfingar, þegar dauðsföll fóru að fréttast. Hann segir, að hættan af lungnabólgunni sé feiknarlega ofmetin. Aðeins hafi einn af hverjum 80.000 íbúum Hong Kong fengið veikina og aðeins 4% hinna sýktu hafi látizt, svipað og gerist í venjulegri lungnabólgu. Hann segir, að beinbrunasótt og heilabólga séu ferðamönnum hættulegri í Suðaustur-Asíu. Engin ástæða sé til að takmarka ferðalög vegna lungnabólgunnar nýju.

Smokkfiskurinn í vanda

Punktar

Á tímum persónudýrkunar er nauðsynlegt fyrir sérhvern stjórnmálaarm fjármálablokkar að bjóða fram persónu, sem hefur möguleika á að verða forsætisráðherra. Þess vegna blómstra stjórnmálaarmar kolkrabbans og háhyrningsins. Þeir hafa hvor um sig persónu, sem opinberlega sækist eftir stöðu forsætisráðherra. Stjórnmálaarmur smokkfisksins er hins vegar í vanda, því að hann er meðreiðarframboð, sem býður ekki upp á neitt skýrt val um forsætisráðherraefni. Hann býður bara frambjóðanda, sem verður utanríkisráðherra, hvort sem frambjóðandi kolkrabbans eða frambjóðandi háhyrningsins verður forsætisráðherra.

Blair: Álfur út úr hól

Punktar

John Stevens segir í Guardian, að Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, skilji hvorki evrópska sameiningarsinna né bandaríska róttæklinga á hægri kanti. Hinir síðarnefndu vilji velta úr sessi ráðamönnum Sýrlands, Jórdaníu, Sádi-Arabíu og furstadæmanna við Persaflóa og hinir fyrrnefndu vilji ekki með nokkru móti stuðla að því. Blair skilji hvorki róttækar ráðagerðir Bandaríkjanna né hörð viðbrögð gömlu Evrópu við þeim ráðagerðum. Hann sé álfur út úr hól.

Bandamenn eru verri

Punktar

Mary Riddell telur í Observer, að Bandaríkjamenn og Bretar hafi vinninginn yfir Saddam Hussein í stríðsglæpum í Írak, enda hafi sá síðarnefndi ekki beitt neinum efnavopnum, en hinir fyrrnefndu hafi beitt hinum bannfærðu klasasprengjum. Hún telur vafasamt að hægt sé að sprengja þjóð til lýðræðis.

Mikið verður auglýst

Punktar

Stjórnmálaarmar íslenzku fjármálablokkanna munu auglýsa mikið í fjölmiðlum síðasta mánuðinn fyrir alþingiskosningar. Stjórnmálaarmur smokkfisksins hefur eindregið lagzt gegn drögum að samkomulagi um takmörkun á auglýsingum, enda hefur sá á brattann að sækja, sem mælist með smáflokkafylgi í skoðanakönnunum. Stjórnmálaarmar kolkrabbans og háhyrningsins þurfa líka að auglýsa mikið, því að þeir berjast um forustuna í fylgi og væntanlegan forsætisráðherra.

Órar trúar og ofbeldis

Punktar

Í International Herald Tribune segir stjórnmálaskýrandinn William Pfaff, að George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, sé haldinn ofbeldisfullum trúarórum, sem stjórni gerðum hans í Afganistan og Írak.

Spáð skæruhernaði

Punktar

James Fox segir í Guardian, að styrjöldin gegn Írak verði að ýmsu leyti svipuð styrjöldinni gegn Víetnam. Skæruliðar heimamanna muni fara eftir kennslubók Vo Nguyen Giap hershöfðingja og ráðast hér og þar úr launsátri að fámennum hópum úr innrásarliðinu, sem hann telur muni seint vinna hug og hjörtu heimamanna. Nicholas D. Kristof skrifar um svipað efni í New York Times og segir, að Írakar líti almennt ekki á innrásarliðið sem frelsisengla. Hann telur, að útkoman verði samt ekki eins og í Víetnam, heldur eins og í Líbanon.

Ísraelssinnaður landstjóri

Punktar

Verðandi landstjóri Bandaríkjanna í Írak, Jay Garner, er gamall hershöfðingi og núverandi stjórnarformaður Coleman vopnaframleiðslunnar, sem framleiðir Patriot eldflaugarnar frægu, er hittu engin skotmörk í fyrra Persaflóastríðinu. Garner er þekktur Ísraelssinni, sem hefur opinberlega kennt Palestínumönnum um ógnaröldina fyrir botni Miðjarðarhafs og opinberlega hrósað hófsemi Ísraelshers í hernámi Palestínu. Frá þessu segja Paul Holmes hjá Reuters og Paul Valleby hjá Independent.

Þrjár valdablokkir

Punktar

Þrjár fjármálablokkir keppa um völdin í alþingiskosningunum í næsta mánuði, kolkrabbinn, smokkfiskurinn og háhyrningurinn. Aðeins þarf að virða fyrir sér risavaxnar kosningaskrifstofur þriggja stjórnmálaflokka til að átta sig á, að kostnaður þeirra af kosningunum er margfalt meiri en svo, að unnt sé að safna fyrir honum hjá vel stæðum flokksmönnum. Hver þessara flokka mun verja 100 milljónum til kosningabaráttunnar. Stóru fjármálablokkirnar og nokkur önnur fyrirtæki í viðkvæmri stöðu í þjóðfélaginu útvega fé og aðstöðu til að dæmið gangi upp og vonast til að uppskeran verði góð eftir kosningar.

Falsvitni fjölmiðla

Punktar

David Leigh rekur í Guardian fjölmörg ósannindi, sem að undirlagi áróðursstjóra árásarinnar á Írak hafa birzt í vestrænum fjölmiðlum um ástandið í Írak og gang stríðsins. Hann vekur athygli á, að fjölmiðlar láta sig hafa það að birta hverja lygina á fætur annarri, þótt fyrri ósannindi hafi þegar verið hrakin. Leigh reynir að útskýra frá herfræðilegu sjónarmiði, hvert hafi verið hlutverk hverrar lygi fyrir sig.