Persar vinna kosningar í Írak

Greinar

Kosningarnar í Írak um helgina snúast ekki um stjórnarskrá í hefðbundnum skilningi, heldur um friðarsamning milli Sjíta, Kúrda og Súnna um skiptingu landsins í þrjá hluta. Samkvæmt friðarsamningnum sjá landshlutanir um sín mál að mestu, jafnvel um hluta varnarmála. Írak verður þríklofið ríki.

Þetta var fyrirsjáanleg niðurstaða. Kúrdar og Sjítar hafa lengi þráð eigin ríki og Súnnar eru ekki nógu fjölmennir til að hindra það. Kúrdar verða vinsamlegir vesturveldunum, en Sjítar í suðri hafa þegar hallað sér að Íran, sem er í þann veginn að verða mesta olíu- og stórveldi miðausturlanda.

Þrátt fyrir hernámið ráða ofsatrúarmenn mestu í suðurhluta Íraks, þar sem Sjítar búa. Klerkar þeirra eru menntaðir í Íran. Vopn þeirra koma frá Íran. Skæruliðar þeirra koma frá Íran. Í höfuðborginni Basra fer brezki herinn með völd, en í rauninni ráða vopnaðir hópar róttækra Sjíta lögum og lofum.

Þannig fór stríð vesturveldanna gegn Írak. Það eina jákvæða við stríðslokin er eigið land Kúrda, sem munu áfram verða í þolanlegu sambandi við vesturveldin. Hið neikvæða er, að 60% þjóðarinnar koma sér upp róttæku þjóðskipulagi með litlum mannréttindum, engum kvenréttindum og hatur á vestrinu.

Þótt Saddam Hussein hafi verið skelfilegur, voru þættir mannréttinda betri hjá honum en þeir eru nú hjá arftökunum. Flokkur hans var veraldlegur, ekki trúarlegur, og réttindi kvenna voru mun meiri en þau eru nú að verða. Hann hélt Sjítum niðri, en þeir hafa nú fundið mátt sinn og megin.

Sjítinn og Súnninn hata hvor annan, en hvor um sig hatar þó vesturveldin enn meira. Afleiðing stríðsins, hernámsins og svokallaðrar stjórnarskrár verða aðrar en til var stofnað. Í stað þess að auka áhrif vesturveldanna eru það fyrst og fremst Persar í Íran, sem græða á frumhlaupi George W. Bush.

Hin heimspólitísku áhrif frumhlaupsins felast í minni áhrifum vesturveldanna í heiminum og meiri áhrifum Persa, sem dreymir um að verða að nýju heimsveldi, eins og þeir voru mörgum sinnum áður, einnig eftir daga Alexanders mikla. Öld Persa er að renna upp í hinum ótryggu miðausturlöndum.

Persar stjórna Íran og munu senn stjórna meirihluta Íraks, auk þess sem þeir stjórna nokkrum héruðum í austanverðu Afganistan. Þeir verða mesti höfuðverkur vesturveldanna.

DV