Strætó gerður aðlaðandi

Greinar

Frábært kort um strætisvagnaleiðir á höfuðborgarsvæðinu hefur verið teiknað og var birt í DV á þriðjudaginn. Kortið er miklu betra en kortið, sem Strætó gaf út í sumar, þegar leiðum var breytt. Fyrst og fremst er það svo notendavænt, að fólk skilur það og getur þess vegna notað strætó.

Kortið teiknaði Ingi Gunnar Jóhannsson, landfræðingur og kortagerðarmaður. Það er í sama stíl og við höfum séð í neðanjarðarlestum í London og í strætisvögnum í Höfn. Það er sennilega stíllinn, sem hefur almennt slegið í gegn í Evrópu, einmitt vegna þess að hann er notendavænstur.

Kortið frá Strætó var birt í DV í sumar á heilli opnu og var greinilega óskiljanlegt. Kortið frá Gunnari tók hins vegar ekki nema hálfa síðu í blaðinu á þriðjudaginn og var þar skiljanlegt í einni sjónhendingu. Þetta er skemmtilegt dæmi um, hve hægt er að ná miklum árangri á einfaldan hátt.

Kort Gunnars er svo skýrt, að það gerir strætóferðir aðlaðandi. Það freistar til notkunar á sama hátt og kortið frá Strætó hrindir fólki frá fyrirtækinu. Af því að kort Strætó er notað, en ekki kort Gunnars, eru menn almennt óánægðir með leiðakerfið og telja sig ekki geta notað það.

Kort Gunnars er aðeins lítið stílfært og fylgir landslagi að mestu leyti. Hjá neðanjarðarlestarkerfinu í London og strætó í Kaupmannahöfn eru til enn stílfærðari útgáfur, sem rúmast ofan við glugga í lest og strætó, þar sem landafræðinni er fórnað til að fólk sjái betur, hvar það er statt í kerfinu.

Það furðulega í þessu máli er, að Gunnar hefur verið að biðja Strætó í fjögur ár um að taka upp kort hans af kerfi strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu. Í jafn langan tíma hefur Strætó þráast við að hanna lélegu kortin, sem við þekkjum af raun. Þarna fer saman alkunn heimska og hroki einokunar.

Þetta er í rauninni frábært dæmi um eymd opinbers rekstrar, einkum þess, sem er á vegum Reykjavíkur. Þar er við völd Reykjavíkurlisti, sem vælir stöðugt um, að menn eigi að nota strætó í stað einkabíls, en getur alls ekki hagað málum á þann veg, að sú pólitíska óskhyggja verði að veruleika.

Viðskipti Strætó og Gunnars er skólabókardæmi um opinberan rekstur, þar sem saman fer hroki og heimska, sem síðan kalla á einkavæðingu. Vangeta opinbers rekstrar er náttúrulögmál.

DV