Flæðir að skerjapólitíkusum

Greinar

Bráðavaktir við Miðjarðarhafið eru farnar að fást við eina afleiðingu hækkunar hitastigs, eitraða þörunga, sem valda sólbaðsfólki háum hita, höfuðverki og táraflóði. Bráðavaktir í Svíþjóð eru farnar að fást við aðra afleiðingu hækkunar hitastigs, eitraðar bjöllur, sem valda heilahimnubólgu.

Nágrannar okkar í Svíþjóð hafa tekið eftir, að ekki er lengur hægt að synda í Mälaren og öðrum vötnum. Vatnið er orðið skítugt af því að það leggur ekki lengur á veturna. Kranavatn er um það bil að hætta að verða drykkjarhæft á ýmsum stöðum þar í landi. Allt er þetta hærri hita að kenna.

Félagsmálayfirvöld í Brescia á Ítalíu eru farin að láta ellilífeyrisþega hafa kælingarkassa. Þar og annars staðar eru menn minnugir þess, að fyrir tveimur árum fórust 20.000 manns af völdum hitabylgju í Evrópu. Skógareldar hafa í sumar farið hamförum í Portúgal vegna þurrara veðurfars.

Víðs vegar um Evrópu er baráttan gegn afleiðingum hækkunar hitastigs komin í fullan gang. Yfirvöld í Norfolk og Essex á Englandi eru farin að gera áætlanir um að leggja strandsvæði í eyði til að forða fólki frá tjóni af völdum stórflóða, sem sækja í auknum og vaxandi mæli að ströndum heimsálfanna.

Í Kaupmannahöfn er verið að lyfta teinum fyrirhugaðrar neðanjarðarbrautar um hálfan metra til að mæta hugsanlegu flóði. Á sama tíma eru bráðheimskir stjórnmálamenn á Íslandi að bulla um heil byggðahverfi og flugvöll úti á skerjum. Það eru sams konar aular og byggðu hverfi á snjóflóðasvæðum.

Flóðin í New Orleans voru fyrirsjáanleg. Varað hafði verið við þeim í umfangsmiklum skýrslum. Þar var rakið, hvernig aukinn útblástur koltvísýrings hefur hækkað yfirborðshita í Mexikóflóa og stóraukið líkur á hvirfilbyljum. Það var pólitísk ákvörðun að taka ekkert mark á þessum vísindum.

Á sama tíma og sannanir hrannast upp um, að hækkun hitastigs er ekki bara væntanleg, heldur byrjuð af fullum krafti, eru margir valdamenn ekki meðvitaðir um þetta, til dæmis ekki íslenzkir. Erlendis eru sumir valdamenn beinlínis andvígir slíkri umræðu, til dæmis George W. Bush Bandaríkjaforseti.

Í Hamborg og Rotterdam er farið að efla stíflur til að verja stærstu hafnir Evrópu gegn flóðum. Er hægt að fá fróða menn þaðan til að hafa vit fyrir íslenzkum skerjapólitíkusum?

DV