Þriðja heims veldið

Greinar

Bandaríkin eru ofsaríkt þriðja heims ríki. Munurinn á þeim og Sádi-Arabíu er sá, að Bandaríkin eru heimsveldi, sem ryðst um allan heim með vopnavaldi. Heima fyrir hrundi borgaralegt samfélag, þegar fellibylur lagði New Orleans í eyði. Kerfið varð um síðir að senda herinn á vettvang.

Í Bandaríkjunum hafa frosið samgönguleiðir milli stétta. Auðfólkið girðir sig og börn sín af í víggirtum hverfum og keyrir um á skotheldum drekum. Stefna stjórnvalda er að spilla umhverfinu, spilla samstarfi á alþjóðavettvangi og gera hina ríku ríkari. Á kostnað fátækra um heim allan.

Í Bandaríkjunum hefur traust milli manna hrunið. Samningar milli fyrirtækja, sem eru handsalaðir í Evrópu, nema 800 blaðsíðum í Bandaríkjunum, af því að allir eru að reyna að svíkja alla. Fyrir löngu hættu Bandaríkin að leggja fyrir og byggja ofneyzlu sína á lánsfé frá erkióvinum sínum í Kína.

Bandaríkin hafa gefið eftir forustu vestrænna ríkja. Þau hafa sent trylltan andstæðing fjölþjóðasamstarfs sem sendiherra til Sameinuðu þjóðanna. Forsetinn er úti að aka og situr öllum stundum í samræðum við guð almáttugan. Ef vinsældir hans minnka í könnunum, fer hann í nýtt stríð.

Bandarísk heimspólitík felst í að ljúga sökum upp á saklaus ríki í þriðja heiminum, ráðast á þau með vopnavaldi og þykjast vera að frelsa íbúana með því að drepa þá. Framganga Bandaríkjanna í Írak hefur gengið fram af siðuðu fólki, enda eru Bandaríkin ekki búin að drekka Íraksbikarinn í botn.

Þetta er ekki bara vandamál ríkisvaldsins eða einnar ríkisstjórnar í Bandaríkjunum. Þetta er vandi þjóðarinnar allrar, sem hefur endurkosið ríkisstjórnina. Þetta er vandi þjóðarinnar, sem hefur þrjár læsingar á íbúðinni og geymir vopnasafn í náttborðinu. Það er endastöð ofbeldishneigðar.

Enginn getur tekið upp merki Bandaríkjanna í heiminum. Evrópa er í sárum, síðan stjórnarskrá hennar var hafnað af síngjörnum ástæðum í Frakklandi og Hollandi. Evrópa hefur ekki mátt til að hleypa Úkraínu inn og hvað þá Tyrklandi. Evrópa hefur ekki burði til að taka þátt í heimspólitík.

Meðan enginn getur haft hemil á villta vestrinu verðum við að þreyja þorrann og gæta þess í utanríkismálum að gera ekkert til að efla feigðarflan Bandaríkjanna um heiminn.

DV