Borgarrölt

9. Persía – Yazd – áveitugöng

Borgarrölt
Op á áveitugöngum, Yazd

Dekkið markar op niður í áveitugöngin

Áveitugöngin

Í eyðimörkinni milli Shiraz og Yazd er mikið af neðanjarðarrennum eða göngum fyrir áveitur fjarri sólarþurrkun á yfirborði jarðar. Hér og þar eru strompar á þessum rennum. Þar fóru menn niður til að halda rennunum við til að hindra að þær stífluðust. Að grunni eru þessar áveitur frá því fyrir upphaf tímatals okkar.

Rennurnar ná víða tugum kílómetra að lengd og gera Persíu byggilega, þar sem landið væri víða eyðimörk. Stromparnir eru víða 20-200 metra djúpir, svo að þetta eru samtals mikil mannvirki með óheyrilegri vinnu að baki.

Næstu skref

8. Persía – Shiraz

Borgarrölt
Arg-e Karin Khan Kastalavirkið, Shiraz

Karin kastalinn

Arg-e-Karin kastalinn

Í borgarmiðju er Arg-e-Karin kastalinn á 13.000 fermetrum, áður heimkynni Persakonunga á síðari hluta 18. aldar, en er nú sögusafn. Kastalinn minnir dálítið á Alhambra á Spáni, myndaður af röð halla í stórum garði með rennandi vatni. Eyðimerkurbúar heillast yfirleitt af rennandi vatni.

Masjed-e Nasir-al-Molk mosque, Shiraz 2

Masjed-e-Nasir al-Molk moskan

Masjed-e-Nasir moskan

Oftast kölluð Bleika moskan frá lokum 19. aldar, þekkt fyrir steinda glugga og bleikar flísar, sem þekja veggi.

Seray-e-Mehr tehúsið

Seray-e Mehr, Shiraz

Seray-e-Mehr tehúsið

Margir ferðamenn leggja leið sína í Seray-e-Mehr tehúsið, þar sem forngripir og málverk þekja veggi. Myndir af fólki og dýrum eru ekki algengar í Persíu, en hér er gnægð af þeim. Þarna er gott að slaka á í þægilegum aðstæðum.

Næstu skref

7. Persía – Shiraz – skáldin

Borgarrölt

Shiraz

Shiraz er ein af stórborgum Persíu og sú, sem stendur næst uppruna Persa sem meginþjóðar í vestanverðri Asíu. Hún er líka fræg sem uppruni Shiraz vínþrúgna, sem nú eru þekktar víða um heim, einkum í Ástralíu og Rhone-dal í Frakklandi. Einkum er hún samt fræg fyrir þjóðskáld Persa, Hafez og Saadi, sem þar voru fæddir.

Um skeið var Shiraz höfuðborg Persíu. Þarna hefur verið borg í 4000 ár, enda liggur staðurinn vel fyrir samgöngum í sunnanverðu landinu og nýtur nálægðar við Persaflóa.

Qu’ran hliðið

Borgarhlið Shiraz er Qu’ran hliðið frá ofanverðri 18. öld við Allah-o-Akbar gljúfrið, sem þurfti að fara um til að komast til borgarinnar. Í sal ofan á miðju hliðinu voru lengi geymd tvö handskrifuð eintök af kóraninum, en þau eru nú á safni í borginni.

Hafez minnismerki Shiraz

Hafez minnismerki í Shiraz

Saadi minnismerki Shiraz

Saadi minnismerki í Shiraz

Hafez og Saadi

Grafhýsi skáldanna Hafez og Saadi eru listaverk í fögrum görðum borgarinnar. Mikil aðsókn innlendra ferðamanna sýnir dálæti Persa á skáldum sínum, sem eru þjóðhetjur þar í landi. Þeir eru í Persíu taldir hafa verið meiri skáld en efasemdarmaðurinn Omar Khayyám, sem er þekktari á Vesturlöndum.

Hafez var uppi á 14. öld og orti mikið um ástir og vín, meðal annars um dálæti hans á fegurð ungra drengja. Verk hans eru til á fjölmörgum heimilum og margir kunna utanað vers upp úr þeim, sem notuð eru sem spakmæli í daglegu lífi.

Saadi var uppi á 13. öld og orti mikið um góða siði og rétta hegðun. Klerkaveldið í Persíu hefur þess vegna dálæti á honum, en hann nýtur einnig vinsælda almennings eins og Hafez.

Næstu skref

6. Persía – Persepolis

Borgarrölt
Konungagrafir Persepolis

Grafhýsi keisaranna í Persepolis

Persepolis

Í nágrenni Pasargade er Persepolis, sem var höfuðborg hinna fornu keisara. Þar eru grafhýsi nokkurra keisara höggvin í kletta og þar eru leifar hallarinnar, sem Alexander mikli lét brenna, þegar hann vann sigur á Persaveldi árið 330 f.Kr.

Persepolis

Inngangurinn í Persepolis

Persepolis 4

Göngubraut sendiherranna í Persepolis

Þetta er víðáttumikið svæði með ýmsum höllum og súlnagöngum. Þar eru tröppur að móttökustöð sendiherra og göngubraut sendiherranna að höllum keisaranna. Enn má sjá leifar af höll Dareiusar og höll Xerxesar, af fjárhirzlum keisaranna og hesthúsum. Víða eru lágmyndir enn sýnilegar.

Persepolis var aldrei miðstöð mannlífs, heldur miðstöð hátíðahalda á upprunaslóðum Persakeisara, staður fyrir skrúðgöngur á hátíðisdögum. Í skipulagi svæðisins var lögð áherzla á aðstæðum fyrir sýningar og athafnir. Daglegur rekstur heimsveldisins var í öðrum borgum þess, Susa, Babylon og Ekbatana.

Næstu skref
Persepolis

Lágmyndir í Persepolis

 

5. Persía – Pasargade

Borgarrölt
Kýros gröf Pasargade 1

Grafhýsi Kýrusar Persakeisara í Pasargade

Pasargade

Milli Kerman og Shiraz er löng dagleið, 450 kílómetrar. Nærri Shiraz komum við að minjum hins gamla Persaveldis, Pasargade og Persepolis.

Grafhýsi Kýrusar Persakeisara er á víðum völlum í Pasargade. Það er efst á stallapíramíða og er enn næsta heillegt.

Kýrus mikli var hinn fyrsti frægra keisara Persa, uppi um 600 f.Kr. Hann reisti fyrsta heimsveldi mannkynssögunnar, sem náði frá Miðjarðarhafi um Mesópótamíu og Persíu til Afganistan. Hann lagði grunn að persneskri stjórnskipan í Vestur-Asíu og frelsaði gyðinga úr útlegð í Babýloníu. Á sívalningi Kýrusar eru skráð fyrirmæli hans, þar sem meðal annars er gert ráð fyrir ýmsum mannréttindum.

Kýrus mikli var svo frægur, að hann á sérstakan sess í íslenzkum rímum. Séra Jakob Jónsson skráði um þær ritgerð, sem var þýdd á ensku og barst stjórnvöldum í Íran, sem voru að undirbúa 2500 ára afmæli Persaveldis. Var séra Jakob boðið í afmælið 1971 og flutti hann þar erindi um rímur Kýrusar mikla.

Næstu skref

4. Persía – Kerman

Borgarrölt

Kerman

Við byrjum á að taka 1000 kílómetra flug til borgarinnar Kerman, þar sem hefst rútuferð okkar um Persíu frá suðri og til baka til norðurs í Tehran.

Kerman er eyðimerkurbær í 1755 metra hæð sunnarlega í Íran og var á ýmsum tímum höfuðborg ríkisins. Marco Polo heimsótti bæinn á leið sinni um silkileiðina frá Feneyjum til Kína. Bærinn var oft hertekinn í innanríkisátökum og er í núverandi mynd að mestu leyti frá tímanum eftir 1800.

Rayen kastali

Rāyen kastalinn

Eldsdýrkendur Zaraþústra voru lengi fjölmennir í Kerman. Þar er enn eldmusteri þeirra og í því er þekktasta safn heims um Zoroaster-trúna. Enn eru tæplega 2000 eldsdýrkendur í borginni.

Arg-ei Rāyen kastalinn

Í eyðimörkinni 80 km austan við Kerman er kastalinn Arg-e Rāyen. Hann er byggður úr þurrkuðum leir, ekki leirsteinum, svipað og sjá má víða í suðurkanti Sahara eyðimerkurinnar. Ekki má rigna mikið á slík mannvirki, því að þá leka þau niður.

Kastalinn er þúsund ára gamall, var í notkun fram undir lok 19. aldar. Þar stendur enn höll héraðshöfðingjans og ýmis önnur híbýli, svo og ytri virkisveggir.

Bāgh-e Shāzdeh garðurinn

Í leiðinni milli Kerman og Rāyen er Bāgh-e Shāzdeh garðurinn, lagður árið 1850. Þar rennur vatn stall af stalli í gróðursælum lundi milli sumarhalla í eyðimörkinni.

Næstu skref
Bagh-e Shahzde garðar, Mahan

Shāzdeh garðurinn

3. Persía – Tehran – Þjóðminjasafnið

Borgarrölt

IMG_0580

Þjóðminjasafnið

Þjóðminjasafnið er í veglegum húsakynnum, vel skipulagt í hefðbundnum stíl og með góðu rými um mikilvæga safngripi í aðalsal, sem er á fyrstu hæð inn af anddyri hallarinnar. Það eru einkum gripir frá heimsveldistíma Persa 728 f.Kr – 651 e.Kr og frá enn eldri tíma. Alls eru í safninu 300.000 gripir á 20.000 fermetrum.

Þjóðminjasafnið 9, Tehran

Í Þjóðminjasafninu

Þjóðminjasafnið 4, Tehran

Í Þjóðminjasafninu

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Annað athyglis-vert safn er krúnudjásna-safnið, sem sýnir eðalsteina og skartgripi keisarans, sem steypt var af stóli 1979. Safnið sýnir sjúklega áráttu hans í að eiga hauga af mögnuðum eðalsteinum. Safnið er aðeins opið skamma hríð á hverjum degi, svo að beita þarf forsjálni við útvegun aðgöngumiða.

Næstu skref
IMG_0573

Í Þjóðminjasafninu

2. Persía – Tehran

Borgarrölt
Gamla bandaríska sendiráðið, Tehran

Gamla, bandaríska sendiráðið, sem hertekið var

Tehran

Höfuðborgin Tehran er ein af risaborgum heims með 9 milljón íbúum. Einkenni allra slíkra borga er umferðaröngþveiti og nútímastreita, sem í Tehran mildast af trjágöngum meðfram helztu umferðaræðum. Helzt er það þjóðminjasafnið, sem er skoðunarvert, áður en haldið er út á landsbyggðina, hina eiginlegu Persíu.

Bandaríska sendiráðið

Persar hafa átt í útistöðum við ýmsa nágranna, einkum súnníta í Írak og Sádi-Arabíu. Árið 1979 var bandarískt sinnuðum keisara steypt af stóli og komið á klerkaveldi. Sambúðin við Bandaríkin kólnaði og bandaríska sendiráðið var hertekið í kröfugerð um, að keisarinn yrði framseldur.

Azadi turninn, Tehran

Azadi turninn

Teppasafnið Tehran

Teppasafnið í Tehran

Einkennistákn Tehran er Azadi turninn, hannaður af arkitektinum Hossan Amanat fyrir keisarann, 50 metra hár og klæddur marmara. Eftir byltinguna var turninn gerður að Frelsisturni landsins, fagurlega skrautlýstur að næturlagi. En hönnuðurinn var Baha’i trúar og þess vegna var hann rekinn úr landi og gerðist frægur arkitekt í Kanada. Þótt trúfrelsi gildi að mestu í landinu, nær það ekki til Baha’i trúar.

Teppasafnið

Persnesk teppi eru fræg að verðleikum. Síðasta keisaraynjan var Farah Diba og hún hannaði teppasafnið sjálf með hliðsjón af vefstól. Ytra form hallarinnar er grind, sem bægir frá sólskini og dregur úr hita. Farah Diba gaf einnig teppi til safnsins, sem hýsir núna rúmlega hundrað teppi frá ýmsum tímum. Þau beztu eru í aðalsalnum á fyrstu hæð.

Gæði persneskra teppa eru metin eftir uppruna og fjölda hnúta á flatareiningu. Oftast er miðað við flöt, sem er sjö sentimetrar á kant, en líka er miðað við ferþumlunga. Yfir 200 hnútar á ferþumlung þykir fínt, en fjöldinn getur farið yfir 1.000 hnúta í flottustu teppum.

Næstu skref

A. Persía

Borgarrölt, Persía
Persepolis 2

Höggmynd frá tímum Forn-Persa í keisaraborginni Persepolis, sem Alexander mikli lét brenna

Persía

Áður fyrr var Íran kölluð Persía, því að þar býr fólk, sem talar farsi, indóevrópskt tungumál. Þjóðin er að mestu leyti trúuð á Shia grein íslams, sem er frábrugðin Sunni grein íslams meðal araba. Í landinu er mikið af rústum frá fjórtán alda heimsveldistíma Persa 728 f.Kr – 651 e.Kr. Og af síðari tíma moskum, sem einkennast af persnesku stafa- og beðjuskrauti.

Næstu skref

A. Istanbul

Borgarrölt, Istanbul
Misir Karsisi - Istanbul

Stóri markaðurinn í Istanbul, Kapalı Çarşı

Istanbul

Brúin mikla - Istanbul

Brúin mikla, sem tengir austur og vestur, Asíu og Evrópu, íslam og kristni

Austrið og vestrið mætast í Miklagarði. Þar var gríska Byzántion, rómverska Konstantinopel og loks íslamska Istanbul. Hvert heimsveldið á fætur öðru setti sitt mark á borgina við Sæviðarsund. Hún var öldum saman miðja hins þekkta heims og langstærsta borg veraldar. Þangað lágu allir gagnvegir og þar eru hlið austurs og vesturs, brýrnar miklu milli Evrópu og Asíu.

Lífið í Istanbul hefur breyzt síðasta aldarfjórðung. Þegar ég kom þar fyrst, var borgin nærri því vestræn og fáar konur báru slæður. Síðan hefur verið mikill flótti úr sveitum til borga. Istanbul nútímans hýsir tíu milljónir manns og er orðin að hálfu leyti borg svartklæddra kvenna með slæður. Með auknum íslamisma Erdoğan færist drungi miðalda yfir borgina. Hann hefur í tvo áratugi verið valdamaður, fyrst borgarstjóri, síðan forsætisráðherra og síðast forseti.

Næstu skref

3. Kappadokia – Göreme

Borgarrölt
Hellakirkja - Göreme 2

Hellamálverk í neðanjarðarkirkju í Göreme-þjóðgarðinum

Göreme

Steindrangar - Göreme 4

Reistir limir í Göreme-þjóðgarðinum

Frá Konya er þriggja tíma bílferð til Kayseri og Göreme í Kappadókíu, sem er nákvæmlega í miðju Tyrklandi. Þetta er svæði afar undarlegra steindranga og hýbýla, sem höggvin eru í kletta og dranga. Kappadókía þýðir land hinna fögru hesta.

Bergið í svæðinu er myndað af öskufalli. Það er hart á yfirborðinu og gljúpt hið innra. Þegar grafið er í það, er aðeins skelin hörð. Þegar komið er inn úr henni, er auðvelt að höggva bergið, sé það gert, áður en bergið gengur í samband við súrefni og harðnar. Úr þessu má grafa út hýbýli.

Þarna eru drangar, kallaðir álfastrompar, í líki reistra lima með hettu, sumir grafnir að innan. Veður og vindar grófu út landið, en hrauntoppar hlífa dröngunum, sem stóðu af sér landeyðinguna.

Kirkjudalur - Göreme 2

Hellar í kirkjudalnum í Göreme-þjóðgarðinum

Kristið fólk leitaði þarna hælis undan sigurgöngu múslima á 9. öld. Þarna eru átta hæða fjölbýlishús neðanjarðar, klaustur og 30 kirkjur með austrómverskum freskum á veggjum.

Svæðið er friðað og hefur verið gert að þjóðgarði. Margir túristar fara í ferðir með loftbelgjum yfir svæðið, en aðrir taka sér rútuferðir um það og bogra um vistarverurnar.

Næstu skref

5. Eyjahafsströndin – Meryemana

Borgarrölt
Meryemana - Efesos 2

Hús Maríu meyjar

Meryemana - Efesos

Altarið í Meryemana

Meryemana

Sagan segir, að María mey hafi lifað síðustu ár sín í Ephesus, enda hafi Jesús falið Jóhannesi guðspjallamanni að sjá um hana eftir sinn dag. Hús Maríu meyjar, Meryemana, er í nágrenni borgarinnar, mikill helgistaður kaþólikka, sem hafa mikið dálæti á guðsmóður. Þarna hafa ýmsir páfar beðizt fyrir á síðustu áratugum.

Við látum hér staðar numið að sinni. Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru. Margt fleira er merkilegt að sjá í Istanbul og víðs vegar um Tyrkland.

Góða ferð.

 

4. Eyjahafsströndin – Ephesus

Borgarrölt
Bókasafnið - Efesos

Bókasafnið í Ephesus

Ephesus

Kamrar - Efesos

Almenningskamrar í Ephesus

Ephesus er annar forngrískur bær, sem tók við af Pergamum, sem höfuðborg Asíu á síðrómverskum tíma. Á tíma býzönsku keisaranna var Ephesus merkasta borg ríkisins á eftir sjálfum Miklagarði.

Bærinn fór illa í jarðskjálftum og fljótið Küçükmenderes hætti að vera skipgengt.

Borgin skiptir máli í kirkjusögunni. Þar bjó Páll postuli í mörg ár og skrifaði Fyrsta Kórintubréfið, þar var guðspjall Jóhannesar sennilega skrifað og þar voru haldin mörg kirkjuþing að fornu.

Enn þann dag í dag er hægt að ganga götuna um endilanga borgarinnar frá böðum Variusar og musteri Domitianusar niður að borgarmarkaðinum og 24.000 sæta leikhúsinu, stærsta leikhúsi fornaldar. Á leiðinni förum við um hlið Herkúlesar og sjáum til dæmis legstað Jóhannesar og súlu úr kirkju hans, einnig musteri Hadrianusar, hóruhúsið, almenningsklósettin og bókasafn Celsusar.

Ein súla er eftir af musteri Artemis, sem var talið eitt af sjö undrum veraldar.

Næstu skref
Leikhúsið - Efesos

Stærsta leikhús fornaldar er í Ephesus

3. Eyjahafsströndin – Asclepeion

Borgarrölt
Asklepieion - Pergamon 3

Hin helga braut að heilsulindinni í Asclepeion

Asclepeion

Asklepieion - Pergamon 4

Leikhúsið í Asclepeion

Rústir heilsuhælis Galenusar eru þremur kílómetrum sunnan við Akropolis í Pergamum. Galenus var frægasti læknir heims á annarri öld e.Kr. og einkalæknir Markúsar Árelíusar keisara. Þarna er rómverskt leikhús, musteri Asclepiusar og súlnarið við Hina helgu braut að heilsulindinni.

Næstu skref

2. Eyjahafsströndin – Pergamum

Borgarrölt
Bókasafn - Pergamon

Trajanusar-musterið í Pergamum

Pergamum

Leikhús - Pergamon

Leikhúsið í Pergamum

Rústirnar af forngríska bænum Pergamum eru á hæð norðvestan við tyrkneska bæinn Bergamo. Þar ríkti grísk konungsætt Attalída, sem voru miklir fylgismenn Rómaveldis. Bærinn varð voldugur á tíma Hadrianusar keisara og komst upp í 200.000 íbúa. Þar stofnaði Galenus læknir heilsuhælið Asclepeion, sem frægt var í fornöld. Þar var líka mikið lærdómssetur og heimsfrægt bókasafn, það næststærsta í heimi.

Uppi á hæðinni Akropolis var altarið mikla, sem nú er til sýnis í Pergamon-safninu í Berlín. Þar eru rústir 10.000 manna leikhúss, helgidóms Aþenu, musteri Trajanusar keisara, bókasafnsins fræga, konungshallar og virkisveggja.

Næstu skref