2. Inngangur – Verzlun

Borgarrölt

Gisting-hótel

Mikið úrval góðra hótela er í miðborg Kaupmannahafnar, þar sem mest hið skoðunarverða er, flest áhugaverðustu veitingahúsin og bjórkrárnar, skemmtana- og menningarlífið. Enginn ætti að vera í vandræðum með að finna hótel sér við hæfi á þessum slóðum gangandi fólks. Eini gallinn er, að svigrúm verðs, frá hinu dýrasta til hins ódýrasta, er þrengra en í flestum öðrum stórborgum.

Els, restaurant, København

Els, restaurant,

Að dönskum hætti eru hótelherbergi yfirleitt tandurhrein og snyrtileg. Sum hótelin hafa verið innréttuð á listfenginn hátt innan í gömlum húsum og skara að því leyti fram úr öðrum hótelum, hvað þá hinum ópersónulegu keðjuhótelum.

Veitingar

Mikil breyting hefur orðið í veitingamennsku Kaupmannahafnar, síðan fyrsta útgáfa þessarar bókar var rituð. Þar hefur á síðustu áratugum orðið hliðstæð bylting nýfranskra áhrifa og varð um svipað leyti á Íslandi. Danir hafa lagað hefð sína að nýjum siðum og bjóða nú betri mat en nokkru sinni fyrr.

Verzlun-búðaráp

Við lítum í búðir, þegar við komum til Kaupmannahafnar. Ekki til að verzla ódýrt, því að verðlag er þar hærra en víðast annars staðar í heiminum. Við förum í búðir til að skoða og handleika hagnýta listmuni, sem Danir eru frægari fyrir en flestar aðrar þjóðir.

Larsen, Strøget, København

Larsen, Strøget

Verzlanir Kaupmannahafnar eru sannkallað ævintýraland fágaðrar smekkvísi og rótgróins handverks. Engin verzlunargata heims jafnast á við Strikið í samþjappaðri fegurð og einfeldni nytjahluta. Á 15 mínútna gönguleið er verzlun við verzlun, fullar ævintýra til að njóta.
Búðaráp er einfaldast að stunda á Strikinu og göngugötunum út frá því. Þar standa þéttast þær verzlanir, er hafa á boðstólum vörur, sem ferðamenn hafa áhuga á að skoða og handleika og kannski kaupa. Þar eru seldar einkennisvörur Dana.

Mesta samþjöppun frægðarbúða er við austanvert Strikið, frá Heilagsandakirkju að Kóngsins Nýjatorgi. Í framhaldi af Strikinu til beggja enda eru líka vinsælar verzlunargötur. Handan Kóngsins Nýjatorgs er Stóra Kóngsinsgata, þétt skipuð verzlunum, og handan Ráðhústorgs er Vesterbrogade.

Næstu skref