2. Danmörk – Vordingborg

Borgarrölt
Gåsetårnet, Vordingborg, Sjælland

Gåsetårnet, Vordingborg

Vordingborg

Við höfum andað að okkur minningum frá Næstved, þessum miðaldabæ kaupmennsku og klausturs og leggjum nú í 29 km ferð beint til Vordingborg. Sá bær er fallega í sveit settur, reistur umhverfis 12. aldar kastala, er þjóðarhetjan Valdemar konungur mikli lét reisa sem brottfararstað herferða til Þýzkalands og Póllands.

Leið okkar liggur um Algade beina leið til bæjarmiðju og rústa kastalans, þar sem Valdemar konungur dó 1182. Við sjáum veggi, undirstöður og kjallara, auk Gåsetårnet, sjö hæða turns, sem enn stendur. Hann var bæði virkisturn og svarthol, með 3,5 m þykkum veggjum og 36 metra hæð upp að gullnu gæsinni efst.

Falstur

Enn leggjum við í hann og í þetta sinn yfir lengstu brú Danmerkur, 3,2 km yfir Storströmmen til eyjarinnar Falster, samtals 31 km leið beint til Nykøbing. Þar förum við eftir skiltum til austurhluta bæjarmiðjunnar og finnum fljótlega horn Brovejen og Jernbanegade. Þar er hótelið Baltic,  Jernbanegade 45-47, þar sem við eigum pantað herbergi. Þar látum við taka frá borð fyrir kvöldverð í Czarens hus, Langgade 2.

Ráðlegt er að panta ferjur næsta dags frá hótelinu, svo að við verðum hvergi strandaglópar á leiðinni.

Eftir sturtu og stutta hvíld göngum við Jernbanegade að Gråbrødrekirken, sem er frá 1532, tengd klaustri. Frá kirkjunni förum við inn göngugötuna Lille Kirkestræde, sem heldur andrúmslofti fyrri tíma. Við beygjum til hægri í Friesgade/Langgade, framhjá elzta borgarahúsinu, á nr. 18, frá 1580, að Czarens hus, sem er frá um það bil 1700.

Pétur Rússakeisari snæddi hér einu sinni 1716 og hið sama ætlum við nú að gera. Húsið er í senn minjasafn og veitingahús. Safnið er lokað á þessum tíma, en verður opnað 10 í fyrramálið, ef við höfum áhuga. En veitingahúsið sjálft er eiginlega safn líka.

Næstu skref